Námið er fjölbreytt og krefjandi. Það gerir þér kleift að takast á við umfangsmikil verkefni á sviði sjávarútvegs.

Vel rekin útgerð getur malað gull. Íslenskur sjávarútvegur skapar um milljarð króna í útflutningstekjur hvern virkan dag. Íslenskur sjávarútvegur einkennist af nýsköpun og framsækni. Þetta er einn elsti atvinnuvegur þjóðarinnar.

Nemendur í sjávarútvegsfræði geta einnig fengið gráðu í viðskiptafræði og bæta þá við einu ári í viðskiptagreinum. Þá útskrifast þeir með tvær námsgráður.

Er námið fyrir þig?

  • Vilt þú geta valið um störf hvar sem er í heiminum?
  • Hefur þú áhuga á íslenskum fiskistofnum og verðmætasköpun?
  • Hefur þú komið inn í útgerðarfyrirtæki?
  • Hefur þú dregið fisk úr sjó?
  • Þykir þér fiskur góður?
  • Vilt þú læra um fullnýtingu afurða?

Áherslur námsins

Nám í sjávarútvegsfræði veitir góðan grunn til stjórnunarstarfa í öllum greinum sjávarútvegs.

Nemendur í sjávarútvegsfræði afla sér þekkingar um vistfræði hafsins. Þekkingar um helstu veiði- og vinnsluaðferðir, um rekstur fyrirtækja og um mikilvægi markaða og markaðssetningar.

Námið er fjölbreytt og einstakt í íslenskri námsflóru.

Þú getur skoðað skipulag námsins í Uglu, kennsluvef háskólans.

Möguleikar að námi loknu

Helstu vinnuveitendur sjávarútvegsfræðinga eru stærstu sjávarútvegsfyrirtækin á Íslandi. Má þar nefna Samherja, HB Granda og Vinnslustöðina.

Sjávarútvegsfræðingar fá störf sem framkvæmdastjórar, framleiðslustjórar, sviðsstjórar, gjaldkerar, útgerðarstjórar, verkstjórar, gæðastjórar, markaðsstjórar og margt fleira.

Margir þeirra reka einnig eigin fyrirtæki eða starfa erlendis.

Námið nýtist líka víðar. Allt að helmingur sjávarútvegsfræðinga starfar utan hefðbundinna sjávarútvegsfyrirtækja, til dæmis hjá fjármála-, flutninga- og hugbúnaðarfyrirtækjum.

Íslenskur sjávarútvegur einkennist af nýsköpun og framsækni. Fjöldi starfa er hjá nýsköpunar-og sprotafyrirtækjum.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Stafnbúi er félag auðlindanema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi, lokaprófi frá framhaldsskóla á þriðja hæfniþrepi, jafngildu erlendu prófi eða 60 ECTS einingum frá viðurkenndum háskóla. Nám í sjávarútvegsfræðum er að hluta raungreinanám með líffræði, efnafræði og stærðfræði sem kjarnanámskeið. Símenntun HA bíður upp á tvö raungreina undirbúningsnámskeið í lok ágúst. Búið er að opna fyrir skráningar: Efnafræði og Stærðfræði.

Forgangsröðun umsókna vegna fjöldatakmarkana

Við viljum benda á að ef fjöldi umsækjenda sem uppfyllir almenn inntökuskilyrði fer yfir fjöldaviðmið verður umsóknum forgangsraðað á eftirfarandi hátt:

  • Stig fyrir hverja einingu í stærðfræði í framhaldsskóla upp að 25
  • Stig fyrir hverja einingu í viðskiptagreinum í framhaldsskóla upp að 20
  • Stig fyrir hverja einingu í raungreinum í framhaldsskóla upp að 40
  • Stig fyrir ferilskrá 0-5
  • Stig fyrir kynningarbréf 0-5
  • Stig fyrir Stúdentspróf eða sambærilegt 20
  • Stig fyrir háskólapróf 80
  • Stig fyrir einingar í háskóla, ECTS/3 upp að 60 stigum

Umsækjendum verður svo raðað upp samkvæmt samlagningu þessa þátta og teknir inn í þeirri röð. Við mat á ferilskrá og kynningarbréfi verður litið á hvort fyrra nám tengist með einhverjum hætti sjávarútvegsfræði. Fyrri starfsreynsla getur líka skipt máli. Því er mikilvægt að umsækjendur sendi inn ferilskrá (CV) og kynningarbréf með stuttum texta um af hverju þeir völdu sjávarútvegsfræði.

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Undanþágur

Umsækjendur sem ekki hafa stúdentspróf en eru með meira en 90 (eldra kerfi) eða 140 (núverandi kerfi) einingar af framhaldsskólastigi verða eingöngu teknir til skoðunar ef fjöldi umsókna nemenda með stúdentspróf er undir fjöldaviðmiðum. Þeir nemendur munu einnig verða forgangsraðaðir með tilliti til námseininga og starfsreynslu samanber hér að ofan.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að litlu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskránni og námskröfur eru þær sömu.

Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft að þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á hljóðinu. Okkur þykir samt frábært að fá tækifæri til að hitta þig í háskólanum.

Allir fjarnemar koma að jafnaði einu sinni til tvisvar sinnum á misseri í eina viku til Akureyrar þar sem megináhersla er lögð á verklega tíma. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu.

Hér getur þú lesið meira um sveigjanlega námið og séð hvenær námslotur eru.

Skiptinám

Allir nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Þú færð niðurfellingu á skólagjöldum gestaskólans og greiðir eingöngu innritunargjald í HA. Alþjóðafulltrúi aðstoðar þig við að sækja um námið, húsnæði og nemendastyrk.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skiptinám.

Umsagnir

Sjávarútvegsfræði er fjölbreytt og krefjandi nám. Við fengum mörg spennandi tækifæri sem efldu tengslanet okkar og þekkingu á sjávarútveginum. Mikil áhersla er á gott samstarf við atvinnulífið og námið hefur nýst mér vel í starfi. Sveigjanleiki námsins hentaði mér afar vel og auðveldaði að samtvinna námið við fjölskyldulífið.

Unnur Inga Kristinsdóttir
Gæðastjóri landvinnslu ÚA

Ég mun aldrei sjá eftir því að hafa valið sjávarútvegsfræði, þessi tími var frábær. Kennararnir voru alltaf tilbúnir til að hjálpa, tóku þátt í félagslífinu og pössuðu upp á okkur. Unnið er náið með fólki sem starfar í sjávarútveginum sem tengir nemendur beint við atvinnulífið. Ég komst einmitt í kynni við núverandi vinnuveitanda minn, vann lokaverkefnið mitt fyrir hann og var í kjölfarið boðin vinna.

Eiríkur Páll Aðalsteinsson
Sölu- og innkaupastjóri Marós GmbH, Cuxhaven, Þýskalandi

Sjávarútvegsfræði er virkilega fjölbreytt nám sem samanstendur af námskeiðum í sjávarútvegi, viðskiptum og raunvísindum. Meðan ég stundaði námið þá lærði ég öguð vinnubrögð og mikilvægi þess að skipuleggja sig vel. Þá lærði ég að halda utan um mörg verkefni í einu ásamt því að vinna í teymi sem nýtist mér vel í starfi.

Sunneva Ósk Guðmundsdóttir
Framleiðslustjóri landvinnslu Útgerðarfélags Akureyringa

Sjávarútvegsfræði er fjölbreytt og krefjandi nám sem undirbýr mann vel fyrir atvinnulífið. Námið er þverfaglegt þar sem sérstök áhersla er lögð á sjávarútveg en einnig er það samsett af námskeiðum tengdum viðskiptafræði og raunvísindum. Það ríkir mikil þekking og reynsla meðal kennara á sviðinu sem gefur manni heildræna þekkingu á sjávarútvegi sem atvinnugrein. Mér finnst mikill kostur hvað námið er persónulegt og aðgengi að kennurum er gott. Það sem stendur upp úr frá þeim tíma sem ég stundaði nám við HA er klárlega fólkið sem ég kynntist, bæði nemendur og kennarar. Tímarnir voru áhugaverðir og umræður líflegar. Kennarar tengja námið vel við atvinnulífið sem eflir tengslanetið samhliða náminu.

Gyða Birnisdóttir
Sölufulltrúi Ice Fresh Seafood

Sjávarútvegsfræði er einstakt nám, fjölbreytt, skemmtilegt og í senn kerfjandi. Námið gerir þig færan í flestan sjó og opnar fjölmargar dyr að nýjum og skemmtilegum tækifærum í framtíðinni.

Kristján Pétur Andrésson
Sölumaður hjá Naust Marine