Ávarp rektors á brautskráningu framhaldsnema 2019

Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, við brautskráningu framhaldsnema 2019

ÁVARP REKTORS, EYJÓLFS GUÐMUNDSSONAR, Á BRAUTSKRÁNINGU FRAMHALDSNEMA, 14. JÚNÍ 2019:

Ágætu gestir,

Þetta er í annað sinn sem Háskólahátíð er skipt á tvo daga, annan daginn fyrir framhaldsnám og hinn daginn fyrir bakkalárnám.  Er þetta til marks um það hversu mikið skólinn hefur stækkað og þroskast á síðustu þrjátíu árum.

Í dag brautskráum við 116 nemendur úr framhaldsnámi á þremur fræðasviðum með 14 mismunandi námsgráður eða diplómapróf.  Á síðasta ári stunduðu 393 nemendur nám á framhaldsstigi við skólann og þarf af komu fyrstu tveir doktorsnemarnir til náms. Þá komu á síðasta ári tveir stórir styrkir úr Rannsóknasjóði ásamt aukningu í fjölda rannsóknastiga á síðustu árum. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá þessa miklu grósku sem nú á sér stað í rannsóknarsamfélaginu og mikilvægt er fyrir meginstarfssvæði Háskólans á Akureyri að unnt sé að efla nýsköpunar- og rannsóknastarf þannig að samfélög og atvinnulíf utan höfuðborgarsvæðisins eflist og styrkist og geti boðið uppá aukna fjölbreytni og laðað til sín ungt fólk.

 

Kæru framhaldsnemar,

Þið eruð nú að brautskrást með a.m.k. háskólagráðu eða -próf nr. 2 og lögð af stað í þá vegferð að verða sérfræðingar á ykkar sviði. Stóra áskorunin fyrir ykkur verður að nýta þá þekkingu, færni og hæfni sem þið hafið öðlast til að skapa ykkur sjálfum tækifæri til þess að starfa á spennandi vettvangi sem verður kjarninn í faglegu lífi ykkar á næstu árum og áratugum. Ykkar bíður það mikla verk að umbreyta heiminum þannig að við getum lifað á okkar litlu plánetu í sátt við náttúru og annað fólk. Þrátt fyrir alla þá þekkingu sem mannkynið hefur öðlast á tugþúsundum ára hefur okkur ekki enn tekist að leysa mörg af okkar stærstu verkefnum; ekki að byggja skilvirk kerfi sem leysa úr ágreiningi þjóða, ekki að byggja upp neysluvenjur sem eru í takt við getu náttúrunnar til að skapa okkur þá neyslu né höfum við öðlast næga þekkingu til þess að takast á við mörg af stærri heilbrigðisvandamálum heimsins. Á sama tíma hefur mannkynið aldrei staðið framar í þekkingu sinni, aldrei leyst fleiri verkefni jafn vel úr hendi og aldrei haft annað eins tækifæri til þess að taka skynsamar ákvarðanir um framtíðina.

 

Ágætu gestir,

Þeir einstaklingar sem hér brautskrást í dag eru uppspretta vonar fyrir okkur öll. Þessir hæfileikaríku sérfræðingar munu með nýjustu þekkingu sinni taka þátt í að móta samfélag okkar á næstu árum og eru mörg hver byrjuð nú þegar með rannsóknum sínum.  Námsgráðum er stundum skipt í tvo flokka; starfstengt meistaranám, eins og meistaragráðu í menntunarfræðum, eða rannsóknatengda gráðu, eins og M.A.-gráðu í félagsvísindum. Fyrri flokkurinn er oftast tengdur við tilteknar starfsstéttir og sá síðari við rannsóknir.  Vandamálið er hinsvegar að það er ekki hægt að þróa störf nema með rannsóknum og rannsóknir verða að hagnýtast til þess að hafa áhrif á samfélagið. Þekking og menntun er þess vegna ekki eitthvað sem er öðlast á tilteknu tímabili og síðan beitt með sama hætti til loka starfsferilsins. Menntun er ferli sem er í stöðugri mótun og hver og einn einstaklingur verður að halda áfram menntun sinni alla ævi.  Þess vegna er það þannig að þó svo að margir hér inni séu að ljúka sinni annarri, þriðju eða jafnvel fjórðu háskólagráðu mun þörfin fyrir sí- og endurmenntun einfaldlega aukast. Það er oft þannig að listin og samfélagsgagnrýnin í kómedíunni – fáránleiki tilverunnar – endurspeglar hvað samfélög eru, eða þurfa að verða. Kannski var engin hæðni fólgin í því þegar Georg Bjarnfreðarson lýsti því yfir að hann hefði fimm háskólagráður. Kannski var það einfaldlega framsýni höfunda Næturvaktarinnar að líta til þess að framtíðin fæli í sér sífellt meiri menntunarþörf. Menntun er nefnilega ekki talin í fjölda háskólagráða eða fjölda bóka sem lesnar eru eða í flækjustigi þrauta sem leystar eru innan tiltekinna tímamarka. Hin eina sanna menntun er menntun sem eykur dýpt okkar og skilning á lífinu og hvernig við getum bætt lífið fyrir okkur öll sem á þessari litlu jarðarkringlu búa.

 

Ágætu nemendur,

Samfélagið þarf á nýrri hugsun að halda á öllum sviðum. Heilbrigðis- og velferðarkerfi okkar virðist endalaust þurfa á nýju fjármagni að halda þrátt fyrir að vera stærsti útgjaldaliður hins opinbera. Innan þess kerfis er gríðarleg þjónustuþörf en samfélagið verður að finna nýjar og ódýrari leiðir til að veita úrvals heilbrigðisþjónustu til allra. Það verður því að skapa nýjar leiðir, nota nýja þekkingu og leggja fram óhefðbundnar lausnir. Þið verðið að stunda nýsköpun í störfum ykkar, sama hvar þið starfið, innan heilbrigðiskerfisins eða utan, til að aðstoða við þetta stóra verkefni.  Rannsóknir og nýsköpun – til hagnýtingar fyrir samfélagið – verður ykkar leiðarljós.

Og þessi þörf er ekki bara innan heilbrigðiskerfisins heldur er hún á öllum stigum samfélagsins. Það er sama hvort litið er til menntakerfisins, framleiðsluiðnaðarins, matvælaiðnaðarins, afþreyingar eða ferðamannaþjónustu. Fjármálaþjónusta og ýmis önnur sérfræðiþjónusta er heldur ekki undanskilin. Á öllum þessum sviðum munum við þurfa að læra að nota gervigreind og gríðargögn til þess að ná fram betri skilvirkni og skilningi á bestu lausnum. Og við vitum ekki enn hver rétta lausnin er! Við vitum stundum varla hvert verkefnið er fyrr en það allt í einu skellur á okkur. Eina leiðin til að takast á við slíkar aðstæður er að stunda rannsóknir, nýsköpun og hagnýtingu þeirrar nýju þekkingar sem úr slíku starfi kemur.

 

Kæru nemendur,

Þið hafið nú náð merkum áfanga í lífi ykkar. Þessi áfangi er persónulegur sigur hvers og eins, en við búum öll við mismunandi aðstæður þó flestir eigi það sameiginlegt að komast ekki í gegnum nám á framhaldsnámsstigi nema með dyggum stuðningi sinna nánustu ættingja og vina og með traustu samstarfi og samvinnu við leiðbeinendur. Kannski er einmitt mesti lærdómurinn fólginn í því að upplifa þá erfiðleika sem eru í allri samvinnu, að ná fólki saman, skipuleggja verkefni, safna gögnum og reyna að skilja hvað í ósköpunum sé eiginlega fyrir framan mann. Kannski er einmitt mesti lærdómurinn fólgin í því að þrátt fyrir að einstaklingurinn vilji ná fram markmiðum sínum megum við ekki gleyma okkar nánustu og því sem er að gerast í þeirra lífi. Að finna jafnvægið á milli hins faglega lífs og einkalífs er, og mun alltaf verða, eitt af erfiðustu verkefnum sérfræðingsins og því hafið þið nú þegar fengið að kynnast. Það er mjög auðvelt að falla í þá gryfju að gera sérfræðingshlutverkið það mikilvægasta í lífi okkar. Sá sem hér stendur hefur ekki farið varhluta af því og oft þurft að spyrja sjálfan sig að því hvað sé mikilvægast; fundur í Reykjavík, verkefni erlendis eða tími með fjölskyldunni. Oftar en ekki hefur fjölskyldan fengið að bíða. Ég mæli ekki með slíku. Það þýðir samt ekki að við eigum og getum gefið allan okkar tíma með börnunum og mökum. Þetta er eilífur dans forgangsröðunar markmiða – eitt af því sem við erum alltaf að læra. Ég mæli með því að þið veltið sífellt fyrir ykkur hvað þið munið hugsa þegar þið lítið til baka yfir æviskeiðið. Hvað er það sem gerði ykkur stolt? Hvað er það sem gerði ykkur ánægð? Hvernig viljið þið, að loknu löngu ævistarfi, að börnin ykkar hugsi til ykkar? Hvernig er sambandið við ykkar nánustu? Svörin eru eins misjöfn og þið eruð mörg – en verið viss um að þið séuð að vinna verkefnin sem leiða ykkur að því svari sem þið viljið fá.

 

Ágætu gestir,

Ísland stendur á tímamótum, ásamt öðrum þjóðum heimsins. Við getum valið að fylgja þeirri vegferð sem þjóðir heims hafa verið á síðustu 75 árin og aukið samstarf þjóða með velferð og hagsmuni allra að leiðarljósi. Við getum valið að nýta þekkingu okkar og tækni til þess að bæta velferð og vegferð jarðarbúa eða við getum valið einangrunarhyggju, tortryggni og óvild í garð þeirra sem við teljum ekki vera „okkar“. Fyrir 75 árum síðan héldu vel á annað hundrað þúsund ungmenna yfir ískalt Ermarsundið og vissu ekki hvort þau ættu afturkvæmt. Hér er ég að sjálfsögðu að vitna til innrásarinnar í Normandí, 6. júní 1944. Evrópa hafði borist á banaspjótum í rétt tæp 5 ár með gríðarlegu mannfalli og eyðileggingu, óhæfuverkum og mannvonsku. Og þó margir þeirra sem fóru yfir Ermarsundið vissu að miklar líkur væru á að þeir ættu ekki afturkvæmt úr þessari för var markmið þeirra alveg skýrt; að frelsa Evrópu, og heiminn, undan oki einræðisherra og fasisma svo frelsi og lýðræði mætti verða ofan á sem það kerfi sem þjóðir heims myndu byggja á. Það er því ótrúlegt, að nú aðeins 75 árum síðar, erum við farin að heyra sömu orðræðu og sjá samskonar aðferðum beitt við að dreifa röngum upplýsingum og setja hluti í rangt samhengi. Við sjáum jafnvel hjá stærstu lýðræðisþjóð heims tilburði til þess að stýra orðræðu vísindanna og véfengja vísindin, ekki byggt á rýni og þekkingu heldur á skoðunum og trú.  Erum við virkilega búin að gleyma hvert slík orðræða leiddi þjóðir Evrópu fyrir aðeins einum mannsaldri síðan? Sjálfur átti ég afa sem starfaði sem túlkur á Reykjavíkurflugvelli á stríðsárunum. Og amma mín, konan hans, lifir enn 93 ára að aldri. Ég ræddi oft við þau bæði um stríðsárin og upplifun þeirra á þessum tíma og það var alveg ljóst að í hugum allra var verið að berjast um framtíðina, um það hvort að sú lýðræðisbylgja sem farið hafði um Evrópu á 20. öldinni myndi ná að lifa. Kannski þetta verði í raun verkefni þeirrar kynslóðar sem nú er að fara að taka við taumunum.

 

Kæru nemendur,

Kannski að það verði einmitt ykkar stærsta verkefni að nýta þekkingu ykkar og færni til þess að vernda þau lífsgæði, frelsi og mannúð sem þjóðum heims hefur þó tekist að byggja upp á síðustu 75 árum. Í þeirri baráttu sem framundan er um vísindin, frelsið og mannréttindin verður einmitt mest þörf á að fólk noti staðreyndir og þekkingu til að komast að lausnum. Það verður ykkar verkefni – ærið verkefni sem við verðum að leysa í sameiningu allra.

 

Kæru gestir, nemendur og starfsfólk,

Háskólarnir eru fimmta vald lýðræðislegra kerfa. Við tölum oft um þrískipt vald; dóms, löggjafar og framkvæmda. Síðan höfum við bætt við það valdi fjölmiðlanna, fjórða valdinu, sem svo auðveldlega getur haft áhrif á skoðanir fólks og daglegt líf. Einmitt þess vegna er svo nauðsynlegt að til séu stofnanir sem standa algerlega sjálfstæðar í sínu faglega starfi – þar sem þekking er byggð á staðreyndum og ný þekking er búin til í gegnum rannsóknir og nýsköpun – og að þessari þekkingu sé komið á framfæri til samfélagins. Þetta er kjarnahlutverk háskólanna og til þess að gegna því verða háskólar að vera faglega og fjárhagslega sjálfstæðir. Þess vegna verður nútíma samfélag að hafa fjölbreytta, sterka og trausta háskóla.

 

Kæru gestir,

Háskólasamfélagið þarf á stuðningi ykkar að halda svo við getum haldið áfram að mennta nemendur og leita nýrrar þekkingar, og varðveitt þá þekkingu sem þegar er til. Við erum ekki, og getum ekki starfað, í tómarúmi. Við þurfum á stuðningi ykkar að halda við að tala máli vísindanna, fræðanna og þekkingarinnar gegn ósannindum, hindurvitnum og áróðri. Við þurfum á ykkur að halda til að minna stjórnvöld á að við viljum öll hafa öflugar háskólastofnanir sem veita fólki um allt land aðgengi að námi og rannsóknum. Minnið stjórnmálamennina á að aukin fjárframlög til háskólanna séu besta fjárfesting sem Ísland getur farið í nú á tímum væntanlegrar efnahagslægðar.

 

Ágæta samstarfsfólk,

Ég vil þakka ykkur fyrir framlag ykkar til menntunar þessa glæsilega hóps sem nú brautskráist úr framhaldsnámi við Háskólann á Akureyri.  Það er elju ykkar og vilja að þakka að við getum rekið jafn öfluga stofnun og Háskólinn á Akureyri er orðinn í dag, með rétt tæplega 2500 nemendur, 200 starfsmenn og í samstarfi við menntunarmiðstöðvar um land allt. Það er gríðarlegur auður í starfi ykkar – auður sem aldrei má líta á sem sjálfsagðan né ótæmandi. Þið megið vera og eigið að vera óendanlega stolt af starfi ykkar og þeim nemendum sem héðan brautskrást í dag.

 

Kæru nemendur,

Fyrir hönd starfsfólks háskólans á Akureyri vil ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar innilega til hamingju með þennan áfanga. Það er með von í hjarta og trausti á faglegri þekkingu ykkar og sterkri sýn á réttlæti sem ég veit að þið munið nota þekkingu ykkar og sérfræði til að gera Ísland framtíðarinnar, og heiminn allan, enn betri.