Nýnemi 101

Nýnemadagar 2017

Öllum nýnemum Háskólans á Akureyri er boðið á nýnemadaga við upphaf skólastarfs. Þar er komið á framfæri öllum helstu upplýsingum sem nýneminn þarf á að halda til þess að hefja farsælt nám. Skólastarfið er kynnt á hefðbundnum kennslutíma og nánari tímasetningu má finna í viðburðadagatali HA.

Stúdentafélag við Háskólann á Akureyri (SHA) sér um kvölddagskrá og kynnir félagslífið í skólanum.

Facebook, InstagramSnapchat, Twitter, Linkedin

Umsókn lokið, hvað svo?

Hér getur þú fundið svör við helstu spurningum sem vakna við umsóknarferlið.

Nýnemadagar og stundaskrá

Á nýnemadögum fer fram fræðsla um ýmislegt sem er til grundvallar háskólanámi og enginn nýnemi ætti að láta fram hjá sér fara. 

Í viðburðardagatali HA sérð þú hvenær nýnemadagar eru og stundaskrá fyrir fyrstu dagana þína í HA. Þú getur skoðað alla stundatöfluna þína í Uglu með því að smella á Uglan mín -> Stundataflan mín.

Aðgangur að Uglu (innrivefur) og tölvupósti


Þú þarft að sækja um notendanafn og lykilorð:

 1. Þú gefur upp kennitölu og veflykilinn sem þú fékkst þegar þú sóttir um skólavist (ef þú finnur ekki veflykilinn getur þú sent póst á nemskra@unak.is og óskað eftir að fá veflyklinn sendan. Kennitala verður að fylgja með).
 2. Þú færð notendanafn og lykilorðið sent í tölvupósti á netfangið sem þú gafst upp þegar þú sóttir um skólavist.

Notendanafn og lykilorð gefur þér aðgang að tölvupósti og Uglu sem er innrivefur háskólans.

Allt um Uglu og innskráningu

Uglan er þitt heimasvæði á innrivefnum. Þar finnur þú ýmsar upplýsingar svo sem stundatöflu, tilkynningar og námskeið.

Þú staðfestir og breytir námskeiðum í Uglu

Þú verður að staðfesta skráningu og breytingar á námskeiðum í Uglu. Ef þú staðfestir ekki skráningu verður þú skráð/ur úr því námskeiði sem er ekki staðfest.

 • Staðfesting (og breytingar) á námskeiðum á haustmisseri eru á tímabilinu 5. til 15. september
 • Staðfesting (og breytingar) á námskeiðum á vormisseri á tímabilinu 10. til 20. janúar.

Fresturinn er auglýstur í Uglu.

Þú skráir þig úr námskeiðum í Uglu

Frestur til þess að skrá sig úr námskeiðum haustmisseris rennur út þann 5. nóvember og 1. apríl fyrir vormisseri. Skráning úr námskeiði er einnig skráning úr prófi.

Fresturinn er auglýstur í Uglu.

WiFi og Office 365

Háskólinn á Akureyri býður upp á þráðlaust net og skýjalausnir fyrir nemendur. Hægt er að prenta út gegn hóflegu gjaldi á ýmsum stöðum í háskólanum. Tengdu þig sem fyrst og vertu klár fyrir fyrsta skóladaginn.

Hvernig tengist ég WiFi - Eduroam?

Til þess að tengjast Eduroam þarf að láta snjalltækið/tölvuna leita að þráðlausu neti þegar þú ert í skólanum. Veljið eduroam úr þeim lista sem kemur upp. Þegar það er valið biður tækið um notendanafn og lykilorð.

Notendanafnið: notendanafnþittviðHA@unak.is
Lykilorðið: sama og inn á Uglu

Hvernig tengist ég Office 365?

Hægt er að setja Office 365 upp á PC og MAC tölvur, iPad/iPhone og Android snjalltæki. Office pakkinn inniheldur meðal annars tölvupóst, word, excel, OneDrive, Skype for Business og fleira.

Allir notendur fá aðgang að 1 TB geymsludrifi á OneDrive. Þetta er mjög hentugt til að geyma öll skólagögn og meira til. OneDrive nýtist líka vel til hópavinnu.

Moodle rafrænt kennslukerfi

Moodle er rafræna kennslukerfið sem þú notar í náminu. Þú þarft að vera búin/n að sækja um notendanafn og fá lykilorð að tölvupósti til að skrá þig inn.

Notendanafn: notendanafnþittviðha@unak.is
Lykilorð: sama og inn á tölvupóstinn

 

Canvas rafrænt kennslukerfi

Canvas er rafræna kennslukerfið sem þú notar í náminu. Þú þarft að vera búin/n að sækja um notendanafn og fá lykilorð að tölvupósti til að skrá þig inn.

Notendanafn: notendanafnþittviðha@unak.is
Lykilorð: sama og inn á tölvupóstinn

 

Nemendaskírteinið - snjallkortið þitt

Nemendur fá nemendaskírteinið/snjallkortið til afnota án endurgjalds.

Snjallkortið er allt í senn:

 • Aðgangskort að prentkerfinu
 • Bókasafnskort
 • Nemendafélagsskírteini SHA
 • Aðgangskort að húsnæði HA

Hvernig sæki ég um snjallkortið?

Þú sendir tölvupóst og sækir um snjallkortið

Upplýsingar sem þurfa að koma fram í tölvupóstinum:

 • Fullt nafn
 • Kennitala
 • Netfangið þitt hjá HA
 • Passamynd (eða önnur snyrtileg mynd, engin sólgleraugu eða húfur/hattar)

Þegar kortið er tilbúið færðu tölvupóst og sækir það svo á þjónustuborð bókasafns.

Ef þú ert fjarnemi getur þú sótt kortið í fyrstu staðarlotu. Þú getur fengið kortið sent heim ef það hentar betur með því að taka það fram í tölvupóstinum.

Athugaðu! Ef þú týnir kortinu þarftu að borga 2.000 krónur fyrir nýtt kort.

Aðgangur að prentara með snjallkorti

Prentarakerfið er í skýjalausn. Það gerir þér kleift að senda prentverk frá tölvu upp í prentskýið og ná svo í það á hvaða prentara sem er í skólanum.

Prentarakerfið virkar með nemendaskírteininu/snjallkortinu.

Sjálfvirk stilling er á prenturunum. Prentað er báðu megin á síðuna í svarthvítu.

Kynntu þér prentarakerfið.

Get ég tengst netkerfi skólans með VPN?

Hægt er að tengjast netkerfi háskólans með VPN (Virtual Private Network) og fá þannig aðgang að gagnasöfnum líkt og tölvur sem tengdar eru staðarneti háskólans.

Þetta er ekki hægt að gera á þráðlausu neti skólans.

Kynntu þér hvernig þú setur upp VPN.

Skápar

Á H-gangi eru læstir skápar til útleigu fyrir nemendur. Helmingur skápanna er með tengli fyrir hleðslutæki. Þar er hægt að geyma og hlaða fartölvur.

Upplýsingar um útleigu á skápum veitir starfsmaður á þjónustuborði nemendaskrár.

Líkamsrækt

Það er ókeypis aðgangur að líkamsræktarsal í háskólanum. Tvisvar sinnum í viku er jóga fyrir nemendur og kennara. Notaðu tækifærið og settu líkamsrækt inn í stundatöfluna. Nánari upplýsingar.

Fleiri gagnlegar upplýsingar