Brautskráning

Mynd frá Háskólahátíð 2024

Brautskráning er einn af stóru dögunum í lífi þínu. Ávinningnum er náð og tími er til að fagna.

Háskólinn á Akureyri brautskráir stúdenta þrisvar sinnum á ári: í október, febrúar og júní.

Tvær brautskráningarhátíðir eru haldnar ár hvert: Háskólahátíð í júní og Vetrarbrautskráning í febrúar. Í febrúar fögnum við brautskráningu kandídata sem luku námi í október og febrúar.

Verkefnalisti fyrir stúdenta sem eru að ljúka námi:

  1. Mikilvægt er að þú skráir að þú hyggist ljúka námi. Skráning vegna brautskráningar fer fram í Uglu, hjá nemendaskrá og verkefnastjórum deilda
  2. Kannaðu hvort þú standist allar kröfur sem gerðar eru til brautskráningar. Til dæmis er ekki hægt að brautskrást ef þú ert í skuld við Bókasafn HA eða átt eftir að skila lokaverkefni í Skemmuna
  3. Önnur mikilvæg skráning er að þú þarft að skrá hvort þú ætlir að mæta eða ekki mæta á brautskráningarhátíð
  • Þú getur séð allar mikilvægar dagsetningar í kennslualmanaki háskólans.

Prófskírteini og viðaukar

Útskriftarskírteini

Við brautskráningu færðu afhent útskriftarskírteini og afrit af námsferli á íslensku og ensku.

Geymdu skírteinin vel því að þau eru ekki endurútgefin ef þau týnast.

Ef þú hefur ekki kost á því að mæta á brautskráninguna ert þú beðin/inn um að senda beiðni á nemendaskrá um að fá prófskírteinið sent í bréfpósti. Þú getur óskað eftir því að fá skírteinið þitt afhent í afgreiðslu háskólans eða sent í pósti.

Skírteinisviðauki

Þú færð skírteinisviðauka afhentan með útskriftarskírteini. Viðaukinn er á íslensku og ensku. Í viðaukanum er greinargóð lýsing á náminu þínu og stutt lýsing á íslensku menntakerfi og uppbyggingu þess.

Ef þú sækir um skólavist í erlendum háskólum þarftu oftast að senda afrit skírteinisviðauka með umsókn.

Vottun á skírteinisviðauka

Háskólinn á Akureyri fékk árið 2012 Diploma Supplement vottun (DS Label).

Vottunin þýðir að skírteinisviðaukinn sem stúdentar háskólans fá við brautskráningu er samkvæmt fyrirmælum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (European Commisson).

Viðaukanum er ætlað að veita hlutlægar upplýsingar um námið í HA. Markmiðið er að bæta alþjóðlegt „gegnsæi“ og stuðla þannig að viðurkenningu náms frá HA hjá menntastofnunum, alþjóðlega og á vinnumarkaði.

Kynntu þér upplýsingar um Diploma Supplement Evrópusambandsins.

Hvað ef ég mæti ekki á brautskráningarhátíð?

Ef þú sérð þér ekki fært að mæta á brautskráningarhátíð á Akureyri færðu prófskírteinið þitt sent á lögheimili. Þú þarft að huga að sömu atriðum og eru listaðar upp í verkefnalistanum hér að ofan til að ljúka námi.

Þeir kandídatar sem brautskrást í október fá allir prófskírteini sín send á lögheimili og eru hvattir til að fagna áfanganum á Vetrarbautskráningu í febrúar. 

Brautskráningarhátíð Háskólans á Akureyri

Hér getur þú lesið meira um hátíðina.