Námið veitir þér þekkingu á afmörkuðu sviði félagsvísindanna. Námið er rannsóknatengt og því sniðið að þínu áhugasviði.

Langar þig að kafa ofan í byggðaþróun á Íslandi? Viltu taka þátt í þekkingarsköpun um ferðamál á Íslandi? Viltu skoða málefni samfélags- og hagþróunar & umhverfis- og loftslagsbreytinga á norðurslóðum? Viltu leita svara við stöðu kynjanna? Viltu rannsaka netnotkun ungs fólks? Viltu rýna í menningarstefnur á Norðurlandi? Viltu taka þátt í umræðu um kynjapólitískar áherslu menntastofnana?

Allt eru þetta gagnleg og áríðandi rannsóknarefni, en aðeins brot af því sem þú getur valið um.

Er námið fyrir þig?

  • Hefur þú áhuga á íslensku samfélagi í samhengi við umheiminn?
  • Hefur þú vald á sjálfstæðum vinnubrögðum?
  • Býrðu yfir þolinmæði og aga?
  • Viltu taka þátt í þekkingasköpum um margvísleg samfélagsleg málefni?
  • Viltu taka þátt í umræðum um samfélagslegar og menningarlegar breytingar, sjálfbærni og þróun lífsgæða og atvinnuhátta?
  • Hefurðu vilja til að hafa áhrif með auknum rannsóknum?

Áherslur námsins

Meistaranemar taka ákveðinn fjölda námskeiða við HA eða aðra innlenda eða erlenda háskóla. Námsáætlun er sniðin að þínum þörfum og áhugasviði í samráði við leiðbeinanda.

Meginverkefnið er rannsóknatengt meistaraverkefni. Það getur verið ein lengri ritgerð eða fleiri styttri sem tengjast saman með skýrum hætti.

Hver nemandi nýtur stuðnings meistaranefndar, viðurkenndra sérfræðinga á viðkomandi sviði.

Þú getur skoðað skipulag námsins í Uglu, kennsluvef háskólans.

Möguleikar að námi loknu

Þetta nám opnar þér greiða leið til fjölbreyttra starfa á ýmsum sviðum þjóðfélagsins. Námið veitir auk þess færni í vísindalegum vinnubrögðum. Meistaranámið skapar jafnframt traustan grunn fyrir doktorsnám í félagsvísindum.

Námið veitir góðan undirbúning fyrir sérfræði- og rannsóknastörf á ýmsum sviðum félagsvísindanna. Meistaragráða opnar möguleika á doktorsnám við innlenda og erlenda háskóla.

Nemendur sem hafa lokið þessu námi hafa haslað sér völl á sviði byggðaþróunar, ferðamála og jafnréttismála svo eitthvað sé nefnt.

Inntökuskilyrði

Námið er opið nemendum sem hafa lokið BA eða BS gráðu við viðurkenndan háskóla með fyrstu einkunn og fengið samþykki væntanlegs leiðbeinanda fyrir rannsóknarspurningu sinni. Inntaka í meistaranám er háð því að fastur kennari við félagsvísindadeild HA með sérþekkingu á viðkomandi sviði sé tilbúinn að leiðbeina nemandanum.

Sækja má um námið utan almenns umsóknartímabils. 

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Umsagnir

Námið veitir tækifæri til að útfæra eigin rannsókn á spennandi viðfangsefni og framkvæma hana í náinni samvinnu við leiðbeinanda og annað fræðafólk háskólans.

Þórný Barðadóttir
Verkefnastjóri á Rannsóknamiðstöð ferðamála

Meistaranámið í félagsvísindum veitti mér tækifæri til þess að vinna að minni eigin rannsókn út frá hugmynd sem ég fékk í lok BA námsins í félagsvísindum, sem varðar brot sem geta átt sér stað á vinnumarkaðnum. Í náminu hef ég unnið náið með leiðbeinanda mínum ásamt öðrum kennurum í því skemmtilega og persónulega umhverfi sem Háskólinn á Akureyri býður uppá

Rannveig Gústafsdóttir
Sérfræðingur hjá RHA