Stjórnsýsla

Fræðasviðsfundur

Fræðasviðsfundur er að jafnaði haldinn einu sinni á misseri og fer með æðsta vald í málefnum fræðasviðsins. Á fræðasviðsfundi eiga sæti allir fastráðnir starfsmenn fræðasviðsins, fulltrúi stundakennara og tveir fulltrúar nemenda.

Deildaráð

Deildaráð kemur að jafnaði saman einu sinni í mánuði. Það fer meðal annars með æðsta vald fræðasviðsins á milli fræðasviðsfunda og málefni einstakra nemenda. Í deildaráði sitja forseti fræðasviðsins, staðgengill forseta, formenn deilda, fulltrúi kennara frá hverri deild og fulltrúi nemenda.

Deildarfundir

Deildarfundir eru að jafnaði haldnir einu sinni í mánuði. Á þeim er fjallað um dagleg málefni viðkomandi deildar. Á deildarfundum eiga sæti formenn deilda, fastir kennarar, fulltrúi stundakennara og fulltrúi nemenda.

Náms- og matsnefndir deilda

Náms- og matsnefndir deilda sjá um að undirbúa breytingar á námskipan deilda og fjalla um beiðnir nemenda um mat á námi, samanber reglur um náms- og matsnefnd á viðskipta- og raunvísindasviði.

Erindi til stjórnsýslu fræðasviðsins

Erindi til stjórnsýslueininga fræðasviðsins skulu berast að minnsta kosti viku fyrir fund til skrifstofu fræðasviðsins, dagsett og undirrituð.

Námsframvinda

Nemandi má að hámarki hafa skráð tíu föll á námsferli sínum, eftir það þarf hann að sækja um endurinnritun og fær þá viðurkennd þau próf sem hann hefur lokið með lágmarkseinkunninni 6,0 (gildir frá haustmisseri 2018).

Viðskiptadeild, viðbót við námsframvindureglu (gildir frá haustmisseri 2019):

  • Falli nemandi þrisvar sinnum í sama prófi telst hann fallinn úr deildinni, en skal við endurinnritun fá viðurkennd þau námskeið sem hann hefur lokið með lágmarkseinkunninni 6,0
  • Nemandi getur einungis endurinnritast tvisvar sinnum, eftir það þarf hann að sækja um undanþágu til deildarfundar
  • Nemandi þarf að hafa að minnsta kosti 6,0 í meðaleinkunn til að geta brautskráðst frá deildinni