Spurt & svarað

Síðan er í vinnslu en innan skamms má nálgast hér svör við algengum spurningum. 

Ef þú finnur ekki svör við spurningum þínum er þér velkomið að hafa samband við starfsfólk þjónustuborðsins í vefspjallinu, senda tölvupóst eða líta við.

Lögreglu- og löggæslufræði

Hvers vegna eru fjöldatakmarkanir í BA í lögreglu- og löggæslufræði?

Ákveðið var að setja fjöldatakmarkanir til að tryggja gæði námsins. Til dæmis svo allir nemendur geti fengið leiðsögn við skrif lokaritgerðar.

Hve margir nemar ávinna sér rétt til náms á vormisseri 1. námsárs í BA í lögreglu- og löggæslufræði?

Allt að fjörutíu nemendur öðlast rétt til náms á vormisseri 1. námsárs. Fjöldinn er ákveðinn af háskólaráði árlega að fengnum tillögum félagsvísinda- og lagadeildar.

Hvernig ræðst það hvaða nemendur öðlast rétt til náms á vormisseri 1. námsárs í BA í lögreglu- og löggæslufræði?

Farið er eftir reglum um samkeppnispróf í BA í lögreglu- og löggæslufræði.

Hvaða námskeið liggja til grundvallar samkeppnisprófum til þess að öðlast rétt til náms á vormisseri 1. árs í BA í lögreglu- og löggæslufræði?

Inngangur að lögreglufræði (LFR0176), Inngangur að íslenskri lögfræði (LÖG0176) og Vinnulag í háskólanámi (VIH0106).

Fá nemendur sem skráðu sig í BA-nám í lögreglu- og löggæslufræði fyrir námsárið 2018/19 undanþágu frá samkeppnisprófi?

Allir þurfa að taka samkeppnisprófin til að öðlast rétt til náms á vormisseri 1. árs.

Nemendur sem hafa verið skráðir í námið á fyrri stigum (þ.e. 2016/2017 eða 2017/2018) og hafa lokið hluta þeirra námskeiða sem liggja til grundvallar samkeppnisprófum stendur til boða að láta fyrri einkunn standa eða taka námskeið aftur. 

Hver er staða þeirra nemenda sem luku öllum námskeiðum sem liggja til grundvallar samkeppnisprófi fyrir BA í lögreglu- og löggæslufræði fyrir námsárið 2018/19?

Nemendur sem luku öllum námskeiðum sem liggja til grundvallar samkeppnisprófum fyrir námsárið 2018/2019 þurfa ekki að taka samkeppnispróf til að öðlast rétt til náms á vormisseri 1. árs. Ástæðan er sú að umræddir nemendur tryggðu sér rétt til náms á vormisseri 1. árs áður en reglur um samkeppnispróf í BA í lögreglu- og löggæslufræði tóku gildi.

Geta nemendur sem hófu nám á öðrum námsbrautum (t.d. diplómanám fyrir verðandi lögreglumenn) skipt yfir í BA í lögreglu- og löggæslufræði á haustmisseri og haldið svo áfram námi á vormisseri 1. árs?

Þetta er hægt en til þess þarf viðkomandi að hafa verið skráður í og undirgangast próf í þeim námskeiðum sem tilheyra samkeppnisprófum í lögreglu- og löggæslufræði.

Hvernig getur maður lokið BA-gráðu í lögreglu- og löggæslufræði?

Það eru í grunninn tvær leiðir til þess að ljúka BA-námi í lögreglu- og löggæslufræði.

  1. Lögreglufræðinemar sem vinna sér inn rétt til náms á vormisseri 1. árs í BA-námi í lögreglu- og löggæslufræði halda áfram á þeirri námslínu og útskrifast ef að líkum lætur.
  2. Nemendur sem lokið hafa diplómaprófi í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn eða starfandi lögreglumenn geta bætt við sig 60 ECTS einingum til BA-prófs í lögreglu- og löggæslufræði.

Geta nemendur tekið BA nám í lögreglu- og löggæslufræði í hlutanámi?

Nemendur geta tekið BA í lögreglu- og löggæslufræði í hlutanámi. Hins vegar verða nemendur í hlutanámi eins og aðrir að standast samkeppnispróf til þess að öðlast rétt til náms á vormisseri 1. árs. Til þess að svo megi verða þurfa nemendur í hlutanámi að vera skráðir í þau þrjú námskeið sem liggja til grundvallar samkeppnisprófunum á haustmisseri 1. árs (þ.e. Inngangur að lögreglufræði, Inngangur að lögfræði og Vinnulag í háskóla).

Geta nemendur sem hafa lokið námskeiðum sem eru sambærileg þeim sem tilheyra samkeppnisprófum fengið þau metin?

Þetta er ekki hægt og almenna reglan er sú að taka þarf öll þrjú námskeiðin sem liggja að baki samkeppnisprófunum á sama misseri og ekki er hægt að fá fyrr nám metið í stað þeirra (þ.e. Inngangur að lögreglufræði, Inngangur að lögfræði og Vinnulag í háskóla).

Eina undantekningin er að nemendur sem hafa verið skráðir í námið á fyrri stigum (þ.e. 2016/2017 eða 2017/2018) og hafa lokið einhverjum þeirra námskeiða sem liggja til grundvallar samkeppnisprófunum á haustmisseri 1. árs. Umræddir nemar geta látið fyrri einkunn standa eða tekið námskeið aftur (sbr. punkt 5 að ofan). Allir nemendur geta sótt um til náms- og matsnefndar félagsvísinda- og lagadeildar um að fá önnur námskeið metin.

Nánari upplýsignar um mat á fyrra námi.

Hvað þurfa nemendur að gera og uppfylla til þess að öðlast rétt til náms á vormisseri 1. árs í diplómanámi fyrir verðandi lögreglumenn?

Á vefsíðu Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu (MSL) má finna svör við þessari spurningu.

Hvernig er starfsnámshluta diplómanáms fyrir verðandi lögreglumenn háttað?

Starfsnámshlutinn hefst á vormisseri 1. árs. Starfsnámið fer að mestu fram í Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu að Krókhálsi 5a í Reykjavík.

Starfsnámið samanstendur af vinnulotum, starfsnámslotum, verklegum æfingum og raunhæfum verkefnum. Á fjórða og síðasta misseri námsins fara nemendur í starfsþjálfun hjá lögregluembætti. Sjá nánar á vefsíðu MSL.

Hvernig er bóklega hluta lögreglufræðinámsins háttað?

Bóklegi hluti lögreglufræðináms við Háskólann á Akureyri er í formi sveigjanlegs náms. Það þýðir að nemendur þurfa ekki endilega að vera búsettir á Akureyri til þess að nema við háskólann. Þess í stað geta nemendur verið að mestu í fjarnámi en komið einu sinni á misseri í svokallaðar staðarlotur þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður. Staðar- og fjarnemar fylgja sömu námskrá og námskröfur eru þær sömu.

Geta nemendur sem ekki hafa náð 20 ára aldri innritast í diplómanám fyrir verðandi lögreglumenn?

Nemendur þurfa samkvæmt lögreglulögum (nr. 90/1996) að vera orðnir 20 ára til þess að geta hafið starfsnám á vormisseri 1. árs.

Yngri nemendur hafa þann möguleika að innritast í BA-nám í lögreglu- og löggæslufræði og skipta yfir í diplómanám fyrir verðandi lögreglumenn þegar þeir hafa aldur til. Þessir sömu nemendur verða hins vegar að ávinna sér rétt til náms á vormisseri 1. árs líkt og aðrir á grundvelli samkeppnisprófa.