Lögreglu- og löggæslufræði er fyrir þá sem hafa áhuga á fræðigreininni og rannsóknum í tengslum við afbrot en stefna ekki endilega á að starfa sem lögreglumenn.

Háskólinn á Akureyri er eini háskólinn á Íslandi sem býður upp á nám í lögreglu- og löggæslufræði.

Námið veitir BA próf í lögreglu- og löggæslufræðum án þess að veita starfsleyfi.

Er námið fyrir þig?

  • Viltu öðlast dýpri skilning á hlutverki lögreglu í samfélaginu?
  • Hefur þú áhuga á að fræðast um orsakir afbrota og frávikshegðun?
  • Viltu fræðast um hvernig samfélög stemma stigum við afbrotum og frávikum?
  • Viltu öðlast fræðilega þekkingu á löggæslu og rannsóknum afbrota?
  • Hefur þú áhuga á að starfa innan réttarvörslukerfisins?
  • Viltu styrkja fræðilega þekkingu þína á réttarvörslukerfinu?

Áherslur námsins

Lögreglu- og löggæslufræði er hagnýt fræðigrein sem fjallar um viðfangsefni löggæslu í víðu samhengi. Nám í lögreglufræði miðar að því að veita nemendum haldgóða undirstöðufærni og þekkingu í lögreglufræði.

Námið er fjölbreytt og góður undirbúningur fyrir störf hjá hinu opinbera sem og hjá einkafyrirtækjum sem sérhæfa sig í að tryggja öryggi borgaranna.

Nemendur njóta góðs af sérþekkingu kennara og sérhæfðri reynslu þeirra af löggæslustörfum.

Möguleikar að námi loknu

BA námið leggur grunn að ólíkum leiðum í námi og starfi. Þú getur aflað þér sérhæfingar á sviðum stjórnunar, lögregluembætta, aðgerðum gegn ofbeldi og mansali, rannsókn efnahagsbrota, alþjóðlegu hjálpar- og þróunarstarfi og fræðastarfi á háskólastigi svo fátt eitt sé nefnt.

Nám í lögreglufræðum veitir ekki bara möguleika til starfa innan lögreglunnar. Menntun lögreglufræðinga nýtist til dæmis í störfum hjá hinu opinbera og í einkageiranum.

Nemendur sem ljúka BA-prófi eiga kost á að sækja sér framhaldsmenntun á sínu fagsviði við íslenska og erlenda háskóla.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Þemis er félag laga- og lögreglufræðinema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjandi hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi.

Deildum háskólans er heimilt að innrita tilskilinn fjölda nemenda án stúdentsprófs. Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans og undanþágur frá þeim.

Samkeppnispróf

Samkeppnispróf eru haldin við lok haustmisseris á 1. námsári í lögreglu- og löggæslufræði. Þeir 40 nemendur sem ná hæstri meðaleinkunn úr eftirfarandi námskeiðum geta haldið áfram með námið:

  • Inngangur að lögreglufræði
  • Inngangur að lögfræði
  • Vinnulag í háskólanámi

Svör við algengum spurningum um samkeppnisprófin má finna hér.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að engu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskránni og námskröfur eru þær sömu.

Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft að þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á hljóðinu. Okkur þykir samt auðvitað skemmtilegt að sjá þig í kennslustund.

Allir fjarnemar koma nokkrum sinnum á námstímanum í stuttar kennslulotur til Akureyrar þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu.

Hér getur þú lesið meira um sveigjanlega námið og séð hvenær námslotur eru.

Skiptinám

Allir nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Þú færð niðurfellingu á skólagjöldum gestaskólans og greiðir eingöngu innritunargjald í HA. Alþjóðafulltrúi aðstoðar þig við að sækja um námið, húsnæði og nemendastyrk.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skiptinám.

Umsagnir

Námið í lögreglufræði við HA er bæði skemmtilegt og fjölbreytt. Fyrirlestrar eru teknir upp og maður getur horft á þá þegar manni hentar. Þetta fyrirkomulag hentar mér mjög vel þar sem ég vinn að hluta til með náminu.

Hafdís Svava Níelsdóttir
nemandi á 2 ári