Ávarp rektors á Háskólahátíð 2018

Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, við brautskráningu HA 2018

Ávarp rektors, Eyjólfs Guðmundssonar, á Háskólahátíð Háskólans á Akureyri, 9. júní 2018:

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og heiðursgestur í dag, ágætu kandídatar, þingmenn, sveitastjórnarfólk og aðrir góðir gestir.

Háskólahátíð við Háskólann á Akureyri er nú haldin með nýju sniði. Háskólinn á Akureyri hefur stækkað og dafnað á síðustu árum og því hefur reynst nauðsynlegt að skipta brautskráningunni á tvo daga. Á sama tíma er skólinn að byggja upp doktorsnám og rannsóknir og því á það vel við að grunn- og framhaldsnám fái sitthvorn brautskráningardaginn.

Í gær brautskráðum við 126 nemendur úr framhaldsnámi og í dag munum við brautskrá 291 kandídat með diplómaskírteini eða bakkalárgráðu frá þremur fræðasviðum og 15 námsbrautum. Samtals eru því brautskráðir 417 nemendur að þessu sinni.

Síðastliðið starfsár hefur verið viðburðaríkt fyrir starfsfólk og nemendur Háskólans á Akureyri. Við lukum 30 ára afmælisári skólans með því að fá fyrstu heimild til þess að bjóða upp á doktorsnám á nokkrum af okkar helstu fræðasviðum. Þetta skref er gríðarlega mikilvægt í uppbyggingu skólans og með þessum árangri hefur HA brautskráðst með fullnaðarpróf sem háskóli þar sem við getum nú boðið upp á nám á öllum þremur námsstigum háskóla.

Hafi einhver efast um réttmæti þess að stofna háskóla utan höfuðborgarsvæðisins á árum áður þá hefur HA með þessu skrefi endanlega sannað að sú ákvörðun sem var tekin fyrir þrjátíu árum síðan var góð ákvörðun, og ein sú besta sem íslensk stjórnvöld hafa tekið.

Haustið 2017 tókum við á móti stærsta árgangi skólans frá upphafi og var það í þriðja sinn á fjórum árum sem aðgangsmet að skólanum er slegið. Svo mikilli ásókn fylgir jafnframt mikil áskorun fyrir okkur sem störfum við HA og ljóst má vera að skólinn er orðinn fullsetinn – en vitið þið hvað?

Nú í haust stefnir í að öll fyrri met verði slegin, langt umfram það sem björtustu vonir hefðu getað gefið okkur. Að þessu sinni fengum við tæplega 2200 umsóknir. Það er stórt verkefni sem bíður stjórnenda skólans að semja við stjórnvöld um það hvernig við tökum á móti þessum stóra og glæsilega hópi sem nú óskar þess að fá inngöngu í HA og ljóst að stjórnvöld verða að styrkja fjárhagsgrunn skólans ef okkur á að vera unnt að taka á móti öllum þessu nemendum. Því er komin upp sú staða að stjórnvöld verða að gefa skýr skilaboð um forgangsröðun, bæði háskólamenntunar almennt og um hvaða menntun ríkisvaldið er tilbúið að greiða fyrir.

Ég kalla því eftir stefnu stjórnvalda um það hversu margir úr hverjum árgangi fái inngöngu í háskóla og hverjir ekki.

Nú á þessu vormisseri brautskráum við jafnframt fyrstu lögreglunemana frá Háskólanum á Akureyri. Haustið 2016 hófst nám í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, með mjög stuttum fyrirvara. Fyrstu nemendurnir sem komu inn það haustið brautskrást hér í dag og eru þau sannarlega frumkvöðlar sem hafa troðið þann stíg sem aðrir munu fylgja. Þegar um nýtt nám er að ræða er ýmislegt sem í ljós kemur að má bæta, breyta eða laga og annað sem gengur vel. Nemendur í lögreglufræðum hafa með góðri gagnrýni aðstoðað okkur við að byggja upp og bæta námið fyrir þá árganga sem á eftir koma. Vil ég þakka þessum fyrsta árgangi sérstaklega fyrir framlag hans í því að færa lögreglunám á Íslandi á háskólastig.

Kæru kandídatar.

Þið eruð nú að brautskrást frá HA á þeim tíma sem skólinn okkar er einn sá eftirsóttasti á landinu öllu. Það er ekki síst fyrir ykkar orð og ánægju, ásamt þrotlausri vinnu starfsfólks HA, sem þessi mikli og góði árangur hefur náðst. Með því bjóða fólki á landinu öllu, og reyndar um víðan heim, aðgengi að góðu og öflugu háskólanámi er HA að leggja sitt af mörkum til þess að búa ykkur undir þær miklu breytingar sem framundan eru.

Ágætu landsmenn.

Á vordögum var ný stefna háskólans á Akureyri samþykkt. Í ávarpi rektors með þessari nýju stefnu er bent á að á næstu 25 árum munum við sjá fram á meiri breytingar en sést hafa síðustu 250 árin. Þetta eru stór orð – sérstaklega ef þið hugsið til þess að á síðustu 250 árum hefur þekking mannkyns vaxið hraðar en árþúsundin þar á undan og grunnurinn var lagður að því tækni- og velferðarsamfélagi sem við búum við í dag. Það er hinsvegar samdóma álit ýmissa sérfræðinga að sú bylting sem framundan er sé stærri en það sem sést hefur áður.

Framundan eru mjög breyttir tímar fyrir okkur öll.

Þetta eru spennandi tímar og í breytingunum felast tækifæri. Nú þegar skólaárinu er að ljúka er háskólinn á Akureyri öflugri en nokkurn tímann fyrr og reiðubúinn að taka þátt í hinum nýja, breytta heimi. Vil ég þakka starfsfólki sérstaklega fyrir framlag þess, hollustu, fórnfúst starf og tryggð sem það hefur sýnt Háskólanum á Akureyri í gegnum árin.

En þrátt fyrir velgengnina og þann mikla árangur sem náðst hefur á síðustu árum hefur skólinn orðið fyrir skakkaföllum. Þannig hefur á síðustu mánuðum komið í ljós að skemmdir eru töluvert miklar á eldra húsnæði skólans og mikil aukning nemendafjölda hefur haft í för með sér aukið álag á starfsfólk sem veldur því streitu og áskorunum í stjórnun skólans. 
Og vissulega hefur gengið á með bæði sólskini og skúrum hér í okkar háskólasamfélagi. Það er þó fátt sem undirbýr okkur fyrir það þegar samstarfsfélagar okkar og vinir kveðja langt fyrir aldur fram. Í desember síðastliðnum varð kerfisfræðingur okkar, Erlingur Harðarson, bráðkvaddur aðeins 58 ára að aldri. Hann hafði starfað við skólann um tæplega tveggja áratuga skeið og verið lykilaðili í að byggja upp þá tæknilegu getu sem skólinn þurfti til að geta boðið upp á fjarnám um land allt. Við minnumst samstarfsfélaga okkar með góðum og glettnum minningum um mann sem naut lífsins sem reyndist alltof stutt.

Kæru kandídatar.

Líkt og í okkar háskólasamfélagi býður lífið upp á áskoranir, gleði og sorg. Sum ykkar hafa nú þegar kynnst þeim hverfulleika sem lífið færir okkur stundum, óumbeðið. Það er öllum ljóst að við munum mæta erfiðleikum í lífi okkar og spurningin er því einungis:

Hvernig erum við í stakk búin til þess að takast á við slíkt?

Í dag er mikið rætt um kvíða og vanlíðan ungs fólks – og er það mikið áhyggjuefni. Ýmsu hefur verið kennt um, þ.m.t. tilkomu snjalltækninnar með stöðugu áreiti og tilheyrandi álagi tengt því að fylgjast með öllu, já öllu, sem er að gerast á hverjum tíma. Við keppumst við að vera þátttakendur í stafrænum heimi og berum okkur stöðugt saman við náungann. Erum ætíð að reyna að toppa okkur sjálf – og mögulega næsta mann.

En stöldrum við um stund og veltum því fyrir okkur af hverju. Af hverju erum við að eltast við öll þessi samskiptaforrit? Hvers vegna leyfum við þessu álagi að hafa bein áhrif á okkur? Erum við ekki sjálf við stjórnvölinn?

Þessi nýju samskipti gera okkur kleift að upplifa með öðrum og þannig búa til sameiginlegar minningar en að sama skapi verðum við að forgangsraða tíma okkar og velta því fyrir okkur hvaða minningar við viljum. Viljum við að líf okkar byggist á like-um á Fésbókinni, fjölda áhangenda á Snappinu eða því hversu vinsælt Instagrammið okkar er? Eða viljum við nota samskiptatæknina til að styrkja og bæta þau sambönd sem við eigum við okkar nánustu, okkar fjölskyldu og vini?

Ég vil minna ykkur á, kæru kandídatar, að nú þegar þið hafið lokið námi ykkar og öðlast diplóma ykkar eða bakkalárgráðu er rétt að þið staldrið aðeins við í stað þess að hlaupa áfram, enn hraðar. Þið hafið öll lagt á ykkur mikið erfiði og mörg ykkar hafa unnið þrekvirki í náminu. Sum hafa stundað vinnu með náminu og jafnvel sinnt stórum fjölskyldum á sama tíma. Ég vil minna ykkur á að gefa ykkur sjálfum tíma. Tíma til þess að sinna ykkar nánustu, tíma til að sinna sjálfinu. Verið viss um að rafhlöðurnar séu fullhlaðnar áður en farið er í næsta verkefni, verið viss um að tengslin við fjölskyldu ykkar séu sterk svo að þau haldi þegar á brattann sækir á ný, verið viss um að heilsa ykkar sé góð þannig að þið getið tekist á við erfiðleikana þegar þeir munu banka upp á.

Brautskráning er líka góður tími til að spyrja sig hvernig þið ætlið að beita þeirri þekkingu og færni sem þið hafið öðlast. Gervigreind, gríðargögn og sjálfvirknivæðing mun hafa áhrif á ykkur öll, sama á hvaða sviði þið hafið lært og öðlast ykkar þekkingu. Þið munuð því þurfa að uppfæra færni ykkar og þekkingu stöðugt – vera tilbúin til að taka þessum breytingum og nýta þær ykkur til hagsbóta og til þess að gera heiminn betri.

Ágætu landsmenn, kæru hátíðargestir.

Íslensk þjóð stendur á tímamótum. Efnahagsleg velgengni hefur aldrei verið meiri í sögu þjóðarinnar og stoðir hagkerfisins eru fleiri og styrkari en þeir hafa verið áður – samt mætti ráða af umræðunni að hér væri enn hrunástand. Erum við kannski föst í hugarfari hrunsins og þeirra afleiðinga sem það hafði á líf okkar og sál – eða hefur samfélagið breyst á þann hátt að gæðunum er þannig misskipt að við hugsum ekki lengur um náungann?

Samfélag án kærleika og stuðnings til þeirra sem mest þurfa á slíku að halda er ekki samfélag sem er líklegt til að standa af sér næsta áfall, næstu kreppu. Ein af lykilundirstöðum þess að styrkja samfélagið er að tryggja aðgengi að menntun og aðstoða fólk við að finna fótanna að nýju í síbreytilegu samfélagi. Sú tæknibylting sem minnst var á hér áðan mun valda því að störf hverfa og önnur verða til. Samfélagið verður því að vera í stakk búið til að veita fólki aðgengi að margvíslegri menntun og aðstoða það við að finna sig í breyttu umhverfi.

Með samstilltu átaki og stuðningi stjórnvalda ættum við að geta bætt aðgengi að námi enn frekar og þannig tryggt að menntun bæði karla og kvenna á landsbyggðunum öllum verði jöfn. Að koma á tæknifræðinámi við Háskólann á Akureyri er ein af þeim aðgerðum sem myndi styðja við þetta markmið.

Ágætu landsmenn, bæði nær og fjær.

Í ávarpi mínu í dag hefur mér orðið tíðrætt um þær breytingar sem framundan eru. Það er von mín að stjórnvöld beri gæfu til að forgangsraða fjármunum í þágu menntunar svo við getum tekist á við þær.

Stjórnvöld verða að skapa skólanum það fjárhagslega rými sem þarf svo unnt sé að byggja upp mannauð skólans enn frekar og styrkja það nám sem fyrir er, en jafnframt að bæta við á þeim sviðum þar sem það er nauðsynlegt. Áætlað er að það vanti 30 til 50 störf á næstu þremur árum. Slík aukning krefst markvissra aðgerða og mjög skýrrar stefnu stjórnvalda, ekki einungis í menntamálum heldur einnig í tenglsum við byggðamál og skilgreiningu á réttindum allra landsmanna til að hafa aðgengi að háskólanámi.
Það verður að vera skýrt hversu margir hafa aðgengi að háskólanámi á hverju ári.

Ég óska því eftir stuðningi ykkar allra þannig að HA geti tekið á móti þeim nemendum sem hér vilja stunda nám.

Kæru kandídatar.

Þið ættuð jafnframt að huga vel að forgangsröðun í ykkar eigin lífi og starfi. Hvað er nauðsynlegt til að eiga gott og innihaldsríkt líf? Þegar þið lítið til baka, hverju viljið þið hafa áorkað? Hvort er meira virði dauðir hlutir nútíma neyslusamfélagsins eða varanlegar minningar sem verða til í samskiptum við ykkar nánustu, ættingja, vini og samstarfsfélaga? Hvernig munuð þið forgangsraða tíma ykkar?

Ég vil þakka ykkur fyrir samveruna síðastliðin ár og veit að með menntun ykkar og færni, ásamt visku ykkar og hyggjuviti munuð þið ná að bæta heiminn á sama tíma og þið munuð njóta lífsins.

Kæru nemendur, bæði hér í salnum og þið sem heima sitjið, ágætu hátíðargestir, landsmenn allir.

Ég þakka fyrir að þið skuluð gefa ykkur tíma til að vera með okkur í dag og treysti á ykkar stuðning til þess að íslenskt háskólakerfi verði sú öfluga stoð sem landið þarf til að Ísland verði áfram eitt besta og eftirsóttasta samfélag heimsins.