Handbók framhaldsnáms í sálfræði við Háskólann á Akureyri

MA-rannsóknanám í sálfræði

Efnisyfirlit

  1. Framhaldsnám við Sálfræðideild HA
  2. Skipulag framhaldsnáms við Sálfræðideild HA
  3. Meistaranám í sálfræði
  4. Lærdómsviðmið meistaranáms í sálfræði
  5. Viðauki 1. Reglur um rannsóknatengt meistaranám í sálfræði

Framhaldsnám við Sálfræðideild HA

Við Sálfræðideild Háskólans á Akureyri er boðið upp á metnaðarfullt framhaldsnám til meistaragráðu í sálfræði. Þessi handbók veitir upplýsingar um helstu þætti framhaldsnámsins. Nánari upplýsingar og ráðgjöf varðandi umsóknarferlið og skipulag námsins veitir umsjónarmaður framhaldsnámsins, sem tiltekinn er í Uglu. Jafnframt veita akademískir starfsmenn deildarinnar fúslega ráðgjöf og upplýsingar sem varða þeirra sérsvið.

Skipulag framhaldsnáms við Sálfræðideild HA

Hlutverk nemenda í framhaldsnámi

Nemendur í framhaldsnámi eru ábyrgir fyrir námi sínu og skulu tileinka sér sjálfstæð vinnubrögð. Það er á ábyrgð nemenda að afla sér upplýsinga um reglur sem gilda um námið, fylgja námskrá og skila lokaverkefnum sem uppfylla settar kröfur. Meistaranemar skulu velja sér viðfangsefni, gera náms - og rannsóknaráætlun og fylgja þeim eftir í samráði við leiðbeinanda. Þeir skulu hafa frumkvæði að samskiptum við leiðbeinanda og bera ábyrgð á því að upplýsa hann um framvindu námsins og vandamál sem upp kunna að koma. Nemendur í framhaldsnámi eru eindregið hvattir til að taka þátt í rannsóknamálstofum við Háskólann á Akureyri þar sem meistaranemar, kennarar og aðrir fræðimenn kynna og ræða rannsóknir sínar.

Hlutverk leiðbeinenda í framhaldsnámi

Sérhver meistaranemi skal frá upphafi náms hafa leiðbeinanda úr hópi fastra kennara við Sálfræðideild HA. Leiðbeinendur skulu hafa doktorspróf og geta verið nýdoktorar, lektorar, dósentar, eða prófessorar. Verkefni nemandans skal vera á sérsviði leiðbeinandans. Leiðbeinandi ráðleggur nemandanum um skipulag námsins, val námskeiða og annað sem náminu tengist. Leiðbeinandi hittir meistaranema og veitir honum reglubundna endurgjöf samkvæmt samkomulagi, að minnsta kosti þrisvar sinnum á misseri. Leiðbeinandi ráðleggur nemanda um efnistök í lokaverkefni, aðstoðar hann við vandamál sem upp kunna að koma og fylgist með framvindu verksins með hliðsjón af rannsóknar- og námsáætlun. Leiðbeinandi situr í meistaraprófsnefnd nemandans, skipuleggur meistaravörn og tekur þátt í lokamati á meistararitgerð ásamt prófdómara.

Hlutverk meistaranefndar

Meistaranefnd er ætlað að veita meistaranema stuðning við ritun meistararitgerðar. Í nefndinni sitja leiðbeinandi og tveir sérfræðingar á sviði meistararitgerðarinnar. Nefndin samþykkir rannsóknar- og námsáætlun meistaranemans og samþykkir meistararitgerðina að lokinni vörn.

Hlutverk umsjónarmanns framhaldsnáms

Umsjónarmaður framhaldsnáms í viðkomandi deild er leiðbeinendum og nemendum til aðstoðar, veitir upplýsingar um skipulag námsins, gætir þess að reglum um framhaldsnám sé fylgt og veitir ráð vegna álitamála sem upp kunna að koma. Umsjónarmaður framhaldsnáms gerir tillögur til námsnefndar um afgreiðslu umsókna og námsáætlana, skipun prófdómara og önnur málefni sem framhaldsnámið varða. Umsjónarmaður framhaldsnáms skipuleggur rannsóknamálstofur og aðrar kynningar á verkefnum nemenda í framhaldsnámi og skal honum boðið að sitja kynningu á rannsóknaráætlun og vörn meistaraverkefnis.

Hlutverk náms- og matsnefndar

Náms- og matsnefnd í sálfræði hefur yfirumsjón með framhaldsnáminu í umboði deildarfundar.
Nefndin samþykkir eða hafnar umsóknum að fenginni umsögn umsjónarmanns framhaldsnáms, hefur eftirlit með gæðum námsins, annast mat á fyrra námi á mastersstigi, tilnefnir prófdómara vegna meistaraverkefna og úrskurðar um álitamál sem upp kunna að koma.

Hlutverk sviðsskrifstofu

Sviðsskrifstofa veitir almennar upplýsingar um meistaranámið til umsækjenda og sinnir almennri umsýslu, t.d. vegna erinda frá nemendum og stofubókana.
Skil meistararitgerða
Skila þarf meistararitgerð í rafrænni útgáfu minnst þremur vikum fyrir vörn ritgerðar. Ritgerðum skal skilað í síðasta lagi 25 virkum dögum fyrir brautskráningardag. Ekki er heimilt að veita frest á skilum ritgerðar.

Mat á meistararitgerðum

Prófdómari og leiðbeinandi veita báðir einkunnir fyrir meistararitgerð og telst hún samþykkt ef báðir veita að lágmarki einkunnina Staðið, sem jafngildi frammistöðu 7,25 (fyrstu einkunn) (sjá 4. grein reglna Háskólans á Akureyri um námsmat). Umsjónarmaður meistaranáms ber ábyrgð á einkunnaskilum. Hann getur óskað eftir áliti annars prófdómara ef verulega munar á einkunnum prófdómara og leiðbeinanda eða verulegs ósamræmis gætir milli meistararitgerða. Leiðbeinandi, prófdómari og/eða deildin munu nota bestu tiltækar leiðir til að meta akademískan heiðarleika verksins, þar á meðal hvort um ritstuld eða önnur ósæmileg vinnubrögð sem ógilda verkið. Með því er átt við megindlegar niðurstöður úr samsvörunarforritum ásamt eigindlegu mati byggðu á fagþekkingu og dómgreind viðkomandi á samhengi hvers brots fyrir sig. Meðaltal einkunna prófdómara og leiðbeinanda gildir sem lokaeinkunn fyrir meistararitgerð. Sjá útlistun á ferlinu á mynd 1.


Mynd 1. Flæðirit yfir verklag á skilum meistaraverkefnis í MA-námi við Sálfræðideild HA

Meistaranám í sálfræði

Prófgráða

Boðið er upp á 120 ECTS-eininga rannsóknatengt meistarapróf (MA) í sálfræði (e. Master of Arts in Psychology). Með sálfræði er átt við þá fræðigrein sem nálgast samband hegðunar, huga og heila með vísindalegri aðferðafræði. Náminu er ætlað að veita undirbúning fyrir margvísleg störf sem krefjast þekkingar, leikni og færni við söfnun og úrvinnslu gagna, yfirsýnar um rannsóknir á ólíkum sviðum sálfræðinnar, auk félags- og/eða heilbrigðisvísinda, og faglegra, sjálfstæðra vinnubragða. Námið býr nemendur jafnframt undir undirbúning fyrir doktorsnám í hug- og félagsvísindum við innlenda jafnt sem erlenda háskóla.

Uppbygging námsins

Námskeiðshluti meistaranámsins samanstendur af 36 ECTS skyldunámskeiðum í sálfræðideild og 24 ECTS til viðbótar í valnámskeiðum, samtals 60 ECTS. Nemandi velur valnámskeið í samráði við leiðbeinanda. Ritgerðarhluti námsins samanstendur sömuleiðis af 60 ECTS. Meistaraverkefnið getur verið annað hvort:
a) Eitt samfellt handrit, 10000 orð að lágmarki og 20000 orð að hámarki; eða
b) eina rannsóknargrein sem hefur verið send í ritrýnt tímarit, bókuð innan kerfis HA með viðbót við inngang og samantekt.
Náminu lýkur með vörn meistararitgerðar með þátttöku meistaranefndar og prófdómara.

Umsókn um nám

Umsækjandi skal hafa lokið bakkalárprófi (BA, B.Sc. eða B.Ed.) við viðurkenndan háskóla, með fyrstu einkunn (7,25). Til að sækja um þarf umsækjandi að senda umsjónarmanni framhaldsnámsins umsóknarbréf sem tiltekur áhugasvið þeirra. Inntaka í meistaranám er háð því að fastur kennari við sálfræðideild HA með sérþekkingu á viðkomandi sviði sé tilbúinn að leiðbeina nemandanum. Umsjónarmaður meistaranáms aðstoðar væntanlega nemendur við að finna leiðbeinendur ef óskað er. Umsækjandi og væntanlegur leiðbeinandi útbúa í sameiningu stutta lýsingu á rannsóknarhugmynd, tillögu að skipan meistaranefndar og sérsniðna námsskrá nemandans (sjá nánar viðauka 1). Eftir að námsnefnd í sálfræði hefur samþykkt tillögu sem væntanlegur nemandi og leiðbeinandi hafa unnið ber að skila umsóknum til nemendaskrár Háskólans á Akureyri. Námsnefnd í sálfræði fjallar um umsóknir og tekur ákvarðanir um þær í samráði við umsjónarkennara framhaldsnáms.

Lærdómsviðmið meistaranáms í sálfræði

Þekking

Að loknu meistaranámi í sálfræði nemandinn að hafa þekkingu á:

  • Tilteknu rannsóknasviði innan sálfræðinnar
  • Þeim kröfum sem gerðar eru til fræðilegra rannsóknaáætlana og meginþáttum umsókna um rannsóknarstyrki
  • Þeim lykilaðferðum sem tilheyra sérsviði nemandans sem uppfylla kröfur til birtingar á ritrýndum vettvangi
  • Helstu ritrýndu tímaritum á tilteknu rannsóknasviði og þeim kröfum sem gerðar eru til ritrýndrar birtingar á rannsóknarniðurstöðum

Leikni

Að loknu meistaranámi í sálfræði á nemandinn að hafa leikni til að:

  • Tileinka sér stöðu þekkingar á helstu sviðum sálfræðinnar
  • Skrifa rannsóknaráætlanir og umsóknir um rannsóknarstyrki
  • Skilgreina viðfangsefni nýrra rannsókna, setja fram rannsóknaspurningar og velja viðeigandi rannsóknaraðferðir til að svara þeim spurningum
  • Velja og nota viðeigandi aðferðir við greiningu gagna á tilteknu sérsviði
  • Kynna niðurstöður rannsókna fyrir almenningi, faghópum og fræðimönnum
  • Birta niðurstöður rannsókna á ritrýndum vettvangi

Hæfni

Að loknu meistaranámi í sálfræði á nemandinn að hafa hæfni til að:

  • Skipuleggja og stýra rannsóknarverkefnum á sviði sálfræði og skyldra fræðisviða
  • Viðhalda, auka og miðla þekkingu sinni
  • Stunda doktorsnám eða annað framhaldsnám í sálfræði

Viðauki 1. Reglur um rannsóknatengt meistaranám í sálfræði

1. gr. Rannsóknatengt meistaranám í sálfræði

Við Sálfræðideild Háskólans á Akureyri er boðið upp á rannsóknatengt meistaranám til MA prófs. Námið byggir á einstaklingsbundinni leiðsögn. Rannsóknatengt meistaranám í sálfræði er 120 ECTS eininga nám, þar af námskeið til 60 eininga og meistararitgerð til 60 eininga. Hámarkstími námsins skal vera þrjú og hálft ár samanber 29. grein reglna Háskólans á Akureyri. Námsnefnd í Sálfræðideild getur veitt undanþágu frá þeim tímamörkum.

2. gr. Inntökuskilyrði og meðferð umsókna

Umsækjandi skal hafa lokið bakkalárprófi við viðurkenndan háskóla með fyrstu einkunn (7,25 eða samsvarandi). Umsækjandi þarf að finna leiðbeinanda sem samþykkir áætlun um meistararitgerð. Umsækjandi og væntanlegur leiðbeinandi útbúa í sameiningu umsókn með stuttri lýsingu á rannsóknarhugmynd, tillögu að skipan meistaranefndar og sérsniðinni námsskrá fyrir nemandann. Eftir að námsnefnd í sálfræði hefur samþykkt tillögu sem væntanlegur nemanda og leiðbeinandi hafa unnið ber að skila umsóknum til nemendaskrár Háskólans á Akureyri. Opið er fyrir umsóknir um MA rannsóknanám allt skólaárið.

3. gr. Hlutverk náms- og matsnefndar sálfræðideildar í rannsóknatengdu meistaranámi

Náms- og matsnefnd Sálfræðideildar hefur yfirumsjón með meistaranáminu í umboði deildarfundar Sálfræðideildar. Nefndin samþykkir eða hafnar umsóknum að fenginni umsögn umsjónarmanns framhaldsnáms, hefur eftirlit með gæðum námsins og úrskurðar um álitamál. Sviðsforseti tilnefnir prófdómara vegna meistaraverkefna.

4. gr. Umsjónarmaður meistaranáms í sálfræði

Umsjónarmaður meistaranáms í sálfræði er kosinn á deildarfundi sálfræðideildar til tveggja ára í senn. Hann skal vera fastur kennari við sálfræðideild með doktorspróf eða lektorshæfi. Umsjónarmaður meistaranáms les umsóknir og gerir tillögu til námsnefndar í sálfræði um afgreiðslu þeirra. Hann leiðbeinir jafnframt væntanlegum umsækjendum um umsóknarferlið og hefur milligöngu um val á leiðbeinanda ef þörf krefur. Umsjónarmaður skal jafnframt vera meistaranemum, leiðbeinendum og náms- og matsnefnd til ráðgjafar í álitamálum sem upp kunna að koma. Umsjónarmaður skipuleggur rannsóknamálstofur með þátttöku meistaranema, kennara og annarra fræðimanna. Honum skal boðið að vera viðstaddur kynningu á rannsóknaráætlun og vörn meistararitgerðar.

5. gr. Leiðbeinandi í rannsóknartengdu meistaranámi

Leiðbeinandi í rannsóknatengdu meistaranámi skal hafa doktorspróf eða að lágmarki lektorshæfi í sálfræði eða skyldri fræðigrein. Leiðbeinandi skal vera viðurkenndur sérfræðingur á því sviði sem meistaranemi hyggst skrifa meistararitgerð. Leiðbeinandi skal að jafnaði gegna fastri stöðu við Sálfræðideild Háskólans á Akureyri eða nýdoktorsstöðu sem gildir að minnsta kosti til áætlaðra námsloka nemandans. Námsnefnd getur þó að fenginni tillögu umsjónarmanns meistaranámsins samþykkt utanaðkomandi leiðbeinanda sem uppfyllir ofangreind skilyrði um hæfi. Leiðbeinandi samþykkir rannsóknarhugmynd umsækjanda, gerir tillögu um skipan meistaranefndar nemandans og leiðbeinir meistaranema í lokaverkefnis. Leiðbeinandi er jafnframt formaður meistaranefndar nemandans.

6. gr. Meistaranefnd nemanda

Í meistaranefnd nemanda sitja leiðbeinandi og tveir sérfræðingar á sviði meistararitgerðar tilnefndir af leiðbeinanda í samráði við nemanda. Námsnefnd skal samþykkja skipan meistaranefndar. Sérfræðingar í meistaranefnd skulu hafa lokið meistaraprófi hið minnsta og hafa stundað rannsóknir sem tengjast efni fyrirhugaðrar meistararitgerðar. Hlutverk meistaranefndar er að samþykkja rannsóknaráætlun og námsáætlun meistaranemans, veita stuðning við ritun meistararitgerðar og samþykkja hana til meistaraprófs að lokinni vörn.

7. gr. Námskrá nemanda

Leiðbeinandi og nemandi vinna í sameiningu tillögu til námsnefndar um 60 ECTS námskrá nemandans. Öll sex námskeiðin við HA eru skyldunámskeið. Í námskrá skal koma fram hvaða önnur námskeið nemandi hyggst taka við Háskólann á Akureyri eða við aðra íslenska eða erlenda háskóla. Breytingar á námskrá nemanda má gera að fengnu samþykki námsnefndar í Sálfræðideild. Nemandi sem hefur lokið meistaranámskeiði meðan á bakkalárstigi stóð er óheimilt að endurtaka það eða fá það metið á meistarastigi. Námskeið á bakkalárstigi geta að hámarki talið 12 ECTS. Nemendur sem taka slík námskeið þurfa þó að vinna aukaverkefni í samráði við leiðbeinanda og meistaranefnd. Jafnframt er leiðbeinanda heimilt að skipuleggja sérstakt lesnámskeið á meistarastigi um efni ritgerðarinnar. Námslýsingin þarf að hljóta samþykki námsnefndar í sálfræði. Slík námskeið geta að hámarki talið 12 ECTS samtals til meistaragráðu í sálfræði.
Nemendur geta unnið sér inn allt að 2 ECTS fyrir þátttöku á ráðstefnum. Virk þátttaka (erindi eða veggspjaldakynning) jafngildir 1 ECTS. Óvirk þátttaka er 0,25 ECTS fyrir hvern heilan ráðstefnudag. Nemendur verða að leggja fram sannanir fyrir viðkomandi þátttöku og framlagi.

8. gr. Rannsóknaráætlun nemanda

Nemandi í rannsóknartengdu meistaranámi skal skila rannsóknaráætlun vegna meistararitgerðar fyrir lok fyrsta misseris. Í rannsóknaráætlun skal vera stutt yfirlit um stöðu þekkingar á sviði fyrirhugaðrar ritgerðar, skilgreining viðfangsefnis og helstu rannsóknaspurninga, lýsing á fyrirhuguðum aðferðum og tíma- og kostnaðaráætlun. Hyggist nemandi byggja ritgerðina sem ritrýnda grein skal jafnframt lýsa fyrirhuguðu efni og birtingarmöguleika greinarinnar. Rannsóknaráætlun telst hluti vinnu við meistararitgerð og eru einingar veittar vegna hennar. Meistaranemi skal kynna rannsóknaráætlun sína og hljóta einróma samþykki meistaranefndar sinnar fyrir henni.

9. gr. Meistararitgerð í rannsóknatengdu meistaranámi í sálfræði

Meistaraprófsritgerðir i rannsóknatengdu meistaranámi í sálfræði geta verið ein meistararitgerð eða ein ritrýnd rannsóknargrein ásamt fræðilegum inngangi og samantekt. Sé ritgerð byggð á ritrýndri rannsóknagrein skal hún mynda heild að mati meistaranefndar og skal samfellu þeirra lýst með fullnægjandi hætti í fræðilegum inngangi. Nemandi skal vera fyrsti höfundur beggja greina. Ritrýndar teljast þær greinar sem birtast í tímaritum í gagnagrunni ISI, tímaritalista ERIH eða lista stigamatsnefndar ríkisháskólanna. Staðfesting á móttöku greinar til ritrýningar telst staðfesting þess að verki hafi verið skilað. Jafnframt getur umsjónarmaður meistaranáms látið ritrýna ritgerðir meistaranema og á þeim grundvelli samþykkt þær sem hluta meistararitgerðar. Meistararitgerð skal skilað á því formi sem reglur Háskólans á Akureyri segja til um. Ritgerðir mega vera á íslensku eða ensku en útdráttur skal vera á báðum tungumálum.

10. gr. Skil meistararitgerðar

Skila þarf meistararitgerð í rafrænni útgáfu minnst þremur vikum fyrir vörn. Á vorönn skal ritgerð skilað í síðasta lagi 25 virkum dögum fyrir brautskráningu. Ekki er heimilt að veita frest á skilum meistararitgerðar.

11. gr. Samþykkt meistararitgerðar

Vörn meistararitgerðar felst í því að nemandinn flytur opinn fyrirlestur um efni hennar. Að loknum fyrirlestrinum svarar nemandinn spurningum meistaranefndar og prófdómara sem sviðsforseti skipar. Prófdómari og leiðbeinandi gefa báðir einkunnir fyrir meistararitgerð og telst hún samþykkt ef báðir gefa að lágmarki einkunnina Staðið [jafngildi 7,25 eða hærra]. Umsjónarmaður meistaranáms ber ábyrgð á einkunnaskilum. Hann getur óskað eftir áliti annars prófdómara við sviðsforseta ef verulega munar á einkunnum prófdómara og leiðbeinanda eða verulegs ósamræmis gætir milli meistararitgerða. Meðaltal einkunna prófdómara og leiðbeinanda gildir sem lokaeinkunn fyrir meistararitgerð.