Umhverfismál

Húsnæði HA

Umhverfismál eru í forgangi hjá okkur í Háskólanum á Akureyri. Við ætlum okkur langt og stefnum að fullu kolefnishlutleysi fyrir árið 2023.

Háskólinn á Akureyri er fyrsti háskóli landsins til að hljóta Grænfánann.

Við í HA erum að innleiða Græn skref til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum í daglegum rekstri. Við höfum nú uppfyllt fyrstu fjögur skrefin og erum fyrsti háskólinn á Íslandi til að ná þeim áfanga.

Við hlökkum til vinna enn betur að eflingu umhverfisstarfs háskólans!

Við flokkum

Í háskólanum eru nemendur, kennarar og starfsfólk til fyrirmyndar. Það flokka allir ruslið eftir sig og setja í sérmerktar ruslafötur.

Flokkarnir eru sjö:

 1. Pappír og sléttur pappi
 2. Skilagjaldskyldar umbúðir
 3. Plast
 4. Fernur og pappamál
 5. Almennt heimilissorp
 6. Lífrænt heimilissorp
 7. Gler og málmar

Engar ruslafötur eru í stofum og fundarherbergjum. Þú tekur þitt rusl bara með þér og hendir á næstu flokkunarstöð.

Grænfáninn

Háskólinn á Akureyri er fyrsti háskóli landsins til að hljóta Grænfánann. Fáninn er veittur fyrir góða umhverfisvitund. Hann var afhentur háskólanum við formlega athöfn 16. september 2013. Háskólinn fékk Grænfánann afhentan í annað sinn 2017

Markmið Grænfánaverkefnisins eru að:

 • Bæta umhverfi skólans, minnka úrgang og notkun á vatni og orku
 • Efla samfélagskennd innan skólans
 • Auka umhverfisvitund með menntun og verkefnum innan kennslustofu og utan
 • Styrkja lýðræðisleg vinnubrögð við stjórnun skólans þegar teknar eru ákvarðanir sem varða nemendur
 • Veita nemendum menntun og færni til að takast á við umhverfismál
 • Efla alþjóðlega samkennd og tungumálakunnáttu
 • Tengja skólann við samfélag sitt, fyrirtæki og almenning

Græn skref

Græn skref

Við í HA hófum undirbúning að þátttöku í Grænum skrefum árið 2019. Ári seinna uppfylltum við öll skilyrði til að fá viðurkenningu á skrefi 2 og eigum nú aðeins fimmta skrefið eftir.

Markmið og flokkar verkefnisins

Verkefnið snýst um að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi háskólans og efla umhverfisvitund starfsmanna.

Með þátttöku í Grænum skrefum gefst okkur tækifæri á að innleiða öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti. Verkefnið er skipt upp í fimm skref. Hvert skref inniheldur á bilinu 20-40 aðgerðir sem stofnanir þurfa að innleiða.

Markmið:

 • Draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum
 • Efla umhverfisvitund starfsmanna
 • Auka vellíðan starfsmanna og bæta starfsumhverfi þeirra
 • Draga úr rekstrarkostnaði

Flokkar:

 • Rafmagn og húshitun
 • Samgöngur
 • Flokkun og minni sóun
 • Innkaup
 • Viðburðir og fundir
 • Miðlun og stjórnun

Grænu kennsluverðlaunin

Verðlaunin eru veitt kennurum sem hafa tvinnað umhverfisvernd inn í námskeiðin sín.

2021

Brynhildur Bjarnadóttir, dósent við Kennaradeild

Brynhildur fær verðlaunin fyrir námskeiðið sitt Raunvísindi í námi og leik. Í námskeiðinu er unnið með hugtakið sjálfbærni í víðum skilningi. Stúdentar læra um vistkerfi jarðar, sjálfbæra lífshætti og þau áhrif sem þeir hafa á umhverfi sitt. Unnið er verkefni þar sem stúdentar greina sín eigin viðhorf, gildi og hegðun, ásamt því að skoða eigin neysluvenjur. Þá læra stúdentarnir að reikna út eigið vist- og kolefnisspor, vinna að leiðum til úrbóta og setja fram hugmyndir um breytingar á sínum eigin neysluvenjum til að takast á við umhverfis- og loftslagsvanda framtíðarinnar. Samfara greiningu á eigin lífsstíl tengja stúdentarnir þessi viðfangsefni við skólastarf í leik- og grunnskólum og skoða leiðir til að vinna með þessi hugtök á öðrum skólastigum.

Rachael Lorna Johnstone, prófessor við Lagadeild

Rachael fær verðlaunin fyrir Inngangsnámskeið í norðurslóðafræði og Norðurskautsráðið að störfum. Inngangsnámskeið í norðurslóðafræði kynnir stúdentum í Heimskautaréttir fyrir ýmsum verkfærum og aðferðum til að takast á við áskoranir Norðurslóða, þar á meðal loftslagsbreytingar, mengun, líffræðilegan fjölbreytileika, ferðaþjónustu, náttúruauðlindanotkun og skilningar. Í námskeiðinu Norðurskautsráðið að störfum eiga stúdentar í samskiptum við aðra af norðurheimskautssvæðinu um fundi Norðurskautsráðsins þar sem þau meðal annar semja um samvinnuaðgerðir til að takast á við umhverfisvandamál á Norðurslóðum. Umræður þessa árs voru sjávarplast og verndarsvæði.

2022

 

Græn kennsluverðlaun 2022

Sólveig Zophoníasdóttir og meðumsækjendur Áskell Örn Kárason, Bjarni Jónasson og Brynhildur Bjarnadóttir

Sólveig, Áskell Örn, Bjarni og Brynhildur fá verðlaun fyrir námskeiðin Nám og starf með upplýsingatækniRaunvísindi í námi og leikSiðfræði, hugmyndir og skólar og Þroskakenningar, nemendur og nám. Í námslotum kennaranema á fyrsta ári í kennarafræði er unnið út frá þemanu sjálfbærni í öllum námskeiðum og vinna nemandurnir saman í hópum að verkefnum tengdum sjálfbærni undir leiðsögn kennara.

Sean Michael Scully, aðjúnkt við Auðlindadeild

Sean fær verðlaunin fyrir Líftæknilega örverufræði. Í námskeiðinu er fjallað um notkun örvera til að framleiða nytsamleg efni og efnasambönd, allt frá sýklalyfjum og próteinum til lífeldsneytis og virkra lyfjaefna, úr endurnýjanlegu hráefni. Lögð er áhersla á sjálfbæra nýtingu lífmassa sem orkugjafa við örveruræktun í framleiðslu lífrænna lokaafurða. Stúdentar þurfa að takast á við marglaga verkefni sem felst í því að mynda og/eða framleiða nytsamlegar lífsameindir með hjálp heilla frumna eða ensímkerfa. 

 

Græn ritgerðarverðlaun

Umhverfisráð og Kennslumiðstöð vilja auka magn grænna rannsókna meðal stúdenta, þ.e.a.s. við viljum heiðra stúdenta sem taka sjálfbærni sem viðfangsefni inn í lokaritgerðir sínar. Með því að stunda rannsóknir á sjálfbæran hátt eða jafnvel með því að fella sjálfbærniefni inn í ritgerðir getum við skipt sköpum.

2022

Ásta G. Birgisdóttir

Ásta fær verðlaun fyrir ritgerðina SAD in the Summer

Ivan Nikonov

Ivan fær verðlaun fyrir ritgerðina Using macroalgal cultivation system in wastewater bioremediation: a case study of Bolungarvík, Iceland

Lisa Wrogemann

Lisa fær verðlaun fyrir ritgerðina Production of biodegradable Bioplastic based on PHA produced by bacteria isolates from Iceland

Oddur Einarsson

Oddur fær verðlaun fyrir ritgerðina Greining á kolefnisspori uppsjávarafurða

Pálína Björg Snorradóttir

Pálína Björg fær verðlaun fyrir ritgerðina Þjónustuupplifun Olís - uppfærsla vörumerkis og innleiðing

Salvör Káradóttir

Salvör fær verðlaun fyrir ritgerðina Biomass to carboxylic acids: A better route to sustainable chemical building blocks

Silja Hrönn Hlynsdóttir

Silja Hrönn fær verðlaun fyrir ritgerðina Microbial Production of Enantiomerically Pure 1,2-Propanediol

Særún Anna Brynjarsdóttir

Særún Anna fær verðlaun fyrir ritgerðina Rafrænt eftirlit - Innleiðing rafræns eftirlits í fiskveiðiflotann á Íslandi

Torfi Agnar Jónsson

Torfi Agnar fær verðlaun fyrir ritgerðina Þjónustuupplifun Olís - uppfærsla vörumerkis og innleiðing