Nám í lögreglufræði var nýverið fært á háskólastig. Háskólinn á Akureyri er eini háskólinn á Íslandi sem býður upp á nám í lögreglufræði.

Námið er fyrir tilvonandi lögreglumenn. Þú sækir námskeið við Háskólann á Akureyri í sveigjanlegu námi. Starfsnám er á vegum Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu (MSL) í samvinnu við HA.

Aðrar námsleiðir:

Er námið fyrir þig?

 • Ertu með taugar úr stáli og hjartað á réttum stað?
 • Getur þú haldið ró þinni þegar mikið gengur á?
 • Viltu hjálpa þeim sem hafa lent í vandræðum?
 • Viltu vinna að því að fólk geti farið öruggt að sofa eða farið áhyggjulaust í frí?
 • Viltu vera góð fyrirmynd?
 • Kanntu að setja þig í aðstæður annarra?
 • Kanntu að stjórna skapi þínu?

Áherslur námsins

Í náminu færðu kennslu og þjálfun í samskiptum við ólíka hópa samfélagsins. Þú lærir samskipti við aðrar fagstéttir til dæmis í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Rauði þráðurinn er að læra að tryggja öryggi borgaranna og vinna gegn afbrotum.

Kennd er sálfræði, lögfræði, afbrotafræði og fleiri greinar sem gagnast þér í daglegum löggæslustörfum. Einnig gagnreyndar aðferðir og tækni sem lögreglan beitir.

Starfsnám

Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu við embætti ríkislögreglustjóra (MSL) annast og skipuleggur verklega hluta starfsnámsins í samstarfi við HA. Starfsnámið er forsenda þess að fá starfsréttindi sem lögreglumaður.

Starfsnámið hefst á vormisseri 1. árs og er byggt upp á lotum sem fara að mestu fram í húsnæði MSL í Reykjavík.

Sækja þarf sérstaklega um inngöngu í starfsnámið og gangast undir sérstök hæfnispróf. Fjöldi nemenda í starfsnám er takmakaður. MSL velur nema í starfsnám í samstarfi við HA.

Starfsnámið fer fram í starfsnámslotum, þar sem lögð er áhersla á verklega lögreglutengda þjálfun, verklega æfingar og lausnir raunhæfra verkefna. Á fjórða og síðasta misseri fara nemendur í starfsþjálfun hjá lögregluembætti.

Í starfsnáminu færð þú þjálfun í samskiptum við erfiða og hættulega einstaklinga, aðferðum við handtökur, notkun skotvopna og annarra lögreglutækja og forgangsakstri lögreglubifreiða. Þú kynnist daglegu starfi lögreglunnar undir handleiðslu starfandi lögreglumanna.

Vefur MSL

Möguleikar að námi loknu

Þeir sem ljúka diplómaprófi í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn öðlast starfsréttindi sem lögreglumenn.

Nemendur sem lokið hafa diplómaprófi í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn geta bætt við sig 60 ECTS einingum til BA-prófs í lögreglu- og löggæslufræði.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Forseti er félag lögreglufræðinema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjandi hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi. Nám eftir fyrsta misseri er jafnframt háð inntöku í starfsnám á vegum Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu í samvinnu við Háskólann á Akureyri.

Skilyrði til starfsnáms

Nemendur sem óska eftir að innritast í nám í lögreglufræði á haustmisseri 1. árs þurfa enn fremur að staðfesta að viðkomandi hafi kynnt sér ákvæði laga nr. 90/1996 þar sem segir að nemar í starfsnámi skuli fullnægja eftirtöldum almennum skilyrðum:

 1. vera íslenskir ríkisborgarar, 20 ára eða eldri,
 2. hafa ekki gerst brotlegir við refsilög, þetta gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt er um liðið frá því að það var framið, né hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta,
 3. vera andlega og líkamlega heilbrigðir og standast læknisskoðun trúnaðarlæknis samkvæmt fyrirliggjandi kröfum sem mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu setur reglur um í samstarfi við háskóla,
 4. hafa lokið stúdentsprófi eða annarri sambærilegri menntun,
 5. samkvæmt nánari kröfum sem ráðherra setur með reglugerð, á grundvelli tillagna frá mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu, m.a. um menntun, starfsþjálfun, tungumálakunnáttu og líkamlega færni.

Innritun í nám á haustmisseri 1. árs tryggir ekki að viðkomandi nemandi fái inngöngu í starfsnám. Þá ákvörðun er ekki hægt að taka fyrr en ráðherra hefur sett reglugerð þá er kveðið er á um í e-lið 38. gr. laga nr. 90/1996 með síðari breytingum.

Sjá nánar um val á starfsnámsnemum á vef Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að engu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskránni og námskröfur eru þær sömu.

Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft að þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á hljóðinu. Okkur þykir samt auðvitað skemmtilegt að sjá þig í kennslustund.

Allir fjarnemar koma nokkrum sinnum á námstímanum í stuttar kennslulotur til Akureyrar þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu.

Skyldumæting er í námslotur hvort heldur sem er í bóknámi við HA eða starfsnámi við MSL. Kynntu þér því vel dagsetningar námslotna sem birtar eru með góðum fyrirvara.

Vinsamlega athugið að hver vika í fullu háskólanámi er ígildi 50-60 stunda vinnuviku. Fyrir vikið er ekki mælst til þess að nemar stundi fullt nám samhliða fullri vinnu.

Umsagnir

Námið er bæði skemmtilegt og fjölbreytt. Fyrirlestrar eru teknir upp og maður getur þá horft á þá þegar manni hentar. Þetta fyrirkomulag hentar mér mjög vel. Verkleg kennsla fer fram í Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar í Reykjavík í reglulegum lotum. Það er stórskemmtilegt og þar kynnumst við hinum ýmsu sviðum lögreglunnar.

Hafdís Svava Níelsdóttir
lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu