Háskólinn á Akureyri er fyrsti háskólinn á Íslandi sem býður upp á fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða. Um er ræða tveggja ára sveigjanlegt nám sem er skipulagt þannig að nemandi sé í starfi samhliða því.

Námið er ætlað sjúkraliðum sem vilja auka þekkingu sína og efla starfshæfni í geðheilbrigðisþjónustu, endurhæfingu og heimahjúkrun.

Einnig er boðið upp á kjörsviðið öldrunar- og heimahjúkrun.

Er námið fyrir þig?

 • Langar þig að efla sérhæfingu þína?
 • Vilt þú auka ábyrgð þína í starfi sem sjúkraliði og víkka starfssvið þitt?
 • Starfar þú við umönnun fólks með geðvandamál og hefur þú áhuga á að bæta umönnun þessa hóps?
 • Langar þig til að starfa í þverfaglegu geðteymi?
 • Langar þig að aðstoða fólk með geðvandamál við að viðhalda heilsu og velferð?
 • Vilt þú hafa áhrif á gæði heilbrigðis- og velferðarþjónustu?
 • Langar þig að eiga spennandi starfsmöguleika og taka þátt í uppbyggingu þeirra?
 • Langar þig að auka þekkingu þína í samskipta- og velferðartækni?

Áherslur námsins

Meginmarkmið námsins er að styrkja og auka þekkingu og færni starfandi sjúkraliða á þörfum einstaklinga með geðsjúkdóma og fjölskyldna þeirra.

Áhersla er á geðhjúkrun, fjölskylduhjúkrun og persónumiðaða nálgun í heildrænni umönnun skjólstæðinga og aðstandenda þeirra. Náminu er ætlað að bæta þekkingu á notkun mismunandi aðferða til samskipta og tryggja þannig gæði í meðferð og fræðslu. Einnig er lögð áhersla á aukna þekkingu á geðsjúkdómum og lyfjafræði tengda þeim, aukna færni sjúkraliða sem hópstjóra og þátttakenda í þverfaglegum teymum.

Námið veitir þekkingu á skipulagi og virkni þjónustukerfa sem eru í boði fyrir þennan hóp, auk notkunar velferðartækni.

Ljúka þarf öllum námskeiðum fyrsta árs áður en nám á seinna árinu hefst. Hámarkstími til að klára námið eru 3 ár.

Þú getur skoðað skipulag námsins í Uglu, kennsluvef háskólans.

Möguleikar að námi loknu

Fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða er ný námsbraut í íslensku menntakerfi. Það opnar á möguleika fyrir sjúkraliða að takast á við fjölþættari störf og aukna ábyrgð.

Námið eflir sjúkraliða til að taka þátt í fjölbreyttri teymisvinnu með markvissum hætti.

Námið er áskorun fyrir sjúkraliða sem verða virkir þátttakendur í að móta nýjar starfsleiðir innan heilbrigðis- og velferðarkerfisins.

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir nemendur við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Eir er félag heilbrigðisvísindanema og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook.

Inntökuskilyrði

Krafa er að umsækjandi hafi lokið sjúkraliðanámi, hafi gilt starfsleyfi frá Embætti landlæknis og starfi í heilbrigðisþjónustu. Æskilegt er að umsækjandi hafi að lágmarki 2ja ára starfsreynslu sem sjúkraliði.

Í boði eru 2 kjörsvið og umsækjendur sem starfa nú þegar á kjörsviði umsóknar hafa forgang í námspláss. Athygli er vakin á því að á 2. ári námsins fara nemendur í 2ja mánaða klínískt nám á vettvangi kjörsviðs.

Gögn sem þurfa að fylgja umsókn:

Námspláss er fyrir 15 nemendur og lágmarksfjöldi er 10.

Forgangsröðun umsókna vegna fjöldatakmarkana

Við viljum benda á að ef fjöldi umsækjenda sem uppfyllir almenn inntökuskilyrði fer yfir fjöldaviðmið verður umsóknum forgangsraðað á eftirfarandi hátt:

 • Viðurkennt framhaldsnám eða endurmenntun, 0-25 stig
 • 20 einingar í íslensku og ensku pr.grein og 5 einingar stærðfræði, 0-20 stig
 • Starfsreynsla, 0–25 stig
 • Staðlað kynningarbréf, 0–15 stig
 • 7 eða hærra í einkunn á framhaldsskólaprófi, 0–10 stig
 • Kynjahlutfall í greininni, 5 stig

Umsækjendum verður svo raðað upp samkvæmt samlagningu þessa þátta og teknir inn í þeirri röð.

Sveigjanlegt nám

Fagnám til diplómaprófs geta nemendur stundað óháð búsetu. Allir fylgja sömu námskrá og námskröfur eru þær sömu.

Fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef ásamt öðru námsefni.

Skylda er að koma 1-2 sinnum á misseri í stuttar námslotur til Akureyrar.

Á seinna árinu er einnig klínískt nám á hvoru misseri, í tvær vikur (80 stundir) í senn. Klínískt nám fer fram um allt land á starfsstöðvum geðheilbrigðisþjónustu, endurhæfingar- og heimahjúkrunar.

Hér getur þú lesið meira um sveigjanlega námið og séð hvenær námslotur eru.

Spurt og svarað

Get ég bara farið í námið ef ég er í vinnu sem sinnir fólki með geðraskanir?

Nei, en reynsla af slíkri vinnu er kostur. Sjúkraliðar sem starfa við endurhæfingu og í heimahjúkrun geta einnig innritast í námið.

Hverju bætir þetta nám við starfsvið mitt sem sjúkraliði ?

Námið eykur þekkingu þína og færni á sviði samfélagsgeðhjúkrunar og gerir þig tilbúnari faglega til að mæta áskorunum og auka við ábyrgð þína í starfi.

Er hægt að taka bæði kjörsviðin sem eru í boði?

Ekki verður hægt að taka bæði kjörsviðin samhliða að svo stöddu. Ef þú hefur tekið eitt kjörsvið og vilt bæta við þig öðru kjörsviði þá sendir þú beiðni um það til brautarstjóra námsins og það verður tekið fyrir innan námsbrautarinnar.

Umsagnir

Fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða er ný námsbraut við HA sem er ákaflega ánægjulegt að hafa fengið að taka þátt í að byggja upp. Þessi nýja námsbraut er frábær leið fyrir starfandi sjúkraliða til að byggja ofan á þekkingu sína og færni. Í náminu er lögð áhersla á eflingu klínískrar færni og þekkingar á samskiptum sem meðferðartæki, sem og á þátttöku í þverfaglegu samstarfi og uppbyggingu fagmennsku. Kjörsvið öldrunar- og heimahjúkrunar, sem fer af stað haustið 2021, er fyrst og fremst hugsað til að auka gæði í heilbrigðis- og velferðarþjónustu til handa öldruðum einstaklingum og fjölskyldum þeirra.

Arnrún Halla Arnórsdóttir
Aðjúnkt