Líftækni er tækni sem gerir það mögulegt að nota lífverur til að framleiða nýjar afurðir eða breyta náttúrulegum ferlum. Þannig er hægt að búa til lyf, matvæli og fleiri afurðir. Líftækni er því í raun tól til þess að búa til verðmæti úr auðlindum sjávar og lands.

Námið er spennandi og krefjandi. Markmiðið er að þú öðlist góðan grunn til að starfa við rannsóknir. Námið hefur einnig reynst góður grunnur fyrir fjölbreytt framhaldsnám á sviði raunvísinda og líffræði.

Er námið fyrir þig?

 • Hefur þú áhuga á náttúruvísindum?
 • Vilt þú geta valið um störf?
 • Þorir þú að hugsa út fyrir boxið?
 • Hefur þú áhuga á auðlindum og verðmætasköpun?
 • Langar þig til þess að stofna og reka eigið fyrirtæki?
 • Fékkst þú þolinmæði og forvitni í vöggugjöf?

Áherslur námsins

Í líftæknináminu eru tvö megináherslusvið:

 • Annars vegar auðlindalíftækni. Samhliða henni eru tekin námskeið á sviði viðskipta- og rekstrargreina. Þau gefa þér grunn til að starfa í líftæknifyrirtækjum.
 • Hins vegar heilbrigðislíftækni sem gefur þér góða þekkingu til starfa á rannsóknastofum.

Bæði sviðin veita traustan grunn til áframhaldandi náms á meistarastigi.

Þú getur skoðað skipulag námsins í Uglu, kennsluvef háskólans:

Möguleikar að námi loknu

Í dag eru starfrækt mörg nýsköpunar- og sprotafyrirtæki í líftækni sem geta nýtt sér krafta þína að námi loknu. Þar má nefna Arctic Therapeutics, Alvotech, Íslenska erfðagreiningu, Orf líftækni, Primex, Algalif, Genis og Lýsi. Þú getur líka stofnað þitt eigið sprotafyrirtæki út frá þínum rannsóknum og hugmyndum.

Líftækninámið skapar góðan grunn til rannsóknastarfa, bæði hjá opinberum stofnunum eins og Matís og Umhverfisstofnun og hjá fyrirtækjum.

Hátt hlutfall nemenda hefur farið í meistara- og doktorsnám að loknu BS-námi.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Stafnbúi er félag líftækni- og sjávarútvegsnema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi, lokaprófi frá framhaldsskóla á þriðja hæfniþrepi, jafngildu erlendu prófi eða 60 ECTS einingum frá viðurkenndum háskóla eða hafi útskrifast úr verk- og raunvísindadeild frá Háskólabrú Keilis.

Nám í líftækni er að hluta raungreinanám með líffræði, efnafræði og stærðfræði sem kjarnanámskeið. Símenntun HA bíður upp á tvö raungreina undirbúningsnámskeið í lok ágúst. Búið er að opna fyrir skráningar: Efnafræði og Stærðfræði.

Forgangsröðun umsókna vegna fjöldatakmarkana

Við viljum benda á að ef fjöldi umsækjenda sem uppfyllir almenn inntökuskilyrði fer yfir fjöldaviðmið verður umsóknum forgangsraðað á eftirfarandi hátt:

 • Stig fyrir hverja einingu í stærðfræði í framhaldsskóla upp að 25
 • Stig fyrir hverja einingu í ensku í framhaldsskóla upp að 25
 • Stig fyrir hverja einingu í raungreinum í framhaldsskóla upp að 40
 • Stig fyrir ferilskrá 0-5
 • Stig fyrir kynningarbréf 0-5
 • Stig fyrir Stúdentspróf eða sambærilegt 20
 • Stig fyrir háskólapróf 80
 • Stig fyrir einingar í háskóla, ECTS/3 upp að 60 stigum

Umsækjendum verður svo raðað upp samkvæmt samlagningu þessa þátta og teknir inn í þeirri röð. Við mat á ferilskrá og kynningarbréfi verður litið á hvort fyrra nám tengist með einhverjum hætti líftækni. Fyrri starfsreynsla getur líka skipt máli. Því er mikilvægt að umsækjendur sendi inn ferilskrá (CV) og kynningarbréf með stuttum texta um af hverju þeir völdu líftækni.

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Undanþágur

Umsækjendur sem ekki hafa stúdentspróf en eru með meira en 90 einingar (140 fein) af framhaldsskólastigi verða eingöngu teknir til skoðunar ef fjöldi umsókna nemenda með stúdentspróf er undir fjöldaviðmiðum. Þeir nemendur munu einnig verða forgangsraðaðir með tilliti til námseininga og starfsreynslu samanber hér að ofan.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að engu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskránni og námskröfur eru þær sömu.

Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft að þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á hljóðinu. Okkur þykir samt auðvitað skemmtilegt að sjá þig í kennslustund.

Allir fjarnemar þurfa koma tvisvar sinnum á misseri í eina viku til Akureyrar. Þá eru gerðar tilraunir á rannsóknastofu og farið í aðra verklega tíma. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu.

Hér getur þú lesið meira um sveigjanlega námið og séð hvenær námslotur eru.

Skiptinám

Allir nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Þú færð niðurfellingu á skólagjöldum gestaskólans og greiðir eingöngu innritunargjald í HA. Alþjóðafulltrúi aðstoðar þig við að sækja um námið, húsnæði og nemendastyrk.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skiptinám.

Umsagnir

Líftækninámið reyndist mér vel sem undirbúningur fyrir framhaldsnám. Einnig hefur það komið að góðum notum við störf mín tengd lífvísindum sem og í núverandi starfi.

Dana Rán Jónsdóttir
Verkefnastjóri RHA

Þegar ég flutti norður til að stunda nám í líftækni vissi ég ekki við hverju væri að búast. HA tók vel á móti mér með persónulegu umhverfi. Nemendur við HA eru einstaklega heppnir með góða kennara sem eru allir af vilja gerðir til að fræða og upplýsa. Mér finnst kröfurnar og gæði náms vera á sama stigi hjá HA og hjá NTNU.

Þórhildur Edda Eiríksdóttir
Vísindamaður hjá Alvotech

Í líftækni lærir þú allt í senn öguð vinnubrögð lífvísinda og undirstöðugreinar í viðskiptafræði. Á sama tíma er ýtt undir sköpunargleði og hugmyndaflug.

Guðný Vala Þorsteinsdóttir
Líftæknifræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands

Eintómt hrós frá mér fyrir líftækninámið í HA. Kennarar eru vel tengdir við atvinnulífið og á þessum þremur árum myndaði ég ómetanleg tengsl sem nýtast mér til frambúðar. Námið hefur nýst mér vel í starfi, allt frá raungreinum, eins og efnafræði og örverufræði, til námskeiða sem fjalla um stjórnun og gæði.

Olga Ýr Björgvinsdóttir
Sérfræðingur hjá Arctic Therapeutics