Þverfaglegt meistaranám í sjávarútvegi með áherslu á fiskveiðistjórnun. Það gerir þér kleift að takast á við umfangsmikil verkefni á sviði sjávarútvegs. Námslínan er kennd við Háskólann á Akureyri í samstarfi við Háskóla Íslands.

Íslenskur sjávarútvegur skapar um milljarð króna í útflutningstekjur hvern virkan dag. Þetta er einn elsti atvinnuvegur þjóðarinnar og einkennist hann af nýsköpun og framsækni.

Að námi loknu hafi nemendur yfirsýn yfir fyrirliggjandi þekkingu í alþjóðlegum sjávarútvegi og þá aðferðafræði sem beitt hefur verið á Íslandi í veiðum, vinnslu, markaðssetningu og rekstri. Sérstök áhersla er lögð á sjávarútveg á norðurslóðum.

Námið verður ekki í boði á skólaárinu 2023-2024. Næst verður hægt að sækja um árið 2024.

Er námið fyrir þig?

Hefur þú áhuga á fiskistofnum og verðmætasköpun?
Vilt þú læra um fullnýtingu afurða?
Hefur þú áhuga á sjávarútvegi á heimsvísu?
Hefur þú áhuga á að starfa erlendis?
Hefur þú áhuga á alþjóðlegum viðskiptum?
Hefur þú velt fyrir þér áhrifum loftslagsbreytinga á fiskveiðar?
Vilt þú auka skilning þinn á skipum og veiðarfærum?

Áherslur námsins

Að loknu námi eiga nemendur að skilja ferlið í virðiskeðju sjávarútvegs á Íslandi; frá umhverfi fisksins í hafinu á disk neytenda á erlendum mörkuðum. Í vettvangsferðum og verklegum æfingum í fyrirtæki er farið yfir helstu áskoranir í greininni, auk þess sem búnaður er skoðaður. Markmiðið er að nemendur þekki og geti hagnýtt nýjustu stefnur og strauma í vinnslu og veiðum.

Í náminu er áhersla lögð á að nemendur skilji hvað þarf til að hámarka verðmæti úr hafinu til langs tíma. Nýjar áskoranir bætast sífellt við, umhverfismál eru nú áberandi með hlýnun hafsins sem leitt hefur til breytinga á göngumynstri fiskistofna milli lögsaga og þannig flækt enn frekar stjórnun fiskveiða.

Heimsóknir í sjávarútvegsfyrirtæki, hagnýt verkefni úr atvinnugreininni og verklegar æfingar eru hluti af náminu. Ætlast er til að nemendur þekki helsta búnað og geti hagnýtt nýjustu stefnur og strauma við störf í sjávarútvegi. Að kennslunni koma helstu sérfræðingar á sínu sviði frá Háskólanum á Akureyri, Háskóla Íslands og úr atvinnulífinu.

Möguleiki er á að taka eitt misseri erlendis, við Háskóla Íslands, haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða eða sem svarar einu misseri heimsskautarétti við HA.

Möguleikar að námi loknu

Íslenskur sjávarútvegur einkennist af nýsköpun og framsækni. Fjöldi starfa er hjá nýsköpunar-og sprotafyrirtækjum.

Námið er kjörinn undirbúningur fyrir störf hjá alþjóðlegum sjávarútvegsfyrirtækjum, ráðuneytum og sérfræðistofnunum, sveitarfélögum, ráðgjafafyrirtækjum, alþjóðastofnunum, félagasamtökum, hagsmunasamtökum og stjórnmálaflokkum.

Meistaragráða opnar aðgang að doktorsnámi bæði við innlenda og erlenda háskóla.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að nemendur hafi lokið BA eða BS próf með fyrstu einkunn.

Erlendir umsækjendur, sem ekki hafa ensku að móðurmáli, þurfa að sýna fram á góða þekkingu á enskri tungu (lágmarkseinkun TOEFL 85 eða IELTS 6.5).

Allir umsækjendur þurfa að skila inn greinagerð á ensku (500-1500 orð) þar sem þeir tilgreina hvers vegna þeir hafa áhuga á náminu, bakgrunn og þekkingu á faginu, markmið með náminu og framtíðaráform, og hugsanlegt viðfangsefni í meistararitgerð.

Umsókn skal fylgja meðmæli frá 2-3 einstaklingum (kennari/yfirmaður) sem þekkja til umsækjenda og geta veitt viðkomandi skýra umsögn.

Viðtöl verða tekin við umsækjendur og valið verður með tilliti til námsárangurs, markmiðasetningar og viðtala.

Lágmarksfjöldi nemenda er 10 til að hefja kennslu námsleiðarinnar hvert starfsár. Alls eru teknir inn 15 nemendur hvert námsár.

Sveigjanlegt nám

Námið er sveigjanlegt nám sem þýðir að þú getur búið hvar sem er á landinu og jafnvel möguleiki á að búa erlendis, engu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskrá og námskröfur eru þær sömu.

Hægt er að sækja fyrirlestra, horfa á þá í beinni útsendingu eða nálgast upptökur. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft og þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á hljóðinu. Okkur þykir samt auðvitað skemmtilegt að sjá þig í kennslustund.

Allir nemendur þurfa koma einu sinni á misseri í eina viku til Akureyrar. Þá er unnið að verklegum æfingum og fyrirtæki heimsótt. Í sumum námskeiðum vinna nemendur að verkefnum eða kynna þau. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu.

Hér getur þú lesið meira um sveigjanlega námið og séð hvenær námslotur eru.