Leiðbeinandi stefna um ábyrga notkun gervigreindar við Háskólann á Akureyri

1. Inngangur og tilgangur

Háskólinn á Akureyri (HA) setur hér fram leiðbeinandi stefnu um notkun skapandi gervigreindar (e. Generative Artificial Intelligence, Gen-AI) hér eftir aðeins nefnd sem gervigreind.

Með stefnunni viðurkennir háskólinn að gervigreind sé og verður órjúfanlegur þáttur í námi, kennslu, rannsóknum og stjórnsýslu til framtíðar. Tilgangurinn er að setja skýran ramma sem tryggir fagmennsku, traust og siðferðilega ábyrgð. Þannig leitast Háskólinn á Akureyri við að nýta þau tækifæri sem felast í tækninni til að efla gæði menntunar, rannsókna og stjórnsýslu, án þess að það gangi gegn grundvallargildum háskólasamfélagsins.

Stefnan er lifandi skjal, mótað í samráði við nemendur, kennara og annað starfsfólk. Hún verður endurskoðuð reglulega til að bregðast við hraðri tækniþróun og nýrri þekkingu á sviðinu.

2. Meginregla

Meginreglan er sú að nemendum og starfsfólki Háskólans á Akureyri er heimil notkun gervigreindarverkfæra í námi, kennslu, rannsóknum og stjórnsýslu. Þar með eru talin stór mállíkön (e. Large Language Models, LLMs) eins og ChatGPT, Claude og Gemini, auk stoðverkfæra sem byggja á tækninni á borð við Scite, Perplexity og NotebookLM.

Notkunin er þó ávallt bundin eftirfarandi skilyrðum og skal samræmast:

Persónuvernd og örugg gagnameðferð:

Gæta skal fyllsta öryggis við meðferð persónuupplýsinga og annarra viðkvæmra gagna. Nánari leiðbeiningar um gagnaöryggi og persónuvernd má finna í viðauka B.

 

Bókastafli og stækkunargler

Höfundarrétti og ábyrgri heimildanotkun:

Aldrei má vísa í gervigreind sem heimild. Allar heimildir sem fengnar eru með aðstoð gervigreindar t.d. Scite skulu meðhöndlaðar og tilgreindar í samræmi við viðurkenndar akademískar aðferðir.

 

 

 

 

Grafísk vog með vogarskálum

Siðferðisviðmiðum og akademískum heiðarleika:

Notkunin skal vera í fullu samræmi við siðareglur háskólans og grundvallarreglur um heiðarleika í fræðastörfum.

 

Grafísk útskriftarhúfa

Akademískt frelsi:

Virða skal akademískt frelsi og sjálfstæði í námi, kennslu og rannsóknum. Notkun gervigreindar má ekki grafa undan ábyrgð einstaklingsins á eigin verkum né frelsi annarra.

 

Kennurum er heimilt að setja sértækar takmarkanir eða reglur um notkun gervigreindar í einstökum námskeiðum eða verkefnum. Slíkar reglur skulu koma skýrt fram í námskeiðs- eða verkefnalýsingu og rökstuddar með vísan til hæfniviðmiða og námsmats.

Ef engar slíkar takmarkanir eru tilgreindar gildir meginreglan um að notkun sé heimil að uppfylltum ofangreindum skilyrðum. Í viðauka A má finna nánari leiðbeiningar um ábyrga notkun gervigreindar.

3. Leiðarljós stefnunnar

Stefna Háskólans á Akureyri um gervigreind byggir á fimm grunngildum. Leitast skal við að uppfylla öll þessi leiðarljós, þó með þeim fyrirvara að oft þarf að finna jafnvægi milli þeirra í framkvæmd.

  • Jafnræði og aðgengi: Gervigreind skal nýtt til að auka jöfn tækifæri allra nemenda og starfsfólks til þátttöku, óháð stöðu eða bakgrunni.
  • Velferð og mannmiðuð nálgun: Notkun gervigreindar skal styðja við velferð, auka skilvirkni og hámarka mannlegan ávinning í námi, kennslu, rannsóknum og stoðþjónustu.
  • Gagnsæi og traust: Öll notkun gervigreindar skal vera skýr og ábyrg. Þar sem við á skal notkunar hennar getið með gagnsæjum hætti í verkefnum, rannsóknum og öðru starfi.
  • Siðferði og akademískur heiðarleiki: Öll notkun gervigreindar skal vera í samræmi við Siðareglur Háskólans á Akureyri (2024) og meginreglur skólans um réttlæti, virðingu, ábyrgð og heiðarleika.
  • Nýsköpun: Háskólinn á Akureyri hvetur til skapandi, gagnlegrar og ábyrgrar notkunar á gervigreind sem stuðlar að raunverulegum framförum í menntun, vísindum og stjórnsýslu.

4. Tengd skjöl

Þessi stefna er studd ítarlegum fylgiskjölum:

5. Gildistaka og endurskoðun

Stefnan var samþykkt í Háskólaráði 30.10.2025.

Hún verður tekin til formlegrar endurskoðunar eigi síðar en í apríl 2026.