Starfsréttindanám í iðjuþjálfun er framhald af BS námi í iðjuþjálfunarfræði og ætlað þeim sem stefna á að starfa sem iðjuþjálfar.

Namið er fyrir þau sem hafa áhuga á að starfa sem iðjuþjálfar og vinna með einstaklingum, hópum og samfélögum með það að markmiði að efla iðju, þátttöku, heilsu og velferð fólks á öllum aldri. Gráðan tryggir starfsleyfi frá Embætti landlæknis til að vinna sem iðjuþjálfi á Íslandi. Alþjóðleg viðurkenning námsins opnar einnig möguleika á frekara námi og störfum erlendis.

Umsóknarfrestur er frá 15. febrúar til 31. mars

Er námið fyrir þig?

  • Viltu starfa sem iðjuþjálfi?
  • Hefur þú áhuga á fólki?
  • Viltu stuðla að því að fólk blómstri í umhverfi sínu?
  • Viltu vinna með fjölbreyttum hópi fólks á öllum aldri?
  • Hefur þú áhuga á að efla heilsu og lífsgæði fólks?
  • Viltu stuðla að jafnrétti til þátttöku í samfélaginu?

Áherslur námsins

Markmið námsins er að þú verðir sérfræðingur í daglegri iðju og í að vinna með iðjuvanda sem hamlar fólki í hversdeginum, hindrar þátttöku þess og hefur neikvæð áhrif á heilsu og lífsgæði. Þú lærir að vinna með umhverfið, ýta undir jafnrétti til þátttöku í samfélaginu og stuðla að því að fólk blómstri í lífinu.

Starfsréttindanám í iðjuþjálfun er spennandi nám þar sem þú færð tækifæri til að vera samtals 800 stundir á vettvangi í fjölbreytilegu starfsumhverfi iðjuþjálfa. Þar tekst þú á við raunveruleg viðfangsefni með fólki á öllum aldri undir leiðsögn reyndra iðjuþjálfa. Þannig færð þú þjálfun og undirbúning fyrir störf iðjuþjálfa. Þú hefur einnig kost á að stunda hluta af vettvangsnáminu við erlendar samstarfsstofnanir.

Fyrirkomulag námsins

Námið er krefjandi og krefst aga og skipulagðra vinnubragða. Stúdentar bera sjálfir ábyrgð á framvindu náms síns og þurfa að sýna ástundun til að ná tilætluðum árangri. Fræðilegur og bóklegur hluti starfsréttindanáms í iðjuþjálfun fer að þó nokkru leyti fram rafrænt, en er ekki sveigjanlegt eins og grunnnám í iðjuþjálfunarfræði. Mun meiri viðveru er krafist vegna lengri vettvangsnámstímabila, samtals 800 stunda á einu ári.

Möguleikar að námi loknu

Gráðan tryggir leyfisveitingu frá Embætti landlæknis til að starfa sem iðjuþjálfi á Íslandi.

Iðjuþjálfar starfa á breiðum vettvangi svo sem í heilbrigðis- og félagsþjónustu, skólakerfinu, hjá stofnunum og félagasamtökum og fyrirtækjum á almennum vinnumarkaði. Störf iðjuþjálfa eru fjölbreytt og iðjuþjálfar eru ein af lykilstéttum innan forvarna, vinnuverndar og endurhæfingar. 

Alþjóðleg viðurkenning námsins opnar möguleika á frekara námi og störfum erlendis.

Nánar má lesa um iðjuþjálfun á heimasíðu Iðjuþjálfafélags Íslands

Inntökuskilyrði

Inntökuskilyrði er BS gráða í iðjuþjálfunarfræði frá HA með einkunn að lágmarki 7,25. Ef fjöldi umsækjenda sem uppfyllir almenn inntökuskilyrði fer yfir fjöldaviðmið verður umsóknum forgangsraðað út frá lokaeinkunn grunngráðu.

Leitast er við að setja ekki fjöldatakmarkanir, en deildin þarf þó að meta hversu marga stúdenta er mögulegt að taka inn árlega út frá kennslukrafti, aðstöðu og fjármagni. Fjöldi stúdenta í starfsréttindanámi afmarkast til dæmis af framboði á vettvangsplássum og getur því verið breytilegur frá ári til árs. 

Spurt og svarað

Gefur skipulagið tækifæri til að vera í vinnu samhliða náminu?

Starfsréttindanám í iðjuþjálfun hefur ekki sama sveigjanleika og grunnnám í iðjuþjálfunarfræði. Stúdentar þurfa að vera í vettvangsnámi á raunverulegum starfsstöðvum iðjuþjálfa í 800 stundir alls, það er:

  • 205 stundir í námskeiðinu Þjónusta 1
  • 240 stundir í námskeiðinu þjónusta 2
  • 355 stundir í námskeiðinu þjónusta 3

Vettvangsnámið fer alla jafna fram á hefðbundnum dagvinnutíma. Auk þess þurfa nemendur að vinna í bóklegum námskeiðum og verkefnum jafnt og þétt yfir misserin. Það er því erfitt fyrir stúdenta að sinna atvinnu samhliða starfsréttindanámi í iðjuþjálfun. Stúdentar geta þó valið að taka námið á tveimur árum í stað eins. Með því móti getur nemandi skapað sér ákveðið svigrúm sem gagnast þeim sem ætla sér að vinna samhliða starfsréttindanámi.

Hægt er að kynna sér upplýsingar um námslán á vef Menntasjóðs námsmanna.

Get ég farið í vettvangsnám í minni heimabyggð?

Stúdentar geta komið á framfæri óskum við verkefnastjóra vettvangsnáms eða látið vita af sérstökum aðstæðum. Það er þó ekki alltaf hægt að verða við óskum stúdenta um staðsetningu vettvangsnáms. Fer það allt eftir framboði og eftirspurn um vettvangsnám hverju sinni.

Eru nemendur á launum á vettvangi?

Stúdentar fá ekki laun í vettvangsnámi enda er ekki um vinnuframlag að ræða. Í vettvangsnámi fer fram nám á stað þar sem iðjuþjálfun er veitt og stúdentinn er í þeirri sérstöku stöðu að vera undir leiðsögn starfandi iðjuþjálfa. Áhersla er á að stúdentinn fái námstækifæri til að ná hæfniviðmiðum þess námskeiðs sem vettvangsnámið er hluti af.

Í námi á vettvangi er mikilvægt að stúdentinn fái þjálfun í að þjónusta einstaklinga og hópa eða sinna ákveðnum verkefnum sem tengjast störfum iðjuþjálfa. Markmiðið er að stúdentinn öðlist aukna færni í að verða fær fagmaður og sé í lok námsins tilbúinn til að hefja störf sem nýútskrifaður iðjuþjálfi. Þannig eru gerðar stigvaxandi kröfur til stúdentans í þeim þremur þjónustunámskeiðum sem um ræðir og innihalda samtals 800 stundir á vettvangi (þar að auki hafa 200 stundir þegar farið fram í iðjuþjálfunarfræði – til BS gráðu).

 

Umsagnir

Námið í iðjuþjálfun var ótrúlega gagnlegt og undirbjó mig á fjölbreytta vegu fyrir atvinnulífið en var ekki síður mótandi persónulega. Ég upplifi starfsfmöguleika mína einungis takmarkast við áhugasvið mitt með menntunina í farteskinu

Alda Pálsdóttir
verkefnastjóri í endurhæfingarbúsetu Reykjavíkurborgar

Ég hafði verið í háskólanámi áður og unnið við allt milli himins og jarðar. Að þeirri reynslu fenginni þá veit ég að það er vandfundið háskólanám sem er jafn gagnlegt og opnar jafnmargar dyr í lífinu, bæði í leik og starfi, og iðjuþjálfun. Ég er stolt af að vera iðjuþjálfi og þakklát fyrir að hafa fattað að hún er til.

Guðrún Friðriksdóttir
verkefnastjóri í endurhæfingarbúsetu Reykjavíkurborgar