Skipulag náms fyrir nýnema
Almenn efnafræði
Námskeiðið fjallar um undirstöðuatriði almennrar efnafræði. Eftirtaldir efnisþættir eru m.a. innihald námskeiðsins: Eðlis- og efnaeiginleikar efna. Lotukerfið og helstu flokkar þess. Bygging frumeinda. Frumeinda- og sameindamassar, mól og mólmassar. Algeng efnasambönd og flokkun þeirra. Eiginleikar og nöfn algengra ólífrænna efnasambanda. Ritun efnajafna fyrir einföld efnahvörf og oxunar-afoxunarhvörf. Takmarkandi hvarfefni og heimtur. Lausnir, útreikningar á styrk þeirra og títranir. Orkuhugtakið og tengsl þess við efnahvörf og fasabreytingar. Lögmál varmafræðinnar og orka efnahvarfa. Kjörgas, hlutþrýstingur og raunverulegar lofttegundir. Einfaldar kristalbyggingar og ákvörðun þeirra og eiginleikar. Hraðafræði efnahvarfa. Aðferðir við fræðilegar og verklegar rannsóknir og skýrslugerð.
Líffræði
Námskeiðið veitir innsýn í undirstöðuatriði nútíma líffræði. Helstu efnisflokkar námskeiðsins eru: Grundvallaratriði frumulíffræði og tengsl efnafræði og líffræði. Gerð og eiginleikar 4 meginflokka lífefna (sykrunga, lípíða, prótína og kjarnsýra). Orkubúskapur og grunnefnaskipti í frumum. Bygging heilkjarna frumu, gerð og eiginleikar helstu frumulíffæra. DNA og hlutverk þess í erfðum og líftækni. Erfðir, náttúruval og þróun tegunda. Stofnar og fjölbreytileiki plantna og dýra. Í verklegum hluta námskeiðsins eru gerðar einfaldar tilraunir á rannsóknastofu.
Líftækni
Líftækni er bæði gömul og ný. Námskeiðinu er ætlað að skilgreina líftækni frekar sem og möguleika hennar. Líftækni er kjörin leið til nýsköpunar svo sem að finna, skilgreina, framleiða og nýta enn frekar náttúruauðlindir. Þá er líftækni kjörið verkfæri til annarra verka svo sem til greininga, sjúkdómsvarna, mengunarvarna, orkuframleiðslu til að nefna nokkur. Farið verður í helstu starfsvið líftækninnar, svo sem sjávarlíftækni, dýra og plöntulíftækni, heilbrigðislíftækni, umhverfislíftækni og erfðatækni. Umfjöllun verður um helstu flokka lífvera og efna með tilliti til möguleika á að nýta þær sem uppsprettu lífvirkra efna, að nýta þær sem verksmiðjur til að framleiða lífvirk efni eða til að brjóta niður lífræn efni og um erfðabreyttar lífverur og sameindalíffræði. Umfjöllun um helstu efnaflokka svo sem lyf, ensím, bætiefni, lífvirk efni, “líforku”, lífnema, náttúruleg eiturefni og lífhreinsun. Yfirlit um lífefnavinnslu og vinnslu á verðmætum afurðum úr aukahráefni og tekin dæmi um fyrirtæki á þessu sviði. Sérfræðingar deildarinnar munu lýsa verkefnum sínum á sviði líftækni og samþætta með þeim atriðum sem áður eru nefnd.
Hagnýt stærðfræði I
Í námskeiðinu er lögð áhersla á að kenna grundvallaraðferðir, hugtök og vinnubrögð sem nýtast við stærðfræðilegar lausnir á vandamálum sem koma fyrir í viðskiptafræði.
Vinnulag í háskólanámi
Námskeiðið miðar að því að þjálfa nemendur í helstu grundvallaratriðum fræðilegra vinnubragða. Í námskeiðinu er fjallað um helstu gerðir rannsókna og markmið þeirra, hin tvö megin rannsóknar-viðmið rannsókna, þ.e. vísindaheimspekilegar forsendur þeirra. Kynntar eru helstu rannsóknar-aðferðir og er lögð áhersla á að megindlegar og eigindlegar aðferðir séu kynntar sérstaklega. Þá er lögð áhersla á skipulag rannsókna, rannsóknarspurningar, skilgreiningar hugtaka og tilgátur. Heimildavinna, rafræn heimildaleit, tilvísanir í heimildir og heimildaskráning fá vandlega umfjöllun . Fjallað er um úrvinnslu gagna og framsetningu niðurstaðna gagna, m.a. gerð texta, stílbrigði,og grunnatriði framsetningar tölfræðilegra gagna. Þá er fjallað sérstaklega um siðferðileg álitamál í rannsóknum og gagnrýna hugsun í vísindum. Loks er lögð mikil áhersla á að kenna nemendum ritgerðasmíð, uppbyggingu ritgerða og skýrslna og verklag við slíka vinnu. Áhersla er lögð á vinnu minni nemendahópa að sértæku rannsóknarverkefni sem gefur nemendum innsýn og þjálfun í ferli rannsóknar: undirbúning, framkvæmd og framsetningu niðurstaðna.
Hagnýt efnafræði
Námskeiðið gefur innsýn í hagnýtingu efnafræði í nútíma þjóðfélagi, auk þess að veita frekari fræðilegan grundvöll í efnafræði. Eftirfarandi efni er tekið fyrir:
- Rafsegulbylgjur og rafeindahýsing frumeinda; skammtakenningin og jafna Plancks, Bohr frumeindin og skammtatölur. Bygging frumeinda og breyting frumeindastærða og jónunarorku innan lotukerfisins.
- Lewis formúlur og myndun samgildra tengja. Formleg hleðsla og vok myndir. Kolvetni og ein- tví og þrítengi og tengjaorka. Aromatísk efnasambönd.
- Rafneikvæðni og skautun tengja. Sameindasvigrúm.
- Lögun sameinda, VSEPR reglurnar, svigrúm og svigrúmablöndun. Skautun sameinda og kraftar á milli sameinda. Lífefni, DNA og fosfólípíð.
- Jarðefnaeldsneyti og gróðurhúsalofttegundir.
- Alkóhól, karboxylsýrur og tilbúnar fjölliður. Náttúrulegar fjölliður, prótein og kolhydröt. Hendnar sameindir.
- Hraðafræði: hraðalögmál og hvarfgráða, áhrif hitastigs, hvata og lífhvata. Iðnaðarnot hvata.
- Efnafræði lausna: leysni og kraftar á milli sameinda, hitastig og leysni, lögmál Henrys og leysni lofttegunda, samsetning lausna og lögmál Raoults. Safneiginleikar (colligative properties), gufuþrýstingur og himnuflæðiþrýstingur. Kvoðulausnir og yfirborðsvirk efni.
- Varmafræði og efnahvörf: óreiða, Gibbs laus orka og tilhneiging efnahvarfa til þess að gerast.
- Rafefnafræði: hálfhvörf og hálfhlöðuspenna, rafhlöður og heildarspenna, staðalspenna og Gibbs laus orka. Áhrif styrks á spennu (Nernst jafnan), algengar rafhlöður og efnarafalar.
- Kjarnaefnafræði: kjarnahvörf og geislavirkni, stöðugleiki kjarna, helmingunartími og not kjarnahvarfa.
- Efnafræði nokkurra efna úr aðalflokkum lotukerfisins: köfnunarefni, súrefni, brennisteinn, natríum, klór, magníum, ál, fosfór, bróm og joð.
- Efnafræði nokkurra hliðarmálma og komplexar: járn og stál, kopar, króm, silfur og gull. "Coordinate” samgild tengi og komplex efni, „Crystal-field” kenningin, segul- og litareiginleikar komplex efnasambanda.
Rannsóknaraðferðir og tölfræðileg greining
Fjallað er um rannsóknarsnið, helstu gagnaöflunaraðferðir og tölfræði. Af eigindlegum og megindlegum aðferðum er fjallað um viðtöl, rýnihópa og þátttökuathuganir, tilraunir, spurningakannanir og notkun opinberra gagna í rannsóknum. Þá eru kenndir helstu þættir í lýsandi tölfræði, myndrænni framsetningu gagna og einfaldri framsetningu á niðurstöðum. Kynnt eru grunnatriði í ályktunartölfræði, líkindareikningi og einföld tölfræðipróf. Einnig er farið í grunnatriði aðhvarfsgreiningar. Kynnt er skráning gagna í gagnagrunna og grunnatriði í notkun tölfræðiforrita.
Stærðfræði II
Í námskeiðinu er lögð áhersla á að þjálfa frekari aðferðir, hugtök og vinnubrögð í stærðfræði sem nýtast í raunvísindum og viðskiptafræði.
Vistfræði
Í námskeiðinu eru kynnt grundvallaratrið í almennri vistfræði. Helstu efnisþættir eru: Saga vistfræðinnar, hlutverk hennar og rannsóknir. Stofnar og tengsl þeirra innbyrðis: samkeppni, afrán, og önnur samskipti. Stjórn og nýting stofna og eðli þeirra: fæðingartölur, dánartölur, aldursdreifing, liftölur, vöxtur, sveiflur og stærð. Þættir sem hafa áhrif á vöxt og útbreiðslu lífvera. Samfélög, tegundasamsetning, tegundafjölbreytni, fæðuvefir, og framvinda. Vistfræði þurrlendis, ferskvatns og sjávar. Líffræðilegur fjölbreytileiki og válistar. Vistfræði mannsins og umhverfismál. Verklegar æfingar fara fram á örverum og laxfiskum í ferskvatni. Nemendur taka ákveðin efni fyrir á málstofu í tengslum við vistfræði.
Örverufræði
Námskeiðið fjallar um grundvallaratriði örverufræðanna í eftirfarandi meginatriðum: Saga örverufræðinnar. Bygging dreif- og heilkjörnunga. Helstu hópar baktería, fyrna og heilkjarna örvera. Ræktun baktería og áhrif umhverfisþátta á vöxt örvera. Hindrun á vexti örvera. Mikilvægi örvera í niðurbroti á lífrænum efnum. Iðnaðar- og umhverfisörverufræði. Erfðafræði dreifkjörnunga og líftæknileg örverufræði. Fjölbreytileiki efnaskipta. Ónæmisfræði og frumur ónæmiskerfisins. Tengsl hýsla og sýkla. Helstu sjúkdómsvaldandi örverur og sjúkdómar sem þær valda. Í verklegum hluta námskeiðsins er farið yfir einangrun, greiningu og vöxt baktería, áhrif vaxtaþátta (hiti, pH, salt) á örverur, áhrif sótthreinsiefna á vöxt örvera. Hluti fyrirlestra og verklegrar kennslu gæti verið fluttur á ensku.
Eðlisfræði 1
Farið er yfir aðalatriði í hreyfifræði, vökvafræði, bylgjufræði, hljóðfræði og rafmagnsfræði. Helstu efnisþættir námskeiðsins eru:
- Einingakerfi, óvissa, marktækir tölustafir. Vektorar (vigrar), hraði, hröðun, fallhreyfing, kasthreyfing. Kraftar; hreyfilögmál Newtons; massi og þyngd. Vinna, afl og orka í ýmsum myndum; umbreyting hennar og varðveisla. Hringhreyfing; þyngdarlögmálið. Skriðþungi og varðveisla hans; árekstrar. Snúningsvægi (kraftvægi).
- Eðlismassi og þrýstingur í vökvum og lofti; lögmál Pascals og Arkímedesar.
- Sveiflur, bylgjur, hljóð og dopplerhrif.
- Rafhleðslur og rafkraftar; lögmál Coulombs. Straumur, spenna, viðnám, afl og orka í jafnstraumsrásum; lögmál Ohms, Joules og Kirchhoffs.
- Ljós og ljósbylgjur.
Erfðafræði
Í námskeiðinu er farið yfir grundvallar atriði almennrar nútíma erfðafræði. Helstu efnisþættir eru: Saga erfðafræðinnar og lögmál Mendels. Útvíkkun á Mendelskri greiningu. Bygging og eftirmyndun litninga, frumuhringurinn, tengslagreining, endurröðun og kortlagning gena á litningum. Sameindaerfðafræði: Bygging kjarnsýra, afritun DNA, stökkbreytingar og viðgerðir. Umritun, þýðing og stjórnun genatjáningar. Erfðafræði baktería, stökkla, veira og spendýra. Aðferðafræði erfðatækninnar. Erfðamengi, erfðafræði heilkjörnunga og erfðasjúkdómar. Verklegar æfingar tengjast rannsóknum kennara hverju sinni, eins og DNA mögnun, ummyndun og einangrun plasmíða, skerðikortlagningu, DNA rafdrátt og ásamt gagnaúrvinnslu.
Lífefnafræði
Farið er í meginuppgötvanir í lífefnafræði. Farið er í eiginleika og myndbyggingu risasameinda; amínósýrur, peptíðtengi og myndbygging próteina; sykrur og fjölsykrur; fitur og frumuhimnur; samsetning kjarnsýra og DNA. Orkubúskapur lífvera og efnaskiptaferli. Líforkufræði. Glýkólýsa. Nýmyndun glúkósa og pentósaferli. Efnaskipti glýkógens. Stýring efnaskiptaferla. Sítrónusýruhringur. Niðurbrot fitusýra. Efnaskipti amínósýra og þvagefnishringur. Rafeindaberakeðjan og ildisháð fosfórýlering. Ljóstillífun. Nýmyndun stórsameinda. Hluti fyrirlestra og verklegrar vinnu gæti verið fluttur á ensku.
Stjórnun I
Í námskeiðinu er fjallað um stjórnun og stjórnunarkenningar, skipulagsheildir og atferli einstaklinga og hópa við vinnu. Fjallað er um staðblæ og gildismat innan fyrirtækja og sérstök áhersla lögð á mismunandi þjóðmenningu, viðskiptasiðferði og samfélagslega ábyrgð. Ennfremur er fjallað um atferli einstaklinga og vinnuhópa, starfshvatningu, stjórnunarstíla, leiðtogahlutverkið og breytingastjórnun. Loks er fjallað um nýjar áherslur í stjórnun.
Valnámskeið
Sjá lista yfir almenn valnámskeið
Líffærafræði I
Fjallað er um stoðkerfi líkamans ásamt hringrásarkerfi hans. Kynnt eru grunnhugtök líffærafræðinnar. Fjallað er ítarlega um eftirfarandi líffærakerfi: bein, liði, beinagrindarvöðva, blóðið, hjarta og æðar. Auk þess er farið í fósturfræðilega myndun þessara líffærakerfa.
Vefja- og frumulíffræði
Á námskeiðinu er fjallað um grundvallaratriði í gerð og starfsemi fruma. Í fyrsta lagi er fjallað um gerð ósérhæfðra fruma, helstu frumulíffæri og hlutverk þeirra. Í öðru lagi er fjallað um helstu flokka lífrænna efnasambanda og efnaskipti frumunnar. Í þriðja lagi er fjallað um sérhæfingu fruma, helstu vefjagerðir og starfsemi sérhæfðra fruma með sérstakri áherslu á taugafrumur. Í fjórða lagi er fjallað um líffræðileg stýrikerfi á sameindastigi og í samhengi við tauga- og innkirtlakerfi. Veruleg áhersla er lögð á sameindalíffræði fruma og að sýna fram á samhengi milli afbrigðilegrar frumustarfsemi og sjúkdóma.
Sameindaerfðafræði 1. Umhverfislíftækni og græn líftækni.
Í námskeiðinu er fjallað um hvernig aðferðir sameindaerfðafræðinnar nýtast í umhverfislíftækni og grænni líftækni. Fjallað verður um klónun gena, genaferjur, framleiðslu erfðabreyttra próteina í bakteríum og plöntum, plöntuerfðatækni, þýðisgreiningar út frá erfðaefni úr umhverfissýnum, genastjórnun þroskunar í plöntum, og erfðatækni matvæla. Nemendur taka ákveðin efni fyrir á málstofu í tengslum við námsefnið. Verklegar æfingar tengjast rannsóknum kennara hverju sinni á sviði umhverfislíftækni og grænnar líftækni, og munu beita aðferðum á borð við rauntíma PCR, klónun, raðgreiningu og arfgerðargreiningu á bakteríum og heilkjarna lífverum ásamt gagnaúrvinnslu.
Lífeðlisfræði
Í námskeiðinu er farið yfir öll meginatriði í lífeðlisfræði vöðva, hjarta- og blóðrásarkerfis, lungna, nýrna og meltingarvegar. Einnig er fjallað um lífeðlisfræði skynfæra og meðvitundar og stjórn hreyfinga.
Matvælafræði
Í námskeiðinu er fjallað um efna- og örverufræði helstu fæðuflokka svo sem mjólkur, kjöts, sjávarafurða og garðávaxta. Helstu efnaflokkar, eiginleikar og efnahvörf þeirra í matvælum (kolvetni, fita, prótein, vítamín, steinefni, aukaefni). Skemmdarörverur, skemmdarferli og sjúkdómsvaldandi örverur, matarsýkingar og -eitranir. Innri og ytri þættir matvæla og áhrif þeirra ásamt vinnslu á gæði og eiginleika. Nýting örvera við framleiðslu matvæla. Helstu efnafræðileg skemmdarferli, einkum þránun (oxun) og brúnun.
Valnámskeið
Sjá lista yfir almenn valnámskeið
Valnámskeið
Nemendur velji námskeið í samráði við kennara/brautarstjóra deildarinnar.
Rekstrarstjórnun
Markmið: Að kynna fyrir nemendum tengsl stjórnunar við rekstur og afkomu fyrirtækja og gera þeim mögulegt að nota aðferðir rekstrarstjórnunar við ákvarðanatöku. Efni: Rekstrarstjórnun. Samkeppnisstaða, stefnumótun og framleiðni. Gerð spálíkana. Skipulag afkastagetu. Rekstrarferli. Skipulag aðstöðu. Staðarval. Vörustjórnun. Birgðastýring, óháðar vörur. Gerð framleiðsluáætlana. Birgðastýring, háðar vörur. Vörustjórnun. Verkefnastjórnun.
Líffærafræði II
Í námskeiðinu er fjallað ítarlega um öll helstu líffærakerfi mannsins. Fjallað er um, vessakerfið, líkamstaugakerfi, ósjálfráða taugakerfið, innkirtlakerfið, öndunarkerfið, meltingarkerfið, þvagkerfið og æxlunarkerfið. Auk þess er farið í fósturfræðilega myndun þessara líffærakerfa.
Hagnýtt verkefni I
Í námskeiðinu vinna nemendur í litlum hópum (3 til 6 nemendur) við að hanna, framkvæma, kynna og skrásetja sjálfstætt rannsóknaverkefni í samráði við leiðbeinanda. Meginmarkmið námskeiðsins er að nemendur reyni og læri rannsóknavinnu í hópum eða teymum, læri verkefna- og gæðastjórnun og að deila verkum.
Líftæknileg örverufræði
Námskeiðið fjallar um notkun örvera í líftæknilegum ferlum. Efnisþættir: Fjölbreytileiki örvera og efnaferlar þeirra. Örverur sem efnaverksmiðjur. Framleiðsla próteina, bóluefna, skordýraeiturefna, ensíma, amínósýra, sýklalyfja, vítamína og sykra með örverum. Plöntulíftækni. Orkulíftækni (lífmassi, etanól, metan og vetni). Umhverfislíftækni: niðurbrot lífræns úrgangs og óæskilegra mengunarefna í náttúrunni. Erfðatæknilegar aðferðir í örverufræði. Markvissar stökkbreytingar. Skimun á lífefnum í örverum. Gerjunartækni og ræktun á örverum í stórum stíl. Auk þess fá nemendur nýlegar vísindagreinar sem þeir þurfa að kynna sér og kynna síðan á fyrirlestri. Verklegar æfingar verða í tengslum við rannsóknir kennara. Hluti fyrirlestra og verklegrar vinnu gæti verið fluttur á ensku.
Lífupplýsingatækni
Námskeiðið fjallar um úrvinnslu sameindaerfðafræðilegra og lífefnafræðilegra gagna í rannsóknum á sviði líftækni, vistfræði, heilbrigðisvísinda, og réttarvísinda. Meðal efnisatriða sem farið er yfir í fyrirlestrum og verkefnum eru eftirfarandi: Notkun erfðamengjasafna og annarra gagnabanka. Eiginleikar og tölfræðileg úrvinnsla kirna- og amínósýruraða. Breytileiki, samsætutíðni og stofnasamsetning. Erfðamengi, raðgreining þeirra og kortlagning. Einföld og margföld samröðun kirna- og amínósýruraða. BLAST algoriþminn: Notkun hans og túlkun niðurstaðna. Upprunaflokkun og gerð skyldleikatrjáa. Þýðisgreining örverusamfélaga, umritamengjagreining og prótínmengjagreining. Hluti fyrirlestra gæti verið fluttur á ensku.
Ónæmisfræði
Námskeiðið fjallar um ónæmiskerfi mannslíkamans, grunnþætti þess og svaranir. Helstu efnisþættir: Frumur og líffæri ónæmiskerfisins. Ósérhæfðar og sérhæfðar varnir líkamans. Ónæmissvörun, sjálfsþol og stjórnun ónæmissvörunar. Ónæmisbilanir, ofnæmi og sjálfsofnæmi. Áhrif umhverfis og utanaðkomandi þátta á svörun ónæmiskerfisins. Ónæmisfræðilegar greiningaraðferðir. Verkefni og verklegar æfingar er skipulagt með hliðsjón af efni fyrirlestra.
Fjármál I (fyrirtækja)
Fjármálastjórn og viðfangsefni fjármálafræða. Kynning á fjármagnsmarkaðinum, fjármálastofnunum, vöxtum og vaxtamyndun. Samband áhættu og arðsemi. Núvirði og framvirði greiðslu og greiðslugeta. Aðferðir við mat á markaðsvirði verðbréfa. Fjármagnskostnaður. Fjárfestingaáætlanir og aðferðir við mat fjárfestinga. Sjóðstreymi og fjárfestingar. Val fjárfestinga, áhættugreining og fjármagnsskömmtun. Fjármagnsskipan fyrirtækja. Gerð fjárhagsáætlana, rekstraráætlana og um þróun fjárhagslegrar stöðu. Fjallað verður um veltufjármuni og fjármögnum þeirra. Kennsla fer fram í fyrirlestrum og verkefnavinnu og /eða prófæfingum.
Valnámskeið
Sjá lista yfir almenn valnámskeið
Gæðaframleiðsluferlar
Framleiðsla á vörum, sem ætlaðar eru til inntöku (t.d. matvælum), verður að lúta ýmsum kröfum hvað varðar framleiðsluhætti. Framleiðendur þurfa að uppfylla kröfur sem tryggja öryggi og ákveðin skilgreind gæði vörunnar.Námskeiðið fjallar um slíkar meginkröfur, svo sem lög, reglur og gæðakerfi til framleiðslu á matvælum og hráefnum til matvælaframleiðslu, fæðubótar efnum, lyfjum og öðru sem ætlað er til manneldis eða útvortis nota. Eftirfarandi kerfum verður lýst sérstaklega: GMP/GHP, HACCP en einnig ISO9000, ISO14000 og ISO17025. Lögð er áhersla að sýna með dæmum hvernig þessar kröfur eru útfærðar og leystar við raunverulegar aðstæður.
Sameindaerfðafræði 2. Heilbrigðislíftækni.
Í námskeiðinu er fjallað um hvernig aðferðir sameindaerfðafræðinnar nýtast í heilbrigðislíftækni til að greina, koma í veg fyrir og meðhöndla sjúkdóma mannsins. Farið verður í orsakir sjúkdóma og hvernig erfðafræðin, ónæmisfræðin og lyfjafræðin nýtist í að þróa greiningapróf, bóluefni og lyf til lækninga. Lögð verður áhersla á að skilja gangvirki erfðaefnisins í lífverum og hvernig má grípa inn í tjáningarstjórnun gena. Þá verður tekið fyrir sjúkdómsferli af völdum frumdýra, baktería og veira. Nemendur taka ákveðin efni fyrir á málstofu í tengslum við námsefnið. Í verklegum æfingum verða notuð greiningapróf t.a.m. qPCR ásamt gagnaúrvinnslu.
Lokaverkefni
Á lokamisseri námsins eiga nemendur að vinna sjálfstætt lokaverkefni sem tengist þeirra sérsviði. Nemandinn skilgreinir verkefnið með aðstoð leiðbeinanda og skilar skráningarblaði til umsjónarmanns lokaverkefna. Í framhaldi af því vinnur nemandi nánari lýsingu á verkefninu, vinnur rannsókna-, verk- og tímaáætlun og skrifar yfirlit yfir þá aðferðafræði sem fyrirhugað er að beita í verkefninu. Þessum verkþáttum er skilað sem verkáætlun til umsjónarmanns lokaverkefna. Þá tekur við eiginleg vinna við rannsóknina og ritun fræðilegrar skýrslu um verkefnið og niðurstöður þess, með skilum áfangaskýrslu um mitt misseri. Nemandinn mun vinna fyrst og fremst einn við framkvæmd verkefnisins. Leiðbeinandinn mun veita ráð og útskýringar frekar en ákveðna kennslu.
Valnámskeið
Sjá lista yfir almenn valnámskeið
Lyfjafræði
Markmið námskeiðsins er að nemendur fái innsýn í þann hluta hagnýtrar lyfjafræði sem snýr að störfum hjúkrunarfræðinga. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist þekkingu á helstu lyfjaflokkum m.t.t. klínískra atriða er varða verkun lyfja og verkunartíma, virk efni og undirflokkanir, aukaverkanir og milliverkanir. Fjallað verður um hvernig nota á sérlyfjaskrá á skilvirkan hátt og ACT lyfjaflokkunin kynnt. Tilgangur námskeiðsins er að auka færni og þekkingu nemenda á lyfjafræði þannig að hún nýtist þeim sem best í störfum þeirra sem hjúkrunarfræðingar.