Reglur um námsmat

nr. 921/2018

Með breytingum nr. 513/2020 og 722/2023.

Vefútgáfa síðast uppfærð 22.08.2023

Flýtileiðir

  1. Almennt um námsmat við Háskólann á Akureyri
  2. Hlutverk og skyldur kennara vegna prófa í reglulegri prófatíð
  3. Hlutverk og skyldur prófstjóra
  4. Skipun prófdómara
  5. Próftíðir og skráning í próf
  6. Framkvæmd prófa
  7. Einkunnir
  8. Brot
  9. Gildistaka

Prentgerð (pdf)
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
 og í PDF skjali gildir PDF skjalið

1. grein. Almennt um námsmat við HA

Námsmat við Háskólann á Akureyri (HA) byggir á símati og/eða lokamati. Með símati er átt við námsmat sem fer fram utan reglulegrar próftíðar, til dæmis með símatsprófum, ritgerðum, munnlegum og skriflegum skýrslum, dagbókum, námsmöppum, vettvangsnámi eða þátttöku í kennslustundum. Með lokamati er átt við formlegt mat í lok misseris, svo sem próf í reglulegri próftíð, ritgerð, málstofu, vörn eða mat á verklegu námi.

[Um réttindi og skyldur nemenda vísast til 43. gr. reglna nr. 694/2022 fyrir Háskólann á Akureyri, sbr. einnig 19. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla.

Umsjónarkennarar námskeiða ákveða tilhögun námsmats, eftir atvikum í samráði við stjórnendur á fræðasviði (forseta fræðasviðs, deildarforseta eða brautarstjóra), og skal hún kynnt nemendum í kennsluáætlun eigi síðar en á upphafsdegi námskeiðs. Eftir að námskeið er hafið eru breytingar á tilhögun námsmats háðar samþykki allra nemenda og kennara í hlutaðeigandi námskeiði. Deildir skulu samræma skiladaga verkefna og prófdaga á hverju misseri í samvinnu við umsjónarkennara.]1

Hver deild …2 getur sett sér nánari reglur um námsmat sitt innan ramma reglna um námsmat fyrir Háskólann á Akureyri en þær eru þó háðar samþykki [stjórnar fræðasviðs og]3 háskólaráðs.

Við námsmat skal taka sanngjarnt og eðlilegt tillit til nemenda sem sannanlega eru með viðurkenndar sérþarfir, s.s. varðandi verkefnaskil, próftíma, nauðsynlegan búnað og staðsetningu prófa. Miða skal við „Stefnu um jafnt aðgengi að námi og störfum við Háskólann á Akureyri“. Óski nemandi eftir sérúrræðum við verkefnagerð eða prófatöku skal hann leggja fram faglegt mat sérfræðings um námsþarfir hans á grundvelli skerðingar, áfalls eða veikinda. [Að öðru leyti vísast til verklagsreglna um sértæk úrræði í námi við Háskólann á Akureyri.]4

1) Breytt með reglum nr. 722/2023
2) Breytt með reglum nr. 722/2023
3) Breytt með reglum nr. 722/2023
4) Breytt með reglum nr. 722/2023

2. grein. Hlutverk og skyldur kennara [vegna prófa í reglulegri próftíð]2

a) [Undirbúningur prófs. Umsjónarkennari samræmir prófspurningar í námskeiði sem hann hefur umsjón með, setur upp prófið og skilar því fullbúnu til prófstjóra eigi síðar en [fimm]¹ virkum dögum fyrir prófdag. Próf sem prófstjóra er afhent skal vera skýrt og skilmerkilegt og spurningarnar tölusettar í samfelldri röð. Ef próf skiptist í hluta skal hver prófhluti hafa fyrirsögn og vægi prófhlutans í heildarprófinu tiltekið ásamt vægi hverrar spurningar. Á forsíðu prófs skal tiltekið nafn og númer námskeiðs, nafn fræðasviðs og deildar, próftímabil, leyfileg hjálpargögn og nafn og símanúmer kennara sem er tiltækur á meðan prófi stendur.]3

b) Hlutverk kennara í prófi. Í prófi á nemandi rétt á að fá útskýringar á orðalagi prófspurninga. …4 Í undantekningartilfellum er kennara heimilt að verða sér úti um staðgengil með faglega þekkingu á prófsefninu. Kennara og staðgengli ber þá að fara í sameiningu yfir prófverkefnið áður en próf er haldið. Skal umsjónarkennara og prófstjóra tilkynnt um staðgengilinn.

c) [Meðferð prófúrlausna. Umsjónarkennari hefur aðgang að rafrænum úrlausnum að prófi loknu. Ef um fleiri en einn kennara er að ræða er það umsjónarkennara að tryggja aðgang þeirra að úrlausnum. Ef um er að ræða úrlausnir á pappír mun umsjónarkennari fá þær afhentar frá prófstjóra og kvittar fyrir móttöku þeirra. Umsjónarkennari skipuleggur sýnidag prófs, sbr. 7. gr. b, og kemur úrlausnum á pappír til varðveislu hjá prófstjóra að lokinni prófsýningu. Að liðnum tveimur árum frá prófdegi skal öllum úrlausnum eytt.]5

d) Einkunnaskil. Umsjónarkennari skráir og birtir lokaeinkunn eigi síðar en á tólfta virka degi eftir prófdag. Kenni fleiri en einn kennari á námskeiði skal skila einkunnum úr einstökum prófhlutum til umsjónarkennara eigi síðar en tíu virkum dögum eftir að próf er haldið. Nemendum skulu birtar einkunnir úr símatsþáttum innan 30 daga frá skila- eða prófdegi. Lokaeinkunnir úr próflausum námskeiðum skal birta eigi síðar en á tólfta virka degi eftir að reglulegri próftíð lýkur. Tilkynna ber nemendum og [deildarforseta]6 ef veikindi kennara eða aðrar óviðráðanlegar aðstæður koma í veg fyrir að hægt sé að birta einkunnir námskeiðs á tilskildum tíma.

e) [Eldri próf. Prófstjóri sendir prófspurningar úr reglulegri próftíð að jafnaði á bókasafn háskólans, með samþykki umsjónarkennara, þegar viðkomandi skólaári er lokið. Prófspurningar úr öllum prófum úr reglulegri próftíð eru varðveittar þar í eitt ár. Aðgangur nemenda að eldri prófum er veittur skv. upplýsingalögum nr. 140/2012.]7

1) Breytt með reglum nr. 513/2020
2) Breytt með reglum nr. 722/2023
3) Breytt með reglum nr. 722/2023
4) Breytt með reglum nr. 722/2023
5) Breytt með reglum nr. 722/2023
6) Breytt með reglum nr. 722/2023
7) Breytt með reglum nr. 722/2023

3. grein. Hlutverk og skyldur prófstjóra

Prófstjóri annast undirbúning og framkvæmd reglulegra prófa, prófa í [endurtökupróftíð]¹ og á sérstökum símatsdögum. Ekkert próf á þessum tíma má halda án samráðs við prófstjóra. Prófstjóri eða staðgengill hans skal vera tiltækur á meðan prófin standa yfir.

Verksvið prófstjóra er:

    1. Að sjá um gerð próftöflu, leita athugasemda við hana hjá kennurum og nemendum og birta endanlega próftöflu.
    2. Að tryggja samræmingu á framkvæmd prófa í öllum deildum og á prófstöðum.
    3. Að tryggja að námsmatsreglum og viðurlögum við brotum á þeim sé framfylgt, sbr. 8. gr.
    4. Að skipa prófum í stofur, ráða prófverði og skipuleggja yfirsetur. 
    5. Að sjá um, í samvinnu við aðra starfsmenn, að úrlausnir berist til viðkomandi umsjónarkennara. 
    6. Að vera til ráðgjafar um framkvæmd prófa og túlkun námsmatsreglna. 
    7. Að láta prófvörðum í té nákvæmar leiðbeiningar um störf sín. 
    8. Að sjá um að úrræðum vegna nemenda með sérþarfir sé framfylgt.

1) Breytt með reglum nr. 513/2020

4. grein. Skipun prófdómara

Prófdómari skal skipaður af [deildarforseta]1 í eftirfarandi tilvikum:

a) [Vegna lokaverkefna í grunn- og framhaldsnámi.]2
b) Vegna samkeppnisprófa þar sem viðhafðar eru fjöldatakmarkanir (numerus clausus).
c) Vegna sérstakrar beiðni meirihluta nemenda eða umsjónarkennara um að prófdómari fari yfir námsmat með tilliti til uppbyggingar og markmiða námskeiðs.
d) Vegna beiðni nemenda sem ekki hafa náð tilskilinni lokaeinkunn í námskeiði, sbr. [7. grein c]3, og gildir þá einkunn prófdómara 100%.

Prófdómari skal að jafnaði hafa lokið viðurkenndu fullnaðarprófi við háskóla (a.m.k. meistara- eða kandídatsprófi) í þeirri grein sem prófdæma skal eða skyldum greinum, eða hafa getið sér orðstír fyrir fræðimennsku í greininni. …4 Prófdómari vinnur skv. verklýsingu sem samþykkt er af gæðaráði.

[Að öllu jöfnu þarf ekki formlega að skipa prófdómara fyrir munnleg og verkleg próf.]5

1) Breytt með reglum nr. 722/2023
2) Breytt með reglum nr. 722/2023
3) Breytt með reglum nr. 722/2023
4) Breytt með reglum nr. 722/2023
5) Breytt með reglum nr. 722/2023

5. grein. Próftíðir og skráning í próf

Regluleg próftíð er í lok hvors kennslumisseris í [nóvember/]5 desember og apríl/maí. Í kennslualmanaki skal koma fram [hvenær endanleg próftafla er birt.]1 Endanleg próftafla skal liggja fyrir áður en frestur til að staðfesta skráningu í námskeið rennur út. Að lokinni reglulegri próftíð eru haldin [endurtökupróf]2 vegna viðkomandi kennslumisseris.

a) [Skráning í próf í reglulegri próftíð. Í upphafi kennslumisseris staðfesta nemendur skráningu í þau námskeið er þeir sækja á innri vef Háskólans á Akureyri. Staðfesting gildir sem skráning í próf námskeiðsins. Lokadagar úrsagna úr prófum í reglulegri próftíð eru ákveðnir af háskólaráði og birtir í kennslualmanaki. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á að skrá sig úr prófi og er það gert á innri vef skólans.]6

b) Árekstrar í próftöflu. Nemandi sem hyggst taka fleiri en eitt próf sem haldin eru á sama tíma skal koma upplýsingum um það til prófstjóra með a.m.k. viku fyrirvara, þannig að gera megi ráðstafanir til að taka megi prófin hvert á fætur öðru.

c) [Fjarvist í prófi. Nemandi sem ekki mætir til prófs skráir sig sjálfur til prófs í endurtökupróftíð. Ef um er að ræða samkeppnispróf þarf nemandi aðtilkynna forföll samdægurs til skrifstofu síns fræðasviðs eða nemendaskrár.]7

d) [Endurtaka.]8 Þegar a.m.k. 10 virkir dagar hafa liðið frá lokum reglulegrar próftíðar eru haldin [endurtökupróf]3 vegna námskeiða viðkomandi misseris. Skráningu í [endurtökupróf]4 [eða annað námsmat]9 skal vera lokið eigi síðar en einni viku fyrir áætlaðan próftíma eða innan sólarhrings frá birtingu lokaeinkunnar hafi hún ekki verið birt þá. Sjúkrapróf vegna samkeppnisprófa eru haldin strax að lokinni reglulegri próftíð. [Kennari getur heimilað endurtöku á námsmatsþætti utan endurtökuprófatíðar.]10

[e) Próftökuréttur. Nemendum er skylt að taka þátt í öllu námsmati þeirra námskeiða sem þeir eru skráðir í. Nemandi sem ekki hefur náð lágmarkseinkunn, verið fjarverandi eða ekki skilað námsmatsþætti sem vegur 30% eða meira þar sem lágmarkseinkunnar er krafist, á rétt á að endurtaka viðkomandi námsmatsþátt einu sinni á misserinu. Hafi nemandi þá ekki náð lágmarkseinkunn verður hann að endurskrá sig í námskeiðið. Í námsmatsþáttum sem vega minna en 30% eiga nemendur ekki rétt til endurtöku. Ef námsmat byggir á verklegum þáttum getur deild í sérstökum undantekningatilvikum heimilað endurtöku á öðru misseri. Rétturinn til endurtöku gildir ekki um ástundun sem er hluti af námsmati. Nemandi sem hefur náð tilskilinni lágmarkseinkunn má endurtaka námsmatsþáttinn ef endurtaka er haldin á því misseri og gildir þá síðasta einkunn.]11

[f) Gjald vegna endurtöku. Háskólanum er heimilt að innheimta gjald sem ákveðið er af háskólaráði fyrir endurtöku og skal greiðsla fara fram við skráningu. Skráning í endurtöku er ekki gild nema greiðsla berist áður en skráningarfrestur rennur út.]12

1) Breytt með reglum nr. 513/2020 9) Breytt með reglum nr. 722/2023
2) Breytt með reglum nr. 513/2020 10) Breytt með reglum nr. 722/2023
3) Breytt með reglum nr. 513/2020 11) Breytt með reglum nr. 722/2023
4) Breytt með reglum nr. 513/2020 12) Breytt með reglum nr. 722/2023
5) Breytt með reglum nr. 722/2023
6) Breytt með reglum nr. 722/2023
7) Breytt með reglum nr. 722/2023
8) Breytt með reglum nr. 722/2023

6. grein. Framkvæmd prófa

a) Almennt um próftöku. Ætlast er til að nemendur séu mættir til prófs [10]1 mínútum áður en það hefst. Mæti nemandi meira en einni klukkustund eftir að próf hefst fær hann ekki að þreyta prófið. Nemandi skal hafa með sér skilríki með mynd og láta liggja á borði sínu. Nemandi má ekki hafa yfirhöfn, síma, töskur eða annan búnað, sem ekki tilheyrir leyfilegum hjálpargögnum, við prófborðið. Óheimilt er að valda truflun í prófstofu.

b) Viðvera nemenda í prófi. Nemendum er aðeins heimilt að yfirgefa prófborð áður en þeir hafa lokið prófinu til þess að fara á salerni, og aðeins undir eftirliti fylgdarmanns. Enginn má yfirgefa prófstofu áður en ein klukkustund er liðin frá upphafi próftíma. Nemendur sem ljúka prófi áður en tilskildum próftíma lýkur skulu fara frá prófstofu og gæta þess að trufla ekki þá sem enn eru í prófi. [Nemanda ber að vinna einn að lausn verkefna í hluta- og lokaprófum nema annað sé tekið fram.]2

c) Próftími. Ef ófyrirsjáanleg truflun hefur orðið á framkvæmd prófs getur prófstjóri breytt próftíma og ber að tilkynna nemendum það samstundis. Að öðru leyti er ekki hægt að breyta lengd próftíma eftir að próf er hafið nema að ósk umsjónarkennara og með samþykki prófstjóra. Að loknum próftíma ber öllum að skila úrlausnum þegar í stað.

d) Skil á úrlausnum. Í öllum skriflegum prófum ber að skila úrlausnum merktum með nafni og/eða kennitölu ásamt prófspurningum og rissblöðum til prófvarðar að prófi loknu. Í samsettum prófum skulu nemendur svara hverjum prófhluta á sérstöku blaði.

e) Skráðir prófstaðir. Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar, háskólasetur og -félög eða sveitarfélög geta óskað eftir því að vera skráðir prófstaðir HA. Uppfylli staðurinn gæðakröfur HA getur prófstjóri samið við viðkomandi stað um prófahald hafi það engan aukakostnað í för með sér fyrir HA. Nemendur geta tekið próf á öllum skráðum prófstöðum enda séu þeir skráðir í próf á þeim stað.

f) Próf utan skráðra prófstaða. [Ef nemandi æskir þess að sitja próf annars staðar en á skráðum prófstað HA [sækir hann]5 um það til prófstjóra a.m.k. þremur vikum fyrir áætlaðan prófdag.]3 Um slíkt þarf að sækja á hverju misseri sem nemandinn óskar eftir því. Nemandi verður að útvega prófstað sem uppfyllir gæðakröfur HA og getur prófstjóri heimilað próftöku ef próftími skarast við fyrstu prófklukkustund og þessi framkvæmd hafi engan aukakostnað í för með sér fyrir HA.

g) [Rafræn próf.] Nemandi sem þreytir próf á tölvu er aðeins heimilt að nota þann hugbúnað/forrit sem tilgreint er af umsjónarkennara. Nemanda er óheimilt að nota annan hugbúnað/forrit á meðan á próftöku stendur, s.s. samskiptaforrit, samskiptatæki og annað en það sem tilgreint er af umsjónarkennara. Nemanda ber að vista prófgögn eingöngu á það svæði sem umsjónarkennari tilgreinir.]4

1) Breytt með reglum nr. 513/2020
2) Breytt með reglum nr. 513/2020
3) Breytt með reglum nr. 513/2020
4) Breytt með reglum nr. 513/2020
5) Breytt með reglum nr. 722/2023

7. grein. Einkunnir

a) Lokaeinkunn í námskeiði. Umsjónarkennari ber ábyrgð á að reikna út, skrá og birta lokaeinkunn nemanda í námskeiði í nemendaskrárkerfi háskólans. Hafi nemandi staðist námsmatsþátt en ekki náð tilskilinni lokaeinkunn, gildir einkunn fyrir þann námsmatsþátt sem nemandinn stóðst meðan nemandinn hefur próftökurétt, sbr. 5. gr. [e]2, nema deild ákveði aðra reglu, en þó aldrei skemur. Nemendur skulu ná lágmarkseinkunn í öllum hlutum námsmats, nema annað sé tekið fram. …3 Lágmarkseinkunn …4 í námskeiði er að jafnaði einkunnin 5, sbr. 7. gr. [d]5, og getur aldrei orðið lægri. …6 Deildarfundur getur ákveðið að námskeið sé metið með bókstaf S (staðið). [Nemendaskrá og skrifstofustjórar sjá um skráningu vegna metinna námskeiða.]1 Nemendaskrá annast varðveislu lokaeinkunna.

b) Útskýringar á námsmati. Nemandi á rétt á að fá útskýringar á námsmati innan [viku]7 frá birtingu þess. Útskýringar á námsmati fela í sér að kennari gefi nemanda upp sundurliðaðar einkunnir og útskýringar á hverri einkunn, þar með talið einkunnir fyrir hverja spurningu í prófi. …8 Kennara er heimilt í samráði við nemanda sem ekki á kost á að nýta sýnidag prófs, að finna annan tíma.

[c) Skipun prófdómara. Nemandi sem ekki hefur staðist námskeið og unir ekki lokamati að fenginni útskýringu, getur óskað eftir skipun prófdómara, sbr. 4. gr. d, og fer hann yfir þá námsmatsþætti sem eru undir tilskilinni lágmarkseinkunn. Skrifleg beiðni þar um skal berast deildarforseta innan tveggja vikna frá birtingu lokaeinkunnar. Um skipun prófdómara gildir 4. gr.]9

d) Útreikningur á einkunnum. Lokaeinkunnir í námskeiðum skulu gefnar í heilum og hálfum tölum frá 0–10 svo sem hér segir:

0–2,49 % gefur einkunnina 0,0 47,5–52,49 % gefur einkunnina 5,0
2,5–7,49 % 0,5 52,5–57,49 % 5,5
7,5–12,49 % 1,0 57,5–62,49 % 6,0
12,5–17,49 % 1,5 62,5–67,49 % 6,5
17,5–22,49 % 2,0 67,5–72,49 % 7,0
22,5–27,49 % 2,5 72,5–77,49 % 7,5
27,5–32,49 % 3,0 77,5–82,49 % 8,0
32,5–37,49 % 3,5 82,5–87,49 % 8,5
37,5–42,49 % 4,0 87,5–92,49 % 9,0
42,5–47,49 % 4,5 92,5–97,49 % 9,5
    97,5–100 % 10,0

e) Önnur einkunnagjöf. Eftirfarandi bókstafir eru auk þess notaðir í einkunnakerfi HA: S (staðið), L(lokið), M (metið), F (fjarverandi), …10 Ó (ólokið).

f) Lokaeinkunn námsferils. Lokaeinkunn námsferils er vegið meðaltal allra einkunna til lokaprófs. Lokaeinkunn námsferils reiknast með tveimur aukastöfum og er:

  • 9,00–10,00 ágætiseinkunn
  • 7,25–8,99 fyrsta einkunn
  • 6,00–7,24 önnur einkunn
  • 5,00–5,99 þriðja einkunn

1) Breytt með reglum nr. 513/2020 6) Breytt með reglum nr. 722/2023
2) Breytt með reglum nr. 722/2023 7) Breytt með reglum nr. 722/2023
3) Breytt með reglum nr. 722/2023 8) Breytt með reglum nr. 722/2023
4) Breytt með reglum nr. 722/2023 9) Breytt með reglum nr. 722/2023
5) Breytt með reglum nr. 722/2023 10) Breytt með reglum nr. 722/2023

8. gr. [Brot á reglum

Brot á reglum þessum varða við 19. gr. laga um opinbera háskóla.

a) Brot í prófi. Verði nemandi uppvís að því að hafa rangt við í prófi í umsjón prófstjóra, vísar prófstjóri, eða staðgengill hans, málinu til viðeigandi deildarforseta til meðferðar, sbr. 43. gr. reglna nr. 694/2022 fyrir Háskólann á Akureyri.

b) Önnur brot. Varðandi önnur brot vísast til 43.gr. reglna nr. 694/2022 fyrir Háskólann á Akureyri.]1

1) Breytt með reglum nr. 722/2023

9. grein. Gildistaka

[Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 með áorðnum breytingum, sbr. 21. gr., og reglum fyrir Háskólann á Akureyri nr. 694/2022, og taka gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.]1

1) Breytt með reglum nr. 722/2023

 

Þannig samþykkt í háskólaráði Háskólans á Akureyri 20. september 2018.
Eyjólfur Guðmundsson, rektor.

 

Breytingar nr. 513/2020 samþykktar í háskólaráði 30. apríl 2020.
Breytingar nr. 722/2023 samþykktar í háskólaráði 22. júní 2023.