Diplómagráðan er fyrir þá sem hafa áhuga á tölvunarfræði og vilja auka við þekkingu sína. Hún er einnig fyrir þá sem hafa nú þegar háskólagráðu og vilja bæta við sig BS-gráðu í tölvunarfræði á tveimur árum.
Nám í tölvunarfræði við Háskólann á Akureyri er byggt upp í samstarfi við Háskólann í Reykjavík.
Námsefni kemur frá HR. Kennsla fer fram í HA í sveigjanlegu námi og nemendur mæta vikulega í verkefnatíma. Nemendur hafa gott aðgengi að kennurunum bæði í HA og HR. Nemendur eru skráðir í námið við HR og borga skólagjöld samkvæmt gjaldskrá þess skóla.
Er námið fyrir þig?
- Hefur þú áhuga á að búa til tölvuleiki?
- Vilt þú vinna við þróun á hugbúnaði?
- Eru stór gagnasöfn og flókin netkerfi málið?
- Langar þig til að kóða vefsíður?
- Finnst þér sýndarveruleiki áhugaverður?
- Er gervigreind heillandi?
- Kanntu að beygja orðið tölva?
Áherslur námsins
Diplómanám í tölvunarfræði er samsvarandi fyrstu tveimur árunum í BS-námi í tölvunarfræði.
Megináhersla er lögð á forritun ásamt fleiri grunnfögum tölvunarfræðinnar. Farið er í hugbúnaðarhönnun, stýrikerfi, netkerfi og gagnasöfn.
Í náminu er reynt að hafa jafnvægi milli fræðilegrar undirstöðu og hagnýtrar þekkingar á nýjustu tækni og aðferðum.
Námið er skipulagt sem fullt nám í tvö ár.
Þú getur smellt hér og lesið meira um skipulag námsins á vef Háskólans í Reykjavík.
Möguleikar að námi loknu
Nemendur hafa að loknu námi diplómapróf í tölvunarfræði og þar með staðfestingu á því að hafa grunnþekkingu og þjálfun í faginu.
Nemendur geta að námi loknu ákveðið að halda áfram og bæta við sig einu námsári. Þá útskrifast þeir með BS-próf í tölvunarfræði og öðlast réttindi til að nota lögverndaða starfsheitið tölvunarfræðingur.
Félagslífið
Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.
Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Data er félag tölvunarfræðinema við HA og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.
Inntökuskilyrði
Almenn krafa er að umsækjandi hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi.
Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði Háskólans í Reykjavík.
Sveigjanlegt nám
Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft og þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á hljóðinu. Okkur þykir samt frábært að fá tækifæri til að hitta þig í kennslustund.
Helsti kostur sveigjanlega námsins er að þú mættir í verkefnatíma í HA þar sem kennari er á staðnum. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu.
Vinsamlega athugið að hver vika í fullu háskólanámi er ígildi 50-60 stunda vinnuviku.
Skiptinám
Nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Alþjóðaskrifstofa HR aðstoðar þig við að sækja um námið, húsnæði og nemendastyrk.
Sækja um
Sótt er um námið á vefsíðu HR. Fara á umsóknarvef HR.
Umsagnir
Krefjandi en jafnframt skemmtilegt nám sem undirbýr mann vel fyrir atvinnulífið. Frábært að geta tekið námiđ í stađnámi og vera hluti af hóp.

Námið sjálft einkendist sérstaklega af stórum, skemtilegum og raunhæfum verkefnum sem eru í takt við vinnuna mína í dag. Þó kom mér mest á óvart hvað kennarar voru aðgengilegir og alltaf til í að aðstoða ef maður var fastur í verkefni.

Á tímamótum í mínu lífi tók ég þá ákvörðun um að skella mér í háskóla og varð tölvunarfræði við HR fyrir valinu. Ég sé alls ekki eftir því þar sem námið uppfyllti allar mínar þarfir um krefjandi viðfangsefni, áhugasama kennara og tengsl við atvinnulífið.
