Sérstaða lögfræðináms Háskólans á Akureyri felst í alþjóðlegri nálgun og sveigjanlegu námsfyrirkomulagi.

Námsmatið í BA námi byggir á símati. Námskeiðum lýkur ekki með einu stóru prófi utanbókarlærdóms, heldur eru verkefni og hlutapróf lögð fyrir á námskeiðstímanum. Þú getur því fylgst vel með eigin árangri.

Er námið fyrir þig

  • Vilt þú þekkja rétt þinn?
  • Vilt þú geta hjálpað öðrum?
  • Vilt þú eiga kost á fjölbreyttum atvinnutækifærum að námi loknu?
  • Vilt þú vita hvernig samfélagið virkar?
  • Hefur þú áhuga á lögum?
  • Getur þú sett þig í spor annarra?

Áherslur námsins

Lagður er góður grunnur að þekkingu í undirstöðuatriðum lögfræðinnar. Lög eru skoðuð í sögulegu, félagslegu og heimspekilegu samhengi.

Nýttar eru aðferðir samanburðarlögfræði. Skoðuð er framkvæmd laga á Íslandi, í Evrópu og í alþjóðlegu umhverfi.

Þú lærir að fjalla með gagnrýnum hætti um lög, lögfræði og tengd efni. Þú færð þjálfun í að setja fram og skilgreina fræðileg álitamál.

Þú öðlast færni í faglegri og fræðilegri framsetningu lögfræðilegra viðfangsefna, munnlega og skriflega, jafnt á íslensku sem ensku.

Möguleikar að námi loknu

Námið er góður undirbúningur undir framhaldsnám í lögfræði hér á landi og erlendis.

Námið nýtist vel fyrir framhaldsnám í öðrum greinum, svo sem alþjóðasamskiptum, alþjóðastjórnmálum og skyldum greinum.

Nemendur með grunnþekkingu í lögfræði geta nýtt hana á vettvangi fjölmiðla, innan opinberra stofnana og hjá alþjóðastofnunum, svo eitthvað sé nefnt.

Nemendur sem hafa lokið BA námi við HA hafa farið í starfsnám erlendis, til dæmis hjá Sameinuðu þjóðunum, þróunarsjóði EFTA og sendiráðinum Íslands um allan heim. Þeir hafa lýst náminu við HA sem góðu veganesti inn í slík störf.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Þemis er félag laga- og lögreglufræðinema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjandi hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi.

Deildum háskólans er heimilt að innrita tilskilinn fjölda nemenda án stúdentsprófs. Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans og undanþágur frá þeim.

Sveigjanlegt nám

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að engu skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskránni og námskröfur eru þær sömu.

Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft að þú vilt. Þú getur jafnvel hægt eða hraðað á hljóðinu. Okkur þykir samt auðvitað skemmtilegt að sjá þig í kennslustund.

Allir fjarnemar koma nokkrum sinnum á námstímanum í stuttar kennslulotur til Akureyrar þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu þínu.

Hér getur þú lesið meira um sveigjanlega námið og séð hvenær námslotur eru.

Skiptinám

Allir nemendur eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Þú færð niðurfellingu á skólagjöldum gestaskólans og greiðir eingöngu innritunargjald í HA. Alþjóðafulltrúi aðstoðar þig við að sækja um námið, húsnæði og nemendastyrk.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skiptinám.

 

Umsagnir

Í lögfræðinni við HA fékk ég djúpan skilning á viðfangsefninu og tileinkaði mér öguð vinnubrögð sem reynst mér ómetanlegt veganesti.

Ingólfur Friðriksson
sendiráðunautur í sendiráði Íslands í London

Árin mín við Háskólann á Akureyri voru með þeim betri árum sem ég hef upplifað. Þar var lagður sterkur grunnur fyrir frekara nám og störf á þeim ýmsum sviðum lögfræðinnar sem ég hef fengist við. Þá er umhverfið, háskólabærinn Akureyri og viðmót starfsfólksins við háskólann í senn hvetjandi og persónulegt.

Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir
lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fyrrv. aðstoðarmaður samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra