Doktorsnám við Háskólann á Akureyri er einstaklingsmiðað nám og rannsóknarverkefni doktorsnemans er lykilþáttur námsins. Doktorsnemar háskólans verða virkir þátttakendur í vísindasamfélagi HA.

Námið veitir prófgráðuna Philosophiae Doctor (PhD) á tilteknu fræðasviði.

Erum að uppfæra umsóknareyðublað HA um doktorsnám. Hægt er að skila inn umsókn um leið og þeirri vinnu verður lokið.

Er námið fyrir þig?

  • Viltu dýpka skilning þinn á tilteknu fræðisviði með rannsóknum?
  • Hefurðu áhuga á að starfa við innlendan eða erlendan háskóla eða við rannsóknarstofnanir?

Markmið námsins

Markmið námsins er að doktorsnemi öðlist þekkingu og færni til að stunda sjálfstæð og krefjandi vísindastörf í alþjóðlegu fræðasamfélagi.

Fyrirkomulag námsins

Námið er í umsjón og stjórn Miðstöðvar doktorsnáms HA (Graduate School) í nánu samstarfi við viðkomandi svið og deildir. Víðtæk krafa er um erlent samstarf, bæði hvað varðar verkefnið sjálft og þjálfun doktorsnemans í aðferðafræði og framkvæmd verkefnisins.

Kjarni námsins er doktorsverkefnið (180 ECTS). Tilvonandi doktorsnemi þarf þess vegna að finna sér gott viðfangsefni áður en sótt er um.

Auk verkefnisins þarf doktorsneminn að taka námskeið, allt að 60 ECTS.

Gert er ráð fyrir 60 ECTS á ári í fullu námi.

Náminu lýkur með opinberri vörn.

Möguleikar að námi loknu

Doktorsgráða er að jafnaði lágmarksmenntun akademískra starfsmanna við innlenda og erlenda háskóla.

Einstaklingur með doktorsgráðu hefur hæfni og trúverðugleika til að starfa sem sjálfstæður vísindamaður á sínu sviði.

Doktorspróf nýtist einnig í mörgum stjórnunarstörfum og í öllum þeim störfum þar sem starfsmaður þarf að halda utan um flókin verkefni og vinna úr mismunandi upplýsingum.

Inntökuskilyrði

Doktorsneminn skal hafa lokið meistaraprófi með góðum árangri (1. einkunn) og hann þarf að leggja fram vel útfærða rannsókna- og námsáætlun með umsókn.

Doktorsverkefnið þarf að hafa vel skilgreinda fjármögnun áður en það er samþykkt.

Fræðasvið

Háskólinn á Akureyri hefur heimild til þess að bjóða upp á doktorsnám í félagsfræði, hjúkrunarfræði, líftækni, lögfræði, sjávarútvegs- og fiskeldisfræði og viðskiptafræði.

Gert er ráð fyrir að doktorsverkefni verði að jafnaði þverfræðileg í eðli sínu og framkvæmd, þrátt fyrir formlega staðsetningu á tilteknu fræðasviði.

Gerð umsóknar

Þau sem hafa áhuga á á doktorsnámi við HA byrja á því að kynna sér rannsóknarverkefni og rannsóknarteymi háskólans. Því næst þarf að hafa samband við reyndan fræðimann við HA sem getur orðið aðalleiðbeinandi og aðstoðað við að finna gott doktorsverkefni og semja umsókn.

Miðstöð doktorsnáms veitir ráðgjöf við gerð umsóknar. Hafðu samband við doktorsnam@unak.is.

Umsóknarfrestur

Enginn ákveðinn umsóknarfrestur er fyrir hendi. Umsóknum er skilað þegar umsækjandi og fyrirhugaður aðalleiðbeinandi hafa gengið frá þeim.

Doktorsnámsráð fjallar um allar fullnægjandi umsóknir og skilar niðurstöðu innan sex vikna.

Athugið: Umsóknir um doktorsnám verða að berast miðstöð doktorsnáms fyrir 2. maí eigi þær að verða teknar til umfjöllunar fyrir sumarleyfi.  Umsóknir sem berast eftir þann dag verða teknar til umfjöllunar þegar sumarleyfum líkur.

Umsókn

Erum að uppfæra umsóknareyðublað HA um doktorsnám. Hægt er að skila inn umsókn um leið og þeirri vinnu verður lokið.

Umsækjandi skal vinna umsóknina í samvinnu við fyrirhugaðan aðalleiðbeinanda.

Þau sem hafa áhuga á doktorsnámi við HA geta einnig sótt um þær doktorsnámsstöður sem eru auglýstar á hverjum tíma.

Umsóknargögnum skal skilað rafrænt.

Umsóknareyðublað