Skipulag náms fyrir nýnema
Hjúkrunarfræði I
Meginviðfangsefni námskeiðsins eru hugtök, kenningar og gagnreyndar staðreyndir sem liggja að baki hjúkrun sem fræðigreinar. Fjallað er um uppbyggingu og gildi góðra samskipta og hvernig samskipti eru notuð sem meðferðarform í hjúkrun. Farið er yfir skilgreiningu á störfum og hlutverkum hjúkrunarfræðinga sem fagmanna og gildi hjúkrunarferlisins. Fjallað er um lög um réttindi sjúklinga ásamt kynningu á siðfræði hjúkrunar. Markmiðið er að gefa nemendum innsýn inn í faglegan grunn starfs hjúkrunarfræðingsins.
Líffærafræði I
Fjallað er um stoðkerfi líkamans ásamt hringrásarkerfi hans. Kynnt eru grunnhugtök líffærafræðinnar. Fjallað er ítarlega um eftirfarandi líffærakerfi: bein, liði, beinagrindarvöðva, blóðið, hjarta og æðar. Auk þess er farið í fósturfræðilega myndun þessara líffærakerfa.
Siðfræði heilbrigðisstétta
Námskeiðinu er ætlað að fræða nemendur um heimspekilega siðfræði, bæði almennt, s.s. hugtök, kenningar, úrlausnarefni; og einnig sértækt, um efni er varða siðfræði heilbrigðisstétta.
Vefja- og frumulíffræði
Á námskeiðinu er fjallað um grundvallaratriði í gerð og starfsemi fruma. Í fyrsta lagi er fjallað um gerð ósérhæfðra fruma, helstu frumulíffæri og hlutverk þeirra. Í öðru lagi er fjallað um helstu flokka lífrænna efnasambanda og efnaskipti frumunnar. Í þriðja lagi er fjallað um sérhæfingu fruma, helstu vefjagerðir og starfsemi sérhæfðra fruma með sérstakri áherslu á taugafrumur. Í fjórða lagi er fjallað um líffræðileg stýrikerfi á sameindastigi og í samhengi við tauga- og innkirtlakerfi. Veruleg áhersla er lögð á sameindalíffræði fruma og að sýna fram á samhengi milli afbrigðilegrar frumustarfsemi og sjúkdóma.
Vinnulag í háskólanámi
Námskeiðið miðar að því að þjálfa nemendur í helstu grundvallaratriðum fræðilegra vinnubragða. Í námskeiðinu er fjallað um helstu gerðir rannsókna og markmið þeirra, hin tvö megin rannsóknar-viðmið rannsókna, þ.e. vísindaheimspekilegar forsendur þeirra. Kynntar eru helstu rannsóknar-aðferðir og er lögð áhersla á að megindlegar og eigindlegar aðferðir séu kynntar sérstaklega. Þá er lögð áhersla á skipulag rannsókna, rannsóknarspurningar, skilgreiningar hugtaka og tilgátur. Heimildavinna, rafræn heimildaleit, tilvísanir í heimildir og heimildaskráning fá vandlega umfjöllun . Fjallað er um úrvinnslu gagna og framsetningu niðurstaðna gagna, m.a. gerð texta, stílbrigði,og grunnatriði framsetningar tölfræðilegra gagna. Þá er fjallað sérstaklega um siðferðileg álitamál í rannsóknum og gagnrýna hugsun í vísindum. Loks er lögð mikil áhersla á að kenna nemendum ritgerðasmíð, uppbyggingu ritgerða og skýrslna og verklag við slíka vinnu. Áhersla er lögð á vinnu minni nemendahópa að sértæku rannsóknarverkefni sem gefur nemendum innsýn og þjálfun í ferli rannsóknar: undirbúning, framkvæmd og framsetningu niðurstaðna.
Lífefnafræði
Í fyrsta lagi er fjallað um mikilvægustu flokka lífefna sem koma við sögu í efnaskiptum fruma, þ.e. kolvatnsefni, fitur, prótein, ensím, kóensím og orkufosföt. Í öðru lagi er fjallað um helstu efnaskiptaferla frumunnar, bæði niðurbrotsferli og nýmyndun og áhersla lögð á að skýra hvernig einstök ferli fléttast saman í heildarmynd efnaskipta. Í þriðja lagi er leitast við að útskýra eðli og orsakir ýmissa efnaskiptasjúkdóma auk þess sem fjallað er um átraskanir og skyndilausnir. Í verklegum æfingum eru kynntar helstu efnamælingar í blóði og þvagi.
Hjúkrunarfræði II
Fjallað er um þætti er varða grunnþarfir skjólstæðingsins og verklega framkvæmd í tengslum við uppfyllingu þeirra, s.s. lífsmörk, sýkingavarnir, öryggisþarfir, hreyfingu, persónulega hirðingu, svefn, hvíld og útskilnað úrgangsefna. Lögð er áhersla á vinnuvernd, starfsstellingar og grundvallaratriði í notkun hjúkrunarferlisins, með sérstakri áherslu á öflun hjúkrunarupplýsinga. Áhersluþáttur í klínísku námi er almenn aðhlynning.
Líffærafræði II
Í námskeiðinu er fjallað ítarlega um öll helstu líffærakerfi mannsins. Fjallað er um, vessakerfið, líkamstaugakerfi, ósjálfráða taugakerfið, innkirtlakerfið, öndunarkerfið, meltingarkerfið, þvagkerfið og æxlunarkerfið. Auk þess er farið í fósturfræðilega myndun þessara líffærakerfa.
Lífeðlisfræði
Farið er yfir öll meginatriði í lífeðlisfræði vöðva, hjarta- og blóðrásarkerfis, lungna, nýrna og meltingarvegar. Einnig er farið yfir lífeðlisfræði skynfæra og meðvitundar, starfsemi helstu stjórnstöðva í miðtaugakerfi er útskýrð, þ.á.m. stjórn hreyfinga. Þá er fjallað um lífeðlisfræði kynfæra, innkirtla og ónæmiskerfis. Í verklegum æfingum er kynning á spírómetríu, vinnuþolsprófunum, hjartarafriti o.fl.
Vöxtur og þroski
Námskeiðinu er ætlað að veita greinargóða innsýn í vöxt og þroska mannsins frá vöggu til grafar og helstu kenningar þar að lútandi. Fjallað er um líkamlegan, vitrænan, félagslegan þroska og persónuþroska einstaklinga á mismunandi æviskeiðum. Hugað er að ýmsum þáttum sem hafa áhrif á þroska og atgervi, með áherslu á samspil erfða og umhverfis. Að lokum kynnast nemendur völdum frávikum frá dæmigerðum vexti og þroska.
Heilsufarsmat
Námskeiðinu er ætlað að gera nemendur færa um að nálgast upplýsingar varðandi heilsu skjólstæðings, skrá þær og meta hvort um sé að ræða frávik frá hinu eðlilega. Í námskeiðinu læra nemendur að afla upplýsinga sem lýsa viðbrögðum skjólstæðings við raunverulegum og líklegum heilsufarsvandamálum, vinna síðan úr þeim og setja fram hjúkrunargreiningar. Fjallað er um viðtalstækni, athugun, hlustun, líkamsskoðun, heimildakönnun og könnun á niðurstöðum rannsókna. Kennslan fer fram í formi fyrirlestra og verklegra æfinga.
Hjúkrunarfræði III
Í námskeiðinu er haldið áfram þar sem frá var horfið í Hjúkrun II. Teknir eru fyrir þættir er varða grundvallarþarfir einstaklinga m.t.t. loftskipta, verkjameðferðar og meðferðar sára og næringar. Fjallað er um skyndihjálp, hjúkrun tengda sondum í meltingarvegi, notkun hjúkrunarferlisins við skipulagningu, framkvæmd og mat hjúkrunar. Í námskeiðinu er lögð áhersla á tengingu fræðilegrar þekkingar við skipulagningu og framkvæmd hjúkrunar.
Heilsa og samfélagið
Námskeiðinu er ætlað að fræða nemendur um tengsl samfélags og heilsu, bæði almennt (hugtök, kenningar, rannsóknir) og sértækt, um efni sem varðar félagslega áhrifaþætti heilbrigði og veikinda. Fjallað er m.a. um samband samfélags- og menningargerðar og heilsu, félagslegt skipulag heilbrigðisstofnana og heilbrigðiskerfis, faghópa heilbrigðisþjónustunnar, sjúkdómsvæðingu, heilbrigðisviðhorf, sjúklingshlutverkið, frávik, félagslega dreifingu heilsu og sjúkdóma, og samskipti sjúklinga og fagaðila. Nemendur fást við sérstakt rannsóknarverkefni sem felur meðal annars í sér heimildasamantekt, jafningjamat og málstofuþátttöku.
Samskipti og fagleg tengsl
Námskeiðið snýst um samskipti og samstarf við bæði notendur og samstarfsfólk þar sem fjallað er um helstu hugmyndir, kenningar og aðferðir er lúta að félagslegum samskiptum og eflandi tengslum. Fjallað er um þverfaglega teymisvinnu, hópastarf og hópefli og rýnt í hlutverk ólíkra fagstétta innan velferðarkerfisins. Kynntar eru helstu aðferðir í viðtalstækni og nemendur æfa sig í að beita þeim. Nemendur rýna í eigin samskiptahætti og kynnast því hvernig nota má samskipti á meðvitaðan hátt til að ýta undir og styrkja ákveðna færni og eiginleika fagmennskunnar.
Sýkla-, ónæmis- og veirufræði
Farið er yfir undirstöðuatriði sýkla-, ónæmis- og veirufræði, þ. á m. helstu sjúkdómsvaldandi veirur, bakteríur og nokkrar sveppa- og sníklasýkingar. Lögð er áhersla á þá þætti sem tengjast klínískri læknisfræði og starfi hjúkrunarfræðinga, þar á meðal vönduð vinnubrögð við töku og meðhöndlun sýna. Einnig er verklegt námskeið í sýklafræði.
Grundvallaratriði eigindlegrar aðferðafræði
Viðfangsefni námsskeiðsins er að kynna heimspekilegan og fræðilegan grunn eigindlegra aðferða og útfærslu þeirra og notkun í iðjuþjálfunarfræði, hjúkrunarfræði og öðrum heilbrigðisvísindum. Kynntar verða fyrir nemendum algengar eigindlegar rannsóknir sem og aðferðir við gagnasöfnun og gagnagreiningu. Lögð verður áhersla á ýmis viðfangsefni og álitamál sem tengjast eigindlegum rannsóknum svo sem siðfræðilegum þáttum og trúverðugleika/réttmæti og áreiðanleika. Lögð verður sérstök áhersla í færni í að meta gæði eigindlegra rannsókna og rannsóknarrýni.
Inngangur að Heilbrigðisfræðslu
Tilgangur námskeiðsins er að nemendur kynnist mismunandi tækni og leiðum til þess að meta fræðsluþarfir, miðla fræðslu og meta árangur fræðslu. Lögð er áhersla á mikilvægi fræðslu innan heilbrigðisþjónustunnar og hlutverk hjúkrunarfræðinga í heilbrigðis- og sjúklingafræðslu. Jafnframt verður fjallað um heilsulæsi og hugmyndir um innri og ytri forsendur náms fullorðinna.
Lyfjafræði
Markmið námskeiðsins er að nemendur fái innsýn í þann hluta hagnýtrar lyfjafræði sem snýr að störfum hjúkrunarfræðinga. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist þekkingu á helstu lyfjaflokkum m.t.t. klínískra atriða er varða verkun lyfja og verkunartíma, virk efni og undirflokkanir, aukaverkanir og milliverkanir. Fjallað verður um hvernig nota á sérlyfjaskrá á skilvirkan hátt og ACT lyfjaflokkunin kynnt. Tilgangur námskeiðsins er að auka færni og þekkingu nemenda á lyfjafræði þannig að hún nýtist þeim sem best í störfum þeirra sem hjúkrunarfræðingar.
Rannsóknaraðferðir og tölfræðileg greining
Fjallað er um rannsóknarsnið, helstu gagnaöflunaraðferðir og tölfræði. Fjallað er meðal annars um tilraunir, spurningakannanir og notkun opinberra gagna í rannsóknum. Þá eru kenndir helstu þættir í lýsandi tölfræði, myndrænni framsetningu gagna og einfaldri framsetningu á niðurstöðum. Kynnt eru grunnatriði í ályktunartölfræði, líkindareikningi og einföld tölfræðipróf. Einnig er farið í grunnatriði aðhvarfsgreiningar. Kynnt er skráning gagna í gagnagrunna og grunnatriði í notkun tölfræðiforrita.
Geðhjúkrun
Tilgangur námskeiðsins er í aðalatriðum sá að nemandinn kynnist grundvallarhugmyndum og helstu aðferðum sem notaðar eru í geðhjúkrun. Þá er einnig tilgangur að gefa innsýn í helstu einkenni geðsjúkdóma. Nemandi fær í verklegu námi tækifæri til að kynnast og taka þátt í starfi hjúkrunarfræðinga á geðdeild. Áhersla er lögð á að nemandinn fái yfirlit yfir uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustunnar í landinu og að hann verði meðvitaður um mikilvægi geðhjúkrunar á hinum ýmsu sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Klínískt nám er í námskeiðinu.
Í námskeiðinu felst 3 vikna klínískt nám á heilbrigðisstofnun. Miðað er við 40 stundir á einni viku.
Stjórnunarfræði innan heilbrigðis- og velferðarþjónustu
Í námskeiðinu er fjallað um stjórnunarfræði, stjórnunarkenningar og stjórnunarlega uppbyggingu, umgjörð og stefnumótun í íslenskri velferðarþjónustu. Nemendur fá innsýn í ólíkar hugmyndir og aðferðir í stjórnun, s.s. breytingastjórnun, gæðastjórnun og mannauðsstjórnun. Auk þess skoða nemendur hlutverk leiðtogans, gildi handleiðslu, teymisvinnu og eigin reynslu.
Heilbrigðisfræðsla og þekkingarmiðlun
Tilgangur námskeiðsins er að nemendur kynnist helstu kenningum um nám og námsaðferðir og geri sér grein fyrir tengslum þeirra kenninga við fræðslustarf á komandi starfsvettvangi. Lögð verður áhersla á tengingu heilbrigðis- og sjúklingafræðslu við störf hjúkrunarfræðinga. Nemendur kynnast og þjálfast í mismunandi tækni og leiðum til þess að meta fræðsluþarfir, miðla fræðslu og meta árangur fræðslu.
Samfélagshjúkrun I
Í námskeiðinu er fjallað um mismunandi hjúkrunarþarfir einstaklinga og fjölskyldna í samfélaginu. Áhersla er á að kenna um hugmyndafræði fjölskylduhjúkrunar og fjallað um heilsueflingu, og forvarnir, m.a. slysavarnir gagnvart börnum. Fjallað er um hlutverk og ábyrgð hjúkrunarfræðinga innan samfélagsins og mismunandi starfsvettvang og störf hjúkrunarfræðinga í heilsugæslu kynnt og áhersla lögð á hjúkrunarfræðinginn sem sjálfstæðan og ábyrgan fagaðila í teymisvinnu. Klínískt nám er í námskeiðinu þar sem er ætlast til að nemandinn beiti þekkingu úr þessu sem og fyrri hjúkrunarnámskeiðum og námskeiðum í stoðgreinum hjúkrunar.
Í námskeiðinu felst 2 vikna klínískt nám á heilbrigðisstofnun. Miðað er við 40 stundir á einni viku.
Barnahjúkrun
Námskeiðinu er ætlað að veita nemendum þekkingu á helstu þáttum barnahjúkrunar og barnasjúkdómum. Hugmyndafræði barnahjúkrunar og kenningar sem tengjast barnahjúkrun eru kynntar. Lögð er áhersla á hjúkrun sem tekur mið af þörfum barna og fjölskyldna þeirra. Fjallað er um viðbrögð og upplifun barna á veikindum með tilliti til aldurs, þroska og fyrri reynslu. Lögð er áhersla á hjúkrun barna sem leggjast inn á sjúkrahús til að fara í rannsóknir eða skurðaðgerðir, hjúkrun barna með bráðaveikindi, langvinna sjúkdóma og hjúkrun barna sem eru dauðvona. Fjallað er um nokkra algenga og/eða veigamikla sjúkdóma barnsáranna, bæði bráða og langvinna. Leitast er við að veita nemendum innsýn í eðli, tíðni, greiningu og meðferð sjúkdómanna. Í klínísku námi er lögð áhersla á tengingu fræðilegrar þekkingar við hjúkrun barna og foreldra.
Í námskeiðinu felst einnar viku klínískt nám á heilbrigðisstofnun. Miðað er við 40 stundir á einni viku.
Bráðahjúkrun
Námskeiðinu er ætlað að auka skilning og hæfni nemenda í hjúkrun í bráðatilvikum, innan og utan sjúkrahúsa. Sérstaklega verður lögð áhersla á að nemendur öðlist þekkingu og nokkra færni í fyrstu skoðun slasaðra og bráðveikra einstaklinga. Allir nemendur sækja staðlað námskeið í sérhæfðri endurlífgun I sem viðurkennt er af evrópska endurlífgunarráðinu (ERC). Einnig verður fjallað um hjúkrun á slysa- og bráðamóttöku, gjörgæsludeild, skurðdeild og svæfingadeildum. Klínískt nám er í námskeiðinu.
Í námskeiðinu felst 2 vikna klínískt nám á heilbrigðisstofnun. Miðað er við 40 stundir á einni viku.
Samfélagshjúkrun II
Í námskeiðinu er haldið áfram þar sem frá var horfið í Samfélagshjúkrun I. Fjallað er um hjúkrun einstaklinga í heimahúsum og stöðu aðstandanda, með hugmyndafræði fjölskylduhjúkrunar að leiðarljósi. Áhersla verður lögð á að efla menningarlegt læsi nemanda, með áherslur á tengslum mismunandi menningar /trúarhópa við heilbrigðiskerfið. Fjallað eru um sálræn áföll og erfiðleika sem þeim tengjast og áhersla lögð á samfélagshjálp til fólk sem upplifir neyð eða býr við erfiðar aðstæður og fjallað um mikilvægi áfallamiðaðrar þjónustu. Klínískt nám er i námskeiðinu þar sem sérstök áhersla er á einstaklinga sem nýta þjónustu heimahjúkrunar og aðstandendur þeirra, sem og fólk sem býr við erfiðar aðstæður eða er í neyð.
Í námskeiðinu felst 2 vikna klínískt nám á heilbrigðisstofnun. Miðað er við 40 stundir á einni viku.
Öldrunarhjúkrun
Námskeiðinu er ætlað að kynna fyrir nemendum þau áhrif sem öldrun hefur á heilsu, líðan, lífsgæði og þjóðfélagsstöðu aldraðra. Áhersla er lögð á öldrunarbreytingar og heilsufarsvandamál aldraðra. Fjallað er um hlutverk, úrræði og ábyrgð hjúkrunarfræðinga við mat á ástandi og aðstæðum aldraðra og fjölskyldna þeirra. Siðferðileg viðmið í umönnun aldraðra verða einnig kynnt og stefnumótun í málefnum aldraðra. Klínískt nám er í námskeiðinu.
Í námskeiðinu felst 2 vikna klínískt nám á heilbrigðisstofnun. Miðað er við 40 stundir á einni viku.
Heilbrigði kvenna
Viðfangsefni námskeiðsins lúta að helstu áhrifaþáttum á heilsufar kvenna á lífsleiðinni. Fjallað er um mat á heilsu kvenna, konur sem kynverur, getnaðarvarnir, ófrjósemi, kynsjúkdóma og ýmsa þætti sem hafa áhrif á kynheilbrigði. Farið er í sérhæfða fósturfræði og erfðafræði. Rætt er um tíðahringinn, breytingaskeið kvenna, þarfir kvenna og fjölskyldna þeirra í kringum barneignarferlið. Fjallað er um ofbeldi gegn konum og áhrif þess á heilsu þeirra. Sjónum er ennfremur beint að heilsu kvenna út frá jafnréttissjónarmiði sem og út frá mismunandi menningarheimum. Loks er fjallað um heilbrigði kvenna og áhrif þess á heilbrigði fjölskyldunnar í heild.
Stjórnun, nýsköpun og forysta
Markmið námskeiðsins er að auka þekkingu þátttakenda á forystu, stjórnun, nýsköpun og ígrundun innan heilbrigðisstofnana. Í námskeiðinu er byggt á samtali og virkri þátttöku nemenda. Kynntar verða helstu kenningar í stjórnun og forystu með sérstakri áherslu á viðfangsefni heilbrigðisþjónustunnar. Hugmyndafræði ígrundunar verður kynnt og hvernig megi beita ígrundun til að styrkja sig í starfi stjórnanda og/eða leiðtoga. Áhersla er lögð á að kynna nýjar rannsóknir um forystu, stjórnun og ígrundun innan heilbrigðisþjónustunnar.
Valnámskeið á meistarastigi
Valnámskeið á meistarastigi