Háskólinn á Akureyri er eini háskólinn á Íslandi sem býður upp á nám í iðjuþjálfunarfræði.

Iðjuþjálfunarfræði beinir sjónum að því sem fólk tekur sér fyrir hendur í daglegu lífi og þeim möguleikum sem það hefur til þátttöku í samfélaginu, óháð færni, fötlun eða heilsu.

Iðjuþjálfunarfræði er nauðsynlegur undirbúningur fyrir nám í iðjuþjálfun.

Iðjuþjálfar eru sérfræðingar í daglegri iðju fólks.

Er námið fyrir þig

 • Hefur þú áhuga á fólki?
 • Hefur þú áhuga á mannréttindum?
 • Hefur þú heyrt um vinnuvistfræði?
 • Hefur þú velt fyrir þér viðhorfum til fatlaðs fólks?
 • Hvað hefur áhrif á það sem fólk tekur sér fyrir hendur?
 • Finnst þér að samfélagið eigi að koma til móts við mismunandi þarfir fólks?

Áherslur námsins

Nám í iðjuþjálfunarfræði byggir á heilbrigðis- og félagsvísindum. Iðjuþjálfunarfræði snýst um iðju, heilsu og almenn lífsgæði fólks.

Þú lærir að tileinka þér viðhorf, hæfni og leikni sem endurspegla nýjustu þekkingu og þróun í fræðigreininni.

Skoðað er hvernig umhverfið, líkamlegir og hugrænir þættir hafa áhrif á það sem fólk tekur sér fyrir hendur í daglegu lífi. Lögð er áhersla á að skapa tækifæri og nýta ýmsar leiðir til lausna.

Iðjuþjálfunarfræði er 3 ára nám til BS-prófs. Til að fá starfsréttindi sem iðjuþjálfi þarf til viðbótar að ljúka eins árs diplomanámi í iðjuþjálfun á meistarastigi.

Vettvangsnám er hluti af náminu og hefst á fyrsta námsmisseri. Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri eru meðal samstarfsstofnana sem gera kröfur um að nemendur séu bólusettir fyrir ákveðnum sjúkdómum. Nánari upplýsingar má finna hér.

Þú getur skoðað skipulag námsins í Uglu, kennsluvef háskólans.

Möguleikar að námi loknu

BS próf í iðjuþjálfunarfræði opnar möguleika til ýmissa starfa innan velferðarþjónustu, menntastofnana og félagasamtaka, og á almennum vinnumarkaði.

Námsleiðin opnar einnig möguleika á frekara námi á meistarastigi. Flestir bæta við sig diplómanámi í iðjuþjálfun sem veitir starfsréttindi sem iðjuþjálfi.

Þeir sem ljúka diplómanámi í iðjuþjálfun öðlast réttindi til að starfa á breiðum vettvangi, til dæmis við ýmiss konar endurhæfingu, vinnuvernd, aðlögun umhverfis, geðvernd, heilsueflingu og forvarnarstarf sem stuðlar að auknum lífsgæðum fólks.

Fjöldi stúdenta í diplómanám í iðjuþjálfun

Leitast er við að setja ekki fjöldatakmarkanir inn í diplómanám í iðjuþjálfun (starfsréttindanám), en deildin þarf þó að meta árlega hversu marga stúdenta er mögulegt að taka inn út frá kennslukrafti, aðstöðu og fjármagni. Fjöldi stúdenta í starfsréttindanámi afmarkast til dæmis af framboði á vettvangsplássum og getur því verið breytilegur frá ári til árs. Það er því ekki sjálfgefið að allir komist inn í starfsréttindanám að loknu grunnnámi þrátt fyrir að ná lágmarksskilyrðum.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Eir er félag heilbrigðisvísindanema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi, lokaprófi frá framhaldsskóla á þriðja hæfniþrepi, jafngildu erlendu prófi eða 60 ECTS einingum frá viðurkenndum háskóla.

Forgangsröðun umsókna vegna fjöldatakmarkana

Við viljum benda á að ef fjöldi umsækjenda sem uppfyllir almenn inntökuskilyrði fer yfir fjöldaviðmið verður umsóknum forgangsraðað á eftirfarandi hátt:

 • Uppfylla almenn inntökuskilyrði, 55 stig
 • 30 einingar í íslensku, ensku og stærðfræði, þar af 5 einingar í íslensku og ensku á 3ja hæfniþrepi, 0–15 stig
 • Staðlað kynningarbréf, 0–20 stig
 • Ferilskrá, 0–5 stig
 • Kynjahlutfall í greininni, 5 stig

Umsækjendum verður svo raðað upp samkvæmt samlagningu þessa þátta og teknir inn í þeirri röð.

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Undanþágur

Umsóknir sem ekki teljast uppfylla almenn inntökuskilyrði eru metnar sjálfstætt. Ferilskrá og kynningarbréf eru valkvæð gögn í umsóknargátt en styrkja umsókn.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að engu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskránni og námskröfur eru þær sömu. Námsefnið er aðgengilegt á lokuðu vefsvæði þar sem má til dæmis finna upptökur frá kennurum og fjölbreytt tækni er nýtt til gagnvirkra samskipta. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft og þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á hljóðinu.

Gerð er krafa að allir nemendur komi tvisvar á hverju misseri í stuttar kennslulotur til Akureyrar þar sem megináhersla er lögð á verklega þjálfun og umræður. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu. Hluti námsins fer fram á vettvangi í stuttum heimsóknum, sem tilheyra ákveðnum námskeiðum,  þar sem nemendur fá innsýn í mismunandi stuðnings- og þjónustuúrræði. Gerð er krafa um þátttöku nemenda í þessu vettvangsnámi. 

Við iðjuþjálfunarfræðideild HA er skyldumæting í kennslulotur. Kynntu þér því vel dagsetningarnar sem birtar eru með góðum fyrirvara.

Vinsamlega athugið að hver vika í fullu háskólanámi er ígildi 50-60 stunda vinnuviku.

Skiptinám

Nemendur í iðjuþjálfun á meistarastigi eiga kost á að taka hluta af vettvangsnámi sínu við erlendar samstarfsstofnanir.

Frekari upplýsingar um námið

Af hverju iðjuþjálfun? - Viðtal við nemenda í fréttablaðinu

Iðju­þjálfunar­fræði – hvað er það? - Viðtal við nemenda í fréttablaðinu

Er iðjuþjálfun starf fyrir þig? - Viðtal við kennara í fréttablaðinu

Viðtal við Birnu Guðrúnu Baldursdóttur iðjuþjálfa í Glerárskóla.

Umsagnir

Námið í iðjuþjálfunarfræði opnar dyr að fjölbreyttu starfi á ótal sviðum. Áhersla er lögð á lausnamiðaða nálgun, styrkleika, tækifæri og gagnrýna hugsun. Í náminu lærði ég að horfa heildrænt á samspil einstaklingsþátta, samfélagsins og alls þess sem við tökum okkur fyrir hendur. Mér finnst ég vel undirbúin til að hanna þjónustu og færa rök fyrir starfi mínu.

Svava Arnardóttir
Iðjuþjálfi hjá Hugarafli - notendastýrðri starfsendurhæfingu

Að loknu námi í iðjuþjálfun við HA fékk ég fjölbreytt og spennandi stjórnunarstarf sem felur í sér að innleiða nýja sýn og áherslur í þjónustu við geðfatlaða. Námið nýtist mér á hverjum degi í lífi og starfi.

Ólafur Örn Torfason
Iðjuþjálfi og forstöðumaður búsetuþjónustu

Nám í iðjuþjálfunarfræði veitti mér einstaka sýn á einstaklinginn og samspil hans við iðju og umhverfið. Sú sýn ásamt lausnamiðaðri hugsun með áherslu á styrkleika, áhuga og þátttöku gerir okkur sem iðjuþjálfa að verðmætum hlekkjum þegar kemur að þjónustu við fólk á ólíkum æviskeiðum og fjölbreyttum vettvangi.

Dagný Hauksdóttir
Deildarstjóri stoðþjónustu Brekkubæjarskóla Akranesi