Fjölmiðlafræði skoðar gangvirki fjölmiðlanna – bæði hefðbundinna miðla og nýmiðla – og stöðu þeirra og áhrif í samfélaginu. Flækjustig upplýsingasamfélagsins hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum vegna tæknibreytinga, gervigreindar og fjölgunar miðlunarleiða. Upplýsingaóreiða er orðin raunverulegt vandamál bæði hér á landi og um heim allan. Þörfin á þekkingu og skilningi á samspili fjölmiðlunar og samfélagsins hefur því sjaldan eða aldrei verið mikilvægari. Námið í fjölmiðlafræði við HA kemur til móts við þessa þörf með því að bjóða upp á BA gráðu sem gefur sterkan grunn í félags- og hugvísindum með sérstakri áherslu á hvers kyns fjölmiðlun, eðli hennar og áhrif. Auk þessarar mikilvægu fræðilegu þátta fá nemendur innsýn og tilsögn í hvernig fjölmiðlaefni er búið til með því að spreyta sig á verklegum æfingum.

Háskólinn á Akureyri er eini háskólinn á landinu sem býður upp á fjölmiðlafræði til BA-prófs.

Er námið fyrir þig

  • Viltu opna á fjölbreytta og spennandi valkosti að námi loknu?
  • Hefur þú áhuga á fólki og hvaðan hugmyndir þess koma?
  • Ert þú forvitin/n?
  • Hefur þú gaman af því að skilja flókin mál og grafa undir yfirborðið?
  • Vilt þú geta haft áhrif í upplýsingasamfélaginu?

Áherslur námsins

Námið er til þess ætlað að gera þig hæfari til að takast á við samfélagsbreytingar, sem fylgja upplýsingatæknibyltingu og síhækkandi almennu menntunarstigi.

Fjölmiðlafræðinámið í Háskólanum á Akureyri byggir á fræðilegri þekkingu og veitir innsýn í hvernig fjölmiðlaefni verður til með verklegri kennslu og æfingum.

Það er lögð áhersla á að kenna þér að setja fjölmiðla í samhengi við samfélagið. Leitað er svara við lagalegum og siðferðislegum spurningum sem tengjast daglegu starfi fjölmiðlafólks.

Þessi fræðigrein er í stöðugri þróun og nýir miðlar að verða til. Námið tekur tillit til þessa.

Þú getur skoðað skipulag námsins í Uglu, kennsluvef háskólans.

Möguleikar að námi loknu

Fjölmiðlafræðinámið þjálfar eiginleika sem eru eftirsóttir í samfélaginu í dag, hvort heldur er á vinnumarkaði eða til framhaldsnáms.

Nám í fjölmiðlafræði opnar dyr á mögrum sviðum, en áberandi er að brautskráðir nemendur hafa fengið störf á fjölmiðlum eða fjölmiðlatengdum störfum, enda námið góður undirbúningur undir nútíma blaðamennsku.

Fjölmiðlafræðingarnir frá HA hafa líka fengið störf sem fjölmiðlafulltrúar fyrirtækja og stofnana. Möguleikarnir eru endalausir.

Námið er líka góður grunnur fyrir framhaldsnám bæði heima og erlendis. Til dæmis í fjölmiðla- og boðskiptafræði, markaðsfræði, stjórnmálafræði, kynjafræði og mörgum öðrum greinum félagsvísinda.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Kumpáni er félag félagsvísindanema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi, lokaprófi frá framhaldsskóla á þriðja hæfniþrepi, jafngildu erlendu prófi eða 60 ECTS einingum frá viðurkenndum háskóla. Eða aðrar forsendur til náms sem Félagsvísindadeild metur fullnægjandi

Forgangsröðun umsókna vegna fjöldatakmarkana

Við viljum benda á að ef fjöldi umsækjenda sem uppfyllir almenn inntökuskilyrði fer yfir fjöldaviðmið verður umsóknum forgangsraðað á eftirfarandi hátt:

  • Uppfylla almenn inntökuskilyrði, 100 stig
  • Fjöldi lokinna eininga, 0-80 stig
  • Sýn umsækjenda á námið, 0-10 stig
  • Umsækjendur sem teljast innflytjendur samkvæmt viðmiðum Hagstofu Íslands, 10 stig
  • Kynjahlutfall í deildinni, 10 stig 

Umsækjendum verður svo raðað upp samkvæmt samlagningu þessa þátta og teknir inn í þeirri röð.

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Undanþágur

Umsóknir sem ekki teljast uppfylla almenn inntökuskilyrði eru metnar sjálfstætt. Því er mikilvægt að umsækjendur skili kynningarbréfi ásamt upplýsingum um fyrra nám.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að engu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskrá og námskröfur eru þær sömu.

Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft að þú vilt. Okkur þykir samt auðvitað skemmtilegt að sjá þig í kennslustund.

Allir fjarnemar koma nokkrum sinnum á námstímanum í stuttar námslotur til Akureyrar þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu.

Skyldumæting er í námsloturnar. Kynntu þér því vel dagsetningarnar sem birtar eru með góðum fyrirvara. Á fyrsta misseri koma nemendur tvisvar sinnum í lotu og svo aftur tvisvar á vormisseri annars árs. Annars er yfirleitt ein lota á misseri. 

Vinsamlega athugið að hver vika í fullu háskólanámi er ígildi 50-60 stunda vinnuviku

Skiptinám

Allir nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Þú færð niðurfellingu á skólagjöldum gestaskólans og greiðir eingöngu innritunargjald í HA. Alþjóðafulltrúi aðstoðar þig við að sækja um námið, húsnæði og nemendastyrk.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skiptinám.

Umsagnir

Fjölmiðlafræðin er áhugavert, fjölbreytt og skemmtilegt nám, bæði fræðilegt og verklegt. Það býr mann vel undir framtíðina, hvort sem þú hyggur á starf eða frekara nám á sviði fjölmiðla.

Sigurður Þorri Gunnarsson
Tónlistarstjóri Rásar 2