Lögreglu- og löggæslufræði er fyrir þá sem hafa lokið diplómanámi fyrir verðandi eða starfandi lögreglumenn og hafa áhuga á að dýpka sinn fræðilega bakgrunn.

  • Um er að ræða 60 ECTS eininga viðbót við 120 ECTS diplómanám til BA-prófs í lögreglu- og löggæslufræði, samtals 180 ECTS.

Háskólinn á Akureyri er eini háskólinn á Íslandi sem býður upp á nám í lögreglu- og löggæslufræði.

Tengdar námsleiðir:

Er námið fyrir þig?

  • Viltu öðlast dýpri skilning á hlutverki lögreglu í samfélaginu?
  • Hefur þú áhuga á að fræðast um orsakir afbrota og frávikshegðun?
  • Viltu fræðast um hvernig samfélög stemma stigum við afbrotum og frávikum?
  • Viltu öðlast fræðilega þekkingu á löggæslu og rannsóknum afbrota?
  • Hefur þú áhuga á að starfa innan réttarvörslukerfisins?
  • Viltu styrkja fræðilega þekkingu þína á réttarvörslukerfinu?

Áherslur námsins

Nemendur sem lokið hafa diplómaprófi í lögreglufræði fyrir verðandi eða starfandi lögreglumenn geta bætt við sig 60 ECTS einingum til BA-prófs í lögreglu- og löggæslufræði.

BA-námið leggur grunn að ólíkum leiðum í námi og starfi. Þú getur aflað þér sérhæfingar í stjórnun, aðgerðum gegn ofbeldi og mansali, rannsóknum efnahagsbrota, alþjóðlegu hjálpar- og þróunarstarfi og fræðastarfi á háskólastigi, svo fátt eitt sé nefnt.

Nemendur njóta góðs af sérþekkingu kennara og sérhæfðri reynslu þeirra af löggæslustörfum.

Þú getur skoðað skipulag námsins í Uglu, kennsluvef háskólans.

Möguleikar að námi loknu

Nám í lögreglufræðum veitir ekki bara möguleika til starfa innan lögreglunnar. Menntun lögreglufræðinga nýtist í ýmsum í störfum hjá hinu opinbera og í einkageiranum.

Nemendur sem ljúka BA-prófi eiga kost á að sækja sér framhaldsmenntun á sínu fagsviði við íslenska og erlenda háskóla.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Kumpáni er félag lögreglufræðinema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Nemendur sem lokið hafa 120 ECTS eininga diplómaprófi í lögreglufræði fyrir verðandi eða starfandi lögreglumenn geta bætt við sig 60 ECTS einingum til BA-prófs í lögreglu- og löggæslufræði.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að engu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskránni og námskröfur eru þær sömu.

Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft að þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á hljóðinu. Okkur þykir samt auðvitað skemmtilegt að sjá þig í kennslustund.

Allir fjarnemar koma nokkrum sinnum á námstímanum í stuttar kennslulotur til Akureyrar þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu.

Skyldumæting er í námslotur. Kynntu þér því vel dagsetningar námslota sem birtar eru með góðum fyrirvara.

Vinsamlega athugið að hver vika í fullu háskólanámi er ígildi 50-60 stunda vinnuviku. Fyrir vikið er ekki mælst til þess að nemar stundi fullt nám samhliða fullri vinnu.

Skiptinám

Allir nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Þú færð niðurfellingu á skólagjöldum gestaskólans og greiðir eingöngu innritunargjald í HA. Alþjóðafulltrúi aðstoðar þig við að sækja um námið, húsnæði og nemendastyrk.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skiptinám.

Spurt og svarað

Hvað þurfa nemendur að gera og uppfylla til þess að öðlast rétt til náms á vormisseri 1. árs í diplómanámi fyrir verðandi lögreglumenn?

Í diplómanámi fyrir verðandi lögreglumenn er innritun á haustmisseri 1. árs opin en nám eftir haustmisseri er háð inntöku í starfsnám á vegum MSL. Sækja þarf sérstaklega um inntöku í starfsnám. Opnað verður fyrir báðar umsóknir um mánaðarmótin febrúar/mars. Samkvæmt lögreglulögum (nr. 90/1996) ber MSL ábyrgð á umsóknar- og inntökuferlinu inn í starfsnámið.

Fjöldi nemenda sem halda áfram námi á vormisseri 1. árs (starfsnám) er takmarkaður. Innritun í starfsnám á vormisseri byggir á niðurstöðu úr tveimur námskeiðum (Inngangur að lögreglufræði og Inngangur að íslenskri lögfræði), bakgrunnsskoðun, læknisskoðun, þrekprófi, sálfræðimati, viðtali og ákvörðunum valnefndar um innritun í diplómanám til starfsréttinda.

Hvernig er bóklega hluta lögreglufræðinámsins háttað?

Bóklegi hluti lögreglufræðináms við Háskólann á Akureyri er í formi sveigjanlegs náms. Það þýðir að nemendur þurfa ekki endilega að vera búsettir á Akureyri til þess að nema við háskólann. Þess í stað geta nemendur verið að mestu í fjarnámi en komið einu sinni á misseri í svokallaðar námslotur þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður. Staðar- og fjarnemar fylgja sömu námskrá og námskröfur eru þær sömu. 

Vinsamlega athugið að hver vika í fullu háskólanámi er ígildi 50-60 stunda vinnuviku. Fyrir vikið er ekki mælst til þess að nemar stundi fullt nám samhliða fullri vinnu.

Hvernig er starfsnámshluta diplómunáms fyrir verðandi lögreglumenn háttað?

Starfsnámshlutinn hefst á vormisseri 1. árs. Starfsnámið fer að mestu fram í Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu að Krókhálsi 5a í Reykjavík.

Starfsnámið er byggt upp á lotum sem fara að mestu fram í húsnæði MSL í Reykjavík. Starfsnámið samanstendur af vinnulotum, starfsnámslotum, verklegum æfingum og raunhæfum verkefnum. Á fjórða og síðasta misseri námsins fara nemendur í starfsþjálfun hjá lögregluembætti. Sjá nánar á vefsíðu MSL.

Skyldumæting er í námslotur hvort heldur sem er í bóknámi við HA eða starfsnámi við MSL. Kynntu þér því vel dagsetningar námslotna sem birtar eru með góðum fyrirvara.

Geta nemendur tekið diplómanám fyrir verðandi lögreglumenn í hlutanámi? 

Nemendur geta tekið diplómanám fyrir verðandi lögreglumenn í hlutanámi en þurfa að fylgja reglum HA um námsframvindu. Hins vegar verða nemendur í hlutanámi eins og aðrir að vinna sér inn sæti í starfsnámshópi til þess að öðlast rétt til náms á vormisseri 1. árs. Til þess að svo megi verða þurfa nemendur í hlutanámi að vera a.m.k. skráðir í þau tvö námskeið sem liggja til grundvallar valinu í starfsnámshópinn (þ.e. Inngangur að lögreglufræði og Inngangur að íslenskri lögfræði).

Geta nemendur sem ekki hafa náð 20 ára aldri innritast í diplómanám fyrir verðandi lögreglumenn?

Nemendur þurfa samkvæmt lögreglulögum (nr. 90/1996) að vera orðnir 20 ára til þess að geta hafið starfsnám á vormisseri 1. árs.

Hvernig getur maður lokið BA-gráðu í lögreglu- og löggæslufræði?

Nemendur sem lokið hafa diplómaprófi í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn eða starfandi lögreglumenn geta bætt við sig 60 ECTS einingum til BA-prófs í lögreglu- og löggæslufræði.

Umsagnir

Í HA er tekið vel á móti manni og andrúmsloftið í háskólanum er persónulegt. Aðgengi að kennurum er gott og maður fær hjálp við að finna hvaða leið er best fyrir mann í náminu. Námið er gott tækifæri fyrir lærða og verðandi lögreglumenn til að mennta sig á háskólastigi og öðlast tækifæri til sérhæfðrar menntunar á hinum ýmsu sviðum hvort sem er innanlands eða erlendis.

Haraldur Logi Hringsson
Lögreglumaður á Norðurlandi Eystra