Háskólinn á Akureyri er eini háskólinn á Íslandi sem býður upp á sveigjanlegt nám í hjúkrunarfræði.

Námið er krefjandi og skemmtilegt. Samkeppnispróf eru haldin við lok fyrsta misseris.

Nám í hjúkrunarfræði er fyrir öll kyn.

Er námið fyrir þig

  • Áttu auðvelt með að vinna með fólki?
  • Þolir þú að sjá blóð?
  • Hefur þú áhuga á forvörnum?
  • Viltu sjá barn fæðast?
  • Hefur þú áhuga á heilsunni?
  • Getur þú hugsað hratt þegar mikið liggur við?
  • Viltu vinna með langveiku fólki?
  • Langar þig til þess að geta valið hvort þú starfar hérlendis eða erlendis, í þéttbýli eða dreifbýli?

Áherslur námsins

Í hjúkrunarfræði eru þarfir fólks á öllum aldri skoðaðar. Hjúkrun sjúkra og stuðningur við heilbrigða eru meðal viðfangsefna.

Þú lærir almenn hjúkrunarstörf auk stjórnunarstarfa. Þú lærir að miðla fræðsluefni til þinna skjólstæðinga. Starfsnám á heilbrigðisstofnunum byrjar strax á fyrsta námsári og tekur samtals 24 vikur.

Á námstíma verða hjúkrunarfræðinemar afla sér þriggja mánaða starfsreynslu á heilbrigðisstofnunum utan skipulegs námstíma.

Möguleikar að námi loknu

BS-próf í hjúkrunarfræði frá HA gefur þér tækifæri til þess að vinna hvar sem er í heiminum.

Þú getur unnið á heilbrigðisstofnunum, í heimahúsum, hjá flugfélagi, við kennslu, sölustörf eða stundað hjálparstarf. Tækifærin eru óendanlega fjölbreytt.

Þú getur líka farið í framhaldsnám, bæði hérlendis og erlendis. Hjúkrunarfræðinámið við HA hefur fengið alþjóðlega viðurkenningu og nemendur bera því vel söguna.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Eir er félag heilbrigðisvísindanema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjandi hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi. Allir sem uppfylla inntökuskilyrði fá tækifæri til þess að hefja nám á haustmisseri en rúmlega fimmtíu nemendur, sem ná bestum árangri í náminu, fá að halda áfram.

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Samkeppnispróf

Samkeppnispróf eru haldin við lok haustmisseris á 1 námsári. Þeir sem ná bestum árangri geta haldið áfram með námið. Fjöldi þeirra nemenda, sem öðlast rétt til náms á vormisseri 1. námsárs er ákveðinn af háskólaráði árlega (yfirleitt um fimmtíu nemendur).

Þú getur smellt hér og lesið meira um málið.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að engu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskránni og námskröfur eru þær sömu.

Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft að þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á hljóðinu.

Allir fjarnemar koma nokkrum sinnum á námstímanum í stuttar námslotur til Akureyrar þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu. 

Við hjúkrunarfræðideild HA er skyldumæting í námslotur. Kynntu þér því vel dagsetningarnar sem birtar eru með góðum fyrirvara.

Vinsamlega athugið að hver vika í fullu háskólanámi er ígildi 50-60 stunda vinnuviku.

Skiptinám

Allir nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Einnig geta nemendur stundað klínískt nám að hluta til við samstarfsstofnanir á öðrum Norðurlöndum.

Nemendur á þriðja ári geta tekið hluta af námi sínu við samstarfsháskóla í Evrópu eða í Bandaríkjunum. Þú þarft samráð við formann hjúkrunarfræðideildar og velja öll námskeið með samþykki skólans.

Hafðu samband við alþjóðafulltrúann og sjáðu hvort hann geti aðstoðað þig við að sækja um námspláss, húsnæði og nemendastyrk.

Umsagnir

Hjúkrunarfræðinámið við HA er fjölbreytt, krefjandi og skemmtilegt. Margir góðir kennarar koma að kennslunni og námið býður upp á ótal möguleika að því loknu. Að geta stundað námið hvaðan af landinu sem er, óháð búsetu, er mikill kostur. Ég stundaði fjarnám við skólann og það var alltaf gaman að koma í lotur á Akureyri. Ávallt var tekið vel á móti fjarnemum og skólaumhverfið er hlýlegt og persónulegt.

Sandra Leifs Hauksdóttir
hjúkrunarfræðingur við Heilsugæsluna í Hveragerði

Sem menntaður myndlistarmaður, tveggja barna móðir og þar að auki búsett í Berlín, þakkaði ég Háskólanum á Akureyri á hverjum degi fyrir að gera mér kleift að stunda hjúkrunarfræðinám. HA var lykilatriði á leið minni í átt að ljósmóðurdraumnum sem nú er við það að rætast. Get ekki mælt nógu mikið með hjúkrunarfræðinni við HA. Takk fyrir mig!

Sunna María Schram
hjúkrunarfræðingur á Vökudeild LSH og ljósmóðurnemi