Kennaranám HA til BEd-gráðu veitir traustan undirbúning til starfa í leik- og grunnskólum.

Kjörsviðin eru tvö: leikskólakjörsvið og grunnskólakjörsvið.

Markmiðið er að veita þekkingu á undirstöðuþáttum kennslu. Jafnframt að leggja grunn að þeirri færni sem þarf til að þróa og móta skóla, iðka rannsóknir og stunda frekara nám.

Einnig er í boði:

Er námið fyrir þig

  • Hefur þú áhuga á ungu fólki?
  • Hefur þú áhuga á uppeldis- og skólamálum?
  • Getur þú sett þig í spor annarra?
  • Átt þú auðvelt með að vinna með öðrum?
  • Hefur þú gaman af ólíkum viðfangsefnum?
  • Fékkst þú þolinmæði í vöggugjöf?
  • Finnst þér gaman að miðla af þekkingu þinni?
  • Vilt þú hafa góð áhrif?

Áherslur námsins

Nám til BEd-prófs í kennarafræði er fyrri hluti fimm ára náms til MEd-prófs, sem gefur sjálf kennsluréttindin.

Nemendur velja sér kjörsvið um leið og þeir sækja um inngöngu í skólann. Fyrsta árið í BEd-náminu er samt sem áður að mestu sameiginlegt öllum kennaranemum en aðgreiningin verður svo meiri á öðru námsári.

Á þriðja námsári auka nemendur á leik- og grunnskólakjörsviðum við sérhæfingu sína með valgreinum. 

Þú getur skoðað skipulag námsins í Uglu, kennsluvef háskólans:

Möguleikar að námi loknu

Markmið námsins er að veita nemendum alhliða innsýn í kennarafræði.

Nám til BEd-prófs veitir ekki sérstök starfsréttindi en það er mikilvægur undirbúningur fyrir frekara nám til kennsluréttinda. Menntunin nýtist vel í störfum innan menntakerfisins og á almennum vinnumarkaði.

Námið veitir aðgang að námi í menntunarfræði til MEd-gráðu eða MT-gráðu og að námi í menntavísindum til MA-gráðu eða diplómu. Athugið að ljúka þarf MEd-gráðu eða MT-gráðu til að öðlast kennsluréttindi.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Magister er félag kennaranema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Hæfni í íslensku

Samkvæmt reglugerð um hæfniramma með viðmiðum fyrir almenna og sérhæfða hæfni kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla skal kennari við brautskráningu úr kennaranámi við íslenska háskóla búa yfir hæfni í íslensku sem samsvarar að lágmarki C1 í Evrópska tungumálarammanum.

Því eru þau sem ekki hafa íslensku sem fyrsta mál og sækja um grunn- eða framhaldsnám við Kennaradeild beðin um að meta færni sína í íslensku og fylla út sjálfsmatsramma Evrópuráðsins.

Hér má sjá Tungumálaramma Evrópuráðsins.

Námskeið við Kennaradeild eru almennt kennd á íslensku.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi, lokaprófi frá framhaldsskóla á þriðja hæfniþrepi, jafngildu erlendu prófi eða 60 ECTS einingum frá viðurkenndum háskóla.

Forgangsröðun umsókna vegna fjöldatakmarkana

Við viljum benda á að ef fjöldi umsækjenda sem uppfyllir almenn inntökuskilyrði fer yfir fjöldaviðmið verður umsóknum forgangsraðað á eftirfarandi hátt:

  • Uppfylla almenn inntökuskilyrði, 100 stig
  • 90 einingar (150 fein) að lágmarki úr framhaldsskóla, 60 stig
  • Starfsreynsla í leik- eða grunnskóla (ár eða lengur), 20 stig
  • 60 eininga nám á háskólastigi til viðbótar stúdentsprófi, 20 stig
  • Reynsla í íþrótta- eða æskulýðsstörfum (ár eða meira), 10 stig
  • Kynjahlutfall í deildinni, 20 stig

Umsækjendum verður svo raðað upp samkvæmt samlagningu þessa þátta og teknir inn í þeirri röð.  Því er mikilvægt að skila inn viðbótargögnum:

  • Starfsferilsvottorðs ef umsækjandi hefur starfað við leik-, grunn- eða framhaldsskóla
  • Staðfestingu á reynslu sem leiðbeinandi, hópstjóri eða þjálfari/aðstoðarþjálfari í íþrótta- og æskulýðsstarfi ef umsækjandi hefur slíka reynslu

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Undanþágur

Umsóknir sem ekki teljast uppfylla almenn inntökuskilyrði eru metnar sjálfstætt. Því er mikilvægt að umsækjendur skili viðbótarupplýsingum um reynslu sína samanber hér að ofan um forgangsröðun umsókna.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að engu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskránni og námskröfur eru þær sömu.

Kennsla fer fram í staðbundnum námslotum í Háskólanum á Akureyri og er skyldumæting í þær. Þess á milli verða fyrirlestrar og verkefni sett inn á kennsluvef.

Í mörgum námskeiðum er símat. Námsmat fer þá fram að nokkru eða jafnvel öllu leyti utan reglulegrar prófatíðar og getur meðal annars falið í sér hlutapróf, ritgerðir, skýrslur, dagbækur eða þátttöku í kennslustundum. Skrifleg próf eru haldin í Háskólanum á Akureyri en einnig á nokkrum öðrum viðurkenndum prófstöðum. Nemendum sem vilja þreyta próf annars staðar er bent á að kynna sér vel hvaða staði er um að ræða og þær reglur sem um slíkt gilda.

Vinsamlega athugið að hver vika í fullu háskólanámi er ígildi 50-60 stunda vinnuviku.

Skiptinám

Allir nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Þú færð niðurfellingu á skólagjöldum gestaskólans og greiðir eingöngu innritunargjald í HA. Alþjóðafulltrúi aðstoðar þig við að sækja um námið, húsnæði og nemendastyrk.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skiptinám.

Umsagnir

Grunnnámið í kennarafræðum er skemmtilegt og fjölbreytt nám sem undirbjó mig vel undir framhaldsnám og starf mitt sem kennari. Námið er perónulegt þar sem þú kynnist kennurum og samnemendum vel. Sveigjanleikinn í náminu er stór kostur sem nýttist mér vel í náminu sjálfu og sérstaklega eftir að ég fór að starfa sem kennari samhliða námi.

Arnór Heiðmann Aðalsteinsson
Umsjónarkennari við Borgarhólsskóla á Húsavík

Í kennaranáminu lærði ég að flétta vinnu með nánasta umhverfi skóla inn í nám og kennslu, kynntist ólíkum aðferðum og nálgunum þegar kemur að því að vinna með málþroska barna, vinna með vísindi og stærðfræði í umhverfinu svo fátt eitt sé nefnt. Námið við Kennaradeild HA er fjölbreytt og spannar mörg áhugasvið. Í vísindasmiðju bjuggum við til og unnum með rafmagn, ljós, myndvinnslu o.fl. Ég kynntist einnig stefnum og straumum í umhverfismennt og menntun til sjálfbærrar þróunar, varð fær um að kenna um náttúru, umfhverfi, samfélagið, endurvinnslu og endurnýingu. Það sem stendur upp úr er þó persónulegt nám þar sem stúdentar eru ekki kennitala á blaði.

Helena Sjørup Eiriksdóttir
Leikskólakennari á Krógabóli