Saga Háskólans á Akureyri

Rektorar Háskólans á Akureyri

Háskólinn á Akureyri (HA) var stofnaður árið 1987. Fyrsti rektor var Haraldur Bessason.

Boðið var upp á nám í tveimur deildum: heilbrigðisdeild og rekstrardeild.

Kennslan fór fram í tveimur stofum í Íþróttahöllinni á Akureyri. Tvær skrifstofur starfsmanna voru í Þingvallastræti 23. Fastráðnir starfsmenn voru fjórir og nemendur voru 31.

Frá upphafi hefur vöxtur HA verið hraður. Námsframboð hefur aukist jafnt og þétt. Nemendum og starfsfólki hefur fjölgað. Ýmsir samstarfsaðilar hafa komið til og byggingar hafa risið.

Nú er boðið upp á grunnnám í eftirtöldum greinum: félagsvísindum, fjölmiðlafræði, hjúkrunarfræði, iðjuþjálfun, kennarafræði (leik- og grunnskóla), líftækni, lögfræði, lögreglufræði, nútímafræði, sálfræði, sjávarútvegsfræði, tölvunarfræði og viðskiptafræði.

Haustið 2017 varð HA fullvaxta háskóli með nám á öllum þrepum háskólanáms þegar skólinn fékk heimild til að bjóða upp á doktorsnám. Fyrstu doktorsnemarnir innrituðust við skólann í lok árs 2018 og fyrsta doktorsvörnin við skólann fór fram haustið 2022.

Húsnæðismál

Starfsemi Háskólans á Akureyri fer fram í tveimur húsum.

Borgir eru glæsilegt rannsóknahús. Það var tekið í notkun haustið 2004. Húsið var byggt í einkaframkvæmd og eigendur þess eru Íslenskir aðalverktakar. Auk háskólans eru í húsinu fjölmargar samstarfsstofnanir skólans.

Sólborg var byggt á árunum 1967-1984. Háskólinn á Akureyri hóf að flytja starfsemi sína þangað 1995. Nýjasti hlutinn var tekinn í notkun haustið 2010. Eldri byggingar hafa verið endurnýjaðar að mestu leyti.

Áður en háskólinn fékk Sólborg afhenta var þar starfrækt heimili fyrir þroskahefta.

Helstu atburðir í sögu háskólans

1987-1996

 • 1987 Háskólinn stofnaður, boðið upp á nám í heilbrigðisdeild og rekstrardeild
 • 1988 Félagsstofnun stúdenta var stofnuð 26. október
 • 1989 Bókasafn var formlega opnað 16. júní
 • 1989 Fyrsta brautskráning var frá rekstrardeild 16. júní, brautskráðir 10 iðnrekstrarfræðingar
 • 1989 Útsteinn, stúdentagarðar við Skarðshlíð voru teknir í notkun við upphaf haustmisseris
 • 1990 Sjávarútvegsdeild var stofnuð 4. janúar
 • 1992 Stúdentagarðar við Klettastíg voru teknir í notkun við upphaf haustmisseris
 • 1992 Rannsóknastofnun HA til starfa tók til starfa í desember
 • 1992 Heimild var veitt til stofnunar kennaradeildar með bréfi 10. desember
 • 1993 Kennsla í kennaradeildi hófst á haustmisseri
 • 1993 Stúdentagarðar við Klettastíg (tvö seinni húsin) voru teknir í notkun í lok ágúst
 • 1994 Þorsteinn Gunnarsson tók við starfi rektors af Haraldi Bessasyni
 • 1995 Framtíðarhúsnæði háskólans á Sólborg var formlega afhent 1. apríl
 • 1996 Nám á leikskólabraut hófst á haustmisseri

1997-2006

 • 1998 15. maí var undirritað samkomulag um að Háskólinn á Akureyri taki að sér umsjón með fjarkennslu í hjúkrunarfræði á Ísafirði. Var þetta grunnurinn að þeirri þróun sem hefur átt sér stað í fjarnámi við háskólann
 • 1999 Fyrstu nemendur útskrifaðir af leikskólabraut á vormisseri
 • 1999 4. september var undirritaður samningur milli HA og HÍ um Ferðamálasetur Íslands
 • 2000 Fyrstu meistaragráðunemendurnir voru brautskráðir 26. febrúar. Voru það nemendur sem höfðu stundað meistaranám í hjúkrunarfræði í samstarfi við Háskólann í Manchester í Englandi
 • 2000 Haraldur Bessason, fyrrverandi rektor HA var kjörinn fyrsti heiðursdoktor við háskólann við brautskráningarathöfn 10. júní
 • 2000 Matvælasetur Háskólans á Akureyri tók til starfa um áramót
 • 2001 1. apríl tók Byggðarannsóknastofnun til starfa. Í samningi um stofnunina er tekið fram að hún skuli vera rannsókna- og fræðslustofnun á sviði byggðamála við HA
 • 2001 Á haustmisseri hófst nám í tölvunarfræði við nýja deild, upplýsingatæknideild
 • 2002 7. október var tekið í notkun verknámshús heilbrigðisdeildar HA
 • 2002 17. júní var fyrsti fjarnámshópurinn brautskráður. Voru það níu hjúkrunarfræðingar sem brautskráðust frá Ísafirði
 • 2002 Félagsvísinda- og lagadeild var stofnuð
 • 2003 17. janúar samþykkti háskólaráð að setja á laggirnar við háskólann Stofnun Páls S. Árdal í Hume-fræðum
 • 2003 28. maí tók HA við rekstri Frumkvöðlaseturs Norðurlands
 • 2003 Félagsvísinda- og lagadeild, kennsla hófst á haustmisseri
 • 2003 Heilbrigðisvísindastofnun HA stofnuð á haustdögum
 • 2004 Stúdentagarðar við Tröllagil 29 voru teknir í notkun í september
 • 2004 Borgir, rannsókna- og nýsköpunarhús tekið í notkun í október
 • 2004 Dr. Shirin Ebadi var gerð að heiðursdoktor við félagsvísinda- og lagadeild 6. nóvember
 • 2005 Líkamsræktarsalur á Sólborg tekinn í notkun 10. október
 • 2005 Asíuver Íslands var stofnað 16. desember
 • 2006 Fjárveiting fékkst til að hefja framkvæmdir við IV áfanga á Sólborg. Framkvæmdin var boðin út og ákvað menntamálaráðuneyti, að höfðu samráði við Bygginganefnd háskólans, að taka tilboði Tréverks ehf. í verkið

2007-2016

 • 2007 RES Orkuskóli tók formlega til starfa þann 9. maí
 • 2007 Á háskólaráðsfundi þann 28. september var ákveðið að sameina kennaradeild og félagsvísinda- og lagadeild í hug- og félagsvísindadeild
 • 2007 Afmælisnefnd efndi til samkeppni um nýtt merki háskólans. Nýtt merki var tekið í notkun 8. september
 • 2007 Háskólabandið gaf út geisladisk á haustdögum í tilefni 20 ára afmælis háskólans
 • 2008 Þann 9. febrúar tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, fyrstu skóflustunguna að IV áfanga nýbygginga Háskólans á Akureyri við Sólborg
 • 2008 Í júní kom út Afmælisrit Háskólans á Akureyri
 • 2008 Hug- og félagsvísindadeild tók til starfa 1. ágúst
 • 2008 Í ágúst voru teknir í notkun nýir stúdentagarðar við Kjalarsíðu 1 a og b
 • 2009 Háskólaráð samþykkti á fundi sínum 1. apríl breytt stjórnskipulag fyrir Háskólann á Akureyri. Meginefni breytinganna var að deildir breyttust í svið og heita þá: Heilbrigðisvísindasvið , hug- og félagsvísindasvið, og viðskipta- og raunvísindasvið. Innan sviðanna starfa deildir. Breytingin tekur gildi 1. ágúst
 • 2009 Haraldur Bessason, fyrrverandi rektor, lést þann 8. apríl
 • 2009 Sjávarútvegsmiðstöð við Háskólann á Akureyri var stofnuð 16. apríl
 • 2009 1. júlí lét Þorsteinn Gunnarsson af störfum sem rektor eftir 15 ár í starfi og við tók Stefán B. Sigurðsson
 • 2010 8. ágúst árið var IV áfangi á Sólborg vígður. Þá eignaðist háskólinn loks langþráðan hátíðarsal ásamt glæsilegu anddyri og nýjum kennslustofum
 • 2010 Nigel David Banks var gerður að heiðursdoktor við lagadeild 9. september
 • 2012 Þann 9. júní tók Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, fyrstu skóflustunguna að V áfanga nýbygginga Háskólans á Akureyri
 • 2012 Afmælisritið Háskólans á Akureyri 1987-2012 kom út. Bragi Guðmundsson, prófessor við Kennaradeild, ritaði bókina
 • 2013 Á haustdögum var V áfangi Háskólans á Akureyri við Sólborg formlega tekinn í notkun
 • 2014 1. júlí lét Stefán B. Sigurðsson af störfum sem rektor eftir fimm ár í starfi og við tók Eyjólfur Guðmundsson
 • 2014 Kennslumiðstöð Háskólans á Akureyri komið á fót
 • 2015 Boðið upp á nýtt meistaranám í vestnorrænum fræðum
 • 2015 Samstarfssamningur undirritaður milli Háskólans á Akureyri (HA), Western Kentucky University (WKU) og Norðurslóðanets Íslands, sem ber yfirskriftina the North Atlantic Climate Change Collaboration (NAC) eða Loftslagsrannsóknir á norðurslóðum (LÁN)
 • 2015 HA í samstarfi við HR býður upp á diplómanám í tölvunarfræði 2015 Vísindaskóli unga fólksins settur á laggirnar
 • 2016 Háskólinn á Akureyri tekur við Sjávarútvegsskólanum
 • 2016 Kennsla í lögreglufræði hefst við Háskólann á Akureyri
 • 2017 30 ára afmæli Háskólans á Akureyri - fjölbreytt dagskrá allt árið sem miðar að því að opna skólann enn frekar fyrir samfélaginu
 • 2017 Samstarfssamningur Háskólans á Akureyri og Sjúkrahússins á Akureyri: Aukið samstarf á sviði rannsókna og kennslu
 • 2017 Doktorsnám við Háskólann á Akureyri
 • 2017 Fyrstu vélmennin í Háskólann á Akureyri

2017-2026 (í vinnslu)

Heiðursdoktorar við Háskólann á Akureyri

 

 • Haraldur Bessason, fyrrverandi rektor við Háskólann á Akureyri, sæmdur heiðursdoktorsnafnbót af kennaradeild skólans þann 14. júní 2000. 
 • Shirin Ebadi, handhafi friðarverðlauna Nóbels árið 2003, sæmd heiðursdoktorsnafnbót af félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri þann 6. nóvember 2004.
 • Nigel David Bankes, prófessor við lagadeild háskólans í Calgary, sæmdur heiðursdoktorsnafnbót af hug og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri þann 9. september 2010
 • Rögnvaldur Hannesson, prófessor emeritus við háskólann í Bergen, sæmdur heiðursdoktorsnafnbót af viðskipta- og raunvísindasviði Háskólans á Akureyri þann 10. janúar 2019
 • Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, sæmd heiðursdoktorsnafnbót af heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri þann 8. nóvember 2019.
 • Herra Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, sæmdur heiðursdoktorsnafnbót af Hug- og félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri þann 30. september 2022.

Rektorar Háskólans á Akureyri

1987-1994 Haraldur Bessason
1994-2009 Þorsteinn Gunnarsson
2009-2014 Stefán B. Sigurðsson
2014- Eyjólfur Guðmundsson