Kennslustefna Kennaradeildar

Stefna kennaradeildar HA er að bjóða stúdentum menntun sem skilar sér í góðri þekkingu á námi, kennslu og skólastarfi. Lögð er áhersla á að mennta kennara sem geta lagt gagnrýnið og ígrundað mat á menntamál og kennslu og búi yfir þekkingu, leikni og hæfni sem gerir þeim kleift að taka sér fyrir hendur hlutverk sem kennsla og starfshættir skóla kalla á. Námið byggir á traustum fræðilegum grunni og lögð er áhersla á tengsl fræða, starfs og ígrundaðrar hugsunar. Stefnt er að því að stúdentar öðlist leikni í hagnýtri beitingu þekkingar í námi sínu. Mikilvægi þess að gæta að jafnrétti í skólastarfi og stuðla að farsæld barna og ungmenna eru leiðarljós í allri kennslu deildarinnar.

Í kennaradeild:

  • ... er markmiðið að mennta kennara til að verða skapandi fagfólk sem býr að traustri þekkingu og hæfni til að beita henni í starfi. Þeir öðlist djúpa þekkingu á þroska barna og ungmenna, námi þeirra, námssviðum/námsgreinum og námskrá skóla sem og öðrum þáttum er snúa að starfsemi skólanna
  • ... er komið til móts við ólíkar þarfir stúdenta með fjölbreyttum kennsluháttum í skapandi en um leið krefjandi námsumhverfi. Lögð er áhersla á virka þátttöku stúdenta í náminu og skuldbindingu gagnvart því. Stúdentar bera ríka ábyrgð á eigin námi og námsframvindu
  • ... sýna kennarar frumkvæði við nýsköpun og þróun kennsluhátta og gefa stúdentum tækifæri til að læra um og æfa fjölbreyttar aðferðir í kennslu fyrir ólíka hópa stúdenta, bæði í námskeiðum í HA og í vettvangsnámi
  • ... byggir kennslan á þekkingu kennara og undirbúningi kennslu sem felur í sér hæfni og leikni kennara til að miðla þekkingu. Kennarar tengja rannsóknir sínar og aðrar rannsóknir á sínu sérsviði við kennslu og leiðsögn við stúdenta
  • ... hvetja kennarar stúdenta til sjálfstæðra, fræðilegra og faglegra vinnubragða þannig að reynt sé á þekkingu, hæfni og leikni stúdenta
  • ... er lögð áhersla á fjölbreytt námsmat og samræmi á milli kennsluaðferða, námsmats og hæfniviðmiða. Tilgangur skilaverkefna og viðmið um gæði verkefnavinnu eru skýr. Kennarar veita endurgjöf á verkefnavinnu til samræmis við reglur HA um námsmat
  • ... er vandað til allrar upplýsingagjafar er varðar nám og kennslu. Hver kennari gerir skýra grein fyrir tilhögun kennslu, námsmats og samskipta við stúdenta á kennsluvef námskeiða
  • ... eru lærdómsviðmið og inntak námsbrauta og námskeiða endurskoðuð reglulega til að tryggja gott samræmi á milli lærdómsviðmiða, kennsluaðferða og námsmats. Einnig er horft til þarfa skólasamfélagsins við nýbreytni innan kennaranámsins til að mæta síbreytilegum þörfum og áherslum í skólastarfi

Samþykkt á deildarfundi Kennaradeildar 7. júní 2023.