Í nútímafræði er lögð áhersla á að efla þroska, víðsýni og miðlun efnis í ræðu og riti.

Háskólinn á Akureyri eini háskólinn á Íslandi sem býður upp á nútímafræði.

Mörg valnámskeið eru í boði og góðir möguleikar á skiptinámi, bæði innanlands og utan.

Er námið fyrir þig

  • Hefur þú gaman af því að tala um hitamál?
  • Viltu verða meðvitaður borgari?
  • Viltu skilja af hverju íslensk menning er eins og hún er?
  • Hefur þú áhuga á að miðla efni?
  • Viltu fá smá ráðrúm til þess að velja endanlega áherslur í náminu þínu?
  • Viltu geta sannfært fólk og fengið það á þitt band?

Áherslur námsins

Námið er blanda af heimspeki, siðfræði, sagnfræði, samfélagsgreinum og íslensku. Dregin er upp mynd af samfélaginu og þeim þáttum sem hafa áhrif á það og ýmsum álitamálum velt upp.

Þú færð þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum. Þar er meðal annars lögð áhersla á gagnrýna hugsun.

Nemendur ljúka 120 ECTS-einingum af kjarnanámskeiðum. Auk þess er valið á milli fjögurra áherslusviða:

  • Sagnfræði
  • Heimspeki
  • Íslensku
  • Nútímafræði

Möguleikar að námi loknu

Að loknu námi hafa nemendur aflað sér umfangsmikillar þekkingar á uppbyggingu og þróun nútímasamfélags. Þeir eiginleikar eru eftirsóttir hjá fyrirtækjum, samtökum, sveitarfélögum og stofnunum.

Nemendur hafa til að mynda fengið störf á sviði menningarmála, kennslu, fjölmiðlunar og upplýsingamiðlunar.

Námið býr nemendur undir framhaldsnám í ólíkum greinum hug- og félagsvísinda, til dæmis í mannfræði, siðfræði og sagnfræði.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Kumpáni er félag félagsvísindanema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjandi hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi.

Deildum háskólans er heimilt að innrita takmarkaðan fjölda nemenda án stúdentsprófs. Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans og undanþágur frá þeim.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að engu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskránni og námskröfur eru þær sömu.

Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft að þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á hljóðinu. Okkur þykir samt frábært að fá tækifæri til að hitta þig í háskólanum.

Allir fjarnemar koma nokkrum sinnum á námstímanum í stuttar kennslulotur til Akureyrar þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu.

Hér getur þú lesið meira um sveigjanlega námið og séð hvenær námslotur eru.

Skiptinám

Allir nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Þú færð niðurfellingu á skólagjöldum gestaskólans og greiðir eingöngu innritunargjald í HA. Alþjóðafulltrúi aðstoðar þig við að sækja um námið, húsnæði og nemendastyrk.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skiptinám.

 

Umsagnir

Nútímafræði víkkar sjóndeildarhringinn og gerir mann óhjákvæmilega virkari samfélagsþegn á svo margan hátt. Námið umturnaði sýn minni á samfélagið. Þetta er krefjandi og skemmtilegt nám sem mun nýtast mér til frambúðar. Ef ekki hefði verið fyrir fjarnámið hefði ég aldrei haft tök á að getað stundað námið. Upplifun mín af fjarnáminu og háskólanum var gífurlega jákvæð.

Birgir Örn Guðjónsson
lögreglumaður og samfélagsrýnir

Nútímafræði við HA reyndist vera góður grunnur fyrir framhaldsnám í alþjóðasamskiptum og Evrópufræðum. Sveigjanleikinn í náminu gerði mér kleift að stunda hluta þess erlendis. Þá hefur það komið sér vel í störfum mínum hversu þverfaglegt það er.

Hjörtur Ágústsson
sérfræðingur á mennta- og menningarsviði Rannís

Í nútímafræðinni fékk ég góða þjálfun í gagnrýninni hugsun og öguðum vinnubrögðum. Námið opnaði á ný tækifæri og reyndist góður undirbúningur fyrir framhaldsnám mitt í menningarstjórnun og þau störf sem ég hef sinnt, til að mynda sem menningarfulltrúi Eyþings.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir
framkvæmdastjóri aldarafmælis fullveldis Íslands