Heilsutengd lífsgæði, lífshættir og verkir

Um verkefnið

Verkefnið felst í því að byggja upp víðtækan gagnagrunn um heilsutengd lífsgæði, lífshætti og verki meðal almennings á Íslandi. Einnig eru skoðuð áhrif COVID-19 faraldursins á daglegt líf og heilsutengd lífsgæði almennings.

Við uppbyggingu gagnagrunnsins er safnað upplýsingum um heilsutengd lífsgæði og nokkra þætti varðandi almenna lífshætti fólks s.s. atvinnuþátttöku, neyslu tóbaks, áfengis og annarra vímuefna sem og upplýsinga um reynslu af langvinnum veikindum og streituvaldandi áföllum svo sem slysum og ofbeldi. Einnig er spurt um reynslu af verkjum, eðli og útbreiðslu verkja, áhrif verkja á daglegt líf og lífsgæði sem og aðgang að og notkun á heilbrigðisþjónustu. Að auki er aflað upplýsinga um hvort og þá hvernig COVID-19 faraldurinn hefur haft áhrif á daglegt líf og heilsufar fólks.

Verkefnið er þverskurðarrannsókn en um leið upphaf að langtímarannsókn þar sem þátttakendum sem það hafa samþykkt verður fylgt eftir með því að bjóða þeim þátttöku í sams konar gagnasöfnun eftir 5 og 10 ár. Með því að fylgja þátttakendum eftir til lengri tíma verður mögulegt að þróun og samspil heilsutengdra lífsgæða, ýmissa þátta í lífsháttum og lífssögu fólks og verkja yfir lengri tíma.

Einnig verður mögulegt að skoða hvort og hvernig það að smitast af SARS-CoV-2 veirunni og veikjast af COVID-19 sjúkdómnum hafi áhrif á heilsutengd lífsgæði og mögulega tilurð og þróun langvinnra verkja til lengri tíma.

Gagnaöflun er í formi spurningalista sem þátttakendur svara rafrænt. Úrtakið byggist á hópi einstaklinga sem hafa samþykkt að vera í svarendahópi gagnaöflunarfyrirtækisins MASKÍNA (Þjóðargátt) og er 12.000 manna tilviljunarúrtaki úr þessum hópi boðin þátttaka. Úrtakið er lagskipt m.t.t. aldurs, kyns og búsetu.

Auk þess að safna megindlegum gögnum með spurningalistum verður mögulegt að hafa samand við afmarkaða hópa þátttakenda sem það hafa samþykkt og þeim boðið að taka þátt í eigindlegum rannsóknum á ýmsum þáttum sem varða tengsl heilsutengdra lífsgæða, lífshátta og verkja og sem og áhrif COVID á daglegt líf og heilsutengd lífsgæði.

Vísindalegt gildi felst í því að bæta við og dýpka þekkingu á flóknu samspili heilsutengdra lífsgæða, lífshátta, lífssögu og verkja og hvernig þessir þættir hafa gagnkvæm áhrif hver á annan til lengri tíma.

Rannsóknin er styrkt af Rannsóknasjóði Háskólans á Akureyri og Lýðheilsusjóði.

Rannsakendur