Lög og reglur

Háskólinn á Akureyri starfar samkvæmt Lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008, með síðari tíma breytingum, síðast nr. 56/2013. Auk þess lýtur skólinn:

Reglur Háskólans á Akureyri

Almennar reglur

Nemendur

Akademískir starfsmenn

Aðrar reglur

Auglýsingar birtar í B-deild Stjórnartíðinda

Reglur samþykktar af háskólaráði og/eða framkvæmdastjórn

Í tímaröð. Þær nýjustu fyrst.

Reglur um viðbrögð við einelti, ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi innan Háskólans á Akureyri

Hér má finna Reglur um viðbrögð við einelti, ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi innan Háskólans á Akureyri.

Reglur vegna málefna fyrrverandi starfsmanna Háskólans á Akureyri á eftirlaunum

Hér má finna Reglur vegna málefna fyrrverandi starfsmanna Háskólans á Akureyri á eftirlaunum

Reglur um starfsskyldur kennara

Reglur um starfsskyldur kennara við Háskólann á Akureyri. Samþykktar í háskólaráði 21. júní 2018. Prentskjal (pdf)

1. gr. Starfsskyldur

Starfsskyldur kennara við Háskólann á Akureyri skiptast í þrjá meginþætti: rannsóknir, kennslu og stjórnun.

2. gr. Skilgreining starfsþátta

2.1 Kennsla

Kennsla við Háskólann á Akureyri felur í sér þjálfun nemenda til að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum og takast á við margvísleg störf í þjóðfélaginu. Kennslunni er ætlað að þroska nemendur, temja þeim ögun í vinnubrögðum, auka þekkingu þeirra og gera þeim kleift að beita þekkingunni á sjálfstæðan, skapandi og gagnrýninn hátt og til öflunar nýrrar þekkingar. Rannsóknum og kennslu skal fléttað saman á öllum stigum náms, eftir því sem kostur er.

Nám til prófgráðu við Háskólann á Akureyri skiptist í einstök námskeið sem saman mynda eina heild. Fræðasvið bera ábyrgð á námi og veitingu prófgráða. Fræðasvið ákveður því hvaða námskeið eru kennd og hver kennir þau. Kennarar njóta kennslufrelsis innan þess ramma sem fræðasvið setur. Þeir ákveða sjálfir námsefni, efnistök og kennsluhætti. Þetta mikilvæga frelsi felur í sér skyldur og ábyrgð gagnvart fræðunum, gagnvart stúdentum og samstarfsfólki.

2.2 Rannsóknir

Kennarar njóta akademísks rannsóknafrelsis, en í því felst að þeir velja sér sjálfir viðfangsefni á fræðasviði sínu og þær aðferðir sem þeir beita. Fræðasvið skilgreinir fræðasvið hvers kennara. Rannsóknafrelsi felur í sér ábyrgð og skyldur. Niðurstöður rannsókna skulu kynntar á vísindalegum vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur. Þær skulu einnig kynntar almenningi eftir því sem kostur er. Kennarar skulu leitast við að afla tekna úr rannsóknasjóðum og frá öðrum aðilum til rannsókna sinna. Kennarar skulu árlega gera grein fyrir rannsóknum sínum og niðurstöðum þeirra.

2.3 Stjórnun

Stjórnun felur í sér verkefni í tengslum við kennslu og rannsóknir viðkomandi kennara og verkefni á vegum fræðasviðs, deildar eða námsleiðar sem mönnum er falið eða þeir eru kjörnir til að sinna tímabundið.
Umbunað er sérstaklega fyrir deildarformennsku og brautarstjórn og fundi í nefndum og starfshópum skipuðum af rektor, svo sem verið hefur undanfarin misseri.

3. gr. Skipting starfsskyldna milli starfsþátta

Ákvæði þessarar greinar gilda um háskólakennara. Greinin á þó ekki við um þá sem gegna starfi fræðasviðsforseta.

3.1 Almennar starfsskyldur háskólakennara

  1. Starfsskyldur prófessora skiptast almennt í 48% kennslu, 40% rannsóknir og 12% stjórnun.
  2. Starfsskyldur lektora og dósenta í hálfu starfi eða meira skiptast almennt í 48% kennslu og 40% rannsóknir og 12% stjórnun.
  3. Starfsskyldur lektora og dósenta sem eru í minna en hálfu starfi skiptast í 69% kennslu, 23% rannsóknir og 8% stjórnun.
  4. Starfsskyldur aðjúnkta í hálfu starfi eða meira skiptast almennt í 65% kennslu, 31% rannsóknir og 4% stjórnun.
  5. Starfsskyldur aðjúnkta í minna en hálfu starfi er allt að 90% kennsla og 10% stjórnun og annað.

3.2 Undantekningar frá almennum starfsskyldum

I. Hlutfallsleg aukning kennsluskyldu

A. Hlutfallsleg aukning kennsluskyldu umfram almennar starfsskyldur byggir á meðaltalsrannsóknavirkni síðustu þriggja eða fimm ára eftir því hvort hagstæðara er fyrir viðkomandi.

 1. Lektorar, dósentar og prófessorar í fullu starfi með færri en 10 rannsóknastig að meðaltali síðustu þrjú eða fimm ár fá hlutfallslega aukningu í kennsluskyldu sbr. töflu A. Aðjúnktar í fullu starfi með færri en 7 rannsóknastig að meðaltali síðustu þrjú eða fimm ár fá á sama hátt hlutfallslega aukningu í kennsluskyldu sbr. töflu B.
 2. Taka skal tillit til starfshlutfalls og rannsóknaskyldu í hverju tilviki þegar vikið er frá almennum reglum.
 3. Taka skal tillit til breytinga á starfsskyldum vegna töku fæðingarorlofs, veikinda eða slysa, sbr. gildandi reglur þar um.
 4. Ekki skal auka hlutfall kennsluskyldu fyrstu fimm árin í starfi hjá Háskólanum á Akureyri.

Hlutfallslega aukin kennsluskylda samkvæmt lið A er eins og fram kemur í töflum A og B þegar um fullt starf er að ræða.

TAFLA A: Rannsóknavirkni, 3 eða 5 ára meðaltal. Prófessorar, lektorar og dósentar

Rannsóknastig Kennsluskylda 
9 48,3%
8 49,2%
7 50,7%
6 52,8%
5 55,5%
4 58,8%
3 62,7%
2 67,2%
1 72,3%
0 78,0%

TAFLA B: Rannsóknavirkni, 3 eða 5 ára meðaltal 3 eða 5 ára meðaltal. Aðjúnktar I

Rannsóknastig Kennsluskylda 
6 65,4%
5 66,7%
4 68,9%
3 71,9%
2 75,7%
1 80,4%
0 86,0%

B. Þrátt fyrir lið A getur kennari óskað eftir því að auka kennsluskyldu sína á kostnað rannsóknaskyldu. Þá getur fræðasviðsforseti við sérstakar aðstæður, t.d. vegna tímabundins álags, skorts á kennslukrafti, veikinda eða fjarvista af öðrum toga, ákveðið í samráði við kennara að hann auki kennsluskyldu sína tímabundið á kostnað rannsóknaskyldu. Ennfremur getur rektor kallað starfsmann tímabundið til sérstakra starfa og breytast þá starfsskyldur hans eftir samkomulagi. 

Um hlutfallslega aukna kennsluskyldu skv. liðum A og B gildir eftirfarandi:

 • Stjórnunarskylda helst óbreytt en rannsóknaskylda minnkar að sama skapi og kennsluskyldan eykst.
 • Yfirvinnuþak vegna kennslu breytist ekki.
 • Kennslustigum fjölgar um 0,5 stig á ári fyrir hvern hundraðshluta sem kennsluskyldan eykst af heildarvinnuskyldu.

II. Hlutfallslega aukin rannsóknaskylda

 1. Almenn regla: Óski kennari eftir að auka hlutfall rannsóknaskyldu sinnar á kostnað kennsluskyldu skal almenna reglan vera sú að hann finnur kennara í sinn stað og greiðir kennsluna af sértekjum/sjálfsaflafé.
 2. Sérregla: Telji fræðasviðsforseti/deild mikilvægt að tilteknum kennara sé gert kleift að auka hlutfall rannsóknaskyldu sinnar getur viðkomandi svið/deild samþykkt að bera kostnaðinn vegna þess.
 3. Kennari sem eykur við sig hlutfall rannsóknaskyldu samkvæmt 1. lið getur ekki kennt í yfirvinnu nema um sé að ræða leiðbeiningu við meistara- og/eða doktorsritgerð.

4. gr. Rannsóknaleyfi

Til þess að eiga kost á rannsóknaleyfi skal háskólakennarinn hafa sinnt fullri kennslu- og stjórnunarskyldu undangengin sex eða tólf misseri eftir því hvort sótt er um eitt eða tvö rannsóknamisseri, samanlögð stig vegna rannsókna nema að minnsta kosti 10 stigum á ári að meðaltali, á síðustu 3-5 árum. Sjá nánar Reglur um rannsóknamisseri kennara við Háskólann á Akureyri nr. 355/2012 með breytingu nr. 636/2013.

5. gr. Gildistaka o.fl.

Reglur þessar, samþykktar í háskólaráð 21. júní 2018, eru settar á grundvelli 18. gr. laga um háskóla nr. 63/2006, 15. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og 18. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri, nr. 387/2009. Reglur þessar öðlast þegar gildi.

 

Háskólinn á Akureyri 21. júní 2018. Eyjólfur Guðmundsson, rektor

Reglur um vísindasjóð

Reglur um Vísindasjóð Háskólans á Akureyri.

Reglur um akademísk gestastörf

Reglur um akademísk gestastörf við Háskólann á Akureyri samþykktar í háskólaráði 27. júní 2011. Prentskjal (pdf)

1. Faglegar kröfur
Fræðasviðum er heimilt, í umboði rektors, að bjóða völdum einstaklingum að gegna akademískum gestastörfum við fræðasviðin. Þeir sem valdir eru til að gegna akademískum gestastörfum skulu ótvírætt uppfylla sömu kröfur um faglegt hæfi og gerðar eru til þeirra sem starfa við kennslu og sjálfstæðar rannsóknir innan Háskólans á Akureyri.

2. Hæfismat
Fræðasvið sem hyggjast bjóða völdum einstaklingum að gegna akademískum gestastörfum skulu ganga úr skugga um að þeir uppfylli ótvírætt lágmarkskröfur um hæfi sem gerðar eru til þeirra sem hafa samsvarandi starfsheiti innan Háskólans á Akureyri. Komist fræðasviðin að þeirri niðurstöðu að svo sé skulu þær senda niðurstöðu sína ásamt ferilskrá viðkomandi og stuttum skriflegum rökstuðningi til rektors sem tekur endanlega afstöðu til starfsveitingarinnar.

3. Fjöldi
Fjöldi þeirra sem gegna akademískum gestastörfum á hverjum tíma skal ekki vera meiri en sem nemur 20% af heildarfjölda fastra kennara á viðkomandi fræðasviði/deild. Launaskrifstofa HA heldur skrá yfir þá sem gegna akademískum gestastörfum á hverjum tíma.

4. Leiðbeining í rannsóknatengdu framhaldsnámi
Akademísk gestastörf fela í sér að viðkomandi séu viðurkenndir leiðbeinendur í rannsóknatengdu framhaldsnámi innan fræðasviða/deilda HA, enda uppfylli þeir þær kröfur sem Háskólinn á Akureyri gerir að þessu leyti.

5. Samningur
Gera skal skriflegan samning um hvert akademískt gestastarf þar sem m.a. er kveðið á um gildistíma, gildissvið, fjárhagsleg samskipti, réttindi og skyldur hvors samningsaðila, eðli og inntak samstarfsins, s.s. hvort og að hvaða leyti það taki til rannsókna, kennslu og leiðbeiningar á grunn- og framhaldsstigi, setu í framhaldsnámsnefndum, stjórnun, birtingu vísindagreina í nafni beggja samningsaðila og kynningarmála, eftir því sem við á hverju sinni. Að jafnaði skal sú stofnun eða fyrirtæki sem viðkomandi gestakennari starfar hjá eiga aðild að samkomulaginu. Rektor og forsetar fræðasviða undirrita samningana fyrir hönd Háskólans á Akureyri.

6. Gildistími
Öll akademísk gestastörf skulu vera tímabundin og að hámarki til 5 ára í senn. Að þeim tíma liðnum skal metið hvort bjóða eigi gestastarfið að nýju og skal þá gera um það nýjan samning.

7. Fjármál
Akademísk gestastörf eru ekki launuð nema sérstaklega sé kveðið á um annað í samningi, sbr. lið 5.

8. Starfsheiti
Íslensk heiti akademísku gestastarfanna eru gestalektor, gestadósent og gestaprófessor. Samsvarandi ensk þýðing á heitunum er Adjunct Assistant Professor [/Adjunct Lecturer]*, Adjunct Associate Professor [/Adjunct Senior Lecturer]* og Adjunct Professor. Heimilt er með samþykki rektors að nota önnur heiti, svo sem rannsóknaprófessor, rannsóknadósent og rannsóknalektor, ef um er að ræða viðamikla samstarfssamninga um kennslu og rannsóknir með þátttöku fleiri en einnar deildar.* *breytt með ákvörðun háskólaráðs 21. mars 2013.

9. Siðareglur
Siðareglur Háskólans á Akureyri gilda um þá sem gegna akademískum gestastörfum.

Reglur um leyfi til framhaldsnáms

Reglur um leyfi til framhaldsnáms. Samþykktar í háskólaráði 31. ágúst 2012. Reglur þessar byggja á gr. 10.1.1 í kjarasamningi Félags háskólakennara á Akureyri. Prentskjal (pdf)

1. Fastráðnir starfsmenn Háskólans á Akureyri sem ekki hafa rannsóknaskyldu og starfað hafa við háskólann í fjögur ár eiga rétt á leyfi til að stunda endurmenntun/framhaldsnám enda sé það í samræmi við endurmenntunar- /starfsþróunaráætlun háskólans eða starfsmanns sé hún til staðar.

Í leyfinu skal starfsmaður halda reglubundnum launum. Heimilt er að greiða ferða- og dvalarkostnað samkvæmt nánari reglum.

Starfsmaður ávinnur sér tveggja vikna leyfi á hverju ári. Uppsafnaður réttur getur þó ekki orðið meiri en 6 mánuðir og greiðist ekki út við starfslok. Heimilt er að veita skemmri eða lengri námsleyfi á skemmra eða lengra árabili. Háskólinn á Akureyri mun að jafnaði ekki veita leyfi af þessu tagi í lengri tíma en 3 mánuði samfellt.

2. Umsókn um leyfi frá störfum til að stunda framhaldsnám/endurmenntun skal skila til yfirmanns viðkomandi starfssviðs fyrir 1. október ár hvert vegna leyfis sem fyrirhugað er á næsta almanaksári.

Gera þarf grein fyrir því hvaða nám umsækjandi hyggst stunda, hvar það verður stundað og hvernig það tengist starfi hans. Teljist námið ekki til framhaldsnáms þarf sérstakur rökstuðningur viðkomandi yfirmanns að fylgja umsókninni. Rektor tekur ákvörðun um hvort leyfið verður veitt að fenginni umsögn framkvæmdastjóra og viðkomandi yfirmanns.

3. Að loknu leyfi skal starfsmaður skila skýrslu til viðkomandi yfirmanns um framvindu námsins og þarf m.a. að koma fram:

a) hvernig leyfið var nýtt
b) hvernig líklegt er að námið í leyfinu skili sér í starfi viðkomandi
c) hvort fyrirhugað sé frekara framhald námsins

Reglur um gæðaráð

Reglur um gæðaráð Háskólans á Akureyri. Samþykktar í háskólaráði 9. mars 2011. Prentskjal (pdf)

I. Hlutverk og verkefni gæðaráðs

Gæðaráð er fastanefnd háskólaráðs og starfar samkvæmt 8. gr. Reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009. Gæðaráð ber ábyrgð á framkvæmd gæðakerfis háskólans. Rektor ber endanlega ábyrgð á gæðakerfi háskólans en dagleg umsjón með rekstri þess er í höndum gæðastjóra sem jafnframt er í forsvari (breytt með ákvörðun háskólaráðs 17. sept. 2015). Rektor gefur út starfslýsingu fyrir gæðastjóra

II. Skipan gæðaráðs

Í gæðaráði sitja gæðastjóri í forsæti, fulltrúar fræðasviða, forstöðumaður kennslumiðstöðvar og forstöðumaður nemendaskrár (breytt með ákvörðun háskólaráðs 17. sept. 2015) auk tveggja fulltrúa nemenda sem FSHA tilnefnir og tveggja fulltrúa sem starfsmenn tilnefna. Annar fulltrúa starfsmanna skal vera akademískur starfsmaður. Einnig skal tilnefna varafulltrúa nemenda og starfsmanna og sitja tilnefndir fulltrúar í tvö ár í gæðaráðinu. Gæðaráð skiptir með sér verkum og skipar sér ritara (breytt með ákvörðun háskólaráðs 15. okt. 2015).

III. Starfshættir og viðfangsefni gæðaráðs

Gæðaráðið skal kallað saman að jafnaði einu sinni í mánuði. Viðfangsefni gæðaráðs eru:

 • að tryggja að háskólinn standist ávallt þær ytri kröfur sem gerðar eru til gæða í starfi hans
 • að vekja áhuga á gæðamálum innan háskólans
 • að vera vettvangur umfjöllunar og ákvarðanatöku um gæðamál háskólans
 • að stuðla að umbótum og þróun á kennslu og námsmati innan háskólans
 • að samþykkja, hafa eftirlit með og tryggja reglulega endurskoðun á námsbrautum og prófgráðum
 • að vaka yfir gæðum rannsókna innan háskólans og starfa með vísindaráði hans að því að móta viðmið og kvarða sem notaðir eru til að meta vísindalega starfsemi við Háskólann á Akureyri
 • að safna saman, meta og bregðast við þeim upplýsingum um starfsemi háskólans sem lúta að gæðum     
 • að taka afstöðu til mikilvægra breytinga á starfsemi háskólans sem kunna að hafa áhrif á gæði í starfsemi hans
 • að fjalla um undirbúning og framkvæmd sjálfsmats og ytra mats á háskólanum og tryggja eftirfylgni

IV. Almenn ákvæði

Reglur þessar eru settar af háskólaráði samkvæmt 8. gr. Reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009 og öðlast þegar gildi.

 

Reglur sem heimila samsetningu náms

Reglur um heimila samsetningu náms við Háskólann á Akureyri. Samþykktar í háskólaráði 25. apríl 2008.

Bakkalárstig:
1. Nemendur ljúka 90 einingum/180 (ECTS) einingum eða 120 einingum/240 (ECTS) einingum til að hljóta bakkalárpróf.

2. Nemendum er heimilt að byggja nám sitt upp með þeim hætti að ljúka 60 (120 ECTS) eða 90 (180 ECTS) einingum í aðalgrein og 0 eða 30 (60 ECTS) einingum í aukagrein.

Sé bakkalárnám 120 (240 ECTS) einingar er heimilt að setja það saman úr 120 (240 ECTS), 90 (180 ECTS) eða 60 (120 ECTS) einingum í aðalgrein og 0, 30 (60 ECTS) eða 60 (120 ECTS) einingum í aukagrein.

Allar slíkar námsleiðir þurfa að vera fyrirfram skilgreindar í námskrá áður en nám hefst.

Reglur um starfsþjálfunarleyfi

Reglur um starfsþjálfunarleyfi. Samþykktar á fundi framkvæmdastjórnar 28. febrúar 2007. Prentskjal (pdf)

Fastráðnir starfsmenn Háskólans á Akureyri sem ekki hafa rannsóknaskyldu og starfað hafa við háskólann í fjögur ár hið minnsta geta sótt um leyfi til starfsþjálfunar í allt að tvo mánuði.

Umsókn um starfsþjálfunarleyfi skal berast yfirmanni viðkomandi deildar eða sviðs fyrir 1. júlí hvert ár vegna leyfis á næstkomandi ári, þannig að taka megi tillit til þess við áætlanagerð.

Rektor tekur ákvörðun um hvort leyfið verður veitt að fenginni umsögn framkvæmdastjóra og yfirmanns viðkomandi sviðs. Heimilt er einnig að greiða ferða- og dvalarkostnað samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar vegna starfsþjálfunar. Er þá miðað við sambærilegar reglur og gilda vegna rannsóknaleyfa þannig að greiddir eru fullir þjálfunardagpeningar í einn mánuð, en heimilt er að greiða skerta dagpeninga þann tíma sem leyfið stendur umfram einn mánuð.

Að jafnaði skal ekki veita starfsþjálfunarleyfi í lengri tíma en 3 mánuði samfellt. (Dæmi: Starfsmaður sem starfað hefur í sex ár fær leyfi í þrjá mánuði. Dagpeningar eru þá greiddir í einn mánuð óskertir en 25% dagpeningar í tvo mánuði).