Í náminu er lögð áhersla á að fræðast um mannlega hegðun, hugsun og tilfinningar. Sálfræðinámið er víðtækt og opnar margar dyr til starfa og frekara náms.

Sérstaða sálfræðinámsins við Háskólann á Akureyri felst í sveigjanlegu námi og námsmati.

Námsmat er fjölbreytt. Sum námskeið byggja á símati sem felst í hlutaprófum, verkefnum, umræðum, sýnikennslu, tilraunum og rannsóknum á vettvangi. Önnur eru hefðbundnari, með verkefnavinnu og lokaprófi.

Samkeppnispróf eru haldin við lok fyrsta misseris og ákvarða hverjir fá að halda áfram námi á vormisseri fyrsta árs.

Er námið fyrir þig?

  • Vilt þú skilja þig og aðra betur?
  • Vilt þú öðlast færni og gagnrýna hugsun sem nýtist í starfi og daglegu lífi?
  • Hefur þú áhuga á að vinna náið með fólki?
  • Vilt þú láta gott af þér leiða?
  • Getur þú sett þig inn í ólíkar aðstæður?
  • Getur þú séð spaugilegu hliðarnar þegar á móti blæs?

Áherslur námsins

Sálfræði við HA er spennandi og krefjandi nám og nýtur mikilla vinsælda. Þú munt öðlast grunnþekkingu á ýmsum sviðum sálfræðinnar. Fjallað er um þroska barna og þau vandamál sem fylgja ellinni. Farið ofan í greinar á borð við taugasálfræði, félagssálfræði og vinnusálfræði.

Í náminu lærir þú mæliaðferðir og rannsóknaraðferðir. Þú færð að taka þátt í rannsóknum og vinna náið með kennurunum.

Þú getur skoðað skipulag námsins í Uglu, kennsluvef háskólans.

Möguleikar að námi loknu

Námið opnar margar dyr. Brautskráðir nemendur starfa meðal annars við rannsóknir og sem forvarnafulltrúar. Kennarar sem hafa bætt við sig sálfræði starfa við kennslu eða ráðgjöf.

Með framhaldsnámi getur þú öðlast starfsréttindi sem sálfræðingur. Sálfræðingar starfa víða til dæmis sem skólasálfræðingar, á sjúkrahúsum, við ráðgjöf og meðferðarvinnu.

Námið opnar leið að framhaldsnámi á fleiri sviðum sálfræðinnar og tengdum greinum eins og í mannauðsstjórnun og fjölskylduráðgjöf. Sálfræðingar eru einnig vinsælir starfskraftar í markaðsdeildum fyrirtækja og auglýsingastofa.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Kumpáni er félag félagsvísindanema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi, lokaprófi frá framhaldsskóla á þriðja hæfniþrepi, jafngildu erlendu prófi eða 60 ECTS einingum frá viðurkenndum háskóla.

Þeir 60 nemendur sem ná hæstri meðaleinkunn úr námskeiðunum Almennri sálfræði, Tilraunasálfræði og Sögu sálfræðinnar á haustmisseris á 1. námsári geta haldið áfram með námið. 

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Samkeppnispróf

Samkeppnispróf eru haldin við lok haustmisseris á 1. námsári í sálfræði. Þeir 60 nemendur sem ná hæstri meðaleinkunn úr námskeiðunum Almennri sálfræði, Tilraunasálfræði og Sögu sálfræðinnar geta haldið áfram með námið. 

Nemendur sem standast ekki samkeppnispróf geta ekki innritað sig á vormisseri.

Nánari upplýsingar má finna í Reglum Háskólans á Akureyri, undir Nemendur.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að engu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskrá og námskröfur eru þær sömu.

Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft og þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á hljóðinu.

Skylda er að koma einu sinni á misseri í stuttar kennslulotur til Akureyrar þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu.

Vinsamlega athugið að hver vika í fullu háskólanámi er ígildi 50-60 stunda vinnuviku

Hér getur þú lesið meira um sveigjanlega námið og séð hvenær námslotur eru.

Skiptinám

Allir nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Þú færð niðurfellingu á skólagjöldum gestaskólans og greiðir eingöngu innritunargjald í HA. Alþjóðafulltrúi aðstoðar þig við að sækja um námið, húsnæði og nemendastyrk.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skiptinám.

 

Umsagnir

Ég get eindregið mælt með Háskólanum á Akureyri þar sem aðgengi að kennurum er gott og andrúmsloftið afslappað, það sem stendur upp úr er einstaklega góð þjónusta og gott viðmót starfsfólks á bókasafni skólans sem auðveldaði mér námið á svo margan hátt með faglegri aðstoð og bros á vör. Ég hef góða reynslu af sálfræðináminu við Háskólann á Akureyri, en það er frábær grunnur fyrir stjórnunarstörf þar sem stjórnun snýr að miklu leyti að samskiptum við fólk.

J. Snæfríður Einarsdóttir
Ráðgjafi hjá HSE Consulting

Sálfræðinám er frábær grunnur fyrir alla hvort heldur sem þeir ætla út á vinnumarkaðinn eða í frekara nám. Námið opnar fjölmargar aðrar námsleiðir en er á sama tíma góður undirbúningur fyrir lífið þar sem nemendur öðlast þekking og kunnáttu sem þeir búa að alla ævi. Námið er sveigjanlegt og umfram allt áhugavert, hvort sem þú stefnir á starfsréttindi sem sálfræðingur, framhaldsnám í mannauðstjórnun, kennsluréttindi eða einfaldlega að þroska þig sem persónu.

Friðrik Már Ævarsson
Sálfræðingur á Sjúkrahúsinu á Akureyri