Stjórnsýsla

Starfað er eftir reglum um stjórnskipulag Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri nr. 821/2022, sjá lög og reglur HA.

Fræðasviðsfundur

Fræðasviðsfundur er haldinn minnst einu sinni á misseri og er samráðsvettvangur um innri málefni fræðasviðs. Á fræðasviðsfundum eiga sæti forseti fræðasviðs, deildarforsetar eða staðgenglar þeirra, brautarstjórar og forstöðumenn stofnana sem heyra til fræðasviðsins eða deilda. Þar sitja jafnframt akademískir starfsmenn, háskólakennarar, doktorsnemar, fulltrúar stúdenta, einn úr hverri deild, og starfsfólk við stjórnsýslu og stoðþjónustu fræðasviðsins.

Stjórn fræðasviðs

Forseti fræðasviðs, deildarforsetar og skrifstofustjóri fræðasviðs mynda stjórn fræðasviðs. Í stjórn fræðasviðs eiga einnig sæti tveir fulltrúar stúdenta sem tilnefndir eru af aðildarfélögum Stúdentafélags Háskólans á Akureyri á fræðasviðinu til eins árs í senn. Varafulltrúar í stjórn fræðasviðs eru staðgenglar framangreindra aðalfulltrúa og varafulltrúar stúdenta eru tilnefndir af aðildarfélögum Stúdentafélagsins.

Stjórn fræðasviðs fjallar um sameiginleg málefni sviðsins, þ.m.t. ákvarðanir deilda um námsframboð, fjárhag og rekstrarafkomu deilda og sviðsins, um tillögur deilda um námsframboð og fjöldatakmörkun fyrir hvert skólaár ef við á. Stjórn fræðasviðs gerir tillögur til háskólaráðs um breytingar á reglum eða nýjar reglur er varða skipulag og starfsemi fræðasviðsins, deilda þess og stofnana, veitingu heiðursdoktorsnafnbóta og um að bjóða vísindamanni akademískt starf án auglýsingar. Stjórn fræðasviðs tekur ákvarðanir um háskólastofnanir og rannsóknastofnanir sem settar eru á stofn á sviðinu. Stjórn fræðasviðs er ekki ályktunarbær nema meirihluti atkvæðisbærra fulltrúa sæki fund.

Deildaráð

Deildaráð kemur saman að jafnaði á þriggja vikna fresti. Það fer meðal annars með æðsta vald fræðasviðsins á milli fræðasviðsfunda og málefni einstakra nemenda.

Í deildaráði sitja forseti fræðasviðsins, staðgengill forseta, formenn deilda, forstöðumaður miðstöðvar skólaþróunar, fulltrúi kennara og fulltrúi nemenda.

Deildarfundir

Deildarfundir eru að jafnaði haldnir einu sinni í mánuði. Deildarfundur fer með æðsta ákvörðunarvald er varðar kennslu og rannsóknir innan hverrar deildar. Kveðið er á um verkefni og hlutverk deildarfundar í 20. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri. Deildarfundur setur reglur um innra skipulag deildar og skulu þær fjalla m.a. um hlutverk deildar- og námsbrautarfunda.

Náms- og matsnefndir deilda

Matsnefndir deilda sjá um að undirbúa breytingar á námskipan deilda og fjalla um beiðnir stúdenta um mat á námi. Á hug- og félagsvísindasviði fara fimm nefndir með þessi hlutverk:

  1. Matsnefnd Félagsvísindadeildar (fjölmiðlafræði, félagsvísindi, nútímafræði, lögfræði, lögreglufræði og meistaranám)
  2. Matsnefnd Lagadeildar (grunn- og framhaldsnám, samanber reglur matsnefndar)
  3. Námsnefnd Kennaradeildar (grunn- og framhaldsnám, samanber reglur námsnefndar)
  4. Matsnefnd Kennaradeildar (grunn- og framhaldsnám, samanber reglur matsnefndar)
  5. Matsnefnd Sálfræðideildar (grunn- og framhaldsnám, samanber reglur matsnefndar)

Erindi til stjórnsýslu fræðasviðsins

Erindi til stjórnsýslueininga fræðasviðsins skulu berast a.m.k. viku fyrir fund til skrifstofu fræðasviðsins, dagsett og undirrituð.