Í fjölmiðlafræði lærir þú um miðlun efnis. Helstu viðfangsefni eru dagblöð, útvarp, sjónvarp og samfélagsmiðlar, staða þeirra, áhrif og þróun.

Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu sem fjórða valdið. Lærðu að hafa áhrif.

Háskólinn á Akureyri er eini háskólinn á landinu sem býður upp á þetta nám til BA-prófs.

Er námið fyrir þig

  • Hefur þú gaman af því að skrifa?
  • Hefur þú áhuga á fólki?
  • Ertu forvitin/n?
  • Hefur þú gaman af því að skilja flókin mál og grafa undir yfirborðið?
  • Viltu geta haft áhrif í samfélaginu?
  • Ertu með sterkar taugar og hefur þú gaman af spennu?

Áherslur námsins

Fjölmiðlafræðinámið í Háskólanum á Akureyri byggir á fræðilegri þekkingu. Þú færð þjálfun í að skrifa texta og vinnu við útvarp, sjónvarp og samfélagsmiðla.

Það er lögð áhersla á að kenna þér að setja fjölmiðla í samhengi við samfélagið. Leitað er svara við lagalegum og siðferðislegum spurningum sem tengjast daglegu starfi fjölmiðlafólks.

Þessi fræðigrein er í stöðugri þróun og nýir miðlar að verða til. Námið tekur tillit til þessa.

Möguleikar að námi loknu

Langar þig til þess að starfa sem fréttamaður við útvarp eða sjónvarp? Það hafa margir útskrifaðir nemendur í fjölmiðlafræðinni gert og gengið vel.

Þú getur stofnað þinn eigin netmiðil eða skrifað fyrir blöð og tímarit.

Fjölmiðlafræðingarnir frá HA hafa fengið störf sem fjölmiðlafulltrúar fyrirtækja og stofnana. Möguleikarnir eru endalausir.

Þetta nám er líka góður grunnur fyrir framhaldsnám bæði heima og erlendi. Til dæmis í fjölmiðla- og boðskiptafræði, markaðsfræði, stjórnmálafræði eða kynjafræði svo eitthvað sé nefnt.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Félagi stúdenta við Háskólann á Akureyri (FSHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Kumpáni er félag félagsvísindanema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjandi hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi.

Deildum háskólans er heimilt að innrita tilskilinn fjölda nemenda án stúdentsprófs. Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans og undanþágur frá þeim.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að engu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskránni og námskröfur eru þær sömu.

Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft að þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á hljóðinu. Okkur þykir samt auðvitað skemmtilegt að sjá þig í kennslustund.

Allir fjarnemar koma nokkrum sinnum á námstímanum í stuttar kennslulotur til Akureyrar þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu.

Hér getur þú lesið meira um sveigjanlega námið og séð hvenær námslotur eru.

Skiptinám

Allir nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Þú færð niðurfellingu á skólagjöldum gestaskólans og greiðir eingöngu innritunargjald í HA. Alþjóðafulltrúi aðstoðar þig við að sækja um námið, húsnæði og nemendastyrk.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skiptinám.

 

Umsagnir

Fjölmiðlafræði við HA er fjölbreytt og yfirgripsmikið nám sem spannar allt litróf nútíma fjölmiðlunar. Bæði á fræðilegum og verklegum nótum. Fyrir vikið er námið einstaklega líflegt og skemmtilegt. Háskólinn á Akureyri er líka bara svo notalegur og nærandi skóli. Tími minn þar var hápunktur námsáranna. Tími sem bæði þroskaði mig og styrkti.

Guðmundur Gunnarsson
Bæjar­stjóri Ísa­fjarðar­bæjar

Fjölmiðlafræðin er áhugavert, fjölbreytt og skemmtilegt nám, bæði fræðilegt og verklegt. Það býr mann vel undir framtíðina, hvort sem þú hyggur á starf eða frekara nám á sviði fjölmiðla.

Sigurður Þorri Gunnarsson
útvarpsmaður