Kennslu- og rannsóknarstefna Lagadeildar Háskólans á Akureyri

Lögð fram og samþykkt á deildarfundi 28. maí 2025
Skal endurskoðuð fyrir júní 2027

Kennslustefna

Almennt

Stefna Lagadeildar Háskólans á Akureyri er að vera leiðandi í sveigjanlegu námsfyrirkomulagi á B.A.- og M.L.-stigi og bjóða upp á framúrskarandi nám sem uppfyllir ítrustu kröfur undir leiðsögn öflugra og reyndra kennara og fræðimanna í grunn- og meistaranámi í lögfræði. Með sveigjanlegu námi er hér fyrst og fremst átt við að nemendur geti stundað nám við Lagadeild HA með þeim hætti að búseta skipti ekki máli þó þannig að námið byggi á skyldumætingu nemenda í reglubundnar lotur. Námið er því að mestu óháð stað en ekki stund.

Ásamt námi til B.A.- og M.L. gráðu í lögfræði, býður deildin upp á diplómanám, og nám til LL.M. og M.A.-gráðu í heimskautarétti með fjölbreyttum kennsluaðferðum, auk doktorsnáms. Heimskautaréttur er kenndur í staðarnámi þar sem hvatt er til sjálfstæðra vinnubragða undir forystu nemenda. Í heimskautarétti er lögð áhersla á samvinnu við aðra norðurslóðaháskóla og rannsóknarmiðstöðvar sem hafa svipaðar áherslur í rannsóknum og er að finna við Háskólann á Akureyri og í norðurslóðaáætlun Íslands.

Laganám við Háskólann á Akureyri býr yfir sérstöðu sem afar mikilvægt er að standa vörð um, en sterk tengsl skólans við hinar dreifðu byggðir landsins og staðsetning fjarri höfuðborgarsvæði þjónar mikilvægum tilgangi í lýðræðislegu samfélagi.

Markmið

Markmið með laganámi við Lagadeild HA er að efla gagnrýna hugsun, byggja upp góða fræðilega þekkingu hjá nemendum, efla þá í faglegum og sjálfstæðum vinnubrögðum og búa þá undir frekara nám, fræðastörf og þátttöku í atvinnulífi hvort sem er á vettvangi hins opinbera eða í einkageira.

Lögð er áhersla á að laganám við HA uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til náms í lögfræði og að akademískt frelsi kennara fái notið sín til fulls. Akademískt frelsi er mikilvægt allri framþróun í kennsluháttum og fræðastörfum og er undirstaða í lýðræðislegu samfélagi en að því ber að hlúa. Kennari gæti þess að samræmi sé milli vinnuframlags nemanda og námsefnis að teknu tilliti til fjölda ECTS eininga. Einnig að nemendur hafi góðan aðgang að kennurum eftir samkomulagi á hefðbundnum vinnutíma, t.d. með föstum viðtalstímum.

Kennsluhættir og fyrirkomulag kennslu

Lagadeild Háskólans á Akureyri leggur áherslu á nútímalega kennsluhætti og að skipulag námskeiða og námsefnis sé í samræmi við hæfniviðmið. Kennarar tileinki sér fjölbreyttar kennsluaðferðir í sveigjanlegu námi á B.A.- og M.L.-stigi. Sveigjanlegt nám er í stöðugri framþróun og er það stefna deildarinnar að kennarar fylgist með nýjungum á því sviði og nýti þær aðferðir og tækni sem tiltæk er hverju sinn með aðstoð Kennslumiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Í því sambandi er áréttað að kennarar bera fulla faglega ábyrgð á þeim námskeiðum sem þeir hafa umsjón með og það er þeirra að velja þær leiðir sem þeir telja best til þess fallnar að ná hæfnimiðum námskeiðs.

Í laganámi við Lagadeild HA er áhersla lögð á umræðutíma og þátttöku nemenda í þeim. Einnig rannsóknartengda vinnu og ritun ritgerða sem uppfylla strangar kröfur um vísindaleg vinnubrögð, lausn verkefna og gerð álitsgerða þar sem við á.

Alþjóðleg nálgun og sérstaða

Sérstaða laganáms við Lagadeild Háskólans á Akureyri felst m.a. í þeirri áherslu sem lögð er á fræðilega og kennilega lögfræði, og að nemendur öðlast innsýn inn í ólík lagakerfi og alþjóðlegan hluta lögfræðinnar eins og þjóðarétt, Evrópurétt og mannréttindi. Þannig gefst nemendum kostur á að afla sér grunnmenntunar sem nýtist vel, hyggi þeir á framhaldsnám, til að mynda erlendis. Þá er það stefna deildarinnar að hlúa áfram að meistaranámi í heimskautarétti, sem er einstakt á heimsvísu með öflugum hópi fræðimanna og kennara, bæði fastráðnum starfsmönnum og öðrum sérfræðingum.

Rannsóknarstefna

Fastir kennarar við Lagadeild HA eru: prófessorar, dósentar, lektor og aðjúnktar, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla.

Lagadeild Háskólans á Akureyri hvetur kennara deildarinnar og nemendur til að efla hlut rannsókna í starfsemi deildarinnar.

Deildin styður við frelsi kennara deildarinnar við val á rannsóknarverkefnum og rannsóknaraðferðum sem samræmast alþjóðlegum fræðilegum gæðakröfum um rannsóknir í lögfræði.

Deildin leggur áherslu á að kennarar og nemendur haldi í heiðri siðferðileg gildi við rannsóknarstörf sín, svo sem um jafnrétti, gagnkvæma virðingu, heilindi, hlutlægni, gagnrýna hugsun, málefnalegan rökstuðning, mannréttindi, hugverkaréttindi, fjármögnun og hagsmunaárekstra, kynningu á rannsóknum og persónulega ábyrgð.

Deildin leggur áherslu á að efla rannsóknastarf sem og á þátttöku kennara deildarinnar í alþjóðlegu samstarfi um rannsóknir í lögfræði.

Deildin leggur áherslu á að við ráðningu kennara deildarinnar að þeir hafi til að bera hæfni til leggja sitt af mörkum til fræðilegra rannsókna í lögfræði innanlands sem utan.
Deildin viðurkennir mikilvægi fræðilegra rannsókna og starfsreynslu og að hvort tveggja sé nauðsynlegt til að stuðla að fræðilegri og hagnýtri lögfræðimenntum sem nýtast megi fyrir samfélag sem reist er á hugmyndum um lýðræði og réttarríkið.

Deildin leggur áherslu á að veita kennurum deildarinnar tíma og aðstöðu til að sinna rannsóknum í samræmi við rannsóknahlutfall samkvæmt ráðningarkjörum þeirra, meðal annars með því að efla og viðhalda rétti þeirra til reglulegra rannsóknarleyfa, veita fé til aðstoðarmanna við rannsóknir sem og við að efla samstarf við bókasafns- og upplýsingaþjónustu skólans með að markmið að hún styðji sem best við lögfræðilegar rannsóknir.

Deildin hvetur kennara deildarinnar til að birta rannsóknir sínar í ritrýndum fræðiritum, innanlands sem utan, eða á annan viðurkenndan hátt.

Deildin hvetur kennara deildarinnar til gerðar kennsluefnis í lögfræði sem byggt er á rannsóknum þeirra sem nýtast mega til lögfræðimenntunar innanlands sem utan.

Deildin hvetur kennara deildarinnar til rannsóknasamstarfs við erlenda háskóla og rannsóknarstofnanir, sem og stofnanir og fyrirtæki um leið og deildin stendur vörð um fræðilegt sjálfstæði kennara deildarinnar

Deildin hvetur kennara deildarinnar til að leitast við að afla styrkja til rannsókna úr innlendum sem erlendum rannsóknarsjóðum. Deildin skal stuðla að því að kennurum deildarinnar verði tryggður aðgangur að sérfræðiþekkingu innan skólans á rannsóknarsjóðum innanlands sem utan og aðstoð við gerð umsókna og frágang þeirra.

Deildin hvetur kennara deildarinnar til að skipuleggja fundi og viðburði til að stuðla að fræðilegri umræðu um samfélagsleg málefni og kynna rannsóknir kennara deildarinnar, sem og taka þátt í slíkum viðburðum á innlendum sem erlendum vettvangi.

Deildin styður við útgáfu fræðirita kennara ritraða á íslensku og erlendum tungumálum, eftir því sem kostur er.

Deildin styður fasta kennara sína til að afla sér frekari menntunar. Deildin telur brýnt að fastir kennarar sem ekki hafa doktorspróf ljúki doktorsnámi og veitir þeim stuðning til þess meðal annars með því að halda kennsluálagi í lágmarki á meðan á doktorsnámi stendur.

Deildin hvetur jafnframt kennara deildarinnar sína til að skrifa greinar upp úr rannsóknum sínum í ritrýnd tímarit eða til kynningar fyrir almenning.

Deildin skal leitast við auka færni og áhuga nemenda til að stunda rannsóknir með því að: (i) tengja meistaranám rannsóknarvinnu undir handleiðslu kennara; (ii) byggja upp doktorsnám svo það megi verða vaxtarbroddur rannsóknarstarfs innan deildarinnar.