Sýn kennaradeildar

Menntasýn

Meginhlutverk skólastarfs er að mennta nemendur sem eru þroskaðir, réttsýnir og ábyrgir einstaklingar. Þess vegna leggur kennaradeild HA áherslu á að mennta kennara sem geta lagt gagnrýnið og ígrundað mat á menntamál. Þeir hafi þekkingu, færni og viðhorf sem gera þeim kleift að takast á hendur þau hlutverk sem kennsla leggur þeim á herðar.

Nemendasýn

Skólar eru fyrir alla og þar skulu allir nemendur hafa jafngild tækifæri til að menntast. Þess vegna leggur kennaradeild HA áherslu á að kennaranám feli í sér þekkingu, færni og viðhorf sem gera kennurum kleift að uppfylla þarfir ólíkra einstaklinga og hlúa að alhliða menntun þeirra.

Kennarasýn

Kennarinn er haldreipi skólastarfs. Þess vegna er takmark kennaradeildar HA að mennta kennara til að verða skapandi fagmenn sem hafa trausta þekkingu og færni til að beita henni í starfi. Þeir öðlist þekkingu á námi nemenda og þroska, þekkingu á námsviðum/námsgreinum og námskrá skóla, þekkingu á kennslu og árangursríkri tilhögun hennar og skilning á mikilvægi þess að gæta að jafnrétti í skólastarfi.

Skólasýn

Kennarar öðlast mikilvægan hluta af faglegum þroska sínum í starfi. Þess vegna leggur kennaradeild HA metnað sinn í að mennta kennara sem hafa þekkingu, færni og vilja til að veita forystu og axla ábyrgð við að efla skóla sem menntasamfélag þar sem allir geta þroskast í starfi, lært hver af öðrum og hver með öðrum.

Rannsóknarsýn

Rannsóknir eru lykilþáttur í skólastarfi. Þess vegna leggur kennaradeild HA megináherslu á að starfsmenn hennar séu virkir rannsakendur á fræðasviðum deildarinnar. Deildin leggur enn fremur metnað sinn í að mennta kennara sem hafa hæfni til að gerast rannsakendur á eigin starfsvettvangi með þroska og umbætur að leiðarljósi.