Háskólinn á Akureyri er fyrsti háskólinn á Íslandi sem býður upp á fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða. Um er ræða tveggja ára sveigjanlegt nám sem er skipulagt þannig að nemandi sé í starfi samhliða því.

Námið er ætlað sjúkraliðum sem vilja auka þekkingu sína og efla starfshæfni í heimahjúkrun eða á sérhæfðum deildum fyrir aldraða.

Einnig er í boðið upp á kjörsviðið samfélagsgeðhjúkrun.

Er námið fyrir þig?

 • Langar þig að efla sérhæfingu þína?
 • Vilt þú auka ábyrgð þína í starfi sem sjúkraliði og víkka starfssvið þitt?
 • Starfar þú í heimahjúkrun eða á sérhæfðum deildum fyrir aldraða?
 • Hefur þú áhuga á að bæta umönnun aldraðra?
 • Langar þig að aðstoða aldraða við að viðhalda heilsu og velferð?
 • Vilt þú hafa áhrif á gæði heilbrigðis- og velferðarþjónustu?
 • Langar þig að eiga spennandi starfsmöguleika og taka þátt í uppbyggingu þeirra?
 • Langar þig að auka þekkingu þína í samskipta- og velferðartækni?

Áherslur námsins

Meginmarkmið námsins er að styrkja og auka þekkingu og færni starfandi sjúkraliða á eðlilegum öldrunarbreytingum, áhrifum öldrunartengdra sjúkdóma og bjargráðum við þeim.

Áhersla er á persónumiðaða nálgun í heildrænni umönnun aldraðra einstaklinga og fjölskyldna þeirra. Náminu er ætlað að bæta þekkingu á notkun mismunandi aðferða til samskipta og tryggja þannig gæði í meðferð og fræðslu.

Námið veitir þekkingu á skipulagi og virkni þjónustukerfa sem eru í boði fyrir þennan aldurshóp, auk notkunar velferðartækni og þátttöku í teymisvinnu.

Ljúka þarf öllum námskeiðum fyrsta árs áður en nám á seinna árinu hefst. Hámarkstími til að klára námið eru 3 ár.

Möguleikar að námi loknu

Fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða er ný námsbraut í íslensku menntakerfi. Það opnar á möguleika fyrir sjúkraliða að takast á við fjölþættari störf og aukna ábyrgð.

Námið eflir sjúkraliða til að taka þátt í fjölbreyttri teymisvinnu með markvissum hætti.

Námið er áskorun fyrir sjúkraliða sem verða virkir þátttakendur í að móta nýjar starfsleiðir innan heilbrigðis- og velferðarkerfisins.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Eir er félag heilbrigðisvísindanema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Krafa er að umsækjandi hafi lokið sjúkraliðanámi, hafi gilt starfsleyfi frá Embætti landlæknis og starfi í heilbrigðisþjónustu. Æskilegt er að umsækjandi hafi að lágmarki 2ja ára starfsreynslu sem sjúkraliði.

Í boði eru 2 kjörsvið og umsækjendur sem starfa nú þegar á kjörsviði umsóknar hafa forgang í námspláss. Athygli er vakin á því að á 2. ári námsins fara nemendur í 2ja mánaða klínískt nám á vettvangi kjörsviðs.

Gögn sem þurfa að fylgja umsókn:

Námspláss er fyrir 30 nemendur og lágmarksfjöldi er 10.

Forgangsröðun umsókna vegna fjöldatakmarkana

Við viljum benda á að ef fjöldi umsækjenda sem uppfyllir almenn inntökuskilyrði fer yfir fjöldaviðmið verður umsóknum forgangsraðað á eftirfarandi hátt:

 • Viðurkennt framhaldsnám eða endurmenntun, 0-25 stig
 • 20 einingar í íslensku og ensku pr.grein og 5 einingar stærðfræði, 0-20 stig
 • Starfsreynsla, 0–25 stig
 • Staðlað kynningarbréf, 0–15 stig
 • 7 eða hærra í einkunn á framhaldsskólaprófi, 0–10 stig
 • Kynjahlutfall í greininni, 5 stig

Umsækjendum verður svo raðað upp samkvæmt samlagningu þessa þátta og teknir inn í þeirri röð.

Sveigjanlegt nám

Fagnám til diplómaprófs geta nemendur stundað óháð búsetu. Allir fylgja sömu námskrá og námskröfur eru þær sömu.

Fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef ásamt öðru námsefni.

Skylda er að koma 1-2 sinnum á misseri í stuttar námslotur til Akureyrar.

Á seinna árinu er einnig klínískt nám á hvoru misseri, í tvær vikur (80 stundir) í senn. Klínískt nám fer fram á heilbrigðisstofnunum um allt land á starfsstöðvum öldrunar- og heimahjúkrunar.

Hér getur þú lesið meira um sveigjanlega námið og séð hvenær námslotur eru.

Spurt og svarað

Verða ekki fleiri kjörsvið?

Byrjað var með öldrunar- og heimahjúkrunarkjörsvið haustið 2021 og samfélagsgeðhjúkrunarkjörsvið haustið 2022.

Get ég bara farið í námið ef ég er í vinnu á hjúkrunarheimili?

Nei, ef þú ert til dæmis að vinna á barnadeild og langar að breyta til þarft þú að ráða þig í vinnu í öldrunarþjónustu. Þar þarft þú að vinna að lágmarki 2 mánuði í 100% vinnu (eða 300 vinnustundir samtals) á námstímanum.

Hvað með þau sem eru með viðbótarnámið úr Fjölbraut við Ármúla?

Þau fá stig í matslíkaninu í meðferð umsókna um námið. Möguleikar á mati einhverra námskeiða til styttingar náms til diplómaprófs á kjörsviði eru í skoðun en niðurstaða þeirrar skoðunar mun ekki liggja fyrir fyrr en námsbraut er komin af stað. Nýja námið er á öðru námsstigi og hæfniþrepi en gamla viðbótarnámið.

Umsagnir

Fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða er ný námsbraut við HA sem er ákaflega ánægjulegt að hafa fengið að taka þátt í að byggja upp. Þessi nýja námsbraut er frábær leið fyrir starfandi sjúkraliða til að byggja ofan á þekkingu sína og færni. Í náminu er lögð áhersla á eflingu klínískrar færni og þekkingar á samskiptum sem meðferðartæki, sem og á þátttöku í þverfaglegu samstarfi og uppbyggingu fagmennsku. Kjörsvið öldrunar- og heimahjúkrunar, sem fer af stað haustið 2021, er fyrst og fremst hugsað til að auka gæði í heilbrigðis- og velferðarþjónustu til handa öldruðum einstaklingum og fjölskyldum þeirra.

Arnrún Halla Arnórsdóttir
Aðjúnkt