MS gráða í stjórnun er 90 eininga meistaranám þar sem nemendur ljúka 60 ECTS einingum í námskeiðum og MS ritgerð (30 ECTS einingar).

Námið hefur það að markmiði að nemendur öðlist sérhæfða þekkingu á stjórnun sem nýtist í þeirra störfum úti í atvinnulífinu. Það býður upp á breiðan grunn í stjórnun skipulagsheilda. Markmiðið er að nemendur öðlist þekkingu og hæfni til stjórnunar fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka.

Nemendur geta tekið valnámskeið við aðra innlenda og erlenda háskóla sem HA hefur samstarfssamninga við

Er námið fyrir þig?

  • Hefur þú áhuga á stjórnun fyrirtækja?
  • Hefur þú áhuga á stjórnun og rekstri sveitarfélaga?
  • Hefur þú áhuga á samskiptum og mannauði?
  • Vilt þú dýpka þekkingu þína á stjórnun?
  • Vilt þú tileinka þér öguð og sjálfstæð vinnubrögð?
  • Vilt þú læra að greina aðalatriði frá aukaatriðum?
  • Hefur þú vilja til að bæta viðskiptalífið?

Áherslur námsins

Námið er skilgreint sem fullt nám í 1,5 ár. Boðið verður upp á ákveðinn sveigjanleika þannig að nemendur geti tekið námið á lengri tíma. Kennsla mun fara fram á netinu í rauntíma á Teams/Zoom og með upptökum, í sumum námskeiðum geta nemendur mætt í kennslustofu þegar kennari er með Teams/Zoom kennslu í gangi. Flest námskeiðin sem boðið verður uppá eru kennd á ensku en einstöku námskeið verða kennd á íslensku.

Einingafjöldi í námskeiðum er 60 ECTS einingar og lokaritgerð 30 ECTS. Skyldunámskeið eru alls 52 ECTS.

Námið er sett upp sem sveigjanlegt nám í samræmi við kennslustefnu Viðskiptadeildar. Fjölbreytt námsmat verður og miðar m.a. að hagnýtingu þekkingar á fræðasviðinu. Í því felast meðal annars hópverkefni, einstaklingsverkefni og próf. Fræðasviðið sem námið tilheyrir er Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri, og er námið vistað undir Viðskiptadeild.

Möguleikar að námi loknu

Meistaranám í viðskiptafræði gerir nemendum kleift að velja úr fjölbreyttum stjórnunar- og sérfræðingsstöðum hjá fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum, bæði innanlands og utan.

Þín bíða tækifæri í rannsóknum og nýsköpun. MS gráða gefur tækifæri til doktorsnáms.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjendur hafi lokið B.S. - námi í viðskiptafræðum við viðurkennda háskóla, að jafnaði með fyrstu einkunn. Einnig er litið til starfsreynslu tengda stjórnun og rekstri við val á nemendum. Þeir sem lokið hafa bakkalárgráðu í öðru námi við viðurkennda háskóla gætu þurft að bæta við sig ákveðnum kjarnagreinum í grunnnámi viðskiptafræði, en slíkt er metið hverju sinni.

Umsagnir

Það var mikil lukka fyrir mig að komast í MS nám í Stjórnun hjá Háskólanum á Akureyri. Ég var að leita að námi sem væri eingöngu kennt í fjarnámi þar sem vinna mín er þannig að ég kemst ekki í hefðbundna kennslu, hvorki á virkum dögum né um helgar. Námið er fjölbreytt og hefur nýst mér strax þar sem ég gat valið fög sem tengjast minni vinnu. Þannig hef ég öðlast dýpri skilning á námsefninu og getað miðlað þekkingu minni áfram. Kennarar tala á mannamáli og koma með fjölbreytt verkefni sem halda manni ferskum í verkefnavinnunni, hlusta á gagnrýni og koma með lausnir ef við á. Klárlega nám sem ég mæli með.

Sverrir Bergmann Magnússon
Söngvari, bæjarfulltrúi, formaður Menntaráðs og varaformaður Menningar- og þjónusturáðs Reykjanesbæjar