Iðnaðar- og orkutæknifræðingar fást við hluti sem eru allt í kringum okkur svo sem í orkuiðnaði, í iðn- og framleiðslufyrirtækjum. Framfarir á sviði endurnýjanlegra orkugjafa opna fyrir ótal tækifæri í virkjun vatnsorku, vindorku og jarðvarma. Ör þróun er fyrirsjáanleg í faginu með tilkomu nýjunga í orkutæknifræði og sjálfvirknivæðingu í iðnaði.

Nám í iðnaðar- og orkutæknifræði er byggt í samstarfi við Háskólann í Reykjavík.

Stúdentar eru skráðir stúdentar við HR og greiða þangað skólagjöld. Í HA hlýða stúdentar á fyrirlestra í beinu streymi á sama tíma og kennsla fer fram í HR. Aðstoðarkennari mun sjá um dæmatíma og aðstoða stúdenta í HA. Gert er ráð fyrir að stúdentar séu í fullu námi í dagskóla, 30 ECTS á hvoru misseri.

Er námið fyrir þig?

  • Hefur þú áhuga á að vinna með endurnýjanlega orkugjafa?
  • Langar þig að auka sjálfvirkni í iðnaði?
  • Langar þig að forrita róbóta í framleiðslulínum?
  • Vilt þú stýra framtíðar matvælavinnslum?
  • Langar þig að teikna og hanna hluti í 3D
  • Heillar rekstur og viðhald á virkjunum þig?
  • Vilt þú meta kosti vindmylla?

Áherslur námsins

Stúdentar í iðnaðar- og orkutæknifræði fá ótal tækifæri til þess að leysa raunveruleg vandamál, allt frá hugmyndastigi að hönnun og smíði, ásamt því að öðlast sterkan og breiðan fræðilegan bakgrunn. Þeir eru hvattir til að taka þátt í hönnunarverkefnum og/eða hönnunarnámskeiðum, skoða kosti starfsnáms til að kynnast raunverulegum og aðkallandi hagnýtum verkefnum.

Í náminu eru annir brotnar upp í tvo hluta. Fjögur námskeið eru kennd í 12 vikur og síðan er prófað úr þeim. Að prófum loknum taka við þriggja vikna námskeið þar sem námsefnið er sett í hagnýtt samhengi með verkefnavinnu, hópavinnu og/eða samstarfi við fyrirtæki.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skipulag námsins á vef Háskólans í Reykjavík

Möguleikar að námi loknu

Þau sem ljúka lokaprófi í tæknifræði (BSc) geta sótt um staðfestingu til viðkomandi ráðuneytis og hlotið lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur. Þau sem ljúka BSc-námi í tæknifræði, eru með sveinspróf og hafa lokið tilskyldum starfstíma geta jafnframt sótt um meistarabréf í tilsvarandi iðngrein, en HR/HA ber ekki ábyrgð á að gefa út slík leyfi.

Starfssvið iðnaðar- og orkutæknifræðinga er fjölþætt. Þeir starfa meðal annars við hönnun, stjórnun, eftirlit, ráðgjöf, þróun og nýsköpun. Þeir vinna á verkfræðistofum, í framleiðslufyrirtækjum, í iðnaði og hjá orkufyrirtækjum.

Tæknifræðinám veitir góða undirstöðu fyrir framhaldsnám í verkfræði á tengdum sviðum innanlands sem og erlendis.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjandi hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi.

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði Háskólans í Reykjavík.

Sækja um

Sótt er um námið á vefsíðu HR. Fara á umsóknarvef HR.