Mat á fyrra námi

Almennar reglur um mat á fyrra námi

  • Sækja þarf um mat á hverju námskeiði fyrir sig
  • Einungis eru metin námskeið á háskólastigi
  • Matið getur tekið allt að sex vikur
  • Fyrra nám er metið á móti heilu námskeiði, einingafjöldi (ECTS) þarf að vera sá sami eða meiri
  • Að lágmarki 2/3 innihalds fyrra námskeiðs þarf að jafngilda innihaldi námskeiðs HA
  • Ekki er metið ef einkunn nemanda er lægri en sex í námskeiði (grunnnám)
  • Staðfest afrit einkunna þarf að fylgja umsókn

Frekari upplýsingar um mat á fyrra námi færðu hjá verkefnastjóra þíns fræðasviðs.

Helstu dagsetningar

Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið

Heilbrigðisvísindi

20. maí vegna nýnema sem lokið hafa hluta náms í Hjúkrunarfræði við aðra viðurkennda háskólastofnun (aðeins Hjúkrunarfræðideild).
15. ágúst og 15. september vegna námskeiða á haustmisseri.
15. janúar og 15. febrúar vegna námskeiða á vormisseri.

Viðskipti- og raunvísindi

20. ágúst vegna námskeiða á haustmisseri.
1. desember vegna námskeiða á vormisseri.

Hug- og félagsvísindasvið

Félagsvísinda-, Laga- og Sálfræðideild

20. ágúst og 20. september vegna námskeiða á haustmisseri. 
20. janúar vegna námskeiða á vormisseri.

Kennaradeild

20. september vegna námskeiða á haustmisseri. 
20. janúar vegna námskeiða á vormisseri.

Sækja um mat á fyrra námi

Smelltu á þitt fræðasvið til að nálgast eyðublað og kynna þér sértækar matsreglur sviðsins:

Heilbrigðisvísindi

Matsnefnd Hjúkrunarfræðideildar, Iðjuþjálfunarfræðideildar og Framhaldsnámsdeildar í heilbrigðisvísindum meta umsókn og leggja fyrir deildaráð.

Uni nemandi ekki niðurstöðu deildaráðs getur hann lagt umkvörtunarefni sitt fyrir gæðastjóra með formlegu erindi.

Ferli umsókna

  1. Umsóknir ásamt fylgiskjölum skal senda rafrænt til verkefnastjóra Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs samkvæmt upplýsingum í eyðublaði. Ef skila þarf fylgigögnum á pappír skal senda til: Háskólinn á Akureyri, Skrifstofa heilbrigðisvísindasviðs, Norðurslóð 2, 600 Akureyri.
  2. Verkefnastjórar senda umsókn og fylgiskjöl til matsnefndar.
  3. Matsnefnd tekur umsókn fyrir að jafnaði 2-3 vikum eftir að hún berst nefndinni.
  4. Niðurstaða matsnefndar fer fyrir deildaráð sem afgreiðir umsókn endanlega.
  5. Verkefnastjórar senda niðurstöðu mats til umsækjanda.

Umsókn: Heilbrigðisvísindi

Ef þú þarft aðstoð við að fylla út umsóknina getur þú haft samband við verkefnastjóra Heilbrigðis-, viðskipta og raunvísindasviðs.

Hjúkrunarfræðideild

Auk almennra reglna gildir:

  • Nemendur sem ná samkeppnisprófi á fyrsta misseri geta sótt um mat á fyrra námi
  • Hafi nemandi lokið 4 eða 6 misserum við háskólastofnun með lágmarkseinkunn sex getur hann sótt um mat á fyrra námi. Nánari upplýsingar
  • Hjúkrunarfræðingar sem hafa hjúkrunarleyfi á Íslandi geta fengið námið metið sem hluta af BS gráðu í hjúkrunarfræði
  • Áskilinn er réttur til að kanna fyrri námsferil umsækjanda

Athugið! Nemandi getur ekki útskrifast frá Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviði HA með próf úr námskeiði/námskeiðum sem er eldra en 10 ára.

Reglur matsnefndar Hjúkrunarfræðideildar

  1. Til að unnt sé að meta fyrra nám þarf að liggja fyrir skrifleg beiðni nemanda um slíkt mat ásamt staðfestu afriti af vitnisburði frá þeim skóla eða skólum þar sem námið, sem óskað er eftir að fá metið, fór fram. Í umsókninni skal tilgreint hvaða námskeið námsleiðar er óskað eftir að fá metið/n á móti fyrra námi. Enn fremur skal fylgja námskeiðslýsing og kennsluáætlun viðkomandi námskeiða.
  2. Til þess að unnt sé að meta fyrra nám þarf nemandi að hafa komist í gegnum samkeppnispróf við Hjúkrunarfræðideild HA í samræmi við reglur um val á nemendum til náms í hjúkrunarfræði HA.
  3. Matsnefnd áskilur sér rétt til að kanna feril nemanda úr fyrra námi.
  4. Undanþága frá reglu 2, svo framarlega að heildarfjöldi nemenda í þeim árgangi sem nemandi sækir um í, fari ekki fram úr samþykktri „klásustölu“. Á það við um alla árganga: Hafi nemandi lokið a.m.k. fjórum misserum í hjúkrunarfræði við HÍ og uppfyllt skilyrði varðandi aldur námskeiða og lágmarkseinkunn sbr. lið 7 og 9. Sjá nánar Reglur um innritun nýrra stúdenta í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri, sem lokið hafa 4 eða 6 misserum í hjúkrunarfræði við aðra háskólastofnun.
  5. Niðurstöður matsnefnda liggja að jafnaði fyrir mánuði eftir að sótt er um mat. Eftir umfjöllun í deildaráði er umsækjanda send niðurstaða deildaráðs.
  6. Matsnefnd getur, eftir því sem ástæða þykir til, sent beiðni um mat á fyrra námi sbr. lið 1, til umsagnar umsjónarkennara þeirra námskeiða sem beðið er um að fyrra nám sé metið á móti.
  7. Fylgt skal þeirri meginreglu að annað hvort sé fyrra nám metið á móti heilu námskeiði eða ekki metið. Fyrra námskeið, sem er forsenda matsins, skal að jafnaði samsvara a.m.k. 2/3 hlutum af innihaldi þess námskeiðs sem það á að jafngilda, auk þess sem heildareiningafjöldi þess námskeiðs verður að vera a.m.k. jafn mikill. Séu námskeiðshlutar metnir verða þeir að vera skýrt afmarkaðir svo hægt sé að meta þá sem heild eftir sömu reglu. Námskeið er ekki metið nema nemandi hafi lokið því með einkunninni 6 að lágmarki.
  8. Að jafnaði er fyrra nám ekki metið á móti námi á Heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri séu meira en fimm ár liðin síðan því var lokið. Nemandi getur ekki útskrifast frá heilbrigðisvísindasviði HA með próf úr námskeiði/námskeiðum sem er eldra en 10 ára.
  9. Hjúkrunarfræðingar sem hafa hjúkrunarleyfi á Íslandi en hafa ekki BS gráðu geta sótt um að fá hjúkrunarnám sitt metið sem hluta af BS gráðu í hjúkrunarfræði.
  10. Umsækjandi um mat á fyrra námi og/eða umsjónarkennari viðkomandi námskeiða á heilbrigðisvísindasviði getur farið fram á að málið verði tekið fyrir að nýju í deildaráði. Uni nemandi ekki niðurstöðu, er honum bent á kvartanaferli Háskólans á Akureyri.
  11. Sæki nemandi um mat á námskeiði sem áður var tekið við heilbrigðisvísindasvið eða önnur svið Háskólans á Akureyri og er hluti af námskrá hjúkrunarfræðideildar, fer erindið beint til deildaráðs að uppfylltum skilyrði 8. gr. Námskeið er ekki metið nema nemandi hafi lokið því með þeirri einkunn sem krafist er til að ljúka námskeiðinu í hjúkrunarfræðideild. Ef nemandi fær námskeiðið (námskeiðin) metið, skal það fært inn á námskeiðsferil nemanda með einkunn. Matsnefndir þurfa að jafnaði ekki að fjalla um slík mál en deildaráð getur leitað álits formanns viðkomandi matsnefndar.
  12. Eftirfarandi gildir um mat á VAM1010 Valnámskeið á meistarastigi fyrir 4. árs nemendur:
    1. Matsnefnd Hjúkrunarfræðideildar metur þessi námskeið eins og önnur námskeið sem meta á inn í grunnnám í hjúkrunarfræði við HA samkvæmt fyrirliggjandi matsreglum.
    2. Almennar reglur Hjúkrunarfræðideildar HA um mat á fyrra námi m.t.t. aldurs námskeiða, einingafjölda og lágmarkseinkunnar gilda um valnámskeið á 4. ári eins og önnur námskeið.
    3. Námskeið sem metin eru til móts við valnámskeið á meistarastigi skulu vera á framhaldsnámsstigi í háskóla (meistara og/eða doktorsnámsstigi) og hafa skýra tengingu við hjúkrunarfræði.
    4. Nemandi skal skila inn rökstuðningi hvernig námskeiðið muni nýtast honum í hjúkrunarstörfum í framtíðinni.
    5. Matsnefnd Hjúkrunarfræðideildar metur námskeið sem nemandinn sækir um mat á til móts við valnámskeið á meistarastigi m.t.t. innihalds þess og ofangreindra þátta. Námskeið sem metin eru þurfa að samræmist grundvallar hugmyndafræði, kennslusýn og námsmarkmiðum Hjúkrunarfræðideildar.
  13. Nemandi í hjúkrunarfræði sem hefur sjúkraliðapróf getur sótt um mat á starfsreynslu sinni sem sjúkraliði á móti 2ja vikna klínísku námi í HJÚ0208 Hjúkrunarfræði II sem fram fer á öldrunarstofnun. Ávallt skal sækja um slíka undanþágu til matsnefndar. Umsókn skal fylgja starfsleyfi sjúkraliða gefið út af Embætti landlæknis, einnig umsögn og starfsvottorð frá vinnuveitanda. 
    1. Til að klínískt nám sé metið þarf nemandi að hafa unnið við aðhlynningu sem sjúkraliði í samtals 80% starfshlutfalli í a.m.k. 2 ár á síðustu 5 árum.
    2. Fái nemandi klínískt nám metið þarf hann samt sem áður að skila þeim verkefnum sem tengjast klíníska náminu.
    Nemanda í hjúkrunarfræði er skylt, á meðan á námi stendur, að afla sér að a.m.k. 384 klukkustunda starfsreynslu við aðhlynningu á heilbrigðisstofnun utan skipulegs námstíma undir umsjón hjúkrunarfræðings. Skila skal starfsvottorði fyrir útskrift úr hjúkrunarfræði sem staðfestir eftirfarandi:
    1. Starfið telur að lágmarki 384 klukkustundir.
    2. Helming starfsreynslunnar (192 klukkustundir) eiga nemendur starfa eftir að hafa lokið fyrsta námsári eða síðar og hinn helminginn eftir að hafa lokið öðru námsári.
    3. Starfið skal unnið á heilbrigðisstofnun undir umsjón hjúkrunarfræðings.
    4. Nemendur sem starfa við sjúkraflutninga á námstímanum geta fengið mat á 1/3 (128 klst.) starfsreynslunnar. Sjúkraflutningamenn geta fengið sína starfsreynslu metna á móti starfsreynslu eftir fyrsta námsár en ekki á móti þeirri starfsreynslu sem þarf að eiga sér stað að loknu 2. námsári.
  14. Reglur þessar eru ætlaðar til að hafa til viðmiðunar. Allar viðmiðunartölur um einingar eru hámörk og matsnefnd ekki skylt að meta fyrra nám að hámarki.

 

Iðjuþjálfunarfræðideild

Auk almennra reglna gildir:

  • Hjúkrunarfræðingar sem hafa hjúkrunarleyfi á Íslandi og iðjuþjálfar sem hafa starfsleyfi sem iðjuþjálfar á Íslandi geta fengið fyrra nám metið sem hluta af BS gráðu í sérskipulögðu námi í viðkomandi faggreinum, sé það í boði

Athugið! Nemandi getur ekki útskrifast frá Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviði HA með próf úr námskeiði/námskeiðum sem er eldra en 10 ára.

Reglur matsnefndar Iðjuþjálfunarfræðideildar

  1. Til þess að unnt sé að meta fyrra nám þarf að liggja fyrir skrifleg beiðni nemanda um slíkt mat ásamt staðfestu afriti af vitnisburði frá þeim skóla eða skólum þar sem námið, sem óskað er eftir að fá metið fór fram. Í umsókninni skal tilgreint hvaða námskeið óskað er eftir að séu metin, á móti fyrra námi. Enn fremur skal fylgja námskeiðslýsing og kennsluáætlun viðkomandi námskeiða.
  2. Niðurstöður matsnefnda liggja að jafnaði fyrir mánuði síðar. Eftir umfjöllun í deildaráði er umsækjanda send niðurstaða deildaráðs.
  3. Matsnefnd getur, eftir því sem ástæða þykir til, sent beiðni um mat á fyrra námi sbr. lið 1, til umsagnar umsjónarkennara þeirra námskeiða sem beðið er um að fyrra nám sé metið á móti.
  4. Að jafnaði er fyrra nám ekki metið á móti námi á heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri séu meira en fimm ár liðin síðan því var lokið. Nemandi getur ekki útskrifast frá heilbrigðisvísindasviði HA með próf úr námskeiði/námskeiðum sem er eldra en 10 ára.
  5. Hjúkrunarfræðingar sem hafa hjúkrunarleyfi á Íslandi og iðjuþjálfar sem hafa starfsleyfi sem iðjuþjálfar á Íslandi geta fengið námið metið sem hluta af BS gráðu í sérskipulögðu námi í viðkomandi faggreinum, sé það í boði.
  6. Fylgt skal þeirri meginreglu að annað hvort sé fyrra nám metið á móti heilu námskeiði eða ekki metið. Fyrra námskeið, sem er forsenda matsins, skal að jafnaði samsvara a.m.k. 2/3 hlutum af innihaldi þess námskeiðs sem það á að jafngilda, auk þess sem heildareiningafjöldi þess námskeiðs verður að vera a.m.k. jafn mikill. Séu námskeiðshlutar metnir verða þeir að vera skýrt afmarkaðir svo hægt sé að meta þá sem heild eftir sömu reglu. Námskeið er ekki metið nema nemandi hafi lokið því með einkunninni 6 að lágmarki.
  7. Umsækjandi um mat á fyrra námi og/eða umsjónarkennari viðkomandi námskeiða á heilbrigðisvísindasviði getur farið fram á að málið verði tekið fyrir að nýju í deildaráði. Uni nemandi ekki niðurstöðu, er honum bent á kvartanaferli Háskólans á Akureyri.
  8. Ef nemandi biður um mat á námskeiðum sem áður voru tekin við heilbrigðisvísindasvið eða eiga sér greinilega hliðstæðu á sviðinu, fer erindið beint til deildaráðs að uppfylltum skilyrðum 4. og 6. gr. Ef nemandi fær námskeiðið (námskeiðin) metið, skal það fært inn á námskeiðsferil nemanda með einkunn. Matsnefndir þurfa að jafnaði ekki að fjalla um slík mál en deildaráð getur leitað álits formanns viðkomandi matsnefndar.
  9. Reglur þessar eru ætlaðar til að hafa til viðmiðunar. Allar viðmiðunartölur um einingar (í lið 6) eru hámörk og matsnefnd ekki skylt að meta fyrra nám að hámarki.

Beiðni um mat á valnámskeiði VBS0106

Stúdentar í Iðjuþjálfunarfræði geta sótt um mat á „VBS0106170 Valnámskeið á áherslusviði 6e“.

Meðfylgjandi eyðublað útfyllist og sendist rafrænt með fylgigögnum til verkefnastjóra Heilbrigðisvísindasvið.

Beiðni um mat á valnámskeiði VMS1105

Stúdentar í Iðjuþjálfunarfræði geta sótt um mat á VMS1105.

Meðfylgjandi eyðublað útfyllist og sendist rafrænt með fylgigögnum til verkefnastjóra Heilbrigðisvísindasviðs.

Framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum

Athugið! Stúdent getur ekki útskrifast frá Heilbrigðis-, viðskipta og raunvísindasviði HA með próf úr námskeiði/námskeiðum sem er eldra en 10 ára.

Reglur matsnefndar Framhaldsnámsdeildar í heilbrigðisvísindum

1. gr.

Reglur þessar gilda um mat á fyrra námi innritaðra nemenda við Framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum við Heilbrigðis-, viðskipta og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri (HA) og eru settar á grundvelli reglna nr. 387/2009 með áorðnum breytingum fyrir Háskólann á Akureyri, reglum um stjórnskipulag heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri nr. 812/2013 og reglum um námsmat fyrir Háskólann á Akureyri nr. 921/2018. 

2. gr. Almennar matsreglur Framhaldsnámsdeildar í heilbrigðisvísindum

  1. Umsækjandi undirbýr umsókn um mat á fyrra námi í samráði við verkefnastjóra framhaldsnáms á heilbrigðisvísindasviði. Matsnefnd byggir mat sitt eingöngu á gögnum sem send eru inn með umsókn.
  2. Fylla skal út rafrænt umsóknareyðublað og senda ásamt fylgigögnum til verkefnastjóra framhaldsnáms. Í umsókninni skal koma fram, nafn umsækjanda, kennitala og kjörsvið.
  3. Í umsókn skal einnig koma skýrt fram hvaða fyrra nám sé óskað eftir að fá metið og þarf að rökstyðja beiðnina. Einnig skal fylgja námslýsing sérhvers námskeiðs sem meta á, ásamt staðfestri einkunn.
  4. Þegar við á, er nauðsynlegt að tekið sé fram í umsókn hvaða námskeið framhaldsnáms í heilbrigðisvísindum við HA samsvari þeim námskeiðum sem meta á. Matsnefnd er heimilt að senda umsóknina til umsagnar hjá umsjónarkennara þeirra námskeiða sem beðið er um að fyrra nám sé metið á móti. Meginregla er að námskeið sem meta á séu jafnstór að einingafjölda og samsvari a.m.k. 2/3 hlutum af innihaldi þess námskeiðs sem það á að jafngilda.
  5. Einungis eru metin námskeið sem eru á meistarastigi nema annað sé tiltekið sérstaklega í reglum deildarinnar.
  6. Ekki er hægt að tvímeta námskeið þannig að námskeið sem hafa verið metin inn í diplómapróf á meistarastigi (háskólaþrep 2.1) er ekki hægt að fá metin aftur inn í meistaranám (háskólaþrep 2.2). Óheimilt er að samnýta einingar til tveggja eða fleiri diplómaprófa á meistarastigi á heilbrigðisvísindasviði
  7. Ekki er hægt að fá metin námskeið sem eru eldri en 5 ára. Miðað er við innritunarár nemanda í framhaldsnám í HA. Matsnefnd er þó heimilt að meta námskeið sem eru allt að 10 ára geti umsækjandi sýnt fram á að hann hafi viðhaldið þekkingu sinni á viðkomandi sviði, t.d. í tengslum við starf.
  8. Umsækjandi skal hafa lokið þeim námskeiðum sem óskað er eftir að fá metin með fyrstu einkunn (7,25). Matsnefnd er þó heimilt að meta námskeið með einkunnina „Staðið“ eða lægri einkunn en þá þarf að fylgja greinargóður rökstuðningur fyrir því að slík undantekning sé veitt.

3. gr. Sérstakt mat á námi til framhaldsnáms 

  1. Ekki þarf samþykki matsnefndar framhaldsnámsdeildar fyrir mati á eftirfarandi einingum og sér skrifstofa heilbrigðisvísindasviðs um millifærslu eininga, að undanskildum greinum 3.2., 3.3.b, og 3.4.b
  2. Umsækjandi getur óskað eftir að fá skráð inn í 120 ECTS meistaranám í heilbrigðisvísindum við HA, námskeið sem samsvara allt að 30 ECTS einingum samtals. Þessi námskeið geta komið
    1. úr 240 eininga bakkalárnámi á heilbrigðisvísindasviði frá HA eða HÍ og er þar um að ræða óskilgreindar einingar úr grunnnámi, en þessi möguleiki fellur niður frá og með árinu 2026,
    2. úr M-námskeiðum með lágmarkseinkunn 7,25, sem eru námskeið haldin á meistarastigi í bakkalárnámi á heilbrigðisvísindasviði við HA eða HÍ,
    3. úr 60 ECTS starfsréttindanámi á meistarastigi í iðjuþjálfun við HA, þar sem nemendur geta fengið 30 bóklegar ECTS einingar metnar upp í meistaranám á Heilbrigðisvísindasviði. 
  3. Í undantekningartilfellum má meta fleiri einingar en 30 ECTS inn í 120 ECTS meistaranám en þá þarf að óska eftir sérstöku mati hjá matsnefnd framhaldsnámsdeildar og skal fylgja með umsókn ítarlegur rökstuðningur og greinargóð lýsing (u.þ.b. 300 orð) á því hvernig viðbótarnámskeið sem óskað er eftir að verði metin nýtist nemanda við gerð meistaraverkefnis. Greinargerðin skal vera undirrituð af nemanda.
    1. Nemendur sem lokið hafa diplómaprófi á meistarastigi í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri geta óskað eftir að fá þær einingar fluttar yfir í meistaranám ef það er í sömu grein og á sama kjörsviði (sbr. þó gr. 2 lið 6). Þessi heimild gildir til og með ársins 2025.
    2. Óski nemandi eftir mati á fyrra námi af öðru áherslusviði en það meistaranám sem nemandinn stundar þarf að óska eftir sérstöku mati hjá matsnefnd framhaldsnámsdeildar þar um. Með umsókn þarf að fylgja greinargóður rökstuðningur fyrir því að slík undantekning sé veitt.
  4. Nemendur sem lokið hafa sérskipulögðu klínísku diplómaprófi á meistarastigi við HA geta óskað eftir að fá námið allt (60 ECTS einingar) metið upp í meistaranám á sama kjörsviði.
    1. Nemendur sem lokið hafa kandídatsprófi (cand.obst.) í ljósmóðurfræðum frá Háskóla Íslands, eða MS námi til starfsréttinda í ljósmæðrafræðum frá Háskóla Íslands og hafa starfsleyfi Landlæknis geta óskað eftir að fá samtals 70 ECTS einingar fluttar yfir í meistaranám í heilbrigðisvísindum: „Ljósmæður – heilbrigði kvenna“ (40 einingar úr ljósmæðranáminu og 30 einingar sbr. gr. 3, lið 2a).
    2. Um frávik frá þessari reglu fjallar matsnefnd framhaldsnámsdeildar.
  5. Nemendur í námi til viðbótardiplóma á meistarastigi sem hafa lokið BS gráðu í hjúkrunarfræði geta fengið metið eitt 10 ECTS M-námskeið sem skilgreint er sem sértækt skyldunámskeið viðkomandi kjörsviðs.

4. gr. Endurskoðun reglnanna

Reglur þessar verða endurskoðaðar í síðasta lagi árið 2025. 

Samþykkt 10. maí 2022 á 103. deildarfundi framhaldsnámsdeildar heilbrigðisvísindasviðs HA, sem var þróunarfundur deildarinnar.

Reglur fagnáms fyrir sjúkraliða um mat á fyrra námi

  1. Til að unnt sé að meta fyrra nám þarf að liggja fyrir skrifleg beiðni nemanda og rökstuðningur um slíkt mat ásamt staðfestu afriti af vitnisburði frá þeim skóla eða skólum þar sem námið, sem óskað er eftir að fá metið, fór fram. Í umsókninni skal tilgreint hvaða námskeið námsleiðar er óskað eftir að fá metið/n á móti fyrra námi. Enn fremur skal fylgja námskeiðslýsing og lesefnislisti viðkomandi námskeiða.
  2. Til þess að unnt sé að meta fyrra nám þarf nemandi að hafa verið samþykktur í námið og greitt innritunargjöld.
  3. Matsnefnd áskilur sér rétt til að kanna feril nemanda úr fyrra námi.
  4. Niðurstöður matsnefnda liggja að jafnaði fyrir mánuði eftir að sótt er um mat. Eftir umfjöllun í deildaráði er umsækjanda send niðurstaða deildaráðs.
  5. Matsnefnd getur, eftir því sem ástæða þykir til, sent beiðni um mat á fyrra námi sbr. lið 1, til umsagnar umsjónarkennara þeirra námskeiða sem beðið er um að fyrra nám sé metið á móti.
  6. Einungis eru metin námskeið sem eru á háskólastigi. Fylgt skal þeirri meginreglu að annað hvort sé fyrra nám metið á móti heilu námskeiði eða ekki metið. Fyrra námskeið, sem er forsenda matsins, skal að jafnaði samsvara a.m.k. 2/3 hlutum af innihaldi þess námskeiðs sem það á að jafngilda, auk þess sem heildareiningafjöldi þess námskeiðs verður að vera a.m.k. jafn mikill. Séu námskeiðshlutar metnir verða þeir að vera skýrt afmarkaðir svo hægt sé að meta þá sem heild eftir sömu reglu. Námskeið er ekki metið nema nemandi hafi lokið því með einkunninni 6 að lágmarki.
  7. Að jafnaði er fyrra nám ekki metið á móti námi á Heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri séu meira en fimm ár liðin síðan því var lokið. Miðað er við innritunarár nemanda í fagnámi til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða. Nemandi getur ekki útskrifast frá heilbrigðisvísindasviði HA með próf úr námskeiði/námskeiðum sem er eldra en 10 ára. Matsnefnd er heimilt að gera undantekningu á þessu geti umsækjandi sýnt fram á að hann hafi viðhaldið þekkingu sinni á viðkomandi sviði t.d. í tengslum við starf eða nám.
  8. Óheimilt er að samnýta einingar til tveggja eða fleiri diplómaprófa í fagnámi fyrir starfandi sjúkraliða. Ekki er hægt að tvímeta sama námskeið þannig að námskeið sem hafa verið áður metin inn í kjörsvið innan fagnáms til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða er ekki hægt að fá aftur metin inn í annað kjörsvið innan fagnáms til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða.
  9. Hafi nemandi lokið námi á einu kjörsviði innan fagnáms til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða og vill taka annað kjörsvið innan sama fagnáms til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða við HA getur hann óskað eftir sérstöku mati hjá matsnefnd þar sem horft verður m.a. til þess hvort hann uppfylli þær forsendur og kröfur sem gerðar eru til inntöku í tiltekið kjörsvið.
  10. Umsækjandi um mat á fyrra námi og/eða umsjónarkennari viðkomandi námskeiða á heilbrigðisvísindasviði getur farið fram á að málið verði tekið fyrir að nýju í deildaráði. Uni nemandi ekki niðurstöðu, er honum bent á kvartanaferli Háskólans á Akureyri.
  11. Sæki nemandi um mat á námskeiði sem áður var tekið við heilbrigðisvísindasvið eða önnur svið Háskólans á Akureyri og er hluti af námskrá fagnáms sjúkraliða, fer erindið beint til deildaráðs að uppfylltum skilyrði 7. gr. Námskeið er ekki metið nema nemandi hafi lokið því með þeirri einkunn sem krafist er til að ljúka námskeiðinu. Ef nemandi fær námskeiðið (námskeiðin) metið, skal það fært inn á námskeiðsferil nemanda með einkunn. Matsnefndir þurfa að jafnaði ekki að fjalla um slík mál en deildaráð getur leitað álits formanns viðkomandi matsnefndar.
  12. Nemanda í fagnámi til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða er skylt, á meðan á námi stendur, að afla sér að a.m.k. 300 klukkustunda starfsreynslu við aðhlynningu á heilbrigðisstofnun utan skipulegs námstíma . Æskilegt er að sú vinna sé á því kjörsviði sem nemandi er skráður á. Skila skal starfsvottorði fyrir brautskráningu sem staðfestir eftirfarandi:
    1. Starfið telur að lágmarki 300 klukkustundir.
    2. Helming starfsreynslunnar (150 klukkustundir) eiga nemendur að starfa eftir að hafa lokið fyrra námsárinu og hinn helminginn á seinna námsárinu.
    3. Starfið skal unnið á heilbrigðisstofnun á því kjörsviði sem nemandi er skráður.
  13. Reglur þessar eru ætlaðar til að hafa til viðmiðunar. Allar viðmiðunartölur um einingar eru hámörk og matsnefnd ekki skylt að meta fyrra nám að hámarki.


Samþykkt á deildarfundi framhaldsnámsdeildar 14. september 2021

Fyrir hönd matsnefndar fagnáms til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða
Hafdís Skúladóttir, brautarstjóri og formaður matsnefndar

Hug- og félagsvísindasvið

Matsnefnd metur hvort fyrra námskeið geti komið í stað námskeiðs sem kennt er við hug- og félagsvísindasvið.

Auk almennra reglna gildir:

  • Fyrra námskeið þarf að vera samsvarandi því námskeiði sem það er metið upp í
  • Námið er ekki metið ef liðin eru fleiri en 10 ár frá því að það var tekið
  • Ef matsnefnd hafnar umsókn getur nemandi áfrýjað ákvörðun til stjórnar sviðsins

Rafræn Umsókn: félagsvísinda-, laga- og sálfræðideild

Umsókn: Kennaradeild

Ef þig vantar aðstoð getur þú haft samband við verkefnastjóra þíns fræðasviðs

  • Fyrir Kennaradeild og námsbrautir félagsvísinda, fjölmiðlafræði og nútímafræði:
    Anna Karen Úlfarsdóttir, verkefnastjóri, aku@unak.is
  • Fyrir námsbraut lögreglufræði:
    Heiðrún Ósk Ólafsdóttir, verkefnastjóri, heidrunosk@unak.is
  • Fyrir Lagadeild:
    Hildur Sólveig Elvarsdóttir, verkefnastjóri, hildursolveig@unak.is
  • Fyrir Sálfræðideild:
    Katrín Eiríksdóttir, verkefnastjóri, katrine@unak.is

Reglur matsnefndar Kennaradeildar 

Matsnefnd Kennaradeildar starfar í umboði deildarfundar. Hún fjallar um og metur fyrra nám nemenda. Hér er að finna eyðublað vegna erinda til matsnefndar.

I. Hlutverk og uppbygging

  1. Hlutverk matsnefndar er að meta fyrra nám nemenda óski þeir þess.
  2. Í nefndinni sitja þrír fastir kennarar deildar. Þeir eru kosnir á deildarfundi í maí/júní til tveggja ára í senn en kjörtímabil nefndarinnar hefst í ágúst. Nefndarmenn skipta með sér verkum og skal einn þeirra vera formaður nefndarinnar. Brautarstjórar starfa með nefndinni eftir því sem við á hverju sinni. Félag nemenda við deildina hefur rétt til að kjósa einn aðalfulltrúa í nefndina og einn varafulltrúa. Fulltrúi nemenda tekur ekki þátt í störfum nefndarinnar en hefur málfrelsi og tillögurétt.
  3. Skrifstofa hug- og félagsvísindasviðs ber ábyrgð á skjalavörslu þeirra erinda sem nefndinni berast og sendir svarbréf til nemenda um afgreiðslu erinda.

II. Fyrra háskólanám nemenda

  1. Frestur nemenda til að skila inn erindum um mat á fyrra námi til afgreiðslu fyrir haustmisseri er 20. september, en 20. janúar fyrir erindi sem afgreiðast eiga fyrir vormisseri. Afgreiðsla erinda getur tekið allt að 6 vikur.
  2. Nemandi sem lokið hefur námskeiðum við aðrar háskólastofnanir getur sótt um að fá þau metin inn í samsvarandi nám við kennaradeild. Í meistaranámi og viðbótarnámi má að jafnaði aðeins meta helming viðkomandi náms og nemandi á bakkalárstigi skal að jafnaði ljúka sem svarar a.m.k. einu námsári við deildina af þremur.
  3. Matsnefnd metur hvort fyrra háskólanám nemanda getur komið í stað námskeiða sem kennd eru í kennaradeild.
  4. Til þess að unnt sé að meta fyrra háskólanám þarf að liggja fyrir skrifleg beiðni nemanda um slíkt mat, á þar til gerðu eyðublaði, ásamt staðfestu afriti af vitnisburði frá þeim háskóla eða háskólum þar sem námið sem óskað er eftir að fá metið fór fram. Í matsbeiðninni verður að tilgreina hvaða námskeið við kennaradeild er sótt um að verði metin og hvaða námskeið frá öðrum háskólum geti talist jafngild. Einnig skulu fylgja námskeiðslýsingar og einingafjöldi þeirra námskeiða sem óskað er eftir að fá metin. Matsbeiðni skal vera undirrituð og jafnframt komi fram, heimilisfang og kennitala umsækjanda. Senda skal matsbeiðni til skrifstofu hug- og félagsvísindasviðs.
  5. Matsnefnd skal, eftir því sem kostur er á, senda beiðnir, sbr. síðustu grein, til umsagnar umsjónarkennara þeirra námskeiða sem beðið er um að fyrra nám sé metið á móti. Þetta skal gert áður en mat fer fram nema fyrir liggi mat á sams konar umsókn.
  6. Fyrra nám er ekki metið á móti námi í kennaradeild séu meira en tíu ár liðin síðan því var lokið. Háskólapróf, embættispróf og önnur lokapróf má þó viðurkenna sem heildir þótt þau séu eldri hafi umsækjandi starfað á því fagsviði sem menntunin nær til eða skyldu fagsviði a.m.k. þrjú ár af sl. fimm árum. Nemandi þarf, í því tilfelli, að leggja fram starfsferilsvottorð með umsókninni
  7. Fylgt skal þeirri reglu að annað hvort sé fyrra nám metið á móti heilu námskeiði eða ekki metið. Til að námskeið sé metið að fullu skal það að jafnaði samsvara a.m.k. 75% af innihaldi þess námskeiðs sem það á að jafngilda, auk þess sem heildareiningafjöldi þess námskeiðs verður að vera a.m.k. jafn mikill. Séu námskeiðhlutar teknir til mats verða þeir að vera skýrt afmarkaðir svo hægt sé að meta eftir sömu reglu.
  8. Stök námskeið úr fyrra háskólanámi fást aðeins metin hafi umsækjandi hlotið í þeim að lágmarki einkunnina 6. Námsheildir úr fyrra námi fást aðeins metnar hafi umsækjandi hlotið í þeim meðaleinkunnina 6 eða hærra.
  9. Matsnefnd er heimilt að meta heildstætt misserisnám, eða eftir atvikum lengra nám, sem jafngildi samsvarandi námi við kennaradeild án þess að innihald einstakra námskeiða uppfylli til fulls þau skilyrði sem sett eru í grein II.7. Skilyrði fyrir þessu mati er að fyrra námið sé á sömu eða sambærilegum sviðum og kennd eru í kennaradeild. Heimilt er að meta heildstætt fyrra nám sem ígildi kjörsviðs/áherslusviðs/kjarna.
  10. Matsnefnd afgreiðir mál þannig að starfsmaður skrifstofu kennaradeildar skráir niðurstöður nefndarinnar og sendir umsækjanda og öðrum sem málið varðar. Haldin er fundargerð með yfirliti afgreiðslna.
  11. Umsækjandi eða umsjónarkennari viðkomandi námskeiðs getur áfrýjað ákvörðun matsnefndar til deildaráðs.
  12. Reglur þessar eru meginreglur til viðmiðunar. Allar viðmiðunartölur um einingar eru hámörk og matsnefnd er ekki skylt að meta fyrra nám að hámarki.

Reglur þessar voru samþykktar á deildarfundi 7. febrúar 2018.

Reglur matsnefndar Félagsvísinda-, Laga- og Sálfræðideildar

Matsnefnd Félagsvísinda-, Laga- og Sálfræðideildar starfar í umboði deildarfundar. Hún fjallar um nám innan deildarinnar, skipulag þess og inntak, metur fyrra nám nemenda og gefur út vilyrði fyrir mati á fyrirhuguðu skiptinámi.

I. Hlutverk og skipan

  1. Hlutverk matsnefndar er að ræða og gera tillögur til deildarfundar um námskrá, námsskipan og námsgreinar í deildinni. Matsnefnd metur einnig fyrra nám nemenda óski þeir þess og gefur út vilyrði fyrir mati á fyrirhuguðu skiptinámi.
  2. Í nefndinni sitja minnst 3 fastir kennarar deildar. Þeir eru kosnir á deildarfundi í maí/júní til tveggja ára í senn en kjörtímabil nefndarinnar hefst í ágúst og skal einn þeirra vera formaður nefndarinnar. Gæta skal að því að samsetning nefndarinnar endurspegli námsbrautir deildarinnar. Félag nemenda við deildina hefur rétt til að kjósa einn aðalfulltrúa í nefndina og einn varafulltrúa. Fulltrúi nemenda tekur fullan þátt í störfum nefndarinnar.
  3. Skrifstofa hug- og félagsvísindasviðs ber ábyrgð á skjalavörslu þeirra erinda sem nefndinni berast.

II. Fyrra háskólanám nemenda

  1. Frestur nemenda til að skila inn erindum um mat á fyrra námi til afgreiðslu fyrir haustmisseri er 20. ágúst og 20. september, en 20. janúar fyrir erindi sem afgreiðast eiga fyrir vormisseri. Afgreiðsla erinda getur tekið allt að 6 vikur.
  2. Nemandi sem lokið hefur námskeiðum við aðrar háskólastofnanir getur sótt um að fá þau metin inn í samsvarandi nám við félagsvísinda-, laga- og sálfræðideild. Ekki skiptir máli hvort námskeiðin hafi nýst til að ljúka annarri gráðu eða ekki. Slíku mati eru að jafnaði þau takmörk sett, að nemandinn þarf að lágmarki að taka tvo þriðju hluta af viðkomandi námsgráðu við Háskólann á Akureyri.
  3. Matsnefnd metur hvort fyrra háskólanám nemanda getur komið í stað námskeiða sem kennd eru í félagsvísinda-, laga- og sálfræðideild hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri.
  4. Til þess að unnt sé að meta fyrra háskólanám þarf nemandi að fylla út eyðublaðið Umsókn um mat á fyrra námi og skila því inn til skrifstofu hug- og félagsvísindasviðs ásamt staðfestu afriti af vitnisburði frá þeim háskóla eða háskólum þar sem námið sem óskað er eftir að fá metið fór fram. Í matsbeiðninni verður að tilgreina hvaða námskeið við félagsvísinda-, laga- og sálfræðideild er sótt um að verði metin og hvaða námskeið frá öðrum háskólum eða háskóladeildum innan HA geti talist jafngild. Einnig skal fylgja námskeiðslýsing þeirra námskeiða sem óskað er eftir að fá metin. Matsbeiðni skal vera undirrituð og í henni verður að koma fram nafn umsækjanda, netfang, kennitala, símanúmer, á hvaða braut hann stundar nám og á hvaða ári. Senda skal matsbeiðni til skrifstofu hug- og félagsvísindasviðs.
  5. Matsnefnd skal, eftir því sem kostur er á, senda beiðnir til umsagnar umsjónarkennara þeirra námskeiða sem beðið er um að fyrra nám sé metið á móti. Þetta skal gert áður en mat fer fram nema fyrir liggi mat á sams konar umsókn.
  6. Fyrra nám er ekki metið á móti námi í félagsvísinda-, laga- og sálfræðideild Háskólans á Akureyri séu meira en tíu ár liðin síðan því var lokið.
  7. Fylgt skal þeirri meginreglu að annað hvort sé fyrra nám metið á móti heilu námskeiði eða ekki metið. Til að námskeið sé metið að fullu skal það að jafnaði samsvara a.m.k. 75% af innihaldi þess námskeiðs sem það á að jafngilda, auk þess sem heildareiningafjöldi þess námskeiðs verður að vera a.m.k. jafn mikill. Séu námskeiðshlutar teknir til mats verða þeir að vera skýrt afmarkaðir svo hægt sé að meta þá eftir sömu reglu.
  8. Námskeið úr fyrra háskólanámi fást aðeins metin hafi umsækjandi hlotið í þeim að lágmarki einkunnina 6.
  9. Umsækjandi eða umsjónarkennari viðkomandi námskeiðs getur áfrýjað ákvörðun matsnefndar til deildaráðs.

III. Fyrirhugað skiptinám nemenda

  1. Nemandi sem hyggur á skiptinám við annan háskóla getur sótt um vilyrði matsnefndar fyrir því að tiltekin námskeið verði metin til eininga við HA að þeim loknum. Frestur nemenda til að skila inn slíkum erindum fyrir haustmisseri er 20. ágúst, en 1. desember fyrir erindi sem afgreiðast eiga fyrir vormisseri. Nemendur í skiptinámi erlendis geta sótt um breytingar á námssamningi allt að þremur vikum eftir upphaf viðkomandi misseris. Afgreiðsla erinda getur tekið allt að 6 vikur.
  2. Til að unnt sé að taka afstöðu til umsóknar um vilyrði þarf að nemandi að sækja um það formlega á viðeigandi eyðublaði:
    1. Ef sótt er um gestanám við Háskóla Íslands, Háskólann á Hólum eða Landbúnaðarháskóla Íslands skal fylla út eyðublaðið Umsókn um gestanám við annan háskóla. Sjá leiðbeiningar og upplýsingar hér.
    2. Ef sótt er um skiptinám við háskóla erlendis skal nota eyðublað fyrir námssamning vegna skiptináms erlendis (learning agreement), sjá leiðbeiningar og upplýsingar hér.
    3. Ef hvorki a) né b) á við skal nota eyðublaðið Umsókn um vilyrði fyrir mati á fyrirhuguðu skiptinámi.
    • Umsóknum skal skilað á skrifstofu hug- og félagsvísindasviðs ásamt fylgigögnum.
  3. Vilyrði matsnefndar felur í sér fyrirheit, sem gildir í 12 mánuði, um að nemandi fái viðkomandi námskeið formlega metið ef hann sækir um slíkt mat og sýnir þá fram á að hafa lokið námskeiðinu með viðhlítandi árangri.

IV. Námskrá og námsframboð

  1. Matsnefnd gerir tillögu um námskrá deildar þar sem kveðið er á um markmið, inntak og meginviðfangsefni námsins.
  2. Matsnefnd fjallar um kennsluskrár deildar og þær breytingar sem lagt er til að gerðar séu á þeim og leggur tillögur sínar fyrirdeildarfund. Nefndin skal hafa fullt samráð við umsjónarkennara námskeiða um allar breytingar.
  3. Matsnefnd skal fjalla um allt nýtt námsframboð deildar áður en það er lagt fyrir deildarfund.
  4. Matsnefnd getur haft frumkvæði að breytingum á námskrá og kennsluskrá og að nýju námsframboði.
  5. Allar tillögur matsnefndar um námskrá og námsframboð skal leggja fyrir deildarfund.

Reglur þessar taka gildi frá og með júní 2019.

Viðskipti- og raunvísindi

Auk almennra reglna gildir:

  • Ljúka þarf að lágmarki 60 ECTS einingum við Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið, óháð því hve mikið er metið af fyrra námi
  • Einkunn þarf að vera 6,0 eða hærri í þeim námskeiðum sem metin eru
  • Hafi námskeiði sem óskað er eftir mati á verið lokið fyrir meira en 5 skólaárum skal aðeins heimilt að samþykkja mat þar sem um beina samsvörun er að ræða við námskeið á viðkomandi brautum deilda. Skal þá umsjónarkennari þess námskeiðs ráða hvort af matinu verður. Ekki er hægt að meta slíkt námskeið á móti valnámskeiði
  • Nemandi má að hámarki hafa skráð tíu föll á námsferli sínum, eftir það þarf hann að sækja um endurinnritun og fær þá viðurkennd þau próf sem hann hefur lokið með lágmarkseinkunninni 6,0. Þessi regla gildir frá og með vormisseri 2018
  • Ofangreindar reglur gilda einnig um mat eininga úr loknum prófgráðum Ekki er hægt að meta nám frá skólum sem ekki teljast á háskólastigi

Mat á námi í stað LOK2106 lokaverkefnis

  • Nám sem metið er í stað lokaverkefnis er ekki hægt að meta fyrr en á lokaári nemandans í námi
  • Ekki er hægt að meta námskeið sem eru eldri en 5 ára á þeim tímapunkti sem matið á sér stað (þ.e. á lokaárinu)
  • Metin eru tvö 6 ECTS eininga námskeið í stað lokaverkefnis annað námskeiðið þarf að vera viðskiptatengt, en hitt námskeiðið getur verið opið, námskeiðin þurfa að hafa verið tekin við viðurkennda háskóla

Sértækar reglur vegna mats á námi útskrifaðra nemenda

Gildir fyrir útskrifaða nemendur úr 70 eininga námi frá rekstrardeild HA og útskrifaða nemendur með 120 eininga nám í iðnrekstrarfræði frá Tækniháskóla Íslands.

  • Nemendur þurfa að ljúka minnst 60 ECTS einingum frá viðskipta- og raunvísindasvið til þess að útskrifast með BS gráðu

Námskeið metin frá Endurmenntun HÍ

  • Farið er eftir sömu reglum og Háskóli Íslands
  • Nám í viðurkenndum bókara er metið á móti 2 námskeiðum í viðskiptadeild HA: FHB2016 Fjárhagsbókhald og SKS2106 Skattskil

Gögn sem þarf að leggja til

  1. Útfyllt umsóknareyðublað þar sem fram kemur hvaða námskeið fá fyrra námi umsækjandi sækir um að fá metin og nöfn námskeiða sem eru sambærileg í náminu við HA
  2. Staðfest afrit af námsferli frá viðkomandi háskóla þar sem fram kemur númer og heiti námskeiða, einingavægi þeirra (ECTS) og einkunnir stúdents
  3. Námskeiðslýsingar og/eða kennsluáætlanir og bókalistar frá viðkomandi háskóla frá því ári sem námskeiðin voru tekin

Umsókn: Viðskipti- og raunvísindi

 Ef þú þarft aðstoð við að fylla út umsóknina getur þú haft samband við skrifstofustjóra Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs.