EFNISYFIRLIT
- Inngangur
- Mannlegt eftirlit og ábyrgð
- Verulegt mannlegt framlag
- Gagnsæi og heimildanotkun
- Persónuvernd og trúnaðargögn (GDPR)
- Hættumat og áhættustjórnun
- Greining á misnotkun gervigreindar í námi
- Lokaorð
Inngangur
Þessar leiðbeiningar útfæra nánar meginreglur og gildi stefnu Háskólans á Akureyri (HA) um notkun gervigreindar. Markmið þeirra er að veita hagnýta leiðsögn um ábyrga og siðferðilega notkun skapandi gervigreindar (Generative AI), þar á meðal stórra mállíkana (Large Language Models, LLMs), svo sem ChatGPT, Gemini, Grok, Claude o.fl., í námi, kennslu, rannsóknum og stoðþjónustu.
Leiðbeiningarnar eru í samræmi við gildi HA og byggja á alþjóðlegum viðmiðum (t.d. Mann o.fl., 2024). Áherslan er sú að notkun sé almennt heimil nema annað sé sérstaklega tilgreint í námskeiðslýsingu eða verkefnaleiðbeiningum.
Mannlegt eftirlit og ábyrgð
Þótt gervigreindarverkfæri geti verið öflug hjálpartæki, liggur endanleg ábyrgð á öllu efni sem skilað er inn eða birt á vegum HA ávallt hjá mennskum notanda (nemanda, kennara, rannsakanda eða starfsmanni).
Gervigreind:
- Hefur enga siðferðiskennd.
- Getur viðhaldið eða magnað upp hlutdrægni sem finnst í þjálfunargögnum (t.d. varðandi kyn, uppruna, o.s.frv.).
- Getur gefið rangar eða villandi upplýsingar („ofskynjanir”).
- Getur byggt niðurstöður á úreltum, ófullnægjandi eða óyfirförnum gögnum sem geta veitt óáreiðanlegar upplýsingar um nýjustu þróun eða staðreyndir.
Notendur skulu því:
- Gagnrýna og sannreyna: Staðfesta allar upplýsingar, tölulegar niðurstöður og tilvísanir með traustum, uppfærðum heimildum.
- Tryggja gæði og samhengi: Gæta þess að úttak sé rökrétt, samhangandi og uppfylli fagleg viðmið og hæfniviðmið verkefnis.
- Leiðrétta villur og hlutdrægni: Vera meðvitaðir um villur, kerfisbundna hlutdrægni eða mögulega úrelta þekkingu og leiðrétta slíkt.
- Taka ábyrgð: Axla fulla ábyrgð á innihaldi og siðferðilegum þáttum tengdum efninu, líkt og um eigin verk væri að ræða.
Að skila verkefni byggðu á úttaki gervigreindar án sjálfstæðrar yfirferðar og ábyrgðartöku telst brot á akademískum heiðarleika.
Verulegt mannlegt framlag
Gervigreind skal styðja við mannlega sköpun og hugsun, ekki koma í stað hennar. Til að teljast höfundur verks sem unnið er með aðstoð gervigreindar þarf notandi að leggja fram verulegt eigið vitsmunalegt framlag.
Slíkt framlag felur meðal annars í sér:
- Upphaflega hugmyndavinnu og skilgreiningu rannsóknarspurningar eða markmiðs.
- Þróun eigin röksemdafærslu, túlkunar eða greiningar.
- Skipulag og uppbyggingu verksins.
- Hönnun markvissra og ígrundaðra fyrirmæla (prompts).
- Gagnrýnt val, úrvinnslu og samþættingu úttaks gervigreindar.
- Túlkun gagna eða niðurstaðna, jafnvel þótt gervigreind hafi aðstoðað við gagnavinnslu.
Telst ekki verulegt framlag:
- Að nota aðeins almenn eða óútfærð fyrirmæli (prompts) til gervigreindar án þess að styðja við þau með sjálfstæðri greiningu, úrvinnslu eða ígrunduðum breytingum á niðurstöðum líkansins.
- Að afrita og skila hráu, lítt breyttu eða óyfirförnu úttaki gervigreindar og kynna það sem eigin verk.
Ef vafi leikur á hvort eigið framlag teljist verulegt skal leita leiðsagnar hjá kennara eða leiðbeinanda.
Slík notkun telst ritstuldur og alvarlegt brot á reglum HA.
Gagnsæi og heimildanotkun
Öll notkun skapandi gervigreindar skal vera gagnsæ og skýr í verkefnum, rannsóknum og stjórnsýslu.
Staðlaður fyrirvari (sem fyrirmynd, t.d. í inngangi, aðferðafræðikafla eða viðurkenningum):
„Öll notkun skapandi gervigreindar (e. generative AI) í þessu verki fylgir siðferðilegum viðmiðum Háskólans á Akureyri um notkun gervigreindar. Höfundur/höfundar hafa lagt fram verulegt eigið framlag til verksins, sem hefur verið vandlega yfirfarið með tilliti til nákvæmni, og axla fulla ábyrgð á verkinu.”
Ítarlegri lýsing er nauðsynleg ef:
- Gervigreind hafði veruleg áhrif á niðurstöður eða aðferðafræði.
- Hún var notuð til að skrifa kóða, framkvæma gagnaúrvinnslu, búa til myndefni eða þróa kjarnaröksemdir.
- Niðurstöður byggja á úttaki gervigreindar að því marki að endurgerð (reproducibility) getur krafist að fyrirmæli (prompts), útfærslur eða stillingar séu skráðar og afhentar sem viðauki, í aðferðafræðikafla eða í viðbótargögnum, eftir því sem við á. Þetta á sérstaklega við í rannsóknum og verkefnum þar sem gagnsæi aðferðafræði og möguleiki á endurtekningu er mikilvægur.
Markmiðið er að tryggja að matsaðilar geti skilið, metið og, ef nauðsyn krefur, endurgert vinnsluferlið og niðurstöður.
Athugið: Umfang gagnsæis skal vera sambærilegt því sem krafist er við notkun sérhæfðra verkfæra (t.d. tölfræðiforrita) eða aðstoðar samstarfsfólks. Sérstakar kröfur námskeiða og verkefnaleiðbeininga ganga framar.
Persónuvernd og trúnaðargögn (GDPR)
Notendur skulu gæta fyllstu varúðar við meðferð viðkvæmra gagna:
- Ekki má setja persónugreinanleg gögn, viðkvæm rannsóknargögn, viðskiptaleyndarmál eða óbirt hugverk inn í gervigreindarlíkön nema fyrir liggi skýr skrifleg heimild.
- Skrá skal vinnsluna og fylgja reglum um meðferð gagna.
- Nánari leiðbeiningar um gagnaöryggi og persónuvernd má finna í viðauka B.
Hættumat og áhættustjórnun
Tilgangur
HA skal framkvæma reglubundið hættumat vegna nýrra eða breyttra gervigreindarverkfæra sem notuð eru í námi, kennslu, rannsóknum, stoðþjónustu eða stjórnsýslu. Markmiðið er að stuðla að ábyrgu innleiðingarferli í samræmi við áherslur stefnunnar og alþjóðleg viðmið, sérstaklega kröfur samkvæmt EU AI Act (2024) og GDPR.
Lýsing á áhættumati
HA skal nýta einfalt og skilvirkt áhættumatslíkan þegar ný verkfæri eru tekin í notkun eða verulegar breytingar verða á núverandi kerfum.
Sex meginflokkar skulu skoðaðir og metnir á kvarða frá 1 (lítil áhætta) upp í 5 (mjög mikil áhætta):
| Flokkur |
Skýring |
| Persónuvernd |
Hættan á að persónugreinanleg gögn eða trúnaðarupplýsingar leki eða séu misnotuð. |
| Hlutdrægni og mismunun |
Hætta á að niðurstöður eða ráðleggingar gervigreindarkerfa séu hlutdrægar eða mismuni einstaklingum eða hópum. |
| Gagnasöfnun og endurnotkun gagna |
Hættan á óviðeigandi eða óskýrri söfnun, vistun eða notkun gagna um nemendur, starfsfólk eða aðra án fullnægjandi heimildar, vitundar eða samþykkis. |
| Öryggi og áreiðanleiki |
Hættan á villum, gallaðri virkni eða röngum ráðleggingum sem geta haft skaðleg áhrif á notendur eða starfsemi skólans. |
| Áhrif á námsmat |
Hættan á að notkun verkfæris grafi undan markmiðum námsmats eða skekki niðurstöður þess. |
| Samhengi og túlkun |
Hættan á að notkun verkfæris sé óskýr, ógagnsæ eða torveldi endurtekningarhæfni niðurstaðna. |
Við mat á áhættu skal jafnframt skoða:
- Eðli og umfang notkunar (t.d. í kennslu, stjórnsýslu, rannsóknum).
- Möguleika til að milda áhættu (t.d. með mannlegu eftirliti, skýrum ferlum, takmörkun aðgangs o.fl.).
Áhættumat skal skjalfest og varðveitt af verkefnastjóra gervigreindar.
Ákvörðun og ráðstafanir
Ef áhættumat leiðir í ljós háa eða mjög háa áhættu (stig 4 eða 5 á einhverjum flokki) skal:
- Framkvæma ítarlegra mat í samráði við öryggis- og persónuverndarteymi HA.
- Tryggja skýra samþykkt stjórnenda áður en innleiðing fer fram.
- Setja skýrar reglur um notkun og mannlegt eftirlit.
Ef áhættan telst lág til miðlungs (stig 1–3) má halda áfram með innleiðingu samkvæmt almennum ferlum og skilyrðum stefnunnar.
Greining á misnotkun gervigreindar í námi
Meðferð á grun um misnotkun
Ef grunur vaknar um að nemandi hafi notað gervigreind á óleyfilegan hátt skal fylgja þeim reglum sem gilda um brot á akademískum heiðarleika við Háskólann á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri notar sjálfvirk greiningartæki (s.s. Turnitin) til að greina mögulegan ritstuld. Hins vegar er viðbótarvirkni slíkra kerfa til að greina uppruna texta með tilliti til gervigreindar talin óáreiðanleg og skal því ekki notuð sem grundvöllur ákvarðana um brot tengd notkun gervigreindar.
Rannsóknir (Mobin & Islam, 2025) styðja þetta varúðarsjónarmið og sýna að jafnvel öflugustu kerfi geta verið óáreiðanleg, sérstaklega þegar textar eru frá ólíkum uppruna eða módelum. Því geta niðurstöður verið villandi (false positives) eða sleppt raunverulegum brotum (false negatives).
Áhersla á faglegt mat
Í stað þess að reiða sig á sjálfvirka tækni skal leggja mat á aðstæður með faglegri innsýn og beinu samtali við nemanda, t.d. með munnlegri yfirferð eða spurningum um vinnuferlið. Traust, fagmennska og samræmi skulu vera leiðarljós í meðferð málsins.
Lokaorð
Háskólinn á Akureyri hvetur til ábyrgrar könnunar á möguleikum gervigreindar til að styðja við nám, kennslu, rannsóknir, stoðþjónustu og stjórnsýslu. Jafnframt er lögð áhersla á að allur slíkur stuðningur sé nýttur í samræmi við ábyrgð, gagnrýna hugsun og virðingu fyrir siðferðilegum og akademískum gildum háskólasamfélagsins.
Leiðbeiningarnar verða reglulega endurskoðaðar í takt við tækniþróun og umræðu innan háskólans.