Skipulag náms fyrir nýnema
Almenn sálfræði
Í þessu námskeiði verður fjallað um helstu greinar og viðfangsefni sálfræðinnar. Meðal annars verður fjallað um í þroska, tilfinningar, persónuleika, félagsskilning, geðraskanir, líffræði, skynjun, minni, meðvitund, hugsun, greind og nám. Fjallað verður um kenningar, hugtök og aðferðir hverrar greinar. Í námskeiðinu er sóst eftir að gefa innsýn í víðfeðmi sálfræðinnar og samtímis vekja áhuga á greiningu mannlegs eðlis.
Rannsóknaraðferðir í hug- og félagsvísindum
Í námskeiðinu verður farið yfir grundvallaratriði í aðferðafræði hug- og félagsvísinda. Að loknu námskeiði ættu nemendur að geta gert grein fyrir helstu rannsóknaraðferðum. Fjallað er um rannsóknarsnið, gagnaöflunaraðferðir, úrtök og önnur hugtök aðferðafræðinnar. Rætt verður um styrkleika og takmarkanir mismunandi aðferða í hug- og félagsvísindum með hliðsjón af ólíkum markmiðum rannsókna. Hluti kennslunnar fer þannig fram að gestakennarar kynna rannsóknir sínar fyrir nemendum, með áherslu á aðferðafræðiþáttinn.
Saga sálfræðinnar
Fjallað er um frumatriði í vísindaheimspeki og þekkingarfræði, rætur sálfræðinnar í fræðaheimi 17. og 18. aldar, upphaf nútímasálfræði á 19. öld og sögu hennar á 20. öld. Farið er nokkuð ýtarlega í þá þætti sem hafa valdið straumhvörfum og skipta sálfræði nútímans mestu máli.
Tilraunasálfræði
Í þessu námskeiði verður farið sérstaklega í meðferð og framkvæmd tilrauna innan sálfræði. Áhersla verður lögð á gagnaöflun og meðhöndlun gagna, almennar vinnuaðferðir, siðareglur, og stöðlun tilraunaumhverfis. Nemendur verða meðal annars þjálfaðir í að setja fram prófanlegar tilgátur, hanna viðeigandi tilraunaumhverfi og prófun þátttakenda. Einnig munu nemendur læra að túlka niðurstöður tilrauna bæði eigin og annarra og að skrifa rannsóknarskýrslur.
Vinnulag í hug- og félagsvísindum
Námskeiðið leggur grunn að háskólanáminu með því að þjálfa nemendur í fræðilegum vinnubrögðum. Í námskeiðinu er farið ítarlega í notkun heimilda, s.s. rafræna heimildaleit, tilvísun í heimildir og heimildaskráningu. Mikil áhersla er lögð á að kenna nemendum ritgerðasmíð, uppbyggingu ritgerða og skýrslna og verklag við slíka vinnu. Í námskeiðinu er fjallað um helstu gerðir rannsókna og markmið þeirra, hin tvö megin rannsóknarviðmið rannsókna, þ.e. vísindaheimspekilegar forsendur þeirra. Mikil áhersla er lögð á að þjálfa skrif, uppsetningu og frágang ritgerða og rannsóknagreina.
Atferlisgreining - hugtök og undirstöður
Í þessu námskeiði verður fjallað um fræðilegar undirstöður atferlisgreiningar. Fjallað verður um grundvallaratriði, lykilhugtök og lögmál klassískrar og virkar skilyrðingar. Einnig verður fjallað um kenningu Skinners um málhegðun. Að lokum verður atferlisgreining kynnt sem vísinda- og starfsgrein og mismunandi fræðasviðum hennar og tækni lýst.
Eigindlegar rannsóknaraðferðir
Viðfangsefni þessa námskeiðs er eigindlegar rannsóknaraðferðir innan mannvísinda með áherslu á félagsvísindagreinar. Nemendur kynnast sögu, markmiðum og kenningarlegum forsendum eigindlegra rannsóknaraðferða og öðlast þekkingu á ýmsum vandamálum og álitamálum sem þeim tengjast. Nemendur læra til verka m.t.t. etnógrafískrar þátttökuathuganar, vettvangslýsingar, ólíkra viðtalsaðferða, rýnihópsaðferðar, sjálfskoðunar, samvinnurannsókna, aðgerðamiðaðra nytjarannsókna, tákn-, orðræðu- og hugtakagreiningar, minnis-, sagnaritunar og frásagnagreiningar, og eigindlegra samanburðarrannsókna.
Félagssálfræði
Markmið námskeiðsins er að lýsa í hnotskurn og leggja mat á helstu fræðikerfi og rannsóknaraðferðir félagssálfræði. Farið verður m.a. viðhorfamælingar, námskenningar, eignunarkenningar og fordóma. Kostir og gallar ólíkrar aðferðafræði í félagssálfræði verða kannaðir með hliðsjón af þessum viðfangsefnum.
Tölfræðileg greining
Námskeiðið er inngangsámskeið í tölfræði, ætlað sem undirbúningur fyrir frekara nám í tölfræði og aðferðafræði rannsókna. Efnistök spanna undirstöðuatriði frá forsendum tölfræðilegrar úrvinnslu til mismunandi lýsitalna, mælitalna, einfaldra úrvinnsluaðferða og marktektarprófa.
Þroskasálfræði
Á námskeiðinu er leitast við að efla þekkingu á þroskaferli einstaklings frá getnaði til og með unglingsára. Farið er yfir hin ólíku þroskaskeið með hliðsjón af líkams-, vitsmuna-, mál-, félags- og tilfinningaþroska. Einnig er fjallað um gagnvirkni þroskaþáttanna og í því skyni fjallað um helstu/þekktustu kenningarnar sem skýra þroskaferlið. Áhersla er lögð á flókna gagnvirkni erfða og umhverfisþátta svo og verndar- og áhættuþætti í lífi barns, þar með talið hvað telst til illrar meðferðar á börnum og hverjar eru mögulegar mótvægisaðgerðir. Ábyrgð foreldra, kennara og félaga, skóla, samfélags og menningar á þroska og framtíð barna er rauður þráður í námskeiðinu öllu og því til stöðugrar umfjöllunar.
Ályktunartölfræði í félagsvísindum
Kenndar eru nokkrar helstu úrvinnsluaðferðir innan ályktunartölfræði, s.s. fjölbreytugreining, dreifigreining, aðhvarfsgreining, tvíflokka aðhvarfsgreining, þáttagreining og áreiðanleikaprófun á kvörðum. Nemendur eiga að geta leyst úr verkefnum sem þessu tengjast með aðstoð viðeigandi tölfræðiforrita, túlkað niðurstöður og dregið viðeigandi ályktanir.
Líffræðilegar undirstöður hegðunar
Í námskeiðinu verður líffræðileg sálfræði kynnt út frá þeim virknieiningum og ferlum taugakerfisins sem búa að baki hegðun og hugarstarfi. Í námskeiðinu verður fjallað um virkni einstakra taugafrumna, skipulagi og virkni taugaboðkerfisins, auk líffærafræði taugakerfisins. Fjallað verður um og stjórn hreyfinga.
Rannsóknaraðferðir í atferlisgreiningu
Í þessu námskeiði verður fjallað um rannsóknaraðferðir í atferlisgreiningu. Farið verður í grunnatriði og aðferðir við mat og mælingar á hegðun, Einnig verður fjallað um skráningu hegðunar og framsetningu og túlkun hegðunargagna. Í námskeiðinu verður jafnframt fjallað um grunnatriði einliðasniðs (single subject experimental design) og siðfræðileg atriði í rannsóknum í atferlisgreiningu. Nemendum verður kennt að meta ýmsa þætti íhlutunar, m.a. hvort hún byggi á aðferðum hagnýtrar atferlisgreiningar. Að lokum munu nemendur lesa valdar rannsóknargreinar í atferlisgreiningu og læra að leggja gagnrýnið mat á þær.
Heilsusálfræði
Í námskeiðinu er fjallað um tengsl andlegs og líkamlegs heilbrigðis þar sem samspil sálfræðilegra, félagslegra og líffræðilegra þátta er skoðað og áhrif þess á heilbrigði, þróun sjúkdóma og viðbrögð við veikindum. Lögð er áhersla á kenningar tengdar heilbrigði og heilbrigðisvenjum og hugað sérstaklega að streitu og áhrifum streituviðbragða og félagslegs umhverfis á heilsu. Einnig verður fjallað um sálfræðilega þætti og tengsl þeirra við verkjastjórnun og við sjúkdóma á borð við krabbamein, sykursýki, alnæmi og hjarta- og æðasjúkdóma. Að lokum er fjallað um heilbrigðiskerfið og þær breytingar er hafa átt sér stað innan þess er kalla á aukin samskipti sjúklings og meðferðaraðila.
Hugfræði
Námskeiðið er kynning á helstu umfjöllunarefnum hugfræðilegrar sálfræði. Nemendur munu læra um margvísleg hugræn ferlit, til dæmis minni, tungumál, ákvarðanatöku, rökhugsun og þrautalausnir. Námskeiðið mun veita innsýn inn í hugfræðilegar kenningar og hvernig rannsóknir á sviðinu hafa haft áhrif á rannsóknir og almennan skilning á hugarstarfi. Hagnýting er mikilvægur hluti námskeiðsins. Meðal hagnýtra viðfangsefna verður kennsla í notkun kenninga við smíði tölvulíkana til rannsókna.
Klínísk sálfræði
Veitt er yfirlit yfir grunnþætti sálmeinafræði og afbrigðilegrar hegðunar. Fjallað er um helstu skilgreiningar og flokkanir geðrænna vandkvæða og afbrigðilegrar hegðunar. Auk þess sem fjallað er um hina flóknu keðju orsakaþátta sem tengjast þessum fræðum og meðferðarleiðir sem byggðar eru á líffræðilegum, sálfræðilegum og félagslegum þáttum. Farið er í helstu kenningar klínískrar sálfræði og helstu matsaðferðir sviðsins kynntar.
Próffræði
Fjallað verður um fræðilegar undirstöður sálfræðilegra mælitækja og annarra matsaðferða. Einnig verður farið í helstu atriði varðandi samningu og gerð mælitækja og siðlega notkun þeirra, íslenska þýðingu og stöðlun, reikning, mat og greiningu á próffræðilegum eiginleikum sálfræðilegra mælitækja. Gefið verið stutt yfirlit yfir greindar- og persónuleikapróf þar sem áhersla verður lögð á próffræðilega uppbyggingu slíkra prófa. Nemendum verður einnig kennt að afla frekari upplýsinga um sálfræðileg mælitæki og meta þær upplýsingar á gagnrýninn hátt.
Mat á rannsóknum í sálfræði
Starfandi sálfræðingar þurfa að fylgjast með stöðu þekkingar á sínu sérsviði. Þá er ekki nóg að vera kunnugt um niðurstöður rannsókna, heldur þurfa þeir að geta lagt gagnrýnið mat á rannsóknir og tekið afstöðu til þess hvort reynslugögn styðji ályktanir rannsakenda. Námskeiðinu er ætlað að þjálfa færni nemenda til að leggja gagnrýnið mat á sálfræðirannsóknir. Í hverri viku verður kafað ofan í nýlega sálfræðilega þekkingu og sjónum beint að ályktunum höfunda, rannsóknaraðferðum, tölfræðiaðferðum.
Þroski fullorðinna
Lögð er áhersla á þætti sem tengjast andlegum, líkamlegum og félagslegum vexti og þroska mannsins frá upphafi fullorðinsáranna til grafar.
Heilinn, sjúkdómar og lyf
Í námskeiðinu kynnist nemandinn algengum taugasjúkdómum og geðröskunum, líffræðilega orsakir, greiningu og þverfræðilega meðferð. Sérstök áhersla verður á hlutverk sálfræðingsins við meðferð og mat. Nemendur mun læra um sálfélagslegar- og líffræðilegar kenningar um geðsjúkdóma. Að lokum verður lyfjafræði og lyfjahvarfræði tauga- og geðlyfja kynnt fyrir nemendum.
Skynjunarsálfræði
Fjallað verður um helstu þætti skynhrifa og skynjunar, með áherslu á sjónskynjun. Ferlar sjónskynjunar (svo sem litaskynjun, hlutaskynjun og dýptarskynjun), verða útskýrðir og áhersla lögð á hlutverk eftirtektar í skynúrvinnslu. Einnig verður fjallað í styttra máli um önnur skynfæri, svo sem heyrn, lykt og bragð. Nemendur kynnast aðferðum í rannsóknum á skynjun og fá kennslu í uppsetningu tilrauna og úrvinnslu niðurstaðna.
Manngerðir
Fjallað verður um hugtakið „persónuleika“ og hver áhrif kenninga um persónuleika hafa verið í sálfræði. Farið verður í það hvaða þættir hafa áhrif á slíkar kenningar s.s. eins og klínískar athuganir, tilraunir, hugmyndir um það hvernig við lærum og sálmælingar. Að auki verður fjallað ítarlega um áhrifamestu kenningar um persónuleikann og hverjir eru kostir þeirra og ágallar.
Námssálfræði
Námskeiðið er þríþætt: Í fyrsta hluta er fjallað almennt um námssálfræði, í öðrum hluta er fjallað um nemendur og nám og í þriðja hluta er fjallað um kennara og kennslu.. Meðal umfjöllunarefna í fyrsta hluta eru m.a. undirstöður námssálfræði og mýtur um nám og kennslu. Í öðrum hluta eru efni m.a. byrjendur og sérfræðingar, nám og yfirfærsla, nám barna og lífeðlislegar undirstöður náms. Í öðrum hluta er m.a. farið í gerð námsumhverfis, kennsluaðferðir byggðar á rannsóknum í námssálfræði, náms- og kennslumat, nám kennara og notkun tækni við kennslu.
Kynjafræði
Fjallað er um stöðu kynjanna og viðhorf til þeirra frá félagsfræðilegu sjónarhorni. Kynnt verða helstu viðfangsefni kynjafræðinnar um leið og tvö grunnhugtök, kyn (sex) og kyngervi (gender), verða krufin. Fjallað verður um helstu kenningar á sviði kynjafræðinnar og lögð sérstök áhersla á að skoða hvernig ójöfnuður kynjanna birtist innan helstu stofnanna samfélagsins (svo sem fjölmiðla, vinnumarkaðar, fjölskyldu, og heilbrigðiskerfis). Í námskeiðinu verður lögð áhersla á að skoða samtvinnun kyns og annarra áhrifabreyta svo sem kynþáttar, stéttarstöðu, kynhneigðar, og þjóðernis fólks.
Lögreglusálfræði
Markmið námskeiðsins er að efla þekkingu nemenda á kenningum og rannsóknum sálfræðinnar sem hagnýta má í störfum lögreglu. Fjallað er um áhrif afbrota á þolendur, minni og framburð þeirra. Þá er sérstaklega fjallað um sálfræði skýrslutöku af sakborningi, rannsókna sakamála og ákvarðanatöku. Einnig er fjallað um ýmsar tegundir brota eins og kynferðisbrot, heimilisofbeldi, hryðjuverk og eltihrell. Einnig verður fjallað um leiðir sem lögregla getur beitt í störfum sínum eins og áhættumat og greining brota. Í lögreglustarfi er nauðsynlegt að búa yfir a) sálfræðilegri þekkingu á fólki með geðraskanir og samskiptum lögreglu við fólk í viðkvæmri stöðu og b) þekkingu á streitu, áföllum og sálrænum undirbúningi fyrir lögreglumenn. Því er lögð sérstök áhersla á þessa tvo þætti.
Gagnrýnin hugsun
Í námskeiðinu þjálfast nemendur í að leggja gagnrýnið mat á upplýsingar, einkum úr fjölmiðlum og almennri umræðu. Fjallað er um grunnhugtök rökfræði og muninn á góðum rökum annars vegar og mælskubrögðum og rökvillum hins vegar. Nemendur fræðast um sálræna og félagslega þætti sem hafa áhrif á dómgreind og mat á upplýsingum. Sérstaklega er hugað að tölulegum upplýsingum; tilurð þeirra, notkun og og gildi.
Hugræn taugavísindi
Í þessu námskeiði verður fjallað ítarlega um starfsemi og virkni heilans í tengslum við ýmiss hugarferli eins og minni, athygli, tungumál og hugsun. Fjallað verður um rannsóknir og farið ítarlega í þær aðferðir sem notaðar eru í hugrænum taugavísindum, svo sem heilalínurit (EEG) og segulómun (MRI; fMRI). Áhersla verður lögð á að skoða hvernig rannsóknir á sviði taugavísinda geta upplýst og styrkt kenningar hugfræðinnar. Einnig verður í þessu samhengi fjallað almennt um tengsl heila, huga og hegðunar.
Hagnýting sálfræði
Efnisval fer eftir kennurum hverju sinni. Sem dæmi um efnisflokka má nefna klíníska og ráðgjafarsálfræði, vinnu- og skipulagssálfræði, taugasálfræði og hugræn taugavísindi, heilsusálfræði, samskipti manneskju og umhverfis, réttarsálfræði, verkfræðileg sálfræði, umferðarsálfræði, skólasálfræði, samfélagssálfræði, heilsusálfræði, fjölmiðlasálfræði og fleira.
Sálfræðimeðferðir
Í námskeiðinu verður farið yfir sálfræðimeðferðir fyrir börn og fullorðna. Farið verður ítarlega í hugræna atferlismeðferð (HAM) og fleiri raunprófaðar meðferðir auk þess sem fjallað verður almennt um viðtalstækni.
Valnámskeið á áherslusviði
Nemendur velji námskeið í samráði við kennara/brautarstjóra deildarinnar.
Valnámskeið á áherslusviði
Nemendur velji námskeið í samráði við kennara/brautarstjóra deildarinnar.
B.A. verkefni í sálfræði
Nemandinn framkvæmir rannsókn og skrifar um hana fræðilega ritgerð undir handleiðslu leiðbeinandans. Nemandinn velur viðfangsefni BA verkefnis í samráði við leiðbeinanda við Sálfræðideild. Nauðsynlegt er að fá formlegt samþykki fyrir viðfangsefninu hjá leiðbeinanda og umsjónarmanni B.A. verkefna í sálfræði og vinna það samkvæmt reglum deildarinnar um lokaverkefni.