Ekki innritað skólaárið 2023-2024

Viðbótarnám í menntunarfræði er ætlað þeim sem vilja afla sér kennsluréttinda með sérþekkingu á framhaldsskólastigi.

Er námið fyrir þig?

  • Hefur þú áhuga á að verða kennari?
  • Hefur þú áhuga á uppeldis- og skólamálum?
  • Hefur þú gaman af ólíkum viðfangsefnum?
  • Finnst þér gaman að miðla af þekkingu þinni?
  • Vilt þú gefa af þér?
  • Hefur þú lokið meistara- eða doktorsprófi á einhverju námssviði framhaldsskólans og vilt afla þér kennsluréttinda á því sviði?

Áherslur námsins

Markmið námsins er að mennta fólk til starfa í menntakerfinu ásamt því að auka hæfni þess til að stunda frekara nám. Áhersla er á verklega þjálfun með vettvangsnámi og æfingakennslu.

Þú getur skoðað skipulag námsins á Uglu, kennsluvef háskólans.

Fyrirkomulag námsins

Námið er samtals 60 ECTS einingar. Gert er ráð fyrir vettvangsnámi og æfingakennslu að vori en stúdentar mega taka það að hausti ef þeir kjósa það frekar. Val er um námskeið upp að 10 ECTS einingum.

Kennsla fer fram í staðbundnum námslotum á Akureyri og er skyldumæting í þær. Jafnframt eru margvíslegir möguleikar notaðir við miðlun efnis og til gagnvirkra samskipta. Mætingarskylda er í allt vettvangsnám og æfingakennslu.

Möguleikar að námi loknu

Að loknu námi geta þau sem lokið hafa grunn- og meistaranámi sótt um leyfisbréf í samræmi við lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 95/2019.

Hæfni í íslensku

Samkvæmt reglugerð um hæfniramma með viðmiðum fyrir almenna og sérhæfða hæfni kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla skal kennari við brautskráningu úr kennaranámi við íslenska háskóla búa yfir hæfni í íslensku sem samsvarar að lágmarki C1 í Evrópska tungumálarammanum.

Því eru þau sem ekki hafa íslensku sem fyrsta mál og sækja um grunn- eða framhaldsnám við Kennaradeild beðin um að meta færni sína í íslensku og fylla út sjálfsmatsramma Evrópuráðsins.

Hér má sjá Tungumálaramma Evrópuráðsins.

Námskeið við Kennaradeild eru almennt kennd á íslensku.

Inntökuskilyrði

Meistarapróf eða sambærilegt próf með 2. einkunn. 

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Námsstyrkur

Þau sem ljúka námi frá með vorönn 2021 í 60 ECTS viðbótarnámi til kennsluréttinda í framhaldsskóla geta fengið helming styrksins, 400.000 kr. sem greiðist út í einu lagi við námslok.

Nánar um námsstyrk.

Umsagnir

Kennsluréttindin eru einkar góð viðbót fyrir sjálfstætt starfandi listamann eins og mig, enda opna þau á möguleika til þess að miðla, sem maður hefði annars ekki. Þar að auki veitir það manni svo mikinn innblástur að kenna og kynnast skemmtilegu fólki

Vilhjálmur B. Bragason
skáld og skemmtikraftur