Nám í menntavísindum er ætlað þeim sem vilja auka sérþekkingu sína og starfshæfni á sviði menntamála. 

Til viðbótar við almennu línuna eru 4 áherslusvið í boði:

Er námið fyrir þig?

  • Hefur þú áhuga á að bæta við þekkingu þína á sviði menntamála?
  • Vilt þú þjálfa hæfni þína til að takast á við mismunandi verkefni?
  • Finnst þér þurfa að efla ákveðna þætti í skólastarfinu?
  • Viltu verða hæfari í að mæta þörfum ólíkra nemenda?
  • Hefur þú áhuga á að sérhæfa þig í stjórnun menntastofnana?
  • Viltu auka hæfni þína í notkun upplýsingatækni í skólastarfi?

Áherslur námsins

Námsleiðin hentar nemendum með menntun sem tengist ekki þeim áherslusviðum sem eru í boði í menntavísunum við HA. Námsleiðin veitir nemendum tækifæri til þess að dýpka þekkingu sína og auka hæfni á áhugasviði sínu.

Þú getur skoðað skipulag námsins á Uglu, kennsluvef háskólans.

Fyrirkomulag námsins

Brautarstjóri námslínunnar er Rannveig Oddsdóttir. Hún aðstoðar þig við að setja þér markmið innan námslínunnar og velja saman þau námskeið sem undirbúa meistararitgerðina.

Þú hefur val um að skrifa 40 eða 60 ECTS eininga meistararitgerð. Námið er samtals 120 ECTS einingar:

  • Skyldunámskeið 40 ECTS einingar, áherslusvið 30 ECTS einingar, val 10 ECTS einingar og ritgerð 40 ECTS einingar
  • Skyldunámskeið 40 ECTS einingar, áherslusvið 20 ECTS einingar og ritgerð 60 ECTS einingar

Kennsla fer fram í staðbundnum námslotum í Háskólanum á Akureyri og er skyldumæting í þær. Jafnframt eru margvíslegir möguleikar notaðir við miðlun efnis og til gagnvirkra samskipta.

Hér getur þú séð hvenær námslotur eru.

Nemendur geta sótt námskeið á meistarastigi við aðrar deildir HA og í gesta- eða skiptinámi

Möguleikar að námi loknu

Nám í menntavísindum hentar sérstaklega vel þeim sem hafa reynslu af fræðslustörfum og vilja dýpka þekkingu sína og efla sig í starfi eða stunda rannsóknir á sviðinu. Námið er undirbúningur fyrir þá sem hyggja á doktorsnám í menntavísindum.

Viðbótarnámi í menntavísindum er ætlað að styrkja nemendur til þess að takast á við störf í menntakerfinu sem krefjast framhaldsmenntunar á sviði menntavísinda. Jafnframt eykur það hæfni til að stunda frekara nám.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að nemendur hafi lokið grunnnámi á háskólastigi og fengið að minnsta kosti fyrstu einkunn (7,25) í meðaleinkunn.

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

 

Umsagnir

Námið var mjög áhugavert og hentaði mér mjög vel með vinnu. Kennarar veittu góðan stuðning í verkefnavinnu sem var góð blanda af einstaklings- og hópverkefnum. Í nemendahópnum voru kennarar af mismunandi skólastigum og það tel ég mikinn kost og gerði námið enn fjölbreyttara. Lotur í hverjum mánuði voru ómissandi þáttur í náminu til nánara samstarfs við kennara og samnemendur.

Gunnlaug Björk Guðbjörnsdóttir
sérkennari í Grunnskóla Fjallabyggðar