Kennaranám HA til BEd-gráðu veitir traustan undirbúning til starfa í leik-, grunn- og framhaldsskólum.

Kjörsviðin eru þrjú: leikskólakjörsvið, grunnskólakjörsvið og íþróttakjörsvið.

Markmiðið er að veita þekkingu á undirstöðuþáttum kennslu. Jafnframt að leggja grunn að þeirri færni sem þarf til að þróa og móta skóla, iðka rannsóknir og stunda frekara nám.

Er námið fyrir þig

  • Hefur þú áhuga á ungu fólki?
  • Hefur þú áhuga á uppeldis-, skóla- og íþróttamálum?
  • Getur þú sett þig í spor annarra?
  • Átt þú auðvelt með að vinna með öðrum?
  • Hefur þú gaman af ólíkum viðfangsefnum?
  • Fékkst þú þolinmæði í vöggugjöf?
  • Finnst þér gaman að miðla af þekkingu þinni?
  • Vilt þú hafa góð áhrif?

Áherslur námsins

Nám til BEd-prófs í kennarafræði er fyrri hluti fimm ára náms til MEd-prófs, sem gefur sjálf kennsluréttindin.

Fyrsta árið í BEd-náminu er að mestu sameiginlegt öllum kennaranemendum. Á öðru ári velur þú þér kjörsvið. Þú getur líka valið þér kjörsvið í öðrum deildum innan og utan HA.

Á þriðja námsári auka nemendur á leik- og grunnskólakjörsviðum við sérhæfingu sína með valgreinum. Nemendur á íþróttakjörsviði taka aðallega vettvangstengd námskeið á þriðja námsári.

Þú getur skoðað skipulag námsins í Uglu, kennsluvef háskólans.

Möguleikar að námi loknu

Markmið námsins er að veita nemendum alhliða innsýn í kennarafræði.

Nám til BEd-prófs veitir ekki sérstök starfsréttindi en það er mikilvægur undirbúningur fyrir frekara nám til kennsluréttinda. Menntunin nýtist vel í störfum innan menntakerfisins og á almennum vinnumarkaði.

Námið opnar aðgang að námi í menntunarfræði til MEd-gráðu (kennsluréttindi) eða námi í menntavísindum til MA-gráðu.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Magister er félag kennaranema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjandi hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi.

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að engu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskránni og námskröfur eru þær sömu.

Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft að þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á hljóðinu. Okkur þykir samt auðvitað skemmtilegt að sjá þig í kennslustund.

Allir nemendur þurfa að koma nokkrum sinnum á námstímanum í stuttar kennslulotur til Akureyrar þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður. Skyldumæting er í námsloturnar og eru að jafnaði tvær slíkar lotur á hverju misseri. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu.

Í mörgum námskeiðum er notast við símat. Námsmat fer þá fram að nokkru eða jafnvel öllu leyti utan reglulegrar prófatíðar og getur meðal annars falið í sér hlutapróf, ritgerðir, skýrslur, dagbækur eða þátttöku í kennslustundum. Skrifleg próf eru haldin í Háskólanum á Akureyri en einnig á nokkrum öðrum viðurkenndum prófstöðum. Nemendum sem vilja þreyta próf annars staðar er bent á að kynna sér vel hvaða staði er um að ræða og þær reglur sem um slíkt gilda.

Vinsamlega athugið að hver vika í fullu háskólanámi er ígildi 50-60 stunda vinnuviku.

Skiptinám

Allir nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Þú færð niðurfellingu á skólagjöldum gestaskólans og greiðir eingöngu innritunargjald í HA. Alþjóðafulltrúi aðstoðar þig við að sækja um námið, húsnæði og nemendastyrk.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skiptinám.

 

Umsagnir

Kennarafræði við HA veitti mér góða undirstöðu fyrir meistaranámið í sérkennslu. Grunnnámið var yfirgripsmikið og ég fékk strax tækifæri til að kynnast væntanlegum starfsvettvangi.

Sigrún Helga Snæbjörnsdóttir
sérkennari í Síðuskóla

Í náminu er glímt við mörg og misjöfn viðfangsefni sem reynir á í starfi síðar meir. Kennarar HA virkja nemendur í gegnum námið með því að spyrja áleitinna spurninga sem kveikja hugleiðingar og ígrundun. Mér finnst það hafa hjálpað mér í því að verða gagnrýninn og íhugandi fagmaður í starfi.​

Egill Óskarsson
deildarstjóri, Leikskólinn Fagrabrekka