Skipulag náms fyrir nýnema
Heilbrigðisfræðsla- forvarnir og heilsuefling
Nemendur læra hér að sinna alhliða heilbrigðisfræðslu, sem felur í sér bæði stuðningsþætti og kennslufærni. Nemendur kynnast helstu hugmyndafræði, kenningum og tækni við að veita fræðslu, jafnt til skjólstæðinga og aðstandenda sem og til samstarfsfólks. Sérstök áhersla er á að nemendur öðlist innsýn í mikilvægi fræðslu tengda forvörnum, heilsu-og valdeflingu fyrir aldraða og fái æfingu í að greina fræðsluþarfir einstaklinga því tengdu. Einnig læra nemendur grunn klínískrar leiðsagnar til að öðlast færni sem klínískir leiðbeinendur. Markmiðið með námskeiðinu er að nemendur geti skipulagt, framkvæmt og fylgt eftir fræðslu og kennslu á víðum grundvelli og hafi þekkingu á grunnþáttum náms fullorðinna.
Samskipti og fagleg tengsl
Námskeiðið snýst um samskipti og samstarf við bæði notendur og samstarfsfólk þar sem fjallað er um helstu hugmyndir, kenningar og aðferðir er lúta að félagslegum samskiptum og eflandi tengslum. Fjallað er um þverfaglega teymisvinnu, hópastarf og hópefli og rýnt í hlutverk ólíkra fagstétta innan velferðarkerfisins. Kynntar eru helstu aðferðir í viðtalstækni og nemendur æfa sig í að beita þeim. Nemendur rýna í eigin samskiptahætti og kynnast því hvernig nota má samskipti á meðvitaðan hátt til að ýta undir og styrkja ákveðna færni og eiginleika fagmennskunnar.
Stjórnunarfræði og leiðtogafærni
Markmið námskeiðsins er að nemandi öðlist þekkingu á helstu kenningum og aðferðum stjórnunar til að þeir öðlist sjálfsstyrk í hlutverki leiðtoga og hæfni í sjálfsígrundun. Tilgangurinn er að nemendur fái í hendur verkfæri til að styrkja sig í hlutverki leiðtoga, til að sinna verkefnastjórn og gæðastjórnun innan afmarkaðra eininga á vinnustað og á sama tíma vera virkir þátttakendur í þverfaglegri teymisvinnu. Farið verður í helstu þætti sem þurfa að vera til staðar við skipulag og þátttöku í slíkum teymum auk þjálfunar í markmiðssetningu.
Einnig munu nemendur læra um helstu þætti í umgjörð, skipulagi og stefnumótun í velferðarþjónustu á Íslandi.
Samskiptafræði og krefjandi atferlistruflanir
Markmiðið er að nemendur fá innsýn inní helstu kenningar og hugmyndafræði um hvernig hægt er að nota samskipti sem meðferðartæki. Áhersla er á að nemandi öðlist skilning á mismunandi þörfum einstaklinga og lausnaleit í samskiptum, jafnt við skjólstæðinga sem og aðstandendur og fjölskyldur. Nemendur læra hvernig á að takast á við krefjandi atferlistruflanir hjá einstaklingum með heilabilun eða fíknisjúkdóm og sérhæfðan stuðning við aðstandendur. Sérstök áhersla er á að nemendur öðlist þekkingu og færni í að beita sérhæfðum samskipta aðferðum sem virkri meðferð einstaklinga, auk aðlögunar umhverfisþátta.
Námið og nemandinn
Í námskeiðinu skoða nemendur eigin námsmarkmið, hæfileika, umhverfi og aðferðir til að læra. Kenndar eru mismunandi aðferðir til náms og leiðir til farsællar samvinnu í nemendahópi. Nýtt eru ýmis verkfæri úr iðjuþjálfunarfræði fyrir nemendur til að rýna í eigin viðhorf, vanamynstur, hlutverk og umhverfi. Nemendur gera áætlanir um hvernig þeir mæta kröfum námsins og efla eigin þekkingu, leikni og hæfni.
Umönnunarumhverfi – öryggi, gæði og velferðartækni
Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist greinagóða þekkingu á hvernig umönnunarumhverfi, og stuðningur við að skipuleggja rými og viðverustað hefur áhrif á öryggi og lífsgæði fólks. Fjallað verður um þá þætti sem hafa áhrif á umönnunarumhverfi, allt frá einstökum hjálpartækjum til staðsetningar, öryggi heimila og öryggisbúnaði innan heimila. Ásamt hvernig stuðla megi að öruggu og góðu vinnuumhverfi. Farið verður yfir hvernig skráning á lífssögu skjólstæðinga getur stuðlað að auknum lífsgæðum, félagslegri þátttöku og sjálfræði. Nemendur kynnast mismunandi aðferðum sem notaðar eru, s.s. nýsköpun og velferðartækni og fjarheilbrigðisþjónustu. Fá kynningu á tæknilegum lausnum sem fólk getur nýtt sér til þess að stuðla að sjálfræði og félagslegri þátttöku og lífsgæðum á eigin forsendum. Nemendur æfa sig í að greina þörf fyrir og skipuleggja umhverfi sem stuðlar að færni og lífsgæðum.
Heilsa og samfélagið
Námskeiðinu er ætlað að fræða nemendur um tengsl samfélags og heilsu, bæði almennt (hugtök, kenningar, rannsóknir) og sértækt, um efni sem varðar félagslega áhrifaþætti heilbrigði og veikinda. Fjallað er m.a. um samband samfélags- og menningargerðar og heilsu, félagslegt skipulag heilbrigðisstofnana og heilbrigðiskerfis, faghópa heilbrigðisþjónustunnar, sjúkdómsvæðingu, heilbrigðisviðhorf, sjúklingshlutverkið, frávik, félagslega dreifingu heilsu og sjúkdóma, og samskipti sjúklinga og fagaðila. Nemendur fást við sérstakt rannsóknarverkefni sem felur meðal annars í sér heimildasamantekt, jafningjamat og málstofuþátttöku.
Geðhjúkrun og geðlyfjafræði
Í námskeiðinu læra nemendur um helstu geðsjúkdóma, geðraskanir og einkenni þeirra. Samhliða því verður farið yfir einstaklingshjúkrun þeirra sem þjást af algengustu geðsjúkdómum, mikilvægi góðs meðferðarsambands og uppbyggingu ólíkra meðferðarforma. Þá munu nemendur öðlast frekari þekkingu í geðlyfjafræði og helstu flokkum geðlyfja, aukaverkunum og eftirliti með þeim. Þá læra nemendur í þessu námskeiði um skráningu, öflun upplýsinga og upplýsingakerfis, færni- og heilsufarsmat og framkvæmd þeirra auk þess um gerð áhættumats er kemur að þáttum eins og byltuhættu, húðheilsu, næringarástands, verkja, og geðheilsu. Markmiðið er að nemendur skilji mikilvægi heildrænnar nálgunar í uppbyggingu meðferðar fólks með geðsjúkdóma og öðlist færni í að taka þátt í því ferli. Þá verður fjallað um hlutverk sjúkraliða í teymisvinnu í geðheilbrigðisþjónustu og mikilvæga færniþætti sem skipta þar máli. Nemendur munu læra um tíðni sjálfsvíga, læra mat á sjálfsvígshættu og kynnast helstu bjargráðum. Nemendur fá einnig kennslu og þjálfun í lyfjaumsýslu. Tilgangur tveggja vikna klínísks náms er að nemendur fái tækifæri til að tengja saman fræðilega þekkingu námskeiðsins og framkvæmd hennar í raunverulegum aðstæðum.
Fjölskylduhjúkrun og geðræn endurhæfing
Markmiðið með námskeiðinu er að nemendur öðlist þekkingu og færni í að nota heildræna nálgun fjölskylduhjúkrunar og aðferðir endurhæfingar í meðferð skjólstæðinga með geðsjúkdóma. Í námskeiðinu læra nemendur um hugmyndafræði fjölskylduhjúkrunar og þau úrræði sem standa fjölskyldum til boða þegar einstaklingur greinist með geðsjúkdóm. Sérstök áhersla er á samskipti fjölskyldu og meðferðaraðila og í því samhengi verður fjallað um algeng viðbrögð innan fjölskyldna skjólstæðinga með geðsjúkdóma. Nemendur munu einnig fá innsýn inn í hugmyndafræði endurhæfingar og notagildi hennar í uppbyggingu meðferðar fólks með geðsjúkdóma. Í því samhengi kynnast nemendur helstu endurhæfingarúrræðum geðheilbrigðisþjónustu og öðlast getu til að útskýra hlutverk heilbrigðiskerfisins í endurhæfingu og meðferð geðsjúkra. Nemendur kynnast hugtakanotkun innan geðheilbrigðisþjónustu. s.s. heilsu- og valdeflingu meðal notenda geðheilbrigðisþjónustunnar. Einnig verður í námskeiðinu sérstök áhersla á að nemendur læri sértækan stuðning við einstaklinga eftir áföll, ofbeldi og sorg, þ.m.t grunnatriði áfallamiðaðrar nálgunar (e. Trauma informed care). Nemendur fá einnig kennslu og þjálfun í sýkingavörnum, uppsetningu þvagleggs, æðaleggja, blóðtöku, blóðræktun, og sárameðferðum. Tilgangur tveggja vikna klínísks náms er fyrst og fremst að gefa nemendum tækifæri til þátttöku í fjölskylduhjúkrun auk skipulagningar endurhæfingar fólks með geðsjúkdóma.
Geðhjúkrun einstaklinga með sértækar þarfir
Markmiðið með námskeiðinu er að nemendur öðlist þekkingu og færni í geðhjúkrunarmeðferð einstaklinga með sértækar þarfir af ýmsum orsökum. Í námskeiðinu læra nemendur um helstu geðraskanir barna og unglinga, meðferðir við þeim og helstu hugtök í því samhengi. Áhersla er á að hvaða leiti geðraskanir þessa aldurshóps eru frábrugðnar geðröskunum fullorðinna. Fjallað verður um aðferðir til samvinnu við foreldra/forráðamenn barna og unglinga með áherslu á fræðslu og stuðning. Í námskeiðinu munu nemendur einnig kynnast helstu nálgunum geðhjúkrunar í meðferð fólks með áfengis- og vímuefnavanda, hjúkrunarferlinu sjálfu og mikilvægi einstaklingshjúkrunar í því samhengi. Þá fá nemendur innsýn í greiningaskilmerki ólíkra áfengis- og vímuefnavandamála. Markmiðið er meðal annars að nemendur öðlist þekkingu og færni í mikilvægustu þáttum fræðslu og stuðnings þessa skjólstæðingahóps og aðstandenda auk áherslu á skaðaminnkandi nálgun. Einnig verður bætt við þekkingu nemenda á grundvallarþáttum geðhjúkrunar aldraðra sérstaklega og þroskaskertra með samskipta- og stuðningsþætti að leiðarljósi. Í námskeiðinu munu nemendur einnig taka virkan þátt í umræðum um helstu siðferðilegu álitamál er varða fólk með geðsjúkdóma auk innsýnar í lagaleg réttindi þeirra og áskoranir þeim tengd.