Kennslumiðstöð háskólans á Akureyri (KHA) veitir ráðgjöf til kennara um þróun kennsluhátta í sveigjanlegu námi sem og um upplýsingatækni og kennslufræði.
Kennslumiðstöð aðstoðar nemendur og starfsfólk á sviði upplýsingatækni og tölvumála. Tölvukerfi og búnaður háskólans er í umsjón KHA.
Afgreiðslutími
- Virka daga kl. 8.00 - 16.00
Getum við aðstoðað?
Rafræna þjónustuborðið tekur við beiðnum um verkefni, lausnir á vandamálum og ráðgjöf.
- Þjónustuborð KHA er staðsett á 1. hæð við K-gang. Þar getur þú fengið tækniaðstoð. Símanúmer er 4608070.
Hjálparsíða
Á hjálparsíðu KHA eru gagnlegar leiðbeiningar:
Aðstoð og ráðgjöf - Opnir tímar á Kennslumiðstöð.
KHA bíður upp á opna tíma alla virka daga frá kl. 11:00 til 12:00. Á þessum tíma verður hægt að koma og fá aðstoð og ráðgjöf á kerfum og forritum sem háskólinn er að þjónusta, án þess að bóka tíma
Verkefni Kennslumiðstöðvar
Kennslukerfi háskólans
Kennslumiðstöð hefur umsjón með kennslukerfi háskólans og aðstoðar nemendur og starfsfólk við notkun þess. Aðstoðin felst í ráðgjöf og námskeiðum um notkun og nýjungar í kerfinu.Í dag notar háskólinn kennslukerfið Moodle og vinnur að innleiðingu á kennslukerfinu Canvas. Innleiðing á Canvas hófst haustið 2019 á fyrsta ári fyrir tvö svið í grunnnámi, Heilbrigðisvísindasvið og Viðskipta og raunvísindasvið. Haustið 2020 mun innleiðing á fyrsta ári hjá Hug og félagsvísindasvið mun síðan hefjast ásamt fyrsta ári í meistaranámi.
Kennsluráðstefna KHA
Ráðstefnan er haldin árlega og er þema hennar Hvað er góð háskólakennsla? Ráðstefnan er auglýst í viðburðadagatali háskólans hér á vefnum.
Ráðstefnan er kjörinn umræðuvettvangur fyrir háskólakennara til að þróa hugmyndir sínar um bætta kennslu. Kennarar við Háskólann á Akureyri eru hvattir til að þróa námskeið sín og nota fjölbreyttar og nútímalegar kennslu- og námsaðferðir við miðlun námsefnis.
Kennarar frá öðrum háskólum eru velkomnir á ráðstefnuna.
Þróunarnámskeið
Kennarar sem vilja þróa námskeið sín eru hvattir til að hafa samband við starfsmenn KHA með því að senda inn beiðni. Saman förum við yfir markmið og uppsetningu námskeiðisins. Í framhaldi hittumst við svo reglulega til að aðstoða og þróa námskeiðið enn frekar.
Vinnustofur
Kennslumiðstöð heldur vinnustofur einu sinni í mánuði á hverju misseri. Þá kemur fólk saman til að miðla af eigin reynslu og þekkingu og aflar sér fróðleiks frá öðrum þátttakendum. Einnig eru stofurnar kjörið tækifæri til að kynna sér hugbúnað og tækni sem notuð er við kennslu í HA.
Fjærverur
Fjærverurnar gera nemendum í sveigjanlegu námi kleift að fara um háskólabygginguna og eiga þar samskipti við samnemendur og kennara þrátt fyrir að vera staddir annars staðar á landinu eða jafnvel erlendis. Nemendur og kennarar geta mætt í fjærveru á fundi, kynningar og í kennslu eða tekið þátt í hópavinnu.
Nemendum gefst kostur á að mæta í fjærveru ef umsjónarkennari heimilar notkun á fjærveru í kennslustund.
Almenn námskeið
Kennslumiðstöð heldur reglulega námskeið þar sem tekin eru fyrir einstök atriði sem tengjast kennslu, námsmati og hug- og tækjabúnaði. Þessi námskeið eru auglýst sérstaklega.
Ráðgjöf
Hægt er að bóka tíma með starfsfólki Kennslumiðstöðvar til að leita ráða um atriði sem ýmist tengjast kennslufræðilegum atriðum eða margmiðlunar-, tækja- og hugbúnaðarlausnum.
Kennslustofur
Kennslumiðstöð hefur umsjón með búnaði í kennslustofum háskólans og veitir starfsfólki tækniaðstoð við upptökur ef þess er óskað.
Myndver kennslumiðstöðvar
Myndverið tekur að sér verkefni sem tengjast miðlun á efni í hljóð og mynd. Starfsmaður myndversins ráðleggur kennurum og starfsmönnum um miðlun efnis bæði tækni- og kennslufræðilega.
Umsjónarmaður myndvers er Helgi Freyr Hafþórsson.
Hvaða verkefni tekur myndver að sér?
Myndver tekur meðal annars að sér:
- Gerð kennsluefnis í formi myndbanda
- Upptökur á myndefni fyrir námskeið
- Lagfæringar á upptökum
Hvernig er sótt um aðstoð?
Sótt er um rafrænt og í umsókninni þarf að koma fram:
- Góð greinargerð um hvað verkefnið felur í sér
- Innihaldslýsing á þeim efnivið sem á að nota
- Tímarammi sem tilgreinir hvenær verkefnið þarf að vera tilbúið
Afgreiðsla umsókna
Þegar búið er að fara yfir umsókn mun umsjónarmaður myndvers hafa samband. Farið er yfir vinnuna á bak við verkefnið og þann undirbúning sem verkefnið þarfnast.