Ávarp rektors á Háskólahátíð 2022

Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, Háskólahátíð 2022

ÁVARP REKTORS, EYJÓLFS GUÐMUNDSSONAR, Á HÁSKÓLAHÁTÍÐ HÁSKÓLANS Á AKUREYRI, 15. JÚNÍ 2019:

Kæru kandídatar

Hingað erum við komin og við getum öll verið stolt af því. Síðustu ár hafa verið tímabil áskorana, stórra sem smárra, og hvort sem við lítum til hvers og eins ykkar, eða til hópsins alls, þá er það afrek að við skulum öll vera hér í dag.

Kæru landsmenn, gestir nær og fjær

Árið 1918 lagðist á heimsbyggðina alla faraldur, nefndu spænska veikin. Faraldur sem í grunninn var ekki ósvipaður Kóvinu. En á grunni þekkingar sem fengin er með vísindalegum rannsóknum – ásamt nýjustu tækni til greiningar á veirum og framleiðslu bóluefna – hefur heiminum tekist að komast í gegnum Kóvið með mun betri og öruggari hætti en við upphaf 20. aldarinnar. Höfum það hugfast að það eru vísindin sem gerðu okkur það kleift og leyfir okkur að koma saman á ný.

Baráttan við veiruna er sönnun þess að við leysum ekki vandamál nútímans nema með öflugum rannsóknum, þverfræðilegri nálgun (þríeykið) og víðtæku alþjóðlegu samráði. Við vitum líka að við þurfum að taka sameiginlega ábyrgð á okkar eigin hegðan og fylgja fyrirmælum stjórnvalda - fyrirmælum sem byggð eru á vísindalegum grunni með þekkingu á góðri stjórnsýslu í frjálsu, opnu samfélagi sem getur tekið heiðarlegt og gagnrýnið samtal á hverjum og einum tíma. (þríeykið)

Væri nú kannski betra að til væri bóluefni við valdsýki og ofbeldishneigð mannskepnunnar svo unnt væri að vinna gegn núverandi ógn sem að okkur steðjar í formi stríðs og ófriðar í heiminum.

Give peace a chance!

Ágætu kandídatar,

Eitt af því sem faraldurinn hefur kennt okkur er að kunna að meta það frelsi sem við öll höfum í okkar lýðræðissamfélagi. Sú skerðing á frelsi sem varð að vera á verstu dögum faraldursins sýndi okkur að slíkt ástand myndum við almennt ekki vilja búa við – og samt eru samfélög í heiminum í dag þar sem frelsi einstaklingsins er verulega takmarkað. Þið hafið nú reynt það á eigin skinni hversu dýrmætt þetta frelsi er. Það er því mjög mikilvægt að þið deilið þessari reynslu með framtíðarkynslóðum sem vonandi munu ekki upplifa slíkt hið sama, og gætið þess að gleyma ekki erfiðleikum faraldursins.

Og þó svo að þið séuð ekki að hugsa um það í dag þá verður þessi reynsla hluti af þeim sögum sem þið segið börnum ykkar og barnabörnum. Já – “ég lifði í gegnum Kóvið”, munið þið segja með tilheyrandi frægðarsögum sem að sjálfsögðu stækka eftir því sem lengra líður.

Ágætu kandídatar og góðir gestir, nær og fjær

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott sungu Ellý og Vilhjálmur einhverntíman á síðustu öld.

Hin stafræna bylting fór á yfirsnúning í faraldrinum og öll teikn eru á lofti um að sú þróun sem þegar var hafin hafi orðið mun hraðari en ella. Þetta gjörbreytir heiminum. Fólk mun í auknum mæli velja búsetu út frá öðrum skilyrðum en beinu aðgengi að starfi, þar sem stór hluti af störfum framtíðarinnar verður óháður staðsetningu. Þetta mun hafa áhrif á þróun byggðarlaga, landshluta, landa og þjóðfélaga í heild sinni. Að öðlast aðgengi að góðri vinnu mun ekki snúast um að vera á tilteknum stað – en sú forsenda – þ.e. staðsetning — var í raun lykilbreyta í þróun nútímasamfélagsins á tuttugustu öldinni. Fólk hópaðist saman þar sem verslun, viðskipti, menntun og listir voru til staðar. Hvernig verður þróunin þegar hægt verður að stunda allt þetta með rafrænum hætti? Hvar munuð þið kjósa að búa? Því valið verður ykkar!

Iðnbylting 18. og 19. aldar tók u.þ.b. 200 ár. Næsta bylting fólst í nýtingu sprengihreyfilsins fyrir almennar samgöngur og flug og varði í tæp 100 ár (Concorde), ásamt innleiðingu rafmagns og fjarskipta. Þriðja byltingin sneri að fyrstu tölvunum og rafeindatækni og urðu mestu breytingarnar á fyrstu 50 árunum. Fjórða iðnbyltingin sem hófst í raun með almennri notkun á internetinu hefur nú varað í rétt 20 ár og mun kannski vera hér í önnur 10, en hefur samt valdið gríðarlegum breytingum á lífi okkar og tækifærum. Sú fimmta – þar sem við samtvinnum hið mennska og hið mekaníska, gervigreind og mannlega vitund, mun taka enn styttri tíma. Rannsóknir eru lykillinn að velgengi í þeirri byltingu fyrir hvaða samfélag sem er.

Mörgum þykja þessar breytingar erfiðar og sakna nú þegar einhvers sem var. Jafnvel er fólk sem streitist á móti þessum tæknibreytingum og lítur á þróunina sem afturför. En þannig hefur það ávallt verið í mannkynssögunni — að breytingum er mætt með tortryggni og efa – en breytingar hafa samt orðið og svo mun einnig verða núna. Stóra spurningin er bara hvernig ætlar íslenskt samfélag að nýta tækifærin sem felast í þessum breytingum? Það mun ekki gerast sjálfkrafa og er nauðsynlegt að mörkuð sé skýr stefna. Þess vegna hefur verið mjög ánægjulegt að sjá að í nýrri skipan ráðuneytis háskólamála og með nýjum ráðherra þess málaflokks hefur hugmyndafræðin um nýsköpun, hugverk og fulla þátttöku í þessum nýja stafræna heimi orðið ofan á – eins og má einnig sjá í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar en þar er einmitt lögð rík áhersla á fjarnám háskóla – sem reyndar er réttast að tala um í dag sem stafræna miðlun náms. Ég vil hvetja ykkur kandídatar góðir til að verða leiðtogar í þeim breytingum sem framundan eru.

Háskólinn á Akureyri hefur verið í fararbroddi þessara breytinga um tuttugu ára skeið. Skólinn hefur eflst mjög með því að bæta aðgengi landsmanna allra að háskólanámi og eru í dag um 2500 stúdentar af landinu öllu sem stunda hér nám – og reyndar er hluti þeirra Íslendingar sem búa erlendis. Á sama tíma hafa rannsóknir eflst og eru nú á pari við það besta hjá öðrum háskólum hér á landi. Þá hefur Háskólinn á Akureyri farið í gegnum tvær stofnanaúttektir á vegum Gæðaráðs háskólanna síðan árið 2013 þar sem fram hefur komið traust til Háskólans á Akureyri hvað varðar námsgráður og námsumhverfi — og nú síðast áframhaldandi hvatning til að stækka nýtt doktorsnám okkar enn frekar. Háskólinn á Akureyri hefur jafnframt komið vel út í starfsmannakönnun Stofnunar ársins og verið þar hæstur meðal opinberra háskóla. Það er sama hvort litið er til þjónustukannanna á vegum hins opinbera, niðurstöðu ríkisendurskoðunar um rekstur skólans og ekki síst kannana á meðal stúdenta okkar. Allsstaðar er Háskólinn á Akureyri að ná góðum árangri.

Kæru landsmen

Við getum öll verið stolt af Háskólanum á Akureyri. Háskólinn er landsmanna allra og líklegast ein best heppnaða aðgerð stjórnvalda til þess að stuðla að breytingum og nýjum tækifærum í íslensku háskólaumhverfi ásamt því að sýna að hægt er að byggja upp öflugar stofnanir frá grunni utan Vatnsmýrarinnar.

Kæru Kandídatar,

Eitt af því skemmtilegasta í mínu starfi er þegar ég sest niður og skrifa nafn mitt undir brautskráningarskírteinin. En hvað þýðir þessi undirskrif og þetta skírteini?

Undirskrift mín er staðfesting á öllu því frábæra starfsfólki sem starfar við Háskólann á Akureyri, öllu því fræðafólki sem stundar sínar rannsóknir og miðlar niðurstöðum til ykkar, allri þeirri umgjörð sem þið njótið á meðan á námi stendur, þar með talinni þátttöku ykkar í formlegu starfi deilda og stúdentaráðs – Í raun er öll þessi vinna ykkar og háskólasamfélagsins samankomin í þessari staðfestingu – þessari undirskrift.

Við hverja undirskrift renni ég yfir nafn, fæðingardag, fæðingarár og heiti námsgráðu. Ég sé með þeim hætti hversu fjölbreyttur hópur þið eruð, þegar tillit er tekið til aldurs, fjölbreytileika námsgráða og á síðustu árum með sífellt alþjóðlegri blæ. Brautskráningarskírteinið er miklu meira en bara blek á pappír – það er viðurkenning á því að ykkur hefur tekist að ná markmiðum samkvæmt stöðlum háskóla sem er fullgildur meðlimur í samfélagi alþjóðlegra háskólastofnanna. Ég er ákaflega stoltur af hverju einu og einasta ykkar og samgleðst þeim góða árangri sem þið hafið náð með því að vera hér í dag.

Kæru landsmenn,

Íslenskt háskólakerfi hefur vaxið og dafnað á þessari öld. Við Háskólann á Akureyri eru stundaðar rannsóknir sem veita okkur sífellt betri innsýn inn í flókin veruleika alheimsins og ekki síður hið flókna samfélag mannkynsins. En í gegnum allar þessar breytingar eru ákveðin grunngildi sem standa upp úr og er vert að við stöndum vörð um. Í fyrsta lagi er það frelsið til að spyrja spurninga og rýna með gagnrýnum hætti í samfélagið á hverjum tíma. Þar bera háskólar mikla ábyrgð á að slíkt sé gert með vísindalegum aðferðum og sett fram með hætti sem unnt er að ræða í samhengi við samfélagið allt. Frelsi til athafna og starfa með skýrri samfélagslegri ábyrgð er jafnframt lærdómur sem hefur kennt okkur hver besta leiðin sé til framfara – og þar má horfa til markmiða Sameinuðu Þjóðanna sem leiðarvísis um hvernig við sjáum fyrir okkur réttláta og bjarta framtíð mannkyns alls. Háskólar eru því lykilstofnanir svo Ísland megi dafna enn frekar á næstu áratugum -- enn við verðum líka að hafa hugrekki til að spyrja okkur hvort háskólarnir í núverandi mynd muni skila þeim árangri sem íslenskt samfélag þarf til framtíðar eða hvort breytinga sé þörf?

Ágætu Kandídatar,

Þið hafið nú lokið bakkalárgráðu á ykkar fagsviði. Það er árangur sem ekki er sjálfgefinn og þið hafið fórnað miklu til að ná – en þið munuð uppskera ríkulega í framtíðinni.

Stefnið ótrauð fram á við en gleymið ekki skyldum ykkar í lýðræðislegu samfélagi.

Fyrir hönd starfsfólks Háskólans á Akureyri þakka ég ykkur fyrir samveruna á síðustu árum og sjálfur vil ég þakka háskólasamfélaginu öllu — starfsfólki og stúdentum — fyrir ánægjulegt og einstaklega árangursríkt samstarf á liðnu skólaári.

Kæru gestir, nær og fjær

Ég þakka ykkur fyrir að koma hér og fagna með okkur árangri kandídata – makar, börn, foreldrar og aðrir ættingjar kandídata eiga allar þakkir skyldar fyrir að styðja við bakið á ykkar fólki í gegnum námið.

Við lok skólaársins 2022 geta landsmenn allir litið til Háskólans á Akureyri með stolti og ánægju - og verið þess fullvissir að skólinn starfar í þágu samfélagsins alls til hagsbótar fyrir okkur öll. Við þurfum hinsvegar á ykkur að halda sem bakhjörlum og góðvinum skólans og hvet ég ykkur til þess að styðja við skólann með beinum hætti með því að gerast aðilar að Góðvinum Háskólans á Akureyri.

Gleðilega hátíð öllsömul!