Rannsóknatengt meistaranám í auðlindafræðum eflir þekkingu þína og hæfni í vísindalegum vinnubrögðum. Þú öðlast leikni til að takast á við flókin verkefni.

Hvernig getum við nýtt auðlindir sem mest og best? Hvar liggja tækifærin? Hvernig getum við stuðlað að sjálfbærri nýtingu auðlinda? Hvernig skilum við landinu til næstu kynslóða?

Auðlindafræðin leitar að mikilvægum svörum fyrir framtíðina.

Er námið fyrir þig?

  • Býrðu yfir sjálfstæði, frumkvæði og forvitni?
  • Hefur þú áhuga á sjálfbærri þróun?
  • Hefur þú þor til að fara nýjar og óþekktar leiðir?
  • Býrðu yfir getu til að skilja aðalatriði frá aukaatriðum?
  • Hefur þú áhuga á að þróa ný viðskiptatækifæri?

Áherslur námsins

Skipulag meistaranáms í auðlindafræðum byggir á áhugasviði hvers nemanda fyrir sig.

Námskráin er sérsniðin að þínum þörfum og áhugasviði á rannsóknarverkefni. Rannsóknarverkefnið er stór hluti námsins og er það unnið undir handleiðslu sérfræðinga háskólans auk utanaðkomandi sérfræðinga.

Ráðgefandi sérfræðingar tryggja, auk aðalleiðbeinanda, að verkefnið standist alþjóðlegar gæðakröfur.

Nemendur eru hvattir til þess að taka hluta námsins við erlenda háskóla.

Þú getur skoðað skipulag námsins í Uglu, kennsluvef háskólans.

Möguleikar að námi loknu

Námið veitir þér tækifæri til þess að vinna hjá áhugaverðum sprotafyrirtækjum eða að stofna þitt eigið fyrirtæki.

Rannsóknarverkefnin sem nemandi velur að vinna opna leiðir inn í ýmis konar sérfræðistörf: rannsóknastörf hjá líftæknifyrirtækjum, sjávarútvegsfyrirtækjum, rannsóknastofnunum, verkfræðistofum og við kennslu og rannsóknir í háskólum.

Meistaragráða opnar aðgang að doktorsnámi bæði við innlenda og erlenda háskóla.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að nemendur hafi lokið BS gráðu í náttúru- eða raunvísindum við viðurkennda háskóla.

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.