Háskólahátíð 2023

Ávarp rektors, Eyjólfs Guðmundssonar, á Háskólahátíð Háskólans á Akureyri, 10. júní 2023

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, kæru kandídatar, aðstandendur og góðir gestir.

Þær eru margar áskoranirnar sem við, íslensk þjóð, stöndum frammi fyrir í dag. Það er ójafnvægi í efnahagsmálum, með tilheyrandi verðbólgu og vaxtahækkunum, nýir tímar í orðræðu og upplifunum birtast á samfélagsmiðlum þar sem oft er erfitt að greina á milli þess rétta og hins ranga. Erlendis frá fáum við harmafregnir af stríðum, óvissan vex vegna nýrrar tækni og við erum bara rétt nýstigin upp úr heimsfaraldri — faraldri af þeirri tegund hörmunga sem skellur á heimsbyggðinni einungis einu sinni á hverri öld.

Já, það er kannski bara ótrúlegt að við skulum yfirhöfuð hafa komist í gegnum síðustu ár!

En kæru kandídatar. Þrátt fyrir þetta dökka ský er dagur eins og sá sem við höfum hér í dag, Háskólahátíð, einmitt sérstaklega hátíðlegur. Við gefum okkur frí frá amstri daglegs lífs og fögnum árangri ykkar, voninni um betri og breyttan heim og lítum fram hjá óveðursskýjum en horfum til sólarinnar.

Þið, ágætu kandídatar lýsið svo sannarlega upp daginn og gefið okkur öllum von um að það sé hægt að leysa verkefni heimsins þannig að horfi til betri vegar.

Ágætu gestir, bæði hér nær og þið sem horfið á hátíðina í gegnum streymið,

Háskólahátíð Háskólans á Akureyri er nú haldin í 34. sinn og í annað sinn sem við brautskráum af tveimur fræðasviðum. Að þessu sinni brautskrást tæplega 550 nemendur en þetta mun vera stærsti útskriftarárgangur frá upphafi skólans og endurspeglar þá miklu eftirspurn sem er eftir námi við Háskólann á Akureyri.

Fyrri hluti dagsins er tileinkaður Heilbrigðis- viðskipta- og raunvísindasviði. Stúdentar innan þessa fræðasviðs tengjast mörgum af helstu þjónustu- og framleiðslusviðum íslensks samfélags þar sem vísindaleg þekking er grundvöllur allra framfara sama hvort við erum að tala um heilbrigðisgeirann, líftæknina, sjávarútveginn eða rekstur þúsunda lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem eru hryggjarstykkið í íslensku efnahagslífi.

Seinni hluti dagsins er tileinkaður Hug- og félagsvísindasviði. Stúdentar á þessu fræðasviði koma að lykilþáttum opinberrar þjónustu og uppbyggingu hins mannlega í íslensku samfélagi. Mikilvægi kennslufræða verður seint ofmetið enda felum við kennurum fjöregg framtíðarinnar til varðveislu og uppbyggingar. Lögfræði og lögreglufræðin eru hornsteinar þess ramma sem við setjum okkur sem samfélög á meðan félagsvísindin, með fjölmiðla og nútímafræði innanborðs, efla gagnrýna hugsun og krefjast sífelldrar endurskoðunar á uppbyggingu samfélagsins í heild. Sálfræðin tengir þetta svo allt saman út frá skilningi á mannlegri hegðun og tilveru.

Starfsemi háskólans hefur gengið vel á þessu skólaári og hefur árangur starfsfólks skólans verið eftirtektarverður hvað varðar rannsóknir og samskipti við samfélagið í heild sinni. Við höldum áfram að vera í fararbroddi í stafrænni miðlun náms og höfum staðist allar gæðaúttektir síðustu ára. Samspil stúdenta og starfsfólks er með eindæmum gott og má kannski líkja því við lítið samfélag eða fjölskyldu þar sem allir stefna að sama markmiði þó að vissulega sé tekist á um einstaka atriði og þið, ágætu stúdentar, hafið verið dugleg að halda okkur, starfsfólki skólans, við efnið hvað varðar gæði náms og þann aðbúnað og þjónustu sem háskólinn veitir ykkur. Það er merki um heilbrigt og gott samfélag þar sem samtal og samræður leiða til betri niðurstöðu fyrir alla. 

Ágætu kandídatar, 

Þið megið vera einstaklega stolt af ykkur í dag. Þið hafið hér náð árangri sem er ykkar eigin, á ykkar forsendum. Hvert og eitt ykkar er í raun einstök saga af þori, áræðni, vilja og erfiðisvinnu. Það er hinsvegar áhyggjuefni hversu mikið stúdentar vinna með háskólanámi og það mikla álag sem því fylgir að vera í námi, vinnu og jafnvel að reka heimili.

En ég vona að þið hafið lært að slíkt álag er engum hollt til lengri tíma og þegar kemur að skipulagningu næsta áfanga í ykkar lífi að þið gleymið ekki að huga að ykkur sjálfum, andlega og líkamlega, til þess að geta tekist á við öll verkefnin sem bíða ykkar í framtíðinni.

Kæru kandídatar, munið að ef þið gangið alltaf á varaorkuna þá verður ekkert eftir þegar lífið kemur með nýjar áskoranir og ófyrirséðar breytingar.

Ágætu gestir,

Nú þegar kandídatar eru að ljúka sínu háskólanámi þá tekur við þeim samfélag sem er á yfirsnúningi. Það endurspeglast í háu húsnæðisverði og vaxtastigi sem veldur enn frekara álagi, og sérstaklega á unga fólkið okkar. Orðræðan í samfélaginu endurómar harðar deilur á milli mismunandi hópa, jafnvel ásökunum um spillingu, og lýsingu á samfélaginu með orðum sem ekki hæfa hér í þessu ræðupúlti. Þetta er ekki rétta leiðin til að byggja upp gott samfélag. Maður heyrir oft í orðræðunni að við, fólkið í landinu, séum fórnarlömb ytri og innri afla sem leiki sér að okkur og að við fljótum bara með að feigðarósi og það eina sem við getum gert sé að öskra sem hæst á samfélagsmiðlum á meðan við berumst eftir straumnum.

En kæru kandídatar er það svo? Erum við bara leiksoppar örlaganna og óþekktra afla sem ráðskast með líf okkar? Svarið við því er einfaldlega ,,Nei’’ Svarið er nei því að í lýðræðislegu samfélagi eins og við búum í geta allir tekið þátt. Sama hvort það er að taka þátt í félagsstarfi íþróttafélaga og skólakerfisins, að taka þátt í sveitastjórnarmálum eða stjórnmálum á landsvísu. Hvert og eitt okkar getur haft áhrif og í stað þess að brjóta á sér fingurna í endalausu hamri upphrópana á lyklaborð og snertiskjái samtímans þá er það skylda okkar að taka þátt og hafa áhrif nema að sjálfsögðu að við séum sátt við núverandi ástand. En erum við það?

Öll þau samfélagslegu og hagfræðilegu kerfi sem við búum við eru mannanna verk. Öllum þessum kerfum er hægt að breyta með því að ígrunda vel orsakir og afleiðingar en til þess að það takist þurfum við að deila sameiginlegum markmiðum og sýn á það hvað er gott samfélag.

Ágætu gestir,

Meginvandamál íslensks samfélags liggur kannski einmitt í því að við í raun erum að fjarlægjast hvert annað hugmyndafræðilega og félagslega. Sjálfur er ég fæddur á suðvesturhorni landsins en hef nú búið stóran hluta ævi minnar hér fyrir norðan og í öðrum löndum. Það bil sem ég verð var við á milli landshorna breikkar stöðugt. Deilur um nýtingu auðlinda okkar, deilur um framkvæmdir og forgangsröðun, hugmyndir um hvernig samfélag við viljum hafa, deilur um hlutverk höfuðborgar gagnvart landsbyggðunum öllum og hvar og hvernig hið opinbera veitir þjónustu sína í síbreytilegum og tæknivæddari heimi. Allar þessar deilur eru að leiða af sér samfélag sundrungar en ekki sameiginlegra markmiða. Slíkt ástand mun einungis draga úr heildarkrafti íslensks samfélags og leiða til enn harðari deilna í framtíðinni.

Ágætu kandídatar,

Ég horfi til ykkar sem leiðtoga nýrrar og betri framtíðar fyrir Ísland allt. Þið komið af landinu öllu og hafið unnið saman með stafrænum hætti og í lotum hér á Akureyri. Tilkoma Háskólans á Akureyri hefur því ekki einungis gert ykkur sem búið utan höfuðborgarsvæðisins kleift að stunda nám frá ykkar heimabyggð heldur hefur Háskólinn á Akureyri einnig veitt höfuðborgarbúum betra aðgengi að námi. Háskólinn á Akureyri er því háskóli allra landsmanna, þjóðarinnar allrar, sannur þjóðarháskóli. Hér í ykkar námi hafið þið unnið saman sem ein heild og haldið því áfram þegar út í atvinnulífið kemur og takið þátt í að sameina íslenskt samfélag en ekki sundra því.

Kæru gestir,

Landfræðileg búseta nemenda er mjög fjölbreytt. Sérstaklega er athyglisvert hversu margir stúdentar stunda nám sitt við HA utan Íslands, eða um 7% af heildarfjölda stúdenta. Háskólinn á Akureyri hefur því opnað aðgengi fyrir Íslendinga sama hvar þeir búa og í náinni framtíð munum við opna aðgengi íslenskra nemenda að erlendum skólum og erlendra nemenda að íslensku námi. Þannig verður háskólasamfélagið okkar alþjóðlegra sem skilar sér í opnara og alþjóðlegra samfélagi á Íslandi í heild sinni. Við verðum ekki einungis að vinna saman sem þjóð heldur verðum við að vinna með öðrum þjóðum að betri og bættum heimi.

Ágætu kandídatar,

Eitt af því erfiðasta sem hvert og eitt ykkar stendur frammi fyrir er að velja hvað það verður sem þið látið hafa áhrif á ykkur og hvað þið látið sem vind um eyrun þjóta. Og þá er ég ekki bara að tala um áreiti upplýsinga og samfélagsmiðla heldur einnig samtöl og samskipti á vinnustað. Það er auðvelt að gleyma að rækta þau samskipti sem eru góð en gefa neikvæðum samskiptum alla athyglina. Ég hvet ykkur því til að setja skýr mörk í samskiptum við annað fólk og vera undir það búin að geta leitt hjá ykkur alla þá hælbíta og afturhaldsseggi sem munu reyna að stöðva ykkur í að koma á umbótum og breytingum í ykkar vinnuumhverfi. Heimurinn er að breytast hraðar en nokkru sinni fyrr og þið þurfið að vera undir það búin að nýta ykkur þau tækifæri til góðs og ykkur til framdráttar en ekki taka þátt í að einangra ykkur frá tækni og öðrum breytingum. Gervigreindin verður fimmta iðnbyltingin — sú fjórða er um það bil að líða undir lok. Þið verðið í forystu atvinnulífs og stofnana sem munu innleiða gervigreind Til þess þarf bæði visku og hugrekki, en ekki síst siðferðilegan áttavita til að skilja hvað er rétt og hvað er rangt við innleiðingu þessarar nýju tækni. Þá mun koma sér vel að geta verið í góðu og faglegu samtali við annað fólk en ekki taka upp þann ósið sem nú hefur rutt sér til rúms að nota sem mest gífuryrði og úthúða öllu og öllum til að reyna að fá athygli fyrir eigin málstað.

Munið að það glymur hæst í tómri tunnu.

Kæru gestir,

Í upphafi talaði ég um að það væru margar áskoranir fyrirliggjandi í okkar heimi í dag. Það gleður mig mjög að sjá þennan öfluga hóp kandídata sem nú brautskráist frá skólanum því að ég er viss um að þeim mun ganga betur en okkur hefur tekist að byggja upp gott og réttlátt samfélag sem byggir á þekkingu, visku, verkvilja og ábyrgð í víðum skilningi. Ég vil því þakka aðstandendum fyrir ykkar stuðning við að hjálpa kandídötum að ná markmiðum sínum — við göngum aldrei ein í vegferð okkar gegnum lífið. Þið megið vera jafn stolt og ég er af þessum frábæra hópi fólks sem nú heldur á vit næstu ævintýra lífs síns.

Kæru kandídatar og góðir gestir,

Skólaárið 2022 til 2023 hefur verið gott ár. Sú velgengni og sá velvilji sem skólinn nýtur byggir á þrotlausri vinnu og óbilandi trú starfsfólks á Háskólanum á Akureyri með velvilja og jákvæðni stúdenta okkar sem leiðarljós. Á þeim níu árum sem ég hef nú starfað sem rektor hefur skólinn sjaldan mætt jafn góðum skilningi stjórnvalda og má þar meðal annars þakka nýrri skipan ráðuneyta sem gefur háskólum meira vægi er kemur að málaflokki vísinda í íslensku samfélagi. Það er von okkar að stjórnvöld haldi áfram að sjá hversu mikilvægt það er fyrir samfélagið allt að byggja upp háskóla hér á landi og gleymi ekki að í þeirri uppbyggingu er fjölbreytni skóla jafn mikilvæg, ef ekki mikilvægari, en eiginlegur fjöldi þeirra. Háskólinn á Akureyri er í dag ein af stærstu ríkisstofnunum landsins og einn af þremur stærstu háskólum landsins. Sá markverði árangur er starfsfólki skólans að þakka og hefur það verið sérstakur heiður að fá að leiða þessa stofnun síðastliðin níu ár með svo öflugan hóp starfsfólks að baki sér. Ég þakka því fyrir gott samstarf á liðnu skólaári og árum.

Ágætu kandídatar,

Þið hafið nú lokið ykkar fyrstu háskólagráðu og hafið með því öðlast innsýn í ykkar faggrein og vonandi betri skilning á ykkur sjálfum og markmiðum ykkar. Námi lýkur hins vegar aldrei og við lærum ætíð svo lengi sem við lifum.

Ein af virtustu vísindakonum fyrr og síðar, Marie-Curie, sagði eitt sinn: „Við eigum ekki að óttast neitt í lífinu aðeins að reyna að skilja hið óþekkta.“ En hún sagði jafnframt að leiðin að betri heimi væri hvorki hröð né einföld. Þið, kæru kandídatar, hafið nú þegar sýnt að í ykkur býr kraftur og vinnusemi til að takast á við óvæntar aðstæður og þið komust í gegnum þann skafl. Berið þá reynslu með ykkur í gegnum lífið og munið að árangur kostar alltaf erfiði.

Eleanor Roosevelt, maki Roosevelt forseta Bandaríkjanna og líklega sú fyrsta sem nýtti sér það hlutverk til að ná fram bættu samfélagi, sagði: „Framtíðin tilheyrir þeim sem trúa á fegurð drauma sinna.“ Kæru kandídatar leyfið ykkur og látið ykkur dreyma og trúið á þá drauma.

Shirley Anita Chishom, fyrst kvenna af afrískum uppruna kosin á þing í Bandaríkjunum, sagði: „Þið náið ekki árangri með því að vera á hliðarlínunni, kvartandi og kveinandi, Þið náið árangri með því að koma hugmyndum í framkvæmd!“

Munið að þið eruð alltaf hluti af samfélagi sem þið berið ábyrgð á að þróist með sanngjörnum og réttum hætti þannig að allir hafi jöfn tækifæri til að skapa sér og sínum betra líf. Takið afstöðu til mála og nýtið kosningarétt ykkar á öllum tímum.

Kæru kandídatar,

Fyrir hönd háskólasamfélagsins alls vil ég þakka fyrir samveruna hér síðustu árin. Farið nú út í lífið með nýfengna þekkingu og aflið ykkur visku í gegnum reynslu og lífið sjálft. Þegar þörfin síðan kallar komið þá aftur til náms og kafið enn dýpra í ykkar fræði til að efla vísindalega þekkingu heimsins alls en umfram allt:

„Farið þangað sem hjartað segir ykkur að fara en notið hyggjuvitið við að komast á þann áfangastað!“