Allt frá því að Háskólinn á Akureyri var stofnaður árið 1987 hefur hann markvisst unnið að eflingu rannsókna og þá ætíð með tenginu kennslu og rannsókna í huga. Eftir því sem skólinn efldi meistaranám á öllum sínum fræðasviðum fjölgaði rannsóknarverkefnum og rannsóknasamstarf jókst við utanaðkomandi stofnanir og samfélagið.

Eitt af stefnumálum HA undanfarin ár hefur verið að efla rannsóknarámið enn frekar og koma á doktorsnámi. Í október 2017 fékk skólinn heimild mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að bjóða upp á doktorsnám, að undangenginni úttekt erlendra fagaðila. Þessir aðilar unnu umfangsmikið gæðamat þar sem fræðileg og stjórnsýsluleg geta háskólans til þess að bjóða upp á doktorsnám var ítarlega skoðuð. Niðurstaða þeirra var að skólinn væri vel hæfur til að sinna þessu hlutverki hvað varðaði alla þessa þætti.

Inntökuskilyrði

Markvisst er unnið að því að fyrstu doktorsnemarnir hefji nám haustið 2018. Áætlað er að í upphafi verði þeir 3-5 en fjölgi smám saman og verði orðnir 12-15 eftir þrjú til fimm ár. Námið verður undir umsjón og stjórn Miðstöðvar doktorsnáms HA (Graduate School) í nánu samstarfi við viðkomandi svið og deildir.

Miklar kröfur eru gerðar til doktorsnámsins varðandi uppbyggingu þess, um aðstæður og umhverfi fyrir nemann til rannsókna og að áætlaður leiðbeinandi hans sé viðurkenndur fræðimaður með mikla reynslu á viðkomandi fræðasviði ásamt því að uppfylla önnur skilyrði Miðstöðvar doktorsnáms HA.

Mikil og stöðug eftirfylgni er með framgangi námsins og fer fram stöðumat bæði um miðbik námsins og í lokin til að meta hvort framkvæmd og niðurstaða verkefnisins sé fullnægjandi fyrir opinbera vörn. Víðtæk krafa er um erlent samstarf bæði hvað varðar verkefnið sjálft og þjálfun doktorsnemans í aðferðafræði og framkvæmd verkefnisins.

Aðstaða

Eitt af markmiðunum með doktorsnámi við Háskólann á Akureyri er að skapa umhverfi sem veitir doktorsnemum nauðsynlega þekkingu og færni til að þeir séu færir um að stunda sjálfstæð vísindastörf, afla sér nýrrar þekkingar og beita krefjandi vísindalegum aðferðum í alþjóðlegu vísindasamstarfi.

Krafa er gerð til viðkomandi deildar/sviðs um að doktorsnemanum sé tryggð viðunandi aðstaða og þjónusta og að það komi fram í þeim samningi sem gerður er við doktorsnemann.

Doktorsnámið er undirstaða þess að Háskólinn á Akureyri geti ræktað áfram hlutverk sitt sem rannsóknarháskóli og verið aðdráttarafl fyrir afburða innlenda og erlenda nemendur og fræðimenn.

Styrkir

Doktorsverkefnið þarf að hafa vel skilgreinda fjármögnun áður en það er samþykkt. Doktorsneminn skal hafa lokið meistaraprófi með góðum árangri (1. einkunn) og hann þarf að leggja fram vel útfærða rannsókna- og námsáætlun með umsókn. Gerður er sérstakur samningur milli doktorsnemans og Miðstöðvar doktorsnáms í samráði við viðkomandi deild/svið um verkefnið.

Sækja um doktorsnám

Þeir sem áhuga hafa á doktorsnámi við skólann þurfa að kynna sér þau rannsóknarverkefni sem eru í gangi við skólann og sækja um þær doktorsnámsstöður sem þar eru auglýstar á hverjum tíma. Listi yfir þær verður aðgengilegur á vef skólans undir laus störf.