Spurt & svarað

Ef þú finnur ekki svör við spurningum þínum er þér velkomið að hafa samband við starfsfólk þjónustuborðsins í vefspjallinu, senda tölvupóst eða líta við.

Sótt um nám

Hver eru inntökuskilyrði í HA?

Nemendur sem sækja um grunnnám þurfa að hafa stúdentspróf eða jafngilt próf.

Nemendur sem sækja um framhaldsnám þurfa að hafa lokið BA eða BSc prófi eða sambærilegu þriggja ára háskólanámi með fyrstu einkunn (7,25 nema annað sé tekið fram).

Mismunandi inntökuskilyrði gilda fyrir deildir háskólans. Sumar deildir veita undanþágur frá almennum inntökuskilyrðum. Hér finnur þú nánari upplýsingar um aðgangsviðmið og undanþágur.

Hver er umsóknarfresturinn?

Tekið er við umsóknum í grunnnám og framhaldsnám frá byrjun mars til og með 15. júní.
ATH! umsóknarfrestur í lögreglufræði er 4. maí.

Einnig er tekið við umsóknum í framhaldsnám (nema í heilbrigðisvísindi) um miðjan nóvember til 1. desember.

Skiptir máli hvort ég sæki um fjarnám eða dagskóla?

Nei, Háskólinn á Akureyri býður upp á sveigjanlegt nám sem þýðir að allir stunda sama námið.

Hvernig sæki ég um nám við HA?

Þú sækir um nám við HA með því að fylla út umsókn á vef háskólans. Þar finnur þú einnig upplýsingar um nauðsynleg fylgigögn og fleira.

Háskólinn á Akureyri tekur á móti skönnuðum staðfestum gögnum um fyrra nám umsækjenda sem gild fylgigögn með umsókn um nám við HA.

Umsóknir eru ekki teknar til afgreiðslu nema að þeim fylgi staðfest gögn um fyrra nám eða umsækjandi gefi HA leyfi til að sækja stúdentsskírteini beint í Innu. Skönnuð afrit af staðfestum gögnum má hengja við umsóknina (á .pdf-sniði) eða senda þau í tölvupósti á nemskra@unak.is
Þá má einnig senda gögn á pappír í bréfapósti á:

Háskólinn á Akureyri
b.t Nemendaskrá
Norðurslóð 2
600 Akureyri

Athugið að ljósmyndir (sem dæmi .jpg-snið eða .png-snið) af skírteinum er ekki teknar gildar.

Skönnuð prófskírteini skulu vera í frumriti eða staðfest afrit með stimpli frá viðkomandi skóla.

HA áskilur sér rétt til að kalla eftir frumritum prófskírteina áður en umsókn er tekin til afgreiðslu.

Hvar fæ ég upplýsingar um stöðu umsóknarinnar?

Þú fylgist með stöðu umsóknar þinnar á samskiptagátt HA

Hvað kostar námið og hvernig greiði ég?

Nemendur við HA greiða árlegt skráningargjald, sem er 75.000 kr., en ekki skólagjöld. Allir umsækjendur fá rafrænan reikning fyrir skráningargjaldinu í netbankann sinn. Greiðsluseðill á pappír er einungis sendur til þeirra sem óska sérstaklega eftir því við skrifstofu háskólans.

Skráningargjaldið verður að greiða fyrir gjalddaga, 5. ágúst. Ef greitt er eftir gjalddaga reiknast 15% álag á gjaldið. Skráningargjald verður þá 86.250 krónur. Með greiðslu gjaldsins staðfestir umsækjandi skólavist sína.

Þeir sem hafa 75% örorkumat greiða 50% af skráningargjöldum. Það þarf að framvísa staðfestingu á örorkumati til nemendaskrár.

Nánari upplýsingar um skráningargjaldið má finna hér.

Þeir sem ekki eru með netbanka verða að huga sjálfir að því að hafa samband við skrifstofu háskólans til að millifæra skráningargjaldið.

Hvar finn ég gagnlegar upplýsingar fyrir nýnema?

Upphaf háskólanáms markar tímamót og vekur margar spurningar. Á vefsíðunni Nýnemi 101 er hægt að finna svör við nokkrum þeirra sem algengar eru. Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá starfsfólki háskólans, Stúdentafélagi HA og samnemendur þínir hjálpa þér líka án efa eftir fremsta megni.

Hvernig afþakka ég skólavist?

Með því að sleppa því að greiða greiðsluseðil í heimabanka ert þú að afþakka skólavist. Krafan dettur sjálfkrafa út eftir að eindagi er liðinn.  

Þú getur líka látið vita á nemskra@unak.is en greiðslukrafan dettur ekki úr heimabanka fyrr en að eindagi er liðinn.

Hvernig fæ ég aðgang að Uglu?

Þú þarft að sækja um notendanafn og lykilorð.

  1. Þú skráir þig inn með kennitölu og veflykili sem þú fékkst þegar þú sóttir um skólavist
  2. Þá kemur upp gluggi með notendanafni og lykilorði. Mundu að skrá þetta niður, því þetta kemur hvergi annarsstaðar fram

Ef þú finnur ekki tölvupóstinn/veflykilinn getur þú sent tölvupóst á nemskra@unak.is og óskað eftir að fá veflykilinn sendan. Kennitala þín eða umsóknarnúmer verða að fylgja með í póstinum.

Með aðgangi að Uglu færð þú einnig netfang hjá háskólanum (notendanafn@unak.is) og aðgang að Moodle. Háskólatölvupóstinn finnur þú í gegnum Uglu eða á office.unak.is.

Námskeið og kennsla

Hvenær byrjar kennsla?

Upplýsingar um nýnemadaga, upphaf kennslu og kennslutímabil má finna í kennslualmanaki HA.

Hvar finn ég stundatöflu?

Stundatöflur má finna í Uglu, innri vef HA.

Hvar finn ég námskeiðsáætlun?

Námskeiðsáætlun finnur þú á vef hvers námskeiðs í Moodle. Í námskeiðsáætlun er að finna upplýsingar um lesefni námskeiðsins.

Í námskeiðsáætlun á einnig að koma fram hvernig námsmati námskeiðsins er háttað, þ.e. vægi prófa og/eða verkefna, hvort mætingarskylda er í námskeiðinu o.s.frv.

Hvað er kennsluskrá?

Kennsluskrá sýnir öll námskeið sem kennd eru á tilteknu skólaári. Þar má einnig sjá upplýsingar um námskeiðin.

Sem dæmi getur kennsluskráin komið sér vel þegar þú velur þér valnámskeið. Þá getur þú séð öll námskeið sem eru kennd á skólaárinu eftir námsleið.

Smelltu hér til að skoða kennsluskrá í Uglu, innri vef HA.

Hvað er námskrá?

Í námskrá getur þú séð væntanlegt námsfyrirkomulag fyrir námsleiðina þína. Námskráin sýnir hvaða námskeið þú þarft að taka og hvenær yfir námstímann.

Smelltu hér til að skoða námskrá í Uglu, kennsluvef HA.

Hvar finn ég bókalista?

Þú finnur bókalista í Uglu á vef námskeiðsins undir „Bækurnar mínar". Þeir sem ekki hafa aðgang að Uglu sjá bókalista í kennsluskrá.

Er skylda að sækja tíma?

Meginreglan er að tímasókn er frjáls. Þó er oft gerð krafa um skyldumætingu í námskeiðum þar sem kennslan byggist að hluta á framlagi stúdenta, s.s. umræðu- og verkefnatímum.

Hvenær eru lotur og er skyldumæting?

Lotur eru birtar á vef HA, mætingarreglur eru ólíkar á milli deilda og ber stúdentum að kynna sér þær.

Hvernig staðfesti ég skráningu mína í námskeið við skólann?

Þú þarft að staðfesta skráningu í námskeið í Uglu. Ef þú staðfestir ekki námskeiðin verður þú skráð/ur úr þeim. Þú staðfestir skráningu í námskeið með því að smella á borðann sem birtist efst í Uglu. Mundu eftir að staðfesta valið með því að smella á „Vista“ neðst á síðunni.

Þú þarft að staðfesta námskeið á haustmisseri (og breyta vali ef þú vilt) á tímabilinu 5. til 15. september. Þú þarft að staðfesta námskeið á vormisseri (og breyta vali ef þú vilt) á tímabilinu 10. til 20. janúar. Að loknum þessum tímabilum er ekki hægt að skrá sig í ný námskeið á tilteknu misseri.

Nánari upplýsingar um skráningu í námskeið og próf.

Hvernig skrái ég mig úr námskeiði?

Þú skráir þig úr námskeiðum í Uglu. Uglan mín → Námskeiðin mín. Aftan við hvert námskeið er tákn fyrir úrsögn sem þú smellir á. Athugaðu að staðfesta þarf valið svo úrsögn taki gildi. Nemendur geta sjálfir skráð sig úr námskeiðum á tímabilinu 5. til 15. september fyrir haustmisseri og 10. til 20. janúar fyrir vormisseri. Utan þess tímabils þurfa nemendur að setja sig í samband við Nemendaskrá eða skrifstofur fræðasviða.

Skráning í námskeið er jafnframt skráning í próf og veitir aðgang að öllum gögnum námskeiðs og því er mikilvægt að skráningin sé rétt. Frestur til þess að skrá sig úr námskeiðum haustmisseris rennur út þann 5. nóvember og 1. apríl fyrir vormisseri. Skráir þú þig ekki úr námskeiði, sem þú ætlar ekki að taka, jafngildir það falli í námskeiðinu.

Athugaðu að breytingar á námskeiðaskráningu koma ekki fram í stundatöflu fyrr en eftir þrjá klukkutíma.

Ef vandamál koma upp við úrsögn úr námskeiðum getur þú leitað til Nemendaskrár eða skrifstofu fræðasviða.

Nánari upplýsingar um skráningu í/úr námskeiðum og prófum.

Hvar skrái ég mig í námskeið næsta skólaárs?

Í mars á hverju ári fer fram skráning í áframhaldandi nám, í Uglu. Nemendur skrá sig í námskeið næsta skólaárs. Það er mjög mikilvægt að sinna skráningunni þar sem hún jafngildir skráningu í skólann næsta ár. Þú skráir þig með því að smella á borðann sem birtist í Uglu. Greiðsluseðlar fyrir innritunargjöldum eru eingöngu sendir út til þeirra nemenda sem hafa skráð sig á næsta skólaár. Skráir þú þig ekki er litið svo á að þú sért hætt/ur námi.

Mundu eftir að staðfesta valið með því að smella á „Vista“ neðst á síðunni. Með því að greiða skrásetningargjaldið staðfestir þú að þú ætlir að halda áfram námi.

Nemendur geta sjálfir breytt skráningu í námskeið til 15. september fyrir haustmisseri og til 20. janúar fyrir vormisseri.

Nánari upplýsingar um dagsetningu árlegrar skráningar eru í kennslualmanaki HA. Þurfir þú aðstoð við námskeiðaskráningu getur þú leitað til Nemendaskrár.

Hvernig er sótt um mat á fyrra námi?

Þú getur sótt um mat á fyrra námi. Upplýsingar um reglur eru á vef HA.

Hvar fæ ég upplýsingar um nám í erlendum háskólum?

Upplýsingar um nám í erlendum skólum gefur alþjóðafulltrúi HA:

Sjá einnig vefsíðu um nám erlendis: www.farabara.is

 

Hvað má ég vera lengi að ljúka námi?
Í reglum Háskólans á Akureyri nr. 387/2009 er kveðið á um hámarksnámstíma. Hámarkstími í tilteknu námi við skólann skal vera 50% umfram áætlaðan námstíma, en deildafundur fræðasviðs getur þó veitt undanþágur frá þeim áskilnaði í sérstökum tilvikum. Fræðasvið geta sett sér frekari reglur um námsframvindu í samvinnu við kennslusvið., sbr. 29. gr. reglna sem fjallar um nemendur, kennslu og námsmat. Nemendur sem ekki ná að ljúka námi innan tilskilins tíma þurfa að sækja um endurinnritun samkvæmt nýjustu námskrá þess náms sem þeir stunda nám í.

Frekari reglur um námsframvindu fræðisviða: 

Staðfest námsgögn (skólavottorð, námsferill, gögn fyrir séttafélög o. fl.)

Hvar fæ ég staðfestingu á skólavist?

Þú færð ýmiss konar vottorð á Þjónustuborði nemendaskrár. Einnig er hægt að panta vottorð með því að senda tölvupóst (nemskra@unak.is) eða hringja í 460 8000.

Þú millifærir 300 kr. inn á reikning 0162-26-6610 kt. 520687-1229 og sendir kvittun úr heimabanka á nemskra@unak.is og færð síðan vottorðið sent á tölvupóstfangið þitt. Eigi vottorð að vera sent á lögheimili þarftu að borga 500 kr. fyrir það (200 kr í póstburðargjald).

Vinsamlegast athugaðu að mjög mismunandi er hvaða upplýsingar þurfa að koma fram í vottorðum og því mikilvægt að þú takir skýrt fram hvaða upplýsingar þú þarft.

Hvar fæ ég staðfest afrit af námsferli?

Þú færð námsferilsyfirlit á Þjónustuborði nemendaskrár, stk kostar 300 kr. Hægt er að panta námsferilsyfirlit með því að senda tölvupóst (nemskra@unak.is) eða hringja í 460 8000.

Þú millifærir 300 kr. inn á reikning 0162-26-6610 kt. 520687-1229 og sendir kvittun úr heimabanka á nemskra@unak.is og færð síðan vottorðið sent á tölvupóstfangið þitt. Eigi námsferill að vera sent á lögheimili þarftu að borga 500 kr. fyrir það (200 kr í póstburðargjald).

Vinsamlegast athugaðu að mjög mismunandi er hvaða upplýsingar þurfa að koma fram í vottorðum og því mikilvægt að þú takir skýrt fram hvaða upplýsingar þú þarft.

Hvar fæ ég lýsingu á námskeiðunum mínum?

Námskeiðalýsingar fást á Þjónustuborði nemendaskrár. Einnig geturðu óskað eftir þeim með því að senda tölvupóst (nemskra@unak.is) eða með því að hringja í 460 8000. Námskeiðalýsingar kosta 300-1.000 kr. eftir fjölda námskeiða.

Þú getur fengið námskeiðalýsingar sendar á lögheimili þitt eða í tölvupósti.

Hvar fæ ég afrit af brautskráningarskírteini?

Þú færð staðfest afrit af prófskírteini á Þjónustuborði nemendaskrár. Stykkið kostar 300 kr.

Hægt er að panta staðfest afrit af prófskírteini með því að senda tölvupóst (nemskra@unak.is) eða hringja í 460 8000.

Mig vantar gögn frá HA fyrir stéttarfélag, fæðingarorlof eða annað.

Þú færð ýmiss konar vottorð á Þjónustuborði nemendaskrár. Einnig er hægt að panta vottorð með því að senda tölvupóst (nemskra@unak.is) eða hringja í 460 8000. Þú millifærir 300 kr. inn á reikning 0162-26-6610 kt. 520687-1229 og sendir kvittun úr heimabanka á nemskra@unak.is og færð síðan vottorðið sent á tölvupóstfangið þitt.

Eigi vottorð að vera sent á lögheimili þarftu að borga 500 kr. fyrir það (200 kr í póstburðargjald).

Vinsamlegast athugaðu að mjög mismunandi er hvaða upplýsingar þurfa að koma fram í vottorðum og því mikilvægt að þú takir skýrt fram hvaða upplýsingar þú þarft.

Námsval, námsráðgjöf og breytingar á námi

Hvernig fæ ég tíma hjá námsráðgjafa?

Þú getur bókað tíma eða mætt í opinn tíma milli kl. 13.30-14.30. Það er líka hægt að koma í fjærveru eða bóka fjarfund. Þú getur bókað tíma eða sent almenna fyrirspurn á netfangið radgjof@unak.is. 

Miðstöð náms og starfsráðgjafa er á G-gangi, rétt hjá bókasafni háskólans.

Er Miðstöð náms- og starfsráðgjafa með námskeið fyrir nemendur?

Náms- og starfsráðgjafar háskólans bjóða upp á námskeið sem einnig er hægt er að taka á netinu. Nánari upplýsingar fást hjá miðstöðinni, einnig er hægt að senda póst á radgjöf@unak.is eða hringja í síma 460-8034/460-8038. Einnig eru í boði örnámskeið og fyrirlestrar sem eru þá sérstaklega auglýst.

Hvað geri ég ef mig langar að skipta um námsleið?

Náms- og starfsráðgjafar háskólans taka vel á móti þér og veita faglega ráðgjöf um námsval. Við hvetjum þig til að heyra í þeim.

Hafir þú hug á því að skipta um námsleið þarft þú að setja þig í samband við skrifstofur fræðasviða.

Athugaðu að slíkar breytingar geta verið bundnar við misseri, þ.e. að ekki er hægt að hefja nám á vormisseri á öllum námsleiðum.

Hvað þarf ég að gera ef ég vil hætta námi?

Ef þú vilt hætta námi þarftu að skila inn skriflegri yfirlýsingu um það. Það er hægt að gera með því að senda tölvupóst til nemendaskrár (nemskra@uank.is) eða á viðkomandi skrifstofustjóra sem staðfestir úrsögn úr háskólanum. Námsferli þínum er þá lokað. 

 

Get ég farið í skiptinám?

Allir nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Nánari upplýsingar um skiptinám gefur alþjóðafulltrúi HA:

Umsóknarfrestur til að sækja um skiptinám er fyrir 1. mars fyrir komandi skólaár.

Próf

Hvenær eru próf?

Próf eru haldin í lok hvors kennslumisseris. Í desember vegna námskeiða á haustmisseri og apríl-maí vegna námskeiða á vormisseri. Tímabil almennra prófa, sjúkraprófa og endurtökuprófa má alltaf finna í kennslualmanaki.

Hvar finn ég próftölur?

Þú getur séð þína próftöflu í Uglu undir > Námskeiðin mín > Próf. Hér eru gagnlegar upplýsingar um próf.

Þarf ég að skrá mig í próf?

Skráning í námskeið er jafnframt skráning í próf. Í september og janúar þarft þú að staðfesta námskeiðaskráningu þína sem jafnframt er skráning í próf. Þú þarft hins vegar að skrá þig sérstaklega í sjúkrapróf og endurtökupróf og það gerir þú í Uglu. Ef slík próf eru utan auglýsts próftíma þarf í sumum tilvikum að hafa samband við nemendaskrá til að fá aðstoð við skráningu í sjúkra- og endurtökupróf.

Hvernig skrái ég mig úr prófi?

Skráning úr námskeiði er jafnframt skráning úr prófi. Þú skráir þig úr námskeiði í Uglu:

  • Uglan mín → Námskeiðin mín. Þar aftan við hvert námskeið er tákn fyrir úrsögn sem hægt er að smella á. Athugaðu að staðfesta þarf valið svo úrsögn taki gildi.

Frestur til þess að skrá sig úr námskeiðum haustmisseris rennur út þann 5. nóvember og 1. apríl fyrir vormisseri.

Hvernig breyti ég prófstaðnum mínum?

Prófstaðurinn þinn er skráður á Uglu og ef þú þarft að breyta honum fyrir ákveðna próftíð eða fyrir tiltekið próf þarf að hafa samband við prófstjóra með góðum fyrirvara.

Próf erlendis?

Ef þú óskar þess að taka próf á öðrum stað en skráðum prófstað HA getur þú sótt um það til prófstjóra a.m.k. þremur vikum fyrir áætlaðan prófdag. Sækja þarf um slíkt fyrir hvert misseri og nemandi þarf að sjálfur að útvega prófstað sem stenst gæðakröfur HA.

Hvar finn ég gömul próf?

Prófspurningar úr prófum úr reglulegri próftíð eru varðveittar í 3 ár og eru aðgengilegar á bókasafni háskólans.

Í sumum tilvikum hafa kennarar ákveðið að veita sjálfir aðgang að verkefnunum og í prófasafninu sést þá hver kennarinn er og hvenær prófið var haldið. Í þeim tilvikum þarf að hafa samband við kennarann til að skoða eldri prófverkefni. Aðgangur nemenda að eldri prófum er veittur samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012.

Hvað gerist ef ég eða barnið mitt veikist þannig að ég get ekki tekið próf?

Stúdent sem veikist og getur þar af leiðandi ekki þreytt próf, ber að tilkynna veikindi til nemendaskrár HA á prófdegi. Stúdent þarf að staðfesta veikindin með læknisvottorði innan fimm virkra  daga frá prófdegi. Hið sama gildir ef barn stúdents veikist.

Hvað gerist ef ég veikist á meðan á próftöku stendur?

Veikist stúdent í prófi ber honum að vekja athygli prófgæslumanns sem skrifar athugasemd um það á prófúrlausn. Skal læknisvottorði dagsettu samdægurs skilað til Nemendaskrár HA.

Hvað má hafa með sér í próf?

Nemendur þurfa að mæta til prófs með skilríki sem þeir láta liggja á borðinu sínu. Yfirhafnir, töskur, símar og annar búnaður (til dæmis snjallúr) sem ekki tilheyrir leyfilegum hjálpargögnum þarf að geyma utan við prófstofu. Matur og tóbak er ekki leyfilegt í prófstofu.

Hvað hafa kennarar langan tíma til að fara yfir próf?

Lokaeinkunn námskeiða skal birta eigi síðar en á tólfta virka degi eftir prófdag. Einkunnir úr símatsþáttum skal birta innan 30 daga frá skila- eða prófdegi.

Hvar nálgast ég einkunnir mínar?

Lokaeinkunnir eru birtar á heimasvæði stúdenta á Uglunni.

Hvað ef ég fell í prófi? Endurtökupróf

Meginreglan er sú að heimilt er að þreyta próf í hverju námskeiði tvisvar. Ef þú fellur eða mætir ekki í lokapróf er þér heimilt að taka það aftur næst þegar lokapróf er haldið í viðkomandi námskeiði.

Auk þess er deildum heimilt, í samráði við prófstjóra, að halda endurtökupróf í einstökum námskeiðum. Slík endurtökupróf eru einungis fyrir stúdenta sem áður hafa þreytt próf í viðkomandi námskeiði.

Greiða þarf 6.000 kr. fyrir hverja skráningu í endurtökupróf. Þú skráir þig í endurtökupróf með því að smella á borða í Uglu eða á Þjónustuborði nemendaskrár.

Upplýsingar um próftímabil endurtökuprófa má sjá í kennslualmanaki.

Sjá nánar í reglum um námsmat fyrir Háskólann á Akureyri.

Hvað get ég gert til að fá útskýringar á námsmati?

Nemandi á rétt á að fá útskýringar á námsmati innan 15 daga frá birtingu lokaeinkunnar. Útskýringar á námsmati fela í sér að kennari gefi nemanda upp sundurliðaðar einkunnir og útskýringar á hverri einkunn, þar með talið einkunnir fyrir hverja spurningu í prófi.

Lokaverkefni

Hvenær eru skiladagar lokaverkefna?

Upplýsingar um lokaverkefni og fleira þeim tengt er hægt að nálgast í Uglu, innri vef háskólans.

Nemendur sem skila lokaritgerðum eftir brautskráningu að vori (Háskólahátíð) verða að borga fullt skráningargjald fyrir næsta skólaár ef þeir hyggjast brautskrást. Þetta á við um brautskráningar 15. október og 15. febrúar.

Hvert get ég leitað til að fá aðstoð með lokaverkefnið mitt?

Í Ritveri Háskólans á Akureyri er veitt aðstoð á öllum stigum ritunarferilsins varðandi verkefni í smíðum, bæði lokaverkefni og námsritgerðir. Þú getur bókað tíma sem er þrjátíu mínútur í gegnum bókunarsíðu ritversins. Ef þú getur ekki mætt á staðinn getur þú fengið tíma í gegnum Zoom. Nánari upplýsingar um ritverið.

Einnig getur þú bókað tíma hjá bókasafnsfræðingi til að fá aðstoð við heimildaleit og heimildavinnu. Samskiptaforritið Zoom er notað ef nemendur geta ekki komið á staðinn. Nánar um þjónustu bókasafnsins.

Hvert á að skila inn lokaverkefnum?

Öllum lokaverkefnum á að skila rafrænt í Skemmuna og í Turnitin. Nánari upplýsingar um lokaverkefni.

Nemendur í grunn- og framhaldsnámi þurfa ekki að skila prentuðu eintaki til bókasafnsins

Hvar finn ég leiðbeiningar um Turnitin?

Háskólinn notar forritið Turnitin til varnar ritstuldi. Í Turnitin er hægt að hlaða inn skjali með texta, til dæmis lokaverkefni. Forritið ber texta skjalsins saman við mikið safn heimilda. Niðurstaðan sýnir hvort rétt er farið með heimildir og tilvísanir í þær, eða hvort um er að ræða óeðlilega mikla samsvörun við verk annarra höfunda.

Brautskráning

Þarf ég að skrá mig í brautskráningu?

Nemendur sem ætla að brautskrást í júní þurfa alltaf að skrá sig til brautskráningar sama hvort þeir verða viðstaddir athöfn eða ekki. Skráningar eru gerðar í Uglu, frá janúar til 20. mars, sem er lokadagur skráningar fyrir brautskráningu í júní.

Mundu að kanna hvort að þú hafir staðist allar kröfur sem gerðar eru til brautskráningar áður en þú skráir þig. Ef þú ert ekki skráð/-ur í brautskráningu og/eða hefur ekki staðfest við deildina þína í lok misseris að þú ætlir að brautskrást er litið svo á að þú ætlir ekki að brautskrást og færð ekki afhenta brautskráningarpappíra.

Athugið að til þess að geta útskrifast þurfa nemendur að vera skuldlausir við háskólann og stofnanir hans.

Nemendur sem ljúka námi utan hefðbundins tíma geta fengið námslok staðfest og prófskírteini afhent 15. október eða 15. febrúar. Þá er brautskráning án brautskráningarhátíðar. Senda þarf inn beiðni til skrifstofustjóra.

Vinsamlegast athugið að vegna aðstæða hefur fyrirkomulag brautskráningar 2020 verið breytt. Allar nánari upplýsingar er hægt að finna í viðburðadagatali.

Hér má lesa meira um brautskráningu.

Hvernig fæ ég prófskírteinið mitt, vegna brautskráningar 2020? 

Öll prófskírteini verða send í ábyrgðarpósti á lögheimili kandídata mánudaginn 15. júní. Ekki er mögulegt að fá þau fyrr né sækja þau í HA.

Lögreglufræði

Hvað þurfa nemendur að gera og uppfylla til þess að öðlast rétt til náms á vormisseri 1. árs í diplómanámi fyrir verðandi lögreglumenn?

Í diplómanámi fyrir verðandi lögreglumenn er innritun á haustmisseri 1. árs opin en nám eftir hausmisseri er háð inntöku í starfsnám á vegum MSL. Sækja þarf sérstaklega um inntöku í starfsnám. Opnað verður fyrir umsóknir í um miðjan júní. Samkvæmt lögreglulögum (nr. 90/1996) ber MSL ábyrgð á umsóknar- og inntökuferlinu inn í starfsnámið.

Fjöldi nemenda sem halda áfram námi á vormisseri 1. árs (starfsnám) er takmarkaður. Innritun í starfsnám á vormisseri byggir á niðurstöðu úr þremur námskeiðum (Inngangur að lögreglufræði, Inngangur að íslenskri lögfræði og Vinnulag í háskólanámi), bakgrunnsskoðun, læknisskoðun, þrekprófi, sálfræðimati, viðtali og ákvörðunum valnefndar um innritun í diplómanám til starfsréttinda.

Hvernig er bóklega hluta lögreglufræðinámsins háttað?

Bóklegi hluti lögreglufræðináms við Háskólann á Akureyri er í formi sveigjanlegs náms. Það þýðir að nemendur þurfa ekki endilega að vera búsettir á Akureyri til þess að nema við háskólann. Þess í stað geta nemendur verið að mestu í fjarnámi en komið einu sinni á misseri í svokallaðar námslotur þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður. Staðar- og fjarnemar fylgja sömu námskrá og námskröfur eru þær sömu.

Vinsamlega athugið að hver vika í fullu háskólanámi er ígildi 50-60 stunda vinnuviku. Fyrir vikið er ekki mælst til þess að nemar stundi fullt nám samhliða fullri vinnu.

Hvernig er starfsmámshluta diplómunáms fyrir verðandi lögreglumenn háttað?

Starfsnámshlutinn hefst á vormisseri 1. árs. Starfsnámið fer að mestu fram í Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu að Krókhálsi 5a í Reykjavík.

Starfsnámið er byggt upp á lotum sem fara að mestu fram í húsnæði MSL í Reykjavík. Starfsnámið samanstendur af vinnulotum, starfsnámslotum, verklegum æfingum og raunhæfum verkefnum. Á fjórða og síðasta misseri námsins fara nemendur í starfsþjálfun hjá lögregluembætti. Sjá nánar á vefsíðu MSL.

Skyldumæting er í námslotur hvort heldur sem er í bóknámi við HA eða starfsnámi við MSL. Kynntu þér því vel dagsetningar námslotna sem birtar eru með góðum fyrirvara.

Geta nemendur tekið diplómanám fyrir verðandi lögreglumenn í hlutanámi? 

Nemendur geta tekið diplómanám fyrir verðandi lögreglumenn í hlutanámi. Hins vegar verða nemendur í hlutanámi eins og aðrir að vinna sér inn sæti í starfsnámshópi til þess að öðlast rétt til náms á vormisseri 1. árs. Til þess að svo megi verða þurfa nemendur í hlutanámi að vera skráðir í þau þrjú námskeið sem liggja til grundvallar valinu í starfsnámshópinn (þ.e. Inngangur að lögreglufræði, Inngangur að lögfræði og Vinnulag í háskóla).

Geta nemendur sem ekki hafa náð 20 ára aldri innritast í diplómanám fyrir verðandi lögreglumenn?

Nemendur þurfa samkvæmt lögreglulögum (nr. 90/1996) að vera orðnir 20 ára til þess að geta hafið starfsnám á vormisseri 1. árs.

Hvernig getur maður lokið BA-gráðu í lögreglu- og löggæslufræði?

Nemendur sem lokið hafa diplómaprófi í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn eða starfandi lögreglumenn geta bætt við sig 60 ECTS einingum til BA-prófs í lögreglu- og löggæslufræði.