Reglur um Vísindasjóð HA

1. gr. Stjórn Vísindasjóðs

Vísindasjóður Háskólans á Akureyri hefur það hlutverk að efla rannsóknir og vísindastörf á vegum háskólans. Sjóðurinn skiptist í fjóra undirsjóði. Þeir eru: Rannsóknasjóður, Starfsskyldusjóður, Útgáfusjóður og Ferðasjóður.
 
Stjórn Vísindasjóðs HA úthlutar úr ofangreindum sjóðum, í samræmi við reglur þessar. Fé sjóðsins kemur af fjárveitingum á fjárlögum samkvæmt ákvörðun háskólaráðs um hvern sjóð fyrir sig. Háskólaráð getur kveðið sérstaklega á um aðrar leiðir til fjáröflunar og tekið við fjárframlögum einstaklinga, stofnana og fyrirtækja í sjóðinn. Stjórn sjóðsins er óheimilt að veita viðtöku framlögum eða gjöfum í sjóðinn sem bundin eru skilyrðum, nema að fengnu samþykki háskólaráðs.
 
Í stjórn sjóðsins sitja sex fulltrúar, skipaðir af háskólaráði til allt að þriggja ára í senn. Einn tilnefndur af rektor sem formaður, skal formaður vera utanaðkomandi aðili sé því við komið. Fjórir eru tilnefndir af forsetum fræðasviða, tveir frá hvoru fræðasviði og einn fulltrúi starfsfólks úr stjórnsýslu/stoðþjónustu tilnefndur af rektor. Skipa skal varafulltrúa fyrir hvern og einn fulltrúa í ráðinu. Heimilt er að endurskipa stjórnina að nokkru eða öllu leyti.
 
Stjórnin hefur umsjón með fjárreiðum sjóðsins í umboði háskólaráðs. Stjórninni er heimilt að setja sér verklagsreglur um úthlutun og skulu þær staðfestar af háskólaráði. Háskólinn lætur sjóðnum í té vinnu starfsmanns Vísindasjóðs hjá RHA - Rannsóknamiðstöð HA. Reikningshald vegna sjóðsins er í höndum Fjármála og greiningar.
 
Stjórnin auglýsir eftir umsóknum um styrki úr undirsjóðum Vísindasjóðs, sbr. umsóknarfrest hvers sjóðs fyrir sig.
 
Stjórn sjóðsins gerir háskólaráði skriflega grein fyrir störfum sínum einu sinni á ári.

2. gr. Rannsóknasjóður

Stjórn Vísindasjóðs Háskólans á Akureyri fer með stjórn Rannsóknasjóðs Háskólans á Akureyri og úthlutar styrkjum í samræmi við reglur þessar. Senda skal umsókn til Vísindasjóðs (visindasjodur@unak.is) á sérstöku eyðublaði ásamt fylgigögnum.
 
Aðjúnktar, lektorar, dósentar, prófessorar og sérfræðingar sem ráðnir eru við Háskólann á Akureyri (HA) geta sótt um fé úr sjóðnum vegna vinnu að ákveðnum rannsóknaverkefnum og til greiðslu annars kostnaðar við rannsóknir í nafni háskólans. Lektorar, dósentar og prófessorar sem voru starfsmenn skólans þegar þau hófu töku eftirlauna geta sótt um styrk úr sjóðnum á sömu forsendum og tilgreindar eru hér ofar. Sérfræðingar skulu hafa rannsóknir að aðalstarfi eða vera á launum af föstum fjárveitingum eða styrkjum til HA. Styrkhæfir eru einnig sérfræðingar stofnana/fyrirtækja sem gert hafa sérstakan samning við HA um aðgang að Rannsóknasjóðnum.
 
Við mat á umsóknum um styrki til verkefna skal fyrst og fremst fara eftir vísindagildi verkefnanna. Enn fremur skal höfð hliðsjón af rannsóknavirkni umsækjenda og rannsóknahagsmunum Háskólans á Akureyri. Stjórn sjóðsins getur leitað til utanaðkomandi aðila eftir faglegri umsögn um umsóknir styrkhæfra umsækjenda telji hún tilefni til þess. Styrkþegi skal birta niðurstöður sínar í nafni Háskólans á Akureyri.
 
Sæki stjórnarmaður um styrk úr sjóðnum skal hann hvorki taka þátt í meðferð umsókna né afgreiðslu og varamaður taka sæti hans. Á sama hátt víkur starfsmaður Vísindasjóðs úr umsýslu ef hann á sjálfur aðild að umsókn. Að öðru leyti gilda almennar reglur um vanhæfi samkvæmt II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
 
Auglýsingu um styrki úr Rannsóknasjóði skal birta u.þ.b. 1. september ár hvert. Umsóknum skal skilað eigi síðar en 1. nóvember. Tilgreina skal hámarksupphæð styrkveitingar hverju sinni í auglýsingunni. Umsækjendur skulu hvattir til að kynna sér vel reglur um sjóðinn. Aðeins ein umsókn er tekin til greina frá hverjum aðalumsækjanda.

3. gr. Mat á umsóknum í Rannsóknasjóð

Til þess að umsókn teljist styrkhæf verður verkefnið að vera vel skilgreint faglega, vísindalegt gildi verkefnis verður að vera ótvírætt og vandlega rökstutt.
 
Til að umsókn verði tekin til umfjöllunar þurfa neðangreind fylgiskjöl að fylgja henni:
 
 1. Heildstæð greinargerð um náms- og starfsferil (CV) allra umsækjenda ásamt yfirliti yfir rannsóknastig umsóknaraðila frá stjórnsýslu rannsókna þar sem við á. Aflstig skulu sérstaklega tilgreind.
 2. Framvinduskýrsla og nákvæmt reikningsuppgjör yfir síðasta styrktímabil ásamt birtum greinum og skýrslum, ef um framhaldsumsókn er að ræða.
 3. Lokaskýrslur (eða framvinduskýrslur) vegna fyrri verkefna umsækjanda er styrkt hafa verið af sjóðum.
 4. Ítarlegar skýringar á öllum kostnaðar- og fjármögnunarliðum skulu fylgja á sér blaði. Þar skal koma fram vinnuframlag allra sem leggja rannsókninni lið, í vikum talið. Einnig hvaða fé er lagt til verkefnisins af öðrum. Áætlað vinnuframlag til rannsóknarinnar skal vera eins ljóst og auðið er.
Sé verkefnið hluti af eða aðdragandi að stærra verkefni þarf það að koma fram, sem og umfang, markmið og hugsanleg fjármögnun þess. Skýrt skal tekið fram hvert sé framlag annarra. Miklu skiptir að umsækjendur sýni fram á vísindalega hæfni sína og samstarfsaðila sinna og nægilega góða aðstöðu til þess að leiða fyrirhugað verk. Skilgreind og virk tengsl við önnur rannsóknaverkefni, innlend sem erlend, geta aukið styrkhæfi.
 
Sjóðurinn veitir einnig forstyrki til undirbúnings umsókna í samkeppnissjóði. Gera skal ráð fyrir fyrirhuguðu birtingarferli rannsóknarinnar.
 
Jákvætt er að verkefnið feli í sér þjálfun ungra vísindamanna og/eða nemenda við HA, efli innlenda sem og alþjóðlega sóknargetu vísindamanna og auki þátttöku í alþjóðasamstarfi á sviði vísinda.
 
Það styrkir umsóknir að sýnt sé fram á að líklegt sé að fyrirhugað viðfangsefni, eða verkefni tengd því, gefi niðurstöður sem fáist birtar í ritrýndum fræðiritum sem gera strangar kröfur (samkvæmt ISI staðli eða öðrum birtingum sem flokkast sem aflstig, sjá nánar inn á Uglunni (undir rannsóknir/framtal starfa) eða leiði til skráningar einkaleyfis, hugverkaréttinda eða annarrar hagnýtingar. Umsækjendum, sem hafa fengið styrk úr sjóðnum á undanförnum þremur árum til verkefnis sem leiða átti til slíkrar birtingar eða hagnýtingar, ber að skila eintaki af birtu efni eða sérstakri skýrslu ef það á við til starfsmanns Vísindasjóðs hjá RHA eigi síðar en við nýja umsókn.

4. gr. Úthlutun styrkja úr Rannsóknasjóði 

Stjórn Rannsóknasjóðs flokkar umsóknir í eftirfarandi fjóra flokka:
 1. Framúrskarandi umsókn.
 2. Sterk umsókn, léttvægir veikleikar.
 3. Umsókn með einn eða fleiri takmarkandi veikleika.
 4. Veik umsókn með meiri háttar veikleika eða á ekki heima í þessum sjóði.
Sjóðsstjórnin getur lagt til að umsókn fái hluta þeirrar upphæðar sem sótt er um styrk til og einnig að sumir þættir verkefnis séu styrktir en aðrir ekki. Að loknu úthlutunarferli sem tekur tíu virka daga, eftir að upplýsingar um fjárhagsstöðu sjóðsins berast til stjórnar frá háskólaráði, fá umsækjendur svar um niðurstöðu stjórnar sjóðsins.

5. gr. Til athugunar við gerð umsóknar í Rannsóknasjóð

Úthlutað er einu sinni á ári og rennur umsóknarfrestur venjulega út 1. nóvember, sbr. auglýsingu hverju sinni. Umsókn skal senda í tölvupósti á netfangið visindasjodur@unak.is. Eingöngu er tekið á móti rafrænum umsóknum, samkvæmt sniðmáti/umsóknareyðublaði sem sjóðurinn setur. Umsækjendum er ráðlagt að kynna sér vel hverjir eiga rétt til að sækja um styrk úr sjóðnum og hvaða kostnaðarþætti sjóðurinn styrkir.
 
Umsækjendum er bent á að vönduð umsókn eykur líkur á styrkveitingu. Framvinduskýrsla um notkun styrkja úr sjóðnum og um árangur sem náðist á styrktímabilinu skal fylgja umsókn.
 
Umsækjendur skulu senda inn framkvæmdaáætlun verkefnisins svo úthlutunarnefndin hafi heildaryfirsýn yfir kostnað og framvindu verkefnisins. Einnig skal senda inn ítarlega verkáætlun fyrir komandi styrkár, enda sæki umsækjendur aðeins um til eins árs í senn. Greiðslur dreifast á styrktímabilið í samræmi við útlagðan kostnað, byggt á verkáætlun í umsókn. Útlagður kostnaður greiðist út samkvæmt reikningum. Nauðsynlegt er að umsækjandi greini skilmerkilega frá væntanlegri hlutdeild annarra en Rannsóknasjóðsins í kostnaði við verkefnið, svo unnt sé að meta hversu mikilvægur styrkur úr sjóðnum er í heildarkostnaði og jafnframt sé tryggt að ekki verði veittur styrkur samtímis frá öðrum aðilum til sama kostnaðarþáttar. Tilgreina skal rök fyrir einstökum kostnaðarþáttum og skýra hvers vegna þörf er á styrk til þeirra. Um styrkhæfi umsækjenda vísast til reglna um Rannsóknasjóð. Stjórn sjóðsins er heimilt að hafa ákveðið áherslusvið í styrkveitingu og hvetur þá til umsókna á þeim sviðum í auglýsingu þegar það á við.
Styrkir eru einkum veittir til eftirfarandi kostnaðarliða:
 • Laun vegna vinnu ungra vísindamanna/nemenda við HA við rannsóknarverkefni samkvæmt umsóknum. Styrkhæfur umsækjandi skv. 1. gr. reglna þessara getur sótt um laun fyrir vinnu meistara- og doktorsnema í verkefni sem hann stjórnar, en nemendur sem ekki eru hluti þess hóps sem skilgreindur er skv. 1. gr. geta ekki sótt um sjálfir. Ekki eru veittir styrkir til vinnu doktorsnema séu þeir á styrk annars staðar frá.
 • Annar kostnaður við rannsóknir. Undir þennan lið falla m.a. ýmsar rekstrarvörur, aðkeypt þjónusta samkvæmt tilboði, kostnaður vegna birtinga og ferðakostnaður vegna gagnaöflunar, enda falli ferðakostnaðurinn ekki undir Ferðasjóð.
 • Kaup á tækjum og hugbúnaði sem nauðsynleg eru til einstakra rannsóknaverkefna, enda sé slíkur búnaður ekki aðgengilegur innan HA eða viðkomandi rannsóknarhóps.
 • Forstyrkur til undirbúnings umsóknar um styrk til rannsóknaverkefnis. Styrkurinn getur m.a. nýst til kaupa á aðstoð sérfræðinga við undirbúning umsóknar í samkeppnissjóði eða forrannsókna sem leiða myndu til umsóknar um styrk til stærra verkefnis.
 • Skráningarverkefni og/eða gagnagrunnar. Heimilt er að styrkja fræðileg skráningarverkefni og verkefni sem fela í sér fræðilega úrvinnslu og framsetningu upplýsinga. Til að skráningarverkefni séu styrkhæf þurfa þau að byggja á fræðilegum og gagnrýnum forsendum einstakra rannsóknasviða og vera undir stjórn rannsóknafólks sem býr yfir sömu fræðilegu hæfni og reynslu og ætlast er til í öðrum umsóknum. Ein meginforsenda styrkveitinga er að verkefnið sé líklegt til að styrkja og auðvelda háskólarannsóknir á viðkomandi sviði.
Útlagður kostnaður, allt að 85%, er greiddur eftir því sem verkinu miðar, samkvæmt reikningum sem berast frá styrkþega. Skulu 15% styrkupphæðarinnar greidd þegar lokaskýrslu um verkefnið hefur verið skilað til umsýsluaðila Vísindasjóðs. Ef rannsókn krefst leyfis Vísindasiðanefndar þarf leyfi hennar að liggja fyrir áður en greitt er úr sjóðunum. Reikningshald vegna sjóðsins er í höndum fjármála og greiningar. Úthlutaður styrkur sem ekki hefur verið nýttur tveimur árum eftir úthlutun fellur niður og fer aftur í sjóðinn.

6. gr. Ferðasjóður

Stjórn Vísindasjóðs Háskólans á Akureyri fer með stjórn Ferðasjóðs Háskólans á Akureyri og úthlutar styrkjum í samræmi við reglur þessar. Verkefnastjóri fjármála og greiningar tekur við öllum umsóknum í Ferðasjóð á sérstöku eyðublaði ásamt fylgigögnum og afgreiðir þær samkvæmt reglum sjóðsins í umboði stjórnar. Verkefnastjórinn skal upplýsa stjórnina tvisvar á ári um afgreiðslur á umsóknum í sjóðinn. Eingöngu er tekið við rafrænum umsóknum.
 
Háskólaráð samþykkir að leggja til fé í Ferðasjóð starfsfólks Háskólans á Akureyri og ákveður árlega þá upphæð sem verja skal til sjóðsins.

7. gr. Ferðastyrkur A

Starfsmenn sem eru í aðalstarfi við Háskólann á Akureyri, með starfshlutfall 50% eða meira, geta sótt um styrk úr Ferðasjóði HA (Ferðastyrkur A) í samræmi við starfshlutfall. Starfsmenn með lægra starfshlutfall hljóta ekki styrk úr Ferðasjóði HA.
 
Eftirfarandi geta sótt um styrk úr Ferðasjóði:
 • Aðjúnktar, lektorar, dósentar og prófessorar.
 • Sérfræðingar, fræðimenn og vísindamenn sem ráðnir eru á grundvelli hæfnisdóms til stofnana Háskólans á Akureyri.
 • Aðrir starfsmenn Háskólans á Akureyri sem fá störf sín metin samkvæmt matskerfi opinberra háskóla.
 • Starfsmenn á eftirlaunum sem féllu undir liði a–c og voru starfsmenn Háskólans á Akureyri við starfslok.

8. gr. Úthlutunarreglur Ferðasjóðs vegna ferðastyrks A

Styrkir eru veittir til ferða á alþjóðlegar eða innlendar vísindaráðstefnur, til þátttöku í alþjóðlegum eða innlendum vísindalegum verkefnum og til gagnaöflunar vegna rannsókna, að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
 
 • Til að eiga möguleika á styrk úr Ferðasjóði HA til ferða á alþjóðlegar eða innlendar vísindaráðstefnur skal umsækjandi sýna fram á mikilvægi ferðarinnar fyrir rannsóknaverkefni sín. Umsækjandi þarf að vera með framlag á ráðstefnunni í formi fyrirlesturs, veggspjalds eða með öðrum sambærilegum hætti. Skila ber afriti af fyrirlestri eða veggspjaldi að ferð lokinni.
 • Hægt er að sækja um styrk ef tilefni ferðar er að koma af stað rannsóknasamstarfi. Rökstyðja skal það sérstaklega og lýsa vandlega fyrirhuguðu samstarfi/rannsókn með höfuðáherslu á líklegan ávinning samstarfsins fyrir starf viðkomandi við Háskólann á Akureyri.
 • Hægt er að sækja um styrk til ferðar í þeim tilgangi að afla nauðsynlegra gagna til rannsókna á bókasöfnum/skjalasöfnum/rannsóknastofnunum, enda sé ekki kostur á að afla þeirra með öðrum hætti. Rökstyðja skal það sérstaklega og lýsa vandlega nauðsyn á fyrirhugaðri gagnaöflun og ástæðum þess að ekki sé unnt að nálgast gögnin með öðrum hætti.
 • Styrkir úr Ferðasjóði HA skiptast í styrki til greiðslu fargjalda, ráðstefnugjalda og dagpeninga. Styrkir til greiðslu dagpeninga eru greiddir samkvæmt reglum um dagpeninga ríkisstarfsmanna á ferðalögum erlendis.
 • Styrkþega ber, innan tveggja mánaða frá heimkomu, að skila greinargerð til birtingar á innri vef HA/Uglunni um framlag sitt og hvernig ferðin hafi styrkt rannsóknarstarf hans og háskólans.

9. gr. Heimildartímabil ferðastyrks A

Samanlagður styrkur á hverjum tveimur samfelldum árum getur numið að hámarki 400.000 krónum til greiðslu fargjalda, ráðstefnugjalda og dagpeninga. Hámarkslengd einstakra styrktra ferða eru tveir dagar umfram lengd ráðstefnu, þó ekki meira en sjö dagar. Hægt er að skipta styrknum til fleiri en einnar ferðar á hverju heimildartímabili. Hámarksstyrkur miðast við 100% starfshlutfall.

10. gr. Ferðastyrkur B

Starfsfólk HA í stjórnsýslu með 50% starfshlutfall, eða meira, getur sótt um styrk í Ferðasjóð HA (ferðastyrkur B) í samræmi við starfshlutfall. Starfsmenn með lægra starfshlutfall hljóta ekki styrki úr Ferðasjóði HA.

11. gr. Úthlutunarreglur ferðastyrks B

Styrkir eru veittir til ferða á alþjóðlegar vísindaráðstefnur, til þátttöku í alþjóðlegum vísindalegum verkefnum og til gagnaöflunar vegna rannsókna, að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
 
 • Til að geta fengið styrk úr Ferðasjóði HA til ferða á alþjóðlegar eða innlendar vísindaráðstefnur þarf viðkomandi að vera með framlag á ráðstefnunni og/eða vera með framlag sem nýtist Háskólanum á Akureyri. Styrkþega ber að skila inn greinargerð um framlagið, til stjórnsýslu rannsókna, innan tveggja mánaða frá heimkomu.
 • Hægt er að sækja um styrk ef tilefni ferðar er að koma af stað rannsóknasamstarfi og/eða að kynna sér nýjungar og frumkvöðlastarf annars staðar sem styður við rannsóknir unnar á vegum HA. Rökstyðja skal það sérstaklega og lýsa vandlega fyrirhuguðu samstarfi/rannsókn með höfuðáherslu á líklegan ávinning samstarfsins fyrir starf viðkomandi við Háskólann á Akureyri.
 • Enn fremur er hægt að sækja um styrk til ferðar til þess að afla nauðsynlegra gagna til rannsókna í bókasöfnum/skjalasöfnum/rannsóknastofnunum, enda sé ekki kostur að afla þeirra með öðrum hætti. Rökstyðja skal það sérstaklega og lýsa vandlega nauðsyn á fyrirhugaðri gagnaöflun og ástæðum þess að ekki sé unnt að nálgast gögnin með öðrum hætti.
 • Styrkir úr Ferðasjóði HA skiptast í styrki til greiðslu fargjalda og ráðstefnugjalda. Styrkir til greiðslu dagpeninga eru greiddir samkvæmt reglum HA um greiðslu dagpeninga.

12. gr. Heimildartímabil ferðastyrks B

Heimildartímabil er tvö almanaksár. Hámarksstyrkur úr Ferðasjóði HA til hvers umsækjanda getur á hverju heimildartímabili numið 400.000 krónum til greiðslu fargjalda, ráðstefnugjalda og dagpeninga. Hámarkslengd einstakra styrktra ferða eru tveir dagar umfram lengd ráðstefnu, þó ekki meira en sjö dagar. Hægt er að skipta styrknum til fleiri en einnar ferðar á hverju heimildartímabili. Hámarksstyrkur miðast við 100% starfshlutfall.

13. gr. Starfsskyldusjóður

Stjórn Vísindasjóðs Háskólans á Akureyri fer með stjórn Starfsskyldusjóðs Háskólans á Akureyri og úthlutar styrkjum í samræmi við reglur þessar.
 
Úr sjóðnum eru veittir styrkir til að fjármagna tímabundnar breytingar á starfsskyldum kennara við skólann, þ.e. breytingar sem styrkja stöðu þeirra til að vinna að eða hafa forystu um vinnu við tiltekin vel skilgreind verkefni á sviði rannsókna. Háskólaráð ákvarðar ár hvert framlag í sjóðinn við afgreiðslu fjárhagsáætlunar háskólans fyrir komandi ár. Úthlutun úr sjóðnum rennur til fræðasviða.
 
Stjórn Vísindasjóðs HA áætlar árlega í samræmi við reglur sjóðsins og fjárhagslega stöðu hans hversu miklu er úthlutað til hvers fræðasviðs fyrir sig. Stefnt skal að því að áætlun stjórnar liggi fyrir um miðjan febrúar. Nýta má úthlutun það sem eftir er ársins og vormisserið árið eftir.
 
Stjórn Vísindasjóðs auglýsir styrki starfsskyldusjóðs lausa til umsóknar um miðjan janúar ár hvert. Umsóknir lektora, dósenta og/eða tilnefningar forseta fræðasviða á lektorum og dósentum skulu berast sjóðnum fyrir 15. febrúar. Ef peningar eru eftir í sjóðnum eftir úthlutun skal auglýst aftur með umsóknarfrest til 15. september. Stjórnin skal hafa lokið afgreiðslu umsókna eigi síðar en 15. mars/15. október ár hvert.
 
Lektor eða /dósent sem hefur náð góðum árangri í rannsóknum getur sótt beint um styrk til sjóðsins til að færa vinnuskyldu sína tímabundið frá kennslu til rannsókna, sbr. a-lið 1. mgr. 14. gr., stigaleið. Forseti fræðasviðs getur, skv. b-lið 1. mgr. 14. gr., tilnefningarleið, sótt um úthlutun úr sjóðnum samkvæmt reglum þessum ef hann ákveður að nýta heimild til að færa vinnuskyldu lektors/dósents tímabundið frá kennslu til rannsókna. Í báðum tilvikum er það skilyrði að styrkurinn sé nýttur til tiltekinna vel skilgreindra rannsóknarverkefna. Lektor eða dósent sem sækir um leyfi úr Starfsskyldusjóði skal skila tillögu til sviðsforseta um hver sinni kennslu hans meðan á leyfinu stendur þannig að tryggt verði að kennsla fari fram með eðlilegum hætti.

14. gr. Úthlutunarreglur Starfsskyldusjóðs

Heimilt er að úthluta úr sjóðnum vegna starfsmanna sem uppfylla annað af eftirfarandi skilyrðum:
 

a) Stigaleið

Heimilt er að úthluta úr sjóðnum vegna kennara sem hafa náð góðum árangri í rannsóknum, mælt í aflstigum, sbr. 1. tl. 2. mgr. 6. gr. reglna um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskólann á Akureyri nr. 1010/2016 til að losa þá undan kennsluskyldu að hluta, til að gera þeim betur kleift að vinna að tilteknum, vel skilgreindum, verkefnum á sviði rannsókna. Með góðum árangri er átt við að lektorinn eða dósentinn hafi aflað sér 30 aflstiga eða fleiri á sl. þremur til fimm árum. Sé um fleiri en einn umsækjanda að ræða innan hvers fræðasviðs, sem náð hafa þessum árangri, skulu umsækjendur hafa forgang sem hafa unnið sér inn flest aflstig þegar tekin er ákvörðun um styrkveitingu.
 

b) Tilnefningarleið

Forseta fræðasviðs er heimilt að gera tillögu um að einstakir lektorar eða dósentar, þrátt fyrir að þeir uppfylli ekki skilyrði samkvæmt stigaleiðinni, hljóti tímabundna tilfærslu vinnuskyldu frá kennslu til rannsóknaverkefna eða verkefna sem miða að því að efla rannsóknastarf og rannsóknasamstarf. Með hverri slíkri tillögu skal fylgja rökstuðningur frá forseta fræðasviðs um hæfni kennara til að vinna að hinum tilteknu verkefnum. Við mat umsókna, samkvæmt tilnefningarleið, skulu umsækjendur uppfylla a.m.k. eitt af eftirfarandi skilyrðum:
 
 1. Umsækjandi hefur nýverið hlotið háa styrki til rannsókna úr samkeppnissjóðum.
 2. Rit umsækjanda hafa nýlega verið birt í virtum ritrýndum tímaritum eða hjá virtum forlögum á viðkomandi fræðasviði.
 3. Umsækjandi hefur nýverið hlotið eftirsótt verðlaun á fræðasviði sínu.
 4. Umsækjandi hefur sýnt afburðaárangur í rannsóknum sínum og rannsóknir hans vekja mikla athygli.
 5. Umsækjandi þarf að verja umtalsverðum tíma í að undirbúa umsókn um styrk í samkeppnissjóð t.d. innan Horizon Europe.
 6. Framlag umsækjanda í þágu skólans/sviðsins/deildarinnar svo sem á sviði kynningar eða eflingar tengslanets er umtalsvert.
Stjórn sjóðsins skal miða við að a.m.k. 80% úthlutunar hverju sinni sé vegna kennara sem uppfylla skilyrði skv. a-lið 1. mgr. 14. gr., stigaleið. Lektor eða dósent sem sækir um styrk samkvæmt stigaleið skal framvísa undirritun forseta síns fræðasviðs þar sem hann vottar að umsóknin sé með vitund hans.
 
Miðað er við að hvort fræðasvið fái hlutdeild í heildarúthlutun í samræmi við fjölda rannsóknastiga allra akademískra starfsmanna miðað við síðastliðin þrjú ár, þó þannig að tryggt verði að hvort fræðasvið háskólans fái a.m.k. 1/10 úthlutana ár hvert eftir stigaleið, sbr. a-lið 1. mgr. 14. gr. Tilfærsla vinnustunda frá kennslu til rannsókna getur að jafnaði verið fjórðungur kennsluskyldu viðkomandi kennara. Stjórn sjóðsins er þó heimilt að ákveða annað hlutfall þegar sérstaklega stendur á. Ef sjóðurinn er ekki nýttur í það sem hann er veittur til, getur forseti fræðasviðs sótt um til sjóðsins að nýta féð í þágu annarra lektora eða dósenta í samræmi við ákvæði 2. – 5. mgr. 13. gr. Lektor eða dósent sem nýtur tilfærslu þarf að kenna meira en sem samsvarar helmingi af veittum kennsluafslætti auk nýrrar kennsluskyldu áður en yfirvinna vegna kennslu myndast.
 
Sjóðurinn veitir viðkomandi fræðasviði styrk sem nemur áætluðum meðaltalskostnaði við tilfærslu starfsþátta kennara. Stjórnin ákveður árlega hver skuli teljast meðaltalskostnaður vegna tilfærslu, sem nemur fjórðungi kennsluskyldu.
 
Stjórn sjóðsins getur sett sér nánari vinnureglur sem háskólaráð staðfestir.
 
Sæki stjórnarmaður um styrk úr sjóðnum skal hann ekki taka þátt í meðferð umsókna og afgreiðslu og varamaður tekur sæti hans. Á sama hátt víkur starfsmaður Vísindasjóðs úr umsýslu ef hann á sjálfur aðild að umsókn. Að öðru leyti gilda almennar reglur um vanhæfi samkvæmt II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

15. gr. Útgáfusjóður

Stjórn Vísindasjóðs Háskólans á Akureyri fer með stjórn Útgáfusjóðs Háskólans á Akureyri og úthlutar styrkjum í samræmi við reglur þessar. Senda skal umsókn til Vísindasjóðs (visindasjodur@unak.is) á sérstöku eyðublaði ásamt fylgigögnum. Starfsmaður sjóðsins auglýsir umsóknarfrest með mánaðar fyrirvara þar sem fram kemur hver heildarupphæðin er sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar. Hver styrkur getur alla jafna ekki numið hærri upphæð en þriðjungi þeirrar heildarupphæðar.
 
Umsóknarfrestur rennur út 15. febrúar ár hvert. Sé afgangur af sjóðnum eftir þá úthlutun skal auglýsa aftur með umsóknarfrest til 15. september. Stjórnin skal hafa lokið afgreiðslu umsókna eigi síðar en 15. mars/15. október ár hvert.
 
Útgáfusjóði er ætlað að styrkja útgáfu ritrýndra fræðigreina í opnum aðgangi eða ritrýndra rita sem umsækjendur standa að sem höfundar eða ritstjórar. Einnig er heimilt að styrkja umsóknir um einkaleyfi. Leitast skal sérstaklega við að styrkja verkefni sem efla Háskólann á Akureyri, auka sýnileika hans í samfélaginu eða miðla nýrri þekkingu til almennings eða vísindasamfélagsins.
 
Heimilt er að sækja um styrk þegar verkefni er tilbúið til útgáfu, fræðigrein samþykkt til útgáfu eða til umsóknar einkaleyfis. Hver styrkur getur aldrei numið meiru en þriðjungi þeirrar upphæðar sem veitt er til sjóðsins á hverju ári og enginn einn umsækjandi getur fengið hærri upphæð á árinu. Úthlutun skal liggja fyrir tveimur mánuðum eftir að umsókn er lögð fram.

16. gr. Úthlutunarreglur Útgáfusjóðs 

Rétt til að sækja um styrk í útgáfusjóð hafa aðjúnktar, lektorar, dósentar, prófessorar og sérfræðingar sem ráðnir eru við Háskólann á Akureyri og eru höfundar eða ritstjórar þeirra rita sem lýst er í styrkumsókninni. Lektorar, dósentar og prófessorar sem voru við störf við háskólann þegar þeir hófu töku lífeyris geta einnig sótt um fé úr sjóðnum. Sérfræðingar skulu hafa rannsóknir að aðalstarfi eða vera á launum af föstum fjárveitingum eða styrkjum til Háskólans á Akureyri. Styrkhæfir eru einnig sérfræðingar stofnana/fyrirtækja sem gert hafa sérstakan samning við Háskólann á Akureyri um aðgang að sjóðnum. Í umsókn skal gera grein fyrir:
 
 1. Fræðilegu gildi verksins.
 2. Rannsóknahagsmunum og tengingu við starfsemi HA.
 3. Hvort verkið njóti styrkja eða fyrirgreiðslu frá öðrum aðilum.
Með umsókn þarf að fylgja fullbúið handrit ásamt útgáfu og kostnaðaráætlun sem staðfest hefur verið af viðurkenndu forlagi, t.d. Háskólaútgáfunni. Að öðru jöfnu skulu ritrýnd handrit sem munu skila HA rannsóknarstigum hafa forgang.
 
Stjórn Vísindasjóðs Háskólans á Akureyri úthlutar styrkjum á grundvelli umsókna í samræmi við reglur þessar. Umsækjendum skal tilkynnt skriflega um afgreiðslu umsóknar og þar á meðal styrkupphæð og önnur skilyrði varðandi styrkinn. Styrkir verða ekki greiddir út fyrr en viðkomandi rit er fullbúið og tilbúið til prentunar eða þegar tímaritsgreinar hafa verið samþykktar til birtingar. Styrkir eru greiddir út gegn framvísun reikninga.

17. gr. Bókfræðilegar kröfur

Sé um að ræða útgefið bókrit á vegum viðurkennds forlags þarf merki HA að koma þar skýrt fram, en að öðru leyti skal fylgt hefðbundnum útgáfu skilyrðum. Sé um annars konar efni að ræða sem er birt sérstaklega þarf að koma fram skýr tilvísun í styrk frá HA.
 
Bókfræðilegar upplýsingar þurfa að fylgja umsókn, sé hún ekki á vegum viðurkennds forlags. Ritið þarf að fullnægja bókfræðilegum kröfum, vera yfirfarið af starfsmönnum Bókasafns- og upplýsingaþjónustu HA og vera merkt Háskólanum á Akureyri með greinilegum hætti.
 
Bókasafns- og upplýsingaþjónusta útdeilir ISBN (International Standard Book Number) númerum. Hægt er að sækja um ISBN númer með því að senda inn beiðni á netfangið bsha@unak.is. Með beiðninni þurfa að fylgja bókfræðilegar upplýsingar um útgáfuna, t.d. titill, höfundur/ritstjóri, útgefandi og hvenær áætlað er að ritið komi út.
 
Bókfræðilegar upplýsingar sem þurfa að vera til staðar:
 

a) Bókfræðilegar upplýsingar á titilsíðu

 1. Titill.
 2. Höfundar/ritstjórar.
 3. Merki HA.

b) Bókfræðilegar upplýsingar á baksíðu titilsíðu

 1. Útgefandi.
 2. Útgáfustaður.
 3. Höfundarréttur.
 4. Útgáfuár.
 5. Prentun/dreifing.
 6. ISBN.
 7. ISSN (ef það á við).
 8. Hver styrkir útgáfu bókarinnar – heiti sjóðsins.
 9. Höfundar.
 10. Ritstjórar.
 11. Ritrýnar – ef við á.
 12. Varanleg slóð á rafbók eða doi númer/slóð.

c) Baksíða

 1. 1. Merki HA.
 2. 2. ISBN númer með strikakóða.

d) Kjölur

 1. Merki HA.
Sæki stjórnarmaður um styrk úr sjóðnum skal hann hvorki taka þátt í meðferð umsókna néafgreiðslu og varamaður taka sæti hans. Á sama hátt víkur starfsmaður Vísindasjóðs úr umsýslu ef hann á sjálfur aðild að umsókn. Að öðru leyti gilda almennar reglur um vanhæfi samkvæmt II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

18. gr. Gildistaka 

Reglur þessar, sem settar eru með stoð í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla og reglum nr. 694/2022 fyrir Háskólann á Akureyri, öðlast þegar gildi.
 
Háskólanum á Akureyri, 22. júní 2023.
Eyjólfur Guðmundsson rektor.