Félagsvísindanámið er fjölbreytt námsleið. Lögð er áhersla á að skoða samspil einstaklings, samfélags og menningar á ýmsum sviðum. Leitast er við að veita svör við mikilvægum spurningum um uppruna, stöðu og framtíð íslensks samfélags.

Þú getur sérhæft þig á einu eða fleiri áhugasviðum. Fjölbreytt valnámskeið eru í boði. Hluta námsins er hægt að taka við aðra innlenda eða erlenda háskóla.

Er námið fyrir þig

  • Viltu vita af hverju sumir fremja glæpi en aðrir ekki?
  • Finnst þér jafnrétti kynjanna skipta máli?
  • Viltu vita hvert Ísland stefnir í heimi hnattvæðingar og fjölmenningar?
  • Viltu vita hvaða áhrif slúður og baktal hefur á búferlaflutninga?
  • Hefur þú velt því fyrir þér hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa á samfélög á norðurslóðum?
  • Viltu vita hvar valdaþræðirnir í samfélaginu liggja?

Áherslur námsins

Nám í félagsvísindum er byggt á grundvelli félagsfræði, mannfræði og stjórnmálafræði.

Markmiðið er að opna augu nemenda fyrir eðli hópa, stofnana og samfélaga. Hverjar eru forsendur samstöðu og átaka og hvað veldur samfélagsbreytingum? Þú færð þjálfun í skipulagningu og framkvæmd rannsókna.

Þú getur sniðið námið að þínu áhugasviði og lagt áherslu á eftirfarandi rannsóknaráherslur:

  • Afbrotafræði
  • Byggðafræði
  • Kynjafræði
  • Norðurslóðafræði

Skipulag námsins má sjá neðar á síðunni.

Möguleikar að námi loknu

Styrkur þeirra sem ljúka námi í félagsvísindum er sá breiði grunnur sem námið hefur veitt þeim. Námið er góður undirbúningur til starfa hjá hinu opinbera og í einkageiranum, hérlendis jafnt sem erlendis.

Brautskráðir nemendur hafa náð góðum árangri á vinnumarkaði, meðal annars í málefnum flóttamanna, félagsstarfi unglinga, við hagnýtar rannsóknir og í sveitarstjórnarmálum.

Nám í félagsvísindum hefur reynst góður grunnur fyrir framhaldsnám á sviði félagsvísinda við íslenska og erlenda háskóla.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Kumpáni er félag félagsvísindanema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjandi hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi.

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að engu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskránni og námskröfur eru þær sömu.

Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft og þú vilt. Nemendur sem mæta í rauntíma á staðnum eða í gagnvirkum fjarfundarbúnaði geta auk þess tekið þátt í umræðum kennara og nemenda að fyrirlestrum loknum. Í einstaka námskeiðum taka allir nemendur þátt í kynningum og umræðum í rauntíma.

Allir fjarnemar koma nokkrum sinnum á námstímanum í stuttar kennslulotur til Akureyrar þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu.

Hér getur þú lesið meira um sveigjanlega námið og séð hvenær námslotur eru.

Skiptinám

Allir nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Þú færð niðurfellingu á skólagjöldum gestaskólans og greiðir eingöngu innritunargjald í HA. Alþjóðafulltrúi aðstoðar þig við að sækja um námið, húsnæði og nemendastyrk.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skiptinám.

 

Umsagnir

Grunnnám mitt í félagsvísindum undirbjó mig vel undir rannsóknatengt meistaranám í félagsvísindum sem ég tók í beinu framhaldi. Það var mikið lagt upp með sjálfstæð vinnubrögð og námið gaf mér mikið val til að beina sjónum mínum að mínu áhugasviði. Ég lærði mikið og þróaði með mér vinnubrögð sem nýtast vel í starfi mínu í dag.

Alfa Dröfn Jóhannsdóttir
sérfræðingur í félagsmálum barna og verkefnastjóri innleiðingar barnasáttmála UNICEF