Gæðastefna

SAMÞYKKT Í HÁSKÓLARÁÐI 27.11.2025

Vefútgáfa síðast uppfærð 10.12.2025

Prentgerð (pdf)
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
og í PDF skjali gildir PDF skjalið

Inngangur

Það er stefna Háskólans á Akureyri að vera leiðandi og framsækið háskólasamfélag sem með öflugu vísindastarfi og kennslu er uppspretta þekkingar, nýsköpunar og framfara á norðurslóðum.

Gæði náms og tenging við norðurslóðir

Háskólinn á Akureyri leitast við að veita stúdentum tækifæri til fjölbreyttrar menntunar í metnaðarfullu og alþjóðlegu náms- og rannsóknarumhverfi. Faglega er staðið að skipulagningu námsleiða og prófgráða til þess að tryggja að þær komi til móts við væntingar og þarfir samfélagsins og standist alþjóðleg viðmið og gæðakröfur á hverjum tíma. Sérstök áhersla er lögð á að nýta möguleika sem felast í sveigjanlegu námi og tengsl við háskóla- og þekkingarsetur sem starfa í dreifðari byggðum á Íslandi og á norðurslóðum.

Menntun byggð á jafnrétti, sjálfbærni og aðgengi

Menntun við háskólann miðar að því að efla gagnrýna hugsun og sköpunargáfu stúdenta. Sérstök áhersla er lögð á fjölbreytileika, jafnrétti og aðgengi að námi, með sjálfbærni og samfélagslega velferð að leiðarljósi. Háskólinn á Akureyri leitast við að nýta tækifæri gervigreindar til að efla menntun, rannsóknir og stjórnsýslu með skýrum ramma sem uppfyllir kröfur um fagmennsku, traust og siðferði.

Ábyrgð stúdenta og stuðningur í faglegu starfsumhverfi

Stúdentar bera ábyrgð á eigin námsframvindu og því að byggja upp þá þekkingu, leikni og hæfni sem þarf til að standast kröfur um mismunandi prófgráður. Kennarar og annað starfsfólk skólans leggur sig fram við að efla sjálfstæði stúdenta og styðja við árangur þeirra með faglegri leiðsögn, traustum upplýsingum, fjölbreyttum kennsluháttum og hvetjandi námsumhverfi. Áhersla er lögð á að skapa eftirsóknarvert starfsumhverfi, veita góða aðstöðu og viðeigandi stuðning til starfsþróunar.

Rannsóknir, nýsköpun og akademískt frelsi

Háskólinn á Akureyri leggur áherslu á að starfsfólk og stúdentar stundi öflugt vísindastarf og vinni að nýsköpun í samstarfi við fræðimenn og stofnanir á innlendum og alþjóðlegum vettvangi. Akademískt frelsi er haft í heiðri en hvatt til þess að rannsóknir taki mið af þörfum og áskorunum samtímans. Rannsakendur innan Háskólans á Akureyri beita vísindalegum vinnubrögðum á viðfangsefni sín og fá stuðning til að miðla afurðum vísinda- og nýsköpunarverkefna svo þau megi leiða til aukinnar þekkingar og umbóta í samfélaginu.

Gæðamenning byggð á gögnum og umbótum

Til að tryggja gæði náms, kennslu og rannsókna leggur Háskólinn á Akureyri áherslu á umbótamiðað gæðastarf og gæðamenningu. Áætlanir og aðgerðir í gæðamálum eru gegnsæjar og byggðar á gagnrýnum viðhorfum, framsýni og áreiðanlegum gögnum sem safnað er um starfsemi háskólans og frammistöðu hans í gæðastarfi. Umbótatækifærum er fylgt eftir með skilvirkum hætti og ábyrgð á stjórnun gæðamála er skýr. Lögð er rík áhersla á virka aðkomu stúdenta að öllu innra gæðastarfi og að upplýsingar um starfsemi og gæði náms og rannsókna við Háskólann á Akureyri séu réttar, skýrar og aðgengilegar öllum.

Innleiðing og ábyrgð á gæðakerfi háskólans

Til að tryggja framgang gæðastefnunnar er farið eftir verklagsreglum, vinnulýsingum og leiðbeiningum sem meðal annars mynda gæðakerfi HA. Rektor er ábyrgur fyrir gæðakerfinu en gæðaráð, sem starfar í umboði hans, ber ábyrgð á framkvæmd þess. Gæðastjóri er formaður gæðaráðs og hefur með höndum daglega umsjón með gæðastarfi innan Háskólans. Stjórnendur bera ábyrgð á að skipuleggja og stýra gæðastarfi innan sinna sviða eða eininga og sjá til þess að starfsfólk og stúdentar hafi gæðastefnuna að leiðarljósi í störfum sínum. Þannig er stuðlað að gæðamenningu og höfðað til þess að sérhver stúdent og starfsmaður beri ábyrgð á gæðum náms, kennslu og rannsókna við Háskólann á Akureyri.

 

Samþykkt á fundi háskólaráðs 27. nóvember 2025.