Námið er krefjandi, skemmtilegt og þverfaglegt. Áhersla er lögð á aukna sérþekkingu í heilbrigðisvísindum.

Allt að 30 ECTS óskilgreindar einingar eru metnar inn í fullt meistaranám úr fjögurra ára grunnnámi (240 ECTS einingar) af Heilbrigðisvísindasviði við HA eða HÍ (ef 5 ár eða skemur hafa liðið frá brautskráningu). Metnar einingar koma í stað valnámskeiða. Hægt verður að sækja um mat á óskilgreindum einingum og M-námskeiðum fram til ársins 2025 að öllu óbreyttu. Eftir þann tíma fellur þessi möguleiki úr gildi. Athugið að þetta á ekki við um viðbótardiplómunámið.

Námið veitir prófgráðuna meistaragráða í heilbrigðisvísindum.

Eftirfarandi námslínur eru einnig í boði:

Er námið fyrir þig?

  • Býrð þú yfir sjálfsaga, þolinmæði og samkennd?
  • Hefur þú áhuga á nýsköpun og þróun á Heilbrigðissviði?
  • Viltu dýpka þekkingu þína í heilbrigðisvísindum?
  • Hefur þú áhuga á rannsóknum?
  • Viltu auka víðsýni þína?
  • Hefur þú áhuga á að þróa ný viðmið byggð á rannsóknum?

Áherslur námsins

Námið byggist upp á nokkrum skyldunámskeiðum, en að öðru leyti skipuleggur þú námið í samráði við leiðbeinanda. Boðið er upp á mörg sérfræðisvið.

Markmiðið er að brautskráðir nemendur úr heilbrigðisvísindum verði gagnrýnir greinendur og skapandi fagmenn. Þeir verði óhræddir við breytingar til framfara með víðsýni að leiðarljósi. Þetta eru rauðu þræðirnir í uppbyggingu og innihaldi námskeiða, og í kennsluháttum og námsmati.

Athugið að flest námskeið eru kennd annað hvert ár og taka þarf tillit til þess við gerð námsáætlunar.

Þú getur skoðað skipulag námsins á Uglu, kennsluvef háskólans

Fyrirkomulag námsins

Námið er skipulagt þannig að mögulegt er að stunda vinnu samhliða því. Nemendur vinna verkefni í stað prófa.

Diplóma- og meistaranemendur eru hvattir til að mæta í allar lotur í námskeiðum. Til að standast lágmarkskröfur námskeiðs við Framhaldsnámsdeild á heilbrigðisvísindum HA þarf nemandi að mæta í að minnsta kosti tvær* af þremur lotum í hverju námskeiði sem hann er skráður í.

Umsjónarkennara námskeiðs er frjálst að setja kröfu um mætingu í einhverja ákveðna lotu eða allar þrjár loturnar í námskeiði. Þessar kröfur geta verið mismunandi á milli námskeiða.

Mæting miðar við að mæta á staðinn eða með samþykki umsjónarkennara viðkomandi námskeiðs að mæta í gegnum Fjærveru eða Zoom. Ath. nemandi þarf að fá þjálfun hjá Kennslumiðstöð HA til að geta nýtt sér fjærveru sem mætingu í námskeið.

*Ef nemandi getur af heilsufarsástæðum ekki mætt í lotu verður viðkomandi að hafa samband fyrirfram við umsjónarkennara námskeiðs og skila vottorði til skrifstofustjóra Heilbrigðisvísindasviðs, fari umsjónarkennari fram á það. Umsjónarkennari ákvarðar hvaða viðbótarverkefni nemandi þarf að gera í stað mætingarinnar til að standast lágmarkskröfur námskeiðs.

Þú getur tekið meistaranámskeið við Háskólann á Akureyri eða aðra háskóla, innanlands eða utan.

Möguleikar að námi loknu

Með meistaragráðu í heilbrigðisvísindum getur þú starfað á ýmsum sviðum en þó oftast á því sérsviði sem þú velur.

Margir fara í stjórnunarstörf innan heilbrigðiskerfisins, starfa sjálfstætt eða eru í stöðum sérfræðinga.

Námið er undirbúningur fyrir þá sem hyggja á doktorsnám.

Inntökuskilyrði

Umsækjendur um meistara- og diplómanám þurfa að hafa lokið bakkalárgráðu á sviði heilbrigðisvísinda eða skyldra greina með fyrstu einkunn (7,25 eða hærra) frá viðurkenndum háskóla. Ef til aðgangstakmarkana kemur við innritun ganga þeir umsækjendur fyrir sem hafa 2 ára starfsreynslu úr heilbrigðis- eða velferðargeiranum. Mikilvægt er að öll umbeðin gögn svo sem staðfest afrit af prófskírteinum, ferilskrá, kynningarbréf og starfsvottorð fylgi með umsókn.

Umsagnir

Námið við framhaldsnámsdeild heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri var í senn krefjandi og skemmtilegt, það víkkaði sjóndeildarhringinn og þroskaði mig sem einstakling og sem fagmann.

Eydís Ingvarsdóttir
skurðhjúkrunarfræðingur við SAk

Framhaldsnámið var að mínu mati bæði vel skipulagt og áhugavert. Fyrirlestrarnir, verkefnavinnan og síðast en ekki síst umræðurnar nýttust mér vel bæði persónulega og faglega. Námið reyndist vera kærkomin viðbót grunnmenntun mína og starfsreynslu. Háskólaumhverfið er uppbyggjandi og starfsfólk háskólans er vingjarnlegt og hjálpsamt. Í náminu var fjölbreyttur hópur nemenda og þar mynduðust skemmtilegar umræður og góð vinátta. Námið og rannsóknavinnan sem fylgdi í kjölfarið fól í sér ýmsa möguleika og varð upphafið að ýmsum jákvæðum breytingum í mínu lífi.

Hulda Sædís Bryngeirsdóttir
PhD í heilbrigðisvísindum og aðjúnkt við HA