15.-29. janúar 2026
Opnun á listasýningu á Bókasafni HA
Sýningin Listasinfóníur opnar fimmtudaginn 15. janúar kl. 16.00 á Bókasafni Háskólans á Akureyri. Öll velkomin og léttar veitingar í boði.
Rósa Njálsdóttir sýnir ný verk þar sem hugleiðsla, frelsi og óbeislaðar pensilstrokur taka við af tuttugu ára rýni eftir hinni fullkomnu línu sem hér fær að víkja fyrir hugarfrelsi sköpunar. Inn á milli laumar sér þó raunsæi, baðað í dulúð og mistri.
Í þessum verkum kannar Rósa það sem er handan við ystu sjónarrönd, hvernig samruni himins, sjávar og lands getur búið til fallegar litasinfóníur og blæbrigði sem gleðja augað.
Rósa hefur alla tíð sinnt sköpun og listum á margvíslegan hátt. Þekkingu í myndlist hefur hún sótt til hinna ýmsu listamanna auk þess að þróa sig áfram sem þann listamann sem hún vill vera. Síðustu 20 ár hefur hún einbeitt sér að olíumálun og nú síðustu árin tekið upp glímu við vatnsliti og flæði þeirra. Meðfram vinnu og sínu stærsta hlutverki sem mamma og amma er hún með vinnustofu á Akureyri þar sem hún býr og er félagi í Myndlistarfélaginu á Akureyri.
Öll hjartanlega velkomin
Sýningin verður opin á opnunartíma Bókasafnsins:
- Mánudögum, miðvikudögum og föstudögum kl. 8:00-16:00
- Þriðjudögum og fimmtudögum kl. 8:00-18:00