Skipulag náms fyrir nýnema
Stjórnskipunarréttur
Fjallað er um íslenska stjórnskipan og stjórnskipunarlög, sbr. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands frá 1944 og með síðari breytingum. Gerð er grein fyrir stjórnskipunarlögum sem réttarheimild og helstu röksemdum að baki þrískiptingu ríkisvaldsins. Fjallað verður um störf handhafa löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds, og um verkaskiptingu á milli þeirra. Þá er fjallað um mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og áhrif Mannréttindasáttmála Evrópu á íslenska löggjöf. Markmiðið er að nemendur öðlist góða þekkingu á undirstöðum íslenskrar stjórnskipunar og geti fjallað um og leyst úr álitaefnum sem varða stjórnarskrána m.a. í ljósi þjóðréttarlegra skuldbindinga.
Réttarheimildafræði
Á námskeiðinu er hin lagalega aðferð kynnt, fjallað um fræðikerfi lögfræðinnar og ýmis grundvallarhugtök, s.s. lög, réttarríki og lagalega aðferð. Meginviðfangsefni námskeiðsins lýtur að heimildum íslensks réttar. Ítarlega verður fjallað um réttarheimildarhugtakið og tegundir réttarheimilda. Komið verður inn á þátt ólíkra aðila við mótun réttarins og tengsl lands- og þjóðaréttar. Jafnframt verður fjallað um kröfur sem gerðar eru til ritaðs máls í lögfræði, þ.m.t. uppbygging ritgerða og val, meðferð og skráning heimilda.
Inngangur að íslenskri lögfræði
Kynnt verða helstu meginsvið íslenskrar lögfræði bæði hvað varðar opinberan rétt, s.s. stjórnskipunarrétt, stjórnsýslurétt og réttarfar og einkarétt, en veitt verður innsýn í helstu svið einkaréttar, s.s. fjármunarétt, sifja- og erfðarétt.
Þjóðaréttur
Um er að ræða kjarnafag á BA-stigi í lögfræði. Einkum er fjallað er um hinn almenna hluta þjóðaréttarins. Gerð er grein fyrir því hvernig reglur þjóðaréttar myndast og fjallað um eðli hans sem lagakerfis í samanburði við landsrétt ríkja. Sérstaklega verður fjallað um réttarheimildir þjóðaréttar, rétthæð réttarheimilda og ákvarðanatöku, myndun venjuréttar og ófrávíkjanlegar reglur, um ríki og aðra þjóðaréttaraðila, þ.m.t. alþjóðastofnanir, um landsvæði og ríkisyfirráð, þ.m.t. á höfum, um viðurkenningu ríkja, lögsögu ríkja og úrlendisrétt, um lagatæknileg álitaefni í tengslum við gerð og túlkun þjóðréttarsamninga og um reglur þjóðaréttar um ábyrgð ríkja. Þá verður fjallað um stofnanir Sameinuðu þjóðanna og um valdbeitingu í alþjóðakerfinu auk þess sem gerð er stuttlega grein fyrir helstu úrræðum til lausnar ágreinings af þjóðréttarlegum toga.
Samningaréttur
Lýst er reglum íslensks réttar um samningarétt. Megináhersla er lögð á umfjöllun um helstu ákvæði laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, ásamt síðari breytingum og túlkun þeirra af hálfu íslenskra dómstóla.
Réttarsaga Íslands
Farið er yfir réttarsögu Íslands frá öndverðu til okkar daga: fund Íslands og landnám, skipulag þjóðveldisins, Alþingi á þjóðveldisöld, Grágás, Gamla sáttmála, lögfestingu konungsvalds, endurskoðun löggjafar, lögfestingu Jónsbókar og þróun íslenskrar stjórnskipunar 1662-1944.
Lögskýringar
Fjallað er um túlkun og lögfræðilega túlkunarfræði, grundvallarreglur á sviði lögskýringa og beitingu þeirra við túlkun lagaákvæða að íslenskum rétti. Sérstaklega er litið til þeirra lögskýringarleiða og aðferða, sem beitt er hjá dómstólum, einkum í dómum Hæstaréttar Íslands. Þá er sérstakur gaumur gefinn að starfi og hlutverki dómstóla og dómarans við úrlausnarefni sín, þegar kemur að vali á lögskýringarleiðum og aðferðum.
Sameiginleg lagahefð Evrópu
Námskeiðið fjallar um grundvallareinkenni fordæmisréttar og meginlandsréttar. Helstu einkenni réttarkerfanna verða skoðuð. Eins og t.d. hve bindandi dómafordæmi eru, styrkur settra laga, lögvísindi Háskólanna, menntun lögfræðinga. Núverandi álitamál eru einnig rannsökuð, svo sem fjölbreytni innan dómstólakerfisins, ört vaxandi magn settra lagaákvæða og sambandið við Evrópusambandið.
Stjórnsýsluréttur I
Í námskeiðinu er fjallað um grundvallaratriði stjórnsýsluréttar. Fjallað er um helstu hugtök og meginreglur stjórnsýsluréttar, réttarheimildir og lögskýringar í stjórnsýslumálum, helstu verkefni stjórnvalda, uppbyggingu, einkenni og innra skipulag stjórnsýslukerfins og valdmörk (valdbærni) stjórnvalda. Sérstaklega er fjallað um grundvallarregluna um að stjórnsýslan sé lögbundin og stuttlega vikið að almennum efnisreglum stjórnsýsluréttar. Vikið er að tilurð, gildissviði og túlkun stjórnsýslulaganna nr. 37/1993 og ferli stjórnsýslumáls. Sérstaklega er fjallað um aðild að stjórnsýslumáli, hugtakið stjórnsýsluákvörðun og hæfisreglur stjórnsýslulaga. Ítarlega er fjallað um málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaganna með áherslu á það þegar stjórnvöld á fyrsta stjórnsýslustigi taka til meðferðar einstök mál þar sem ætlunin er að taka stjórnvaldsákvörðun. Loks er stuttlega vikið að upplýsingalögum og helstu reglum um meðferð persónuupplýsinga. Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu á réttarreglunum sem gilda um framangreinda þætti og jafnframt að þeir geti beitt viðurkenndri lagalegri aðferð til úrlausnar á raunhæfum lögfræðilegum álitamálum sem varða einkum uppbyggingu og skipulag stjórnsýslukerfisins annars vegar og hefðbundna meðferð stjórnsýslumála hins vegar.
Evrópuréttur I: Stofnanir og réttarheimildir ESB/EES
Um er að ræða kjarnafag í BA-námi í lögfræði. Fjallað er um stofnun og þróun Evrópusambandsins (ESB), Evrópska efnahagssvæðisins (EES), Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), uppbyggingu þeirra og helstu stofnanir. Veitt verður yfirlit yfir Evrópusamvinnu og samruna í sögulegu samhengi, þróun ESB og stöðu í nútíð og til framtíðar. Ennfremur fjallað um réttarheimildir og meginreglur Evrópuréttar, bæði ESB og EES, og fjallað um séreðli ESB-réttar annars vegar og EES-réttar hins vegar í tengslum við hugtökin bein lagaáhrif, bein réttaráhrif og forgangsáhrif og skaðabótaábyrgð ríkja. Fjallað verður um helstu stofnanir ESB, þ.e. Evrópuþingið, ráðherraráðið og framkvæmdastjórnina, valdheimildir og stofnanir EES. Enn fremur verður farið yfir lagasetningarferli innan ESB og lagasamræmingu. Þá verður fjallað um upptöku gerða í EES-samninginn og innleiðingu þeirra í landsrétt og um ólíkt eðli ESB-réttar og EES-réttar.
Kröfuréttur I
Fjallað verður um helstu hugtök kröfuréttar: stofnun, inntak og lögvernd kröfuréttinda. Farið yfir greiðslustað, gjalddaga og fleiri grundvallarhugtök. Fjallað um reglur um vexti og réttaráhrif greiðsludráttar. Gallahugtakið skýrt ítarlega og í því sambandi farið yfir aðgæsluskyldu kröfuhafa og upplýsingaskyldu skuldara. Síðan er fjallað um réttarlegar kröfur til greiðslu. Einnig er farið yfir sjónarmið um túlkun samninga um kröfuréttindi.
Refsiréttur I
Í námskeiðinu er farið yfir grundvallaratriði og grundvallarhugtök íslensks refsiréttar, svo sem hinn almenna og sérstaka hluta refsiréttar, almenn hegningarlög og sérrefsilög, afbrotahugtakið og refsingu, mismunandi aðferðir við flokkun afbrota, tilraunarhugtakið, afturhvarf, hlutdeild, samverkefnað, refsivörslukerfið og viðurlög við afbrotum, kenningar um varnaðaráhrif refsingar, ákvörðun refsingar, ítrekun, lok refsingar og brottfall viðurlaga. Markmiðið er, að nemendur öðlist grunnþekkingu á refsirétti, almennum hegningarlögum og helstu brotaflokkum.
Rómaréttur Jústiníanusar
Nútímalögfræði grundvallast að mörgu leyti á hugtökum Rómaréttar til forna og þess vegna er brýnt að nemendur kynni sér þau þegar á fyrstu misserum lögfræðináms svo að þeir verði vel í stakk búnir að bera saman hin mismunandi réttarkerfi (Evrópu). Rómarétturinn er besta þjálfun fyrir tilvonandi lögmenn, dómara eða stjórnmálamann til að læra að rökræða.
Fjallað er um sögu, þróun, inntak og skipun Rómaréttar til forna með áherslu á einkamálarétt, samningarétt, skaðabótarétt og réttarfar Rómverja. Rætt er um helstu embættin í réttarkerfi Rómverja og einnig um réttarheimildir, lagasetningar, tilskipanir og lögskýringar. Niðurröðun og flokkun laga í Rómarétti er skoðuð, t.d. þrígreiningin í lög um persónur (de iure personarum), lög um hluti (de rebus) og réttarfar (de actionibus) eins og hún birtist í lagasafni Jústiníanusar I (f. 482, d. 565) keisara Austrómverska ríkisins, og kallast Corpus Juris Civilis.
Bundið val
Nemendur velji námskeið af áherslusviðum í samráði við kennara/brautarstjóra deildarinnar.
Siðfræði starfsgreina
Fjallað er um siðfræði starfsstétta með sérstöku tilliti til lögfræðistarfa, lögmennsku og löggæslu. Viðtekin siðferðileg viðmið um lögfræði- og löggæslustörf, gildandi eftirlit og viðurlög verða kynnt og sett í samhengi við almennar spurningar um siðfræði starfsgreina, s.s. hvaðan siðareglur starfsgreina þiggi réttlætingu sína, hvaða munur sé á siðareglum starfsgreina og almennum siðareglum, og hvaða tilgangi það kunni að þjóna að skrá siðareglur starfsgreina og starfrækja siðanefndir. Tekin eru fyrir dæmi um siðferðileg álitamál af vettvangi viðkomandi starfsgreina og sérstaklega hugað að skyldum þeirra til að virða og vernda almenn mannréttindi.
Sakamálaréttarfar
Fjallað er um íslenskan rétt um meðferð sakamála og um hlutverk og stöðu þeirra aðila sem koma að þeim málum, þ.e. dómara, ákærendur, lögreglu, verjendur, réttargæslumenn, sakborninga, vitni, þ.m.t. brotaþola. Fjallað er um meðferð sakamála, upphaf þeirra hjá lögreglu og um ólíka meðferð mála á rannsóknar- og ákærustigi og um meðferð sakamála á dómstigi, bæði í héraði, fyrir Landsrétti og fyrir hæstarétti, sbr. lög nr. 88/2008 um meðferð opinberra mála. Áhersla er lögð á að nemendur kynnist hagnýtum álitaefnum á borð við gerð ákæru og í tengslum við sönnunarfærslu í sakamálum, auk þess sem fylgst verður með gangi sakamáls fyrir dómi.
Evrópuréttur II: Innri markaður ESB og EES o.fl.
Um er að ræða kjarnafag á BA-stigi í lögfræði. Fjallað er um helstu efnisreglur Evrópusambandsréttar og að hvaða marki þær taka einnig til Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Áherslan er einkum á þær reglur sem lúta að innri markaði Evrópusambandsins (ESB) og EES eða fjórfrelsinu svokallaða, þ.e. frjálsu flæði vara, vinnuafls, þjónustu og fjármagns. Ennfremur er fjallað um reglur sem varða samkeppnismál og ríkisaðstoð. Loks er fjallað um efnahags- og myntbandalag Evrópu og evruna.
Refsiréttur II
Í námskeiðinu er farið dýpra í ákveðin atriði refsiréttar, sem ekki er fjallað um í Refsirétti I. Í námskeiðinu eru refsiheimildirnar rýndar og refsinæmi verknaðar. Farið er yfir afbrigðilega refsiábyrgð og saknæmishugtakinu gerð ítarleg skil. Þá er sérstök áhersla lögð skýringu refsilaga og þær kröfur, sem gerðar eru til refsiákvæða laga. Í námskeiðinu er einnig farið í einstaka brotaflokka sérstaklega, sem tilheyra bæði hegningarlögunum og sérrefsilögum, svo sem netglæpi, kynferðisbrot, vændi og mansal, ofbeldisbrot og heimilisofbeldi, fíkniefnabrot, fjármuna- og efnahagsbrot o.fl.
Kröfuréttur II
Í námskeiðinu verður fjallað um réttarreglur er varða vanefndir kröfuréttinda og lok kröfuréttinda. Í því sambandi verður fjallað um efndir in natura, riftun, hald á eigin greiðslu, afslátt, skaðabætur og samningsbundin vanefndaúrræði. Einnig verður fjallað um viðtökudrátt. Þá verður fjallað um lok kröfuréttinda, fyrningu og skuldajöfnuð. Loks verður m.a. fjallað um reglur um aðilaskipti og viðskiptabréf.
Eignarréttur I
Í námskeiðinu verður farið yfir helstu grundvallarhugtök og grundvallarreglur eignarréttar, stöðu fræðigreinarinnar og tengsl við aðrar greinar lögfræðinnar. Fjallað er um eignarhugtakið, eignarréttindi, eignaraðild, eignarform og andlag eignarréttar, svo og þau réttindi, sem takmarkað geta eignarrétt, og óbeinan eignarrétt. Sérstaklega er fjallað um stofnunarhætti eignarréttinda, fasteignir, fylgifé, mörk og skráning þeirra, og takmarkanir á eignarréttindum í fasteign, auk þess sem fjallað er um annars konar eignarréttindi, svo sem yfir auðlindum og lífrænum og ólífrænum verðmætum. Þá er farið yfir helstu reglur, sem varða annars konar eignarform á borð við þjóðlendur, afrétti o.fl. Þá er sameignarhugtakið kannað og sérstök sameign og farið yfir helstu réttarreglur, sem gilda um sameignir og slit á sameign, auk þess sem farið er yfir helstu reglur á sviði nábýlisréttar. Enn fremur er eignarnámi og skilyrðum þess gerð skil.
Einkamálaréttarfar
Í námskeiðinu er fjallað ítarlega um réttarreglur um dómstólaskipan og meðferð einkamála fyrir íslenskum dómstólum og hlutverki dómstóla, sjá einkum lög um meðferð einkamála nr. 91/1991 með síðari breytingum og lög um dómstóla nr. 50/2016. Meginreglum réttarfars er lýst sem og mannréttindareglum sem tengjast réttarfari og réttlátri málsmeðferð. Ennfremur reglum um dómara og skipan þeirra. Fjallað er um aðild að einkamálum, fyrirsvar og sakarefni, kröfugerð, varnarþing og lögsögu. Einnig aðdraganda málshöfðunar og samningu og útgáfu stefnu, stefnufrest og birtingu stefnu, greinargerðir og gerð þeirra. Fjallað er um almenna málsmeðferð í héraði, afbrigðilega málsmeðferð í héraði og málflutningsumboð og málsóknarumboð. Þá verður gerð grein fyrir sönnunarfærslu fyrir dómi, markmiði með henni, milliliðalausri sönnunarfærslu og munnlegri skýrslugjöf, tegundum dómsúrlausna fyrir héraði og rökstuðningi fyrir dómsniðurstöðum. Sérstök áhersla er lögð á hagnýt atriði. Sjá einkum lög um meðferð einkamála nr. 91/1991 með síðari breytingum og lög um dómstóla nr. 50/2016.
Mannréttindasáttmáli Evrópu
Í námskeiðinu er fjallað um Mannréttindasáttmála Evrópu og viðauka hans. Fjallað er um efni þeirra, eftirlitskerfi samningsins og hvernig ákvæði hans eru leidd í íslensk lög og þeim framfylgt. Áhersla er lögð á réttindi samkvæmt samningnum að því er varðar rannsókn sakamála og réttarfar, til að mynda rétt til einkalífs og takmarkanir á eftirlitsvaldi og rétt grunaðra og vitna að því er varðar yfirheyrslu, varðhald eða ákæru.
Eignarréttur II
Í námskeiðinu er farið yfir helstu atriði, sem varða þinglýsingar réttinda og annarra yfirlýsinga, og veðrétt, einkum með fasteignir í huga, þó fjallað verði um þinglýsingar réttinda og annarra yfirlýsinga og veðrétt í loftförum, skipum og bifreiðum einnig. Farið er í skráningu réttinda og nauðsyn hennar og hlutverk sýslumanna. Þá er farið yfir mismunandi tegundir veðréttinda og reglur, sem gilda um veðrétt í ólíku veðandlagi. Megináhersla námskeiðsins er á fasteignir og er stórum hluta námskeiðsins varið í fasteignakauparétt og leigurétt að hluta til. Farið er yfir helstu reglur, sem varða kaup og sölu fasteigna, vanefndaúrræði, gallahugtakið, bætur, riftun og aðrar reglur á sviði fasteignakauparéttar, auk sambærilegra réttarreglna, sem varða kaup og sölu skipa. Þá eru farið yfir helstu reglur leiguréttar. Enn fremur er farið yfir helstu reglur í skipulagsmálum, sem varða fasteignir sérstaklega, auk þess sem farið verður yfir réttarreglur um mat á fasteignum, svo sem m.t.t. galla og verðmat.
Kennileg lögfræði
Fjallað er á gagnrýninn hátt um kennilega lögfræði sem fræðasvið og um helstu kenningar um eðli og hlutverk laga. Sígildar kenningar eru kynntar, s.s. náttúruréttarstefnan, vildarhyggjan og raunsæisstefnan, einnig nútímakenningar eins og gagnrýnisstefnan, réttarhagfræði, réttarkynjafræði, réttarkynþáttafræði og póstmódernískar réttarkenningar.
B.A. verkefni í lögfræði
Nemandi velur svið viðfangsefnis í samráði við umsjónarmann B.A. ritgerða í lögfræði sem annast um tilnefningu leiðbeinanda úr hópi kennara. Nemandi skal því næst í samráði við leiðbeinanda útbúa vinnuáætlun sem er stutt lýsing á viðfangsefni lokaverkefnis auk leslista með helstu heimildum sem ætlunin er að nota. Þegar umsjónarmaðurinn hefur fallist á vinnuáætlun nemandans telst nemandinn hafa staðist þennan hluta af vinnu við lokaverkefni til B.A. prófs en þegar lokaverkefni lýkur endanlega fær það eina lokaeinkunn sem gildir þá enn fremur fyrir þetta námskeið.